Norsk æfintýri/Sagan af Vindskegg bónda

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Norsk æfintýri  (1943)  höfundur Peter Christen Asbjörnsen, þýtt af Jens Benediktsson
Sagan af Vindskegg bónda
Sagan af Vindskegg bónda

Einu sinni voru hjón, sem áttu einn son, og hann hjet Hans. Móður hans fanst að hann ætti að fara í vinnumensku og vinna fyrir sjer, og sagði við mann sinn, að hann ætti að ráða hann einhversstaðar. „Og hann verður að læra svo mikið, að hann verði meistari allra meistara“, sagði hún, og svo ljet hún nesti og neftóbak í malinn handa þeim.

Jú, þeir hittu marga, sem gátu kennt, en allir sögðust þeir geta gert strák jafnfiman og þeir voru sjálfir, en ekki væri hægt að gera hann fremri. Þegar bóndi kom heim til konu sinnar með þessar fregnir, sagði hún: „Jæja mjer er nú sama, hvernig þú ferð að, en hann verður að verða meistari allra meistara“. Svo lögðu þeir af stað aftur, eftir að hafa fengið mat og tóbak í malinn bóndans.

Þegar þeir höfðu farið drjúga leið, komu þeir á ísi lagt vatn, þar mættu þeir manni, sem kom akandi í sleða, sem brúnn hestur var fyrir. „Hvað eruð þið að fara“, sagði hann.

„Jeg þarf að koma syni mínum til einhvers, sem getur kent honum nógu mikið, því að kerlingin mín er af svo fínum ættum komin, að hún vill gera hann að meistara allra meistara“, sagði maðurinn.

„Það hittist ekki illa á“, sagði maðurinn, sem sat í sleðanum, „því að þetta get jeg gert og jeg er meira að segja að leita að slíkum lærisveini. Komdu upp í sleðann, drengur minn“, sagði hann við strák. Og svo óku þeir bara beint upp í loftið.

„Nei, nei, bíðið örlítið“, sagði faðir drengsins, „jeg þarf að fá að vita hvað þú heitir og hvar þú átt heima“, sagði hann.

„Ó, jeg á heima bæði í austri, vestri, suðri og norðri, og Vindskeggur bóndi heiti jeg“, sagði meistarinn. — „Eftir ár getur þú komið hingað aftur, og þá skal jeg segja þjer, hvort það er hægt að gera hann svona lærðan“, sagði hann. Og svo óku þeir áfram í loftinu og hurfu.

Þegar árið var liðið, kom faðirinn og spurði um son sinn. — „Ó, það er nú ekki hlaupið að því, að læra svona mikið á einu ári. Nú er hann rjett farinn að læra að stauta sig áfram í fræðunum“. Jæja, svo samdist þeim um að Vindskeggur bóndi skyldi kenna piltinum eitt ár enn, og faðir hans svo koma og sækja hann.

Þegar ár var liðið, hittust þeir enn á sama stað. — „Jæja, er hann nú orðinn fullnuma“, spurði faðirinn. — „Nú er hann meistari minn, og nú sjerð þú hann aldrei framar“, sagði Vindskeggur bóndi, og áður en maðurinn gat almennilega áttað sig á því, hvað um var að vera, voru þeir horfnir báðir tveir, Vindskeggur og sonur hans.

Þegar maðurinn kom heim, spurði húsfreyja, hvort sonur þeirra kæmi ekki líka, eða hvað væri orðið af honum. — „Ó, guð einn veit, hvað um hann varð“, sagði maður hennar, „þeir flugu upp í loftið“, og svo sagði hann konu sinni, hvernig þetta hefði allt farið. En þegar konan heyrði, að maður hennar vissi ekki, hvar sonurinn væri niður kominn, þá sendi hun hann af stað aftur. „Þú skalt sækja drenginn, þótt þú verðir að sækja hann til vonda karlsins sjálfs“, sagði hún; fjekk honum neftóbak og nesti í malinn.

Þegar hann hafði gengið langar leiðir, kom hann að miklum skógi, og gekk allan daginn um skóginn, og þegar fór að rökkva, sá hann stórt rjóður og þangað fór hann. Þar stóð lítill kofi undir klettum nokkrum, og fyrir utan hann stóð kerling og dró vatnsfötu upp úr brunni með nefinu, svo langt var það og sterkt.

„Góða kvöldið, móðir góð“, sagði maðurinn. „Gott kvöld“, sagði kerlingin, „enginn hefir kallað mig móður í hundrað ár“, sagði hún, — „Fæ jeg að gista hjer í nótt?“ spurði maðurinn. „Nei“, sagði kerling. En þá tók maðurinn upp neftóbak og gaf kerlingunni. Þá varð hún svo glöð, að hún fór að dansa, og lofaði manninum að vera um nóttina. Eins og af tilviljun spurði hann eftir Vindskegg bónda. Hún sagðist ekki vita neitt um hann, en hún rjeði yfir öllum ferfættum dýrum, og það gat verið að eitthvert þeirra vissi um hann. Svo bljes hún í pípu, og þá komu þau öll, en ekkert þeirra vissi neitt um Vindskegg bónda. — „Jæja, við erum nú þrjár systur“, sagði kerling, „kanske hinar viti hvar hann er. Jeg skal lána þjer hest, þá kemstu þangað annað kvöld, en það eru 300 mílur þangað sem hún á heima, sú sem nær býr“.

Maðurinn lagði svo af stað um morguninn, og hann var kominn á áfangastaðinn um kvöldið. Þegar hann kom inn í kofann, stóð kerlingin þar og skaraði í eldinn með nefinu.

„Gott kvöld móðir góð“, sagði maðurinn.

„Sæll vert þú“, sagði kerlingin.

„Nú hefi jeg ekki verið kölluð móðir í hundrað ár“, sagði hún.

„Get jeg fengið að gista hjer í nótt?“ spurði maðurinn.

„Nei“, sagði kerling. En þá tók maðurinn upp neftóbak og gaf henni á handarbakið. Þá varð hún svo glöð, að hún brá á leik, og sagði að manninum skyldi heimil gisting um nóttina. Þegar þau voru sest að snæðingi, spurði maðurinn um Vindskegg bónda. Nei, kerling vissi ekki neitt um hann, en hún rjeði yfir öllum fiskum, sagði hún, og það gat verið að einhver þeirra vissi um Vindskegg bónda. Svo bljes hún í pípu, sem hún hafði og yfirheyrði fiskana, en enginn vissi neitt. „Ja, jeg á eina systur í viðbót“, sagði kerling, „kannske hún viti eitthvað um þennan Vindskegg. Hún býr sex hundruð mílur hjeðan, en jeg skal lána þjer hest og þá kemstu þangað annað kvöld“.

Hún skaraði í eldinn með nefinu.

Maðurinn lagð svo af stað um morguinn, og var kominn á áfangastað um kvöldið. Þegar hann kom inn til þriðju kerlingarinnar, stóð hún líka og skaraði í eldinn með nefinu, svo langt var það og sterkt.

„Gott kvöld, móðir góð“, sagði maðurinn.

„Sæll vert þú, maður minn“, sagði kerling. „Ekki hefi jeg verið kölluð móðir í heila öld“, sagði hún.

„Ætli jeg geti fengið að gista hjer í nótt?“ sagði maðurinn.

„Nei“, kvað kerling. En þá náði maðurinn í tóbakið og helti stórri hrúgu á handarbakið á kerlingunni. Þá varð hún svo glöð, að hún fór að dansa, og lofaði manninum að vera um nóttina. Auðvitað spurði hann eftir Vindskegg bónda. Ekki sagðist kerla vita neitt um hann, en hún sagðist ráða yfir fuglunum, og bljes í pípu og kallaði á þá. Þegar hún var búin að spyrja þá alla spjörunum úr, sá hún að örninn vantaði, en hann kom rjett á eftir, og þegar hún spurði hann, sagði hann, að hann kæmi beint frá Vindskegg bónda. Svo sagði kerling að örninn ætti að fylgja manninum þangað. En örninn vildi fyrst fá eitthvað að jeta, og hvíla sig um nóttina, því hann var svo þreyttur eftir langa ferð, að hann gat varla lyft sjer til flugs.

Þegar örninn var búinn að sofa og hvíla sig, tók kerling eina fjöður úr stjeli hans og setti manninn þar í staðinn. Og svo flaug örninn af stað með hann, en ekki komu þeir til húsa Vindskeggs bónda fyr en um miðnætti. Þegar þeir voru komnir þangað, sagði örninn:

„Það liggja hræ og rusl fyrir dyrum, en skiftu þjer ekki af því. Þeir, sem inni eru, sofa allir svo fast, að þeir vakna ekki, þótt eitthvað gangi á, en þú skalt fara beint í borðskúffuna og taka þar þrjár brauðsneiðar, og ef þú heyrir einhvern hrjóta, skaltu fara til hans og taka þrjár fjaðrir úr hárinu á honum; hann vaknar ekki fyrir því“.

Maðurinn gerði svo sem fyrir hann var lagt, tók fyrst eina fjöður. — „Æ“, sagði Vindskeggur bóndi. Svo tók maðurinn aðra og Vindskeggur veinaði enn, og þegar hann tók þá þriðju, hljóðaði Vindskeggur svo hátt, að maðurinn hjelt að alt myndi hrynja, en hann vaknaði samt ekki. Svo sagði örninn manninum, hvað hann ætti að gera þar á eftir, og hann fór eftir ráðum hans: gekk að fjósdyrum og þar rakst hann á stóran stein. Þenna stein tók hann með sjer, undir honum voru þrír hefilspænir, og þá tók hann líka. Svo barði hann á fjósdyrnar og þær opnuðust strax. Hann kastaði þá brauðsneiðunum þrem, og hjeri kom hlaupandi og át þær. Svo tók maðurinn hjerann. Örninn bað svo manninn að taka þrjár fjaðrir úr stjeli sínu, og setja hjerann, steininn og hefilspænina þar í staðinn, ásamt sjálfum sjer og svo skyldi hann fljúga með alt saman heim.

(Image: „Æ“, sagði Vindskeggur.)

Þegar örninn hafð flogið langar leiðir, settist hann á stein.

„Sjerðu nokkuð?“ spurði hann manninn.

„Já, jeg sje krákuhóp koma fljúgandi á eftir okkur“, sagði maðurinn.

„Jæja, þá er víst best að halda áfram“, sagði örninn, og svo flaug hann aftur af stað.

Eftir stundarkorn spurði örninn aftur: „Sjerðu nokkuð?“

„Já, nú eru krákurnar alveg að ná okkur“, sagði maðurinn.

„Kastaðu þá fjöðrunum þrem, sem þú tókst af Vindskegg“. Maðurinn gerði svo, og fjaðrirnar urðu að hrafnahóp, sem rak krákurnar heim aftur.

Svo flaug örninn langar leiðir með manninn og settist svo á stein til að hvíla sig.

„Sjerðu nokkuð?“ spurði hann.

„Jeg er ekki viss um það“, sagði maðurinn, en jeg held að það sje eitthvað á ferðinni þarna langt í burtu“

„Við verðum þá víst að halda áfram“, sagði örninn.

„Sjerðu nokkuð?' spurði örninn eftir dálitla stund.

„Já“, sagði maðurinn, nú er Vindskeggur bóndi á hælum okkar“ sagði hann.

„Kastaðu þá hefilspónunum, sem þú tókst við fjósdyrnar“, sagði örninn. Maðurinn gerði svo, og þeir urðu að gríðarlega stórum skógi, svo Vindskeggur varð að fara heim og sækja öxi til þess að höggva sjer braut í gegnum hann. Svo flaug örninn en langa leið, en fór svo að þreytast og settist í trje.

„Sjerðu nokkuð nú?“ sagði hann eftir góða stund.

„Já, nú er hann Vindskeggur að ná okkur aftur“, sagði maðurinn.

„Kastaðu þá steininum sem þú tókst við fjósdyrnar“, sagði örninn. Maðurinn gerði það, og steinninn varð að háu fjalli og löngu, sem Vindskeggur varð að grafa sig í gegnum. En þegar hann var kominn inn í mitt fjallið, braut hann annan fótinn á sjer, og varð að fara heim og binda um hann.

„Kastaðu nú steininum!“

Meðan hann var að því flaug örninn heim til mannsins með hann og hjerann, og þegar þeir voru komnir heim, flýtti maðurinn sjer út í kirkjugarð og kastaði vígðri mold á hjerann, og um leið varð hann að syni hans, honum Hans, sem hafði farið út í heiminn til þess að læra.

Nokkru síðar átti að halda hestamarkað, og þá gerði piltur sig að brúnum hesti, og bað föður sinn að fara á markaðinn með sig. „Þegar einhver kemur og vill kaupa mig, skalt þú segja, að þú viljir selja mig fyrir hundrað dali, en þú mátt ekki gleyma að taka af mjer beislið, annars slepp jeg aldrei frá Vindskegg bónda, því það er hann sem kemur og kaupir mig“, sagði Hans.

Svona fór það líka, það kom hrossaprangari, sem endilega vildi kaupa brúna hestinn, og maðurinn fjekk fyrir hann hundrað dali, en þegar búið var að borga, vildi kaupandinn endilega fá beislið. — „Ekki sömdum við um það“, sagð maðurinn, „og beislið færð þú ekki, því jeg hefi fleiri hesta, sem jeg þarf að hafa beisli á“. Svo fór hvor sína leið. En Vindskeggur var ekki kominn langt áður en Hans breytti sjer aftur í mann og þegar faðir hans kom heim, sat Hans þar og ljet fara vel um sig.

Daginn eftir breytti hann sjer í jarpan hest og sagði við föður sinn, að hann skyldi fara með sig á markaðinn. „Ef einhver kemur, sem vill kaupa mig, skalt þú segja, að þú viljir fá 200 dali, því það mun hann vilja borga og gefur þjer meira að segja í staupinu, en hvað sem þú drekkur og hvað sem þú gerir, þá mundu það að taka af mjer beislið, annars sjerðu mig aldrei framar“, sagði Hans. Jú, svona fór það, faðir piltsins fjekk 200 dali fyrir hestinn og brennivín í tilbót, og þegar hann skildi við Vindskegg, þá var ekki meir en svo að hann myndi eftir að taka beislið af hestinum. Svo þegar maðurinn kom heim, sat piltur þar í makindum.

Þriðja daginn fór eins. Piltur gerði sig að stórum gráum hesti, og sagði við föður sinn, að hann skyldi fara með sig á markaðinn, og myndi nú verða boðnir fyrir hann 300 dalir og honum gefið í staupinu, en ekki mætti hann gleyma að taka af hestinum beislið, annars kæmist hann aldrei frá Vindskegg bónda. Nei, faðir piltsins sagðist ekki skyldi gleyma því. Þegar hann kom á markaðinn, fjekk hann strax þrjú hundruð dali fyrir hestinn, og svo rækilega í staupinu á eftir, að hann gleymdi að taka beislið af hestinum, og Vindskeggur fór með hann af stað. — Þegar hann var kominn nokkuð burtu frá markaðssvæðinu, ætlaði hann inn í krá til þess að kaupa sjer meira brennivín, og setti glóandi glóðarker fyrir framan hestinn, en fullan poka af heyi fyrir aftan hann, batt tauminn við hestasteininn og fór inn í krána. Hesturinn stóð þar og bar sig aumlega, frýsaði og hristi sig allan. Svo kom stúlka framhjá og hún kendi í brjósti um hestinn. „Aumingja skepnan“, siagði hún. „Hverskonar maður er þetta sem á þig og fer svona illa með þig“ sagði hún. Svo leysti hún taumana úr hringnum í hestasteininum, svo hesturinn gæti snúið sjer við og bragðað á heyinu.

„Jeg á þennan hest“, æpti Vindskeggur bóndi, og kom þjótandi út um dyrnar; en þá var hesturinn þegar búinn að hrista fram af sjer beislið, kastaði sjer út í tjörn, sem þar var og gerði sig að litlum fiski. Vindskeggur stökk á eftir og gerði sig að stórri geddu. Þá brá Hans sjer í dúfulíki, en Vindskeggur gerði sig þá að hauk og flaug á eftir dúfunni. En kóngsdóttir stóð við glugga í kóngshöllinni, og horfði á þennan eltingaleik. „Ef þú vissir eins mikið og jeg veit“, sagði hún við dúfuna, „þá kæmir þú inn um gluggann til mín“.

Dúfan þaut inn um gluggann, gerði sig að manni, og Hans sagði kóngsdóttur hvernig lá í öllu þessu.

„Gerðu þig að gullhring, og settu þig á fingur mjer“, sagði kóngsdóttir.

„Nei, ekki dugar það“, sagði Hans. „Því þá gerir Vindskeggur kónginn veikan, og enginn getur læknað hann aftur fyr en Vindskeggur sjálfur kemur og gerir það, en þá heimtar hann líka hringinn í kaup“.

„Jeg get sagt, að jeg hafi erft hann eftir móður mína“, sagði kóngsdóttir, „og að jeg vilji alls ekki missa hann“.

Jú, svo breytti Hans sjer í gullhring og setti sig á fingur kóngsdóttur og þar gat Vindskeggur ekki náð honum. En svo fór, eins og piltur hafði sagt. Kóngurinn varð veikur og enginn læknir gat læknað hann, fyr en Vindskeggur kom, og hann heimtaði hringinn, sem kóngsdóttir var með á fingrinum. Þá sendi kóngurinn til dóttur sinnar eftir hringnum. En hún sagðist ekki vilja missa hann, því hún hefði fengið hann eftir móður sína. — Þegar konungur heyrði þetta, reiddist hann og sagði, að hann vildi fá hringinn, hvaðan sem hún hefði hann.

„Það þýðir nú ekki að vondskast neitt út af því“, sagði kóngsdóttir. „Jeg næ ekki af mjer hringnum, nema að fingurinn sje tekinn með“.

„Látið mig um að ná hringnum af“, sagði Vindskeggur bóndi.

„Nei, þakka þjer fyrir jeg skal reyna sjálf“, sagði kóngsdóttir og fór út að ofninum og setti sót á hringinn. Þá fór hann af og týndist í öskunni. Þá gerði Vindskeggur sig að hana og fór að róta í öskunni, en Hans gerði sig að tófu og beit hausinn af hananum, og þá var úti um illmennið Vindskegg.