Fara í innihald

Landnámabók/92. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
92. kafli

Dufþakur í Dufþaksholti var leysingi þeirra bræðra; hann var hamrammur mjög, og svo var Stórólfur Hængsson; hann bjó þá að Hvoli. Þá skildi á um beitingar.

Það sá ófreskur maður um kveld nær dagsetri, að björn mikill gekk frá Hvoli, en griðungur frá Dufþaksholti, og fundust á Stórólfsvelli og gengust að reiðir, og mátti björninn meira. Um morguninn var það séð, að dalur var þar eftir, er þeir höfðu fundist, sem um væri snúið jörðinni, og heitir þar nú Öldugróf. Báðir voru þeir meiddir.

Ormur ánauðgi, son Bárðar Bárekssonar, bróðir Hallgríms sviðbálka, byggði fyrst Vestmannaeyjar, en áður var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engi. Hans dóttir var Halldóra, er átti Eilífur Valla-Brandsson.

Eilífur og Björn bræður fóru úr Sogni til Íslands. Eilífur nam Odda hinn litla upp til Reyðarvatns og Víkingslækjar; hann átti Helgu dóttur Önundar bílds. Þeirra son var Eilífur ungi, er átti Oddnýju, dóttur Odds hins mjóva; þeirra dóttir var Þuríður, er átti Þorgeir í Odda; þeirra dóttir var Helga.

Björn bjó í Svínhaga og nam land upp með Rangá; hans börn voru þau Þorsteinn, faðir Gríms holtaskalla, og Hallveig, móðir Þórunnar, móður Guðrúnar, móður Sæmundar, föður Brands byskups.

Kolli hét maður, son Óttars ballar; hann nam land fyrir austan Reyðarvatn og Stotalæk fyrir vestan Rangá og Tröllaskóg og bjó að Sandgili.

Hans son var Egill, er sat fyrir Gunnari Hámundarsyni (hjá Knafahólum) og féll þar sjálfur og austmenn tveir með honum og Ari húskarl hans, en Hjörtur bróðir Gunnars af hans liði.

Hrólfur rauðskeggur hét maður; hann nam Hólmslönd öll milli Fiskár og Rangár og bjó að Fossi. Hans börn voru þau Þorsteinn rauðnefur, er þar bjó síðan, og Þóra móðir Þorkels mána, og Ása, móðir Þórunnar, móður Þorgeirs að Ljósavatni, og Helga, móðir Odds frá Mjósyndi. Dóttir Odds var Ásborg, er átti Þorsteinn goði, faðir Bjarna hins spaka, föður Skeggja, föður Markúss lögsögumanns.

Þorsteinn rauðnefur var blótmaður mikill; hann blótaði fossinn, og skyldi bera leifar allar á fossinn. Hann var og framsýnn mjög.

Þorsteinn lét telja sauði sína úr rétt tuttugu hundruð, en þá hljóp alla réttina þaðan af. Því var sauðurinn svo margur, að hann sá á haustum, hverir feigir voru, og lét þá skera.

En hið síðasta haust, er hann lifði, þá mælti hann í sauðarétt: „Skeri þér nú sauði þá, er þér vilið; feigur em eg nú eða allur sauðurinn elligar, nema bæði sé.“ En þá nótt, er hann andaðist, rak sauðinn allan í fossinn.