Fara í innihald

Með landi fram 1895

Úr Wikiheimild
Með landi fram 1895
Höfundur: Matthías Jochumsson
Sem fyrri horfa hyrnurnar
svo hljótt og rótt á sæ,
og fornu kafalds kyrnurnar
með kúfinn sinn af snæ,
og djúpin öll og dalirnir
það dvelur kyrt sem fyr,
en horfnir sýnast halirnir,
og hvar eru þeir? eg spyr.
Og jafnir standa jöklarnir
með jakalöfin forn,
og dansinn stíga stökklarnir,
en Stígur kvaddi Horn;
og sömu glotta gnúparnir
— jeg get ekki að því gert,
mér finnst sem standi strjúparnir
með stýfðan háls um þvert. —
Þar roðnar gamli Riturinn,
er rennur sólin blíð,
Og sami leyptrar liturinn,
og lýsir Stigahlíð. —
Þar sástu, frændi, í Fjörðunum,
hve fagurt sólin dó,
og gakkt þú eins frá gjörðunum
með gullna sálarró!
Þar kemur sem sé Kópurinn
og kveðst ei þurfa staf:
Hví glottir þú svo glópurinn,
og gónir fram á haf?
Hvar búa fornu frændurnir,
er forðum lék eg við?
þín borg er heil, en bændurnir
þér blunda' á hvora hlið.
Og traustu Látratangarnir
sig teygja líkt og fyr,
og allir nesja angarnir
við ægis bíða dyr;
og sama busl í bjarginu
mér berst að hlustum enn
af gamla fugla garginu,
en — gröfin byrgir menn.
Þar blasa yndis-eyjarnar
um allan Breiðafjörð.
En hvar eru mildu meyjarnar,
þú mæra fósturjörð?
Menn hlægja og segja: hrellingin
um hvert mitt sitji stig,
þá komi einhver kellingin,
og kenna segist mig.
En kom þú svanni sjötugur,
og sjáðu frjálst á mig;
minn græni kjóll er götugur,
og gjarnan kyssi eg þig.
Af skapa döpru dómunum
opt dundu siðan jel
er brauztu eitt af blómunum,
og baðst mig fara vel.
Með grænum jaðri á Jöklinum
fer jórinn trés á rás;
í sama hvíta höklinum
þú hlærð enn, Snæfellsás.
Hve títt á kyrru kvöldunum
mig kætti fögur sól,
er upp úr svölu öldunum
hún óf þér gullin kjól.
Þið standið rótt á rótunum,
ó römmu hamra tröll!
en skjótt af feigu fótunum
er fallin mannsins höll;
þið anzið minna árunum,
og alda storkið þraut;
en við erum burt á bárunum,
sem brotna Hlés í skaut.
En bezt þið geymið byggðina,
og bjóðið vinum heim;
um elsku, trú og tryggðina
þið talið fyrir þeim.
Í þessum háu höllunum
sú Hulda lengi bjó,
er farmanninn að fjöllunum
og fósturknjánum dró.

Matth. Jochumsson.

Source Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi, 1. tölublað (12.10.1895)