Landnámabók/87. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
87. kafli

Eysteinn hét maður, son Þorsteins drangakarls; hann fór til Íslands af Hálogalandi og braut skip sitt, en meiddist sjálfur í viðum. Hann byggði Fagradal, en kerlingu eina rak af skipinu í Kerlingarfjörð; þar er nú Höfðársandur.

Ölvir son Eysteins nam land fyrir austan Grímsá; þar hafði engi maður þorað að nema fyrir landvættum, síðan Hjörleifur var drepinn; Ölvir bjó í Höfða. Hans son var Þórarinn í Höfða, bróðir sammæðri Halldórs Örnólfssonar, er Mörður órækja vó undir Hömrum, og Arnórs, er þeir Flosi og Kolbeinn, synir Þórðar Freysgoða, vógu á Skaftafellsþingi.

Sigmundur kleykir son Önundar bílds nam land milli Grímsár og Kerlingarár, er þá féll fyrir vestan Höfða.

Frá Sigmundi eru þrír byskupar komnir, Þorlákur og Páll og Brandur.

Björn hét maður, auðigur og ofláti mikill; hann fór til Íslands af Valdresi og nam land milli Kerlingarár og Hafursár og bjó að Reyni. Hann átti illt við Loðmund hinn gamla.

Frá Reyni-Birni er hinn helgi Þorlákur byskup kominn.

Loðmundur hinn gamli nam land milli Hafursár og Fúlalækjar, sem fyrr er ritað. Það er þá hét Fúlalækur er nú kölluð Jökulsá á Sólheimasandi, er skilur landsfjórðunga.

Loðmundur hinn gamli á Sólheimum átti sex sonu eða fleiri. Voli hét son hans, faðir Sigmundar, er átti Oddlaugu, dóttur Eyvindar hins eyverska. Sumarliði hét annar son Loðmundar, faðir Þorsteins holmunns í Mörk, föður Þóru, móður Steins, föður (Þóru, móður) Surts hins hvíta Skaftastjúps; hann var Sumarliðason. Skafti lög(sögu)maður átti Þóru síðar en Sumarliði; það segir í Ölfusingakyni. Vémundur hét hinn þriðji son Loðmundar, faðir Þorkötlu, er átti Þorsteinn vífill. Þeirra dóttir var Arnkatla, móðir Hróa og Þórdísar, er átti Steinn Brandsson. Þeirra dóttir var Þóra, er átti... Ari hét hinn fjórði, Hróaldur hét hinn fimmti, Ófeigur hét hinn sétti son Loðmundar, laungetinn; hann átti Þraslaugu, dóttur Eyvindar eyverska, systur Oddlaugar; frá þeim öllum er margt manna komið.

Nú eru rituð landnám í Austfirðingafjórðungi, eftir því sem vitrir menn og fróðir hafa sagt. Hefir í þeim fjórðungi margt stórmenni verið síðan, og þar hafa margar stórar sögur görst.

En þessir hafa þar stærstir landnámsmenn verið: Þorsteinn hvíti, Brynjólfur hinn gamli, Graut-Atli og Ketill Þiðrandasynir, Hrafnkell goði, Böðvar hinn hvíti, Hrollaugur son Rögnvalds jarls, Össur son Ásbjarnar Heyjangurs-Bjarnarsonar, er Freysgyðlingar eru frá komnir, Ketill hinn fíflski, Leiðólfur kappi.