Notandi:Àgætu Samlesendur/Sameinlegt eintak

Úr Wikiheimild

Sameinlegt eintak[breyta]

Þýðing úr ensku eftir Robin Kinross [1]

Prentlist gengur útfrá tvöföldun tungumáls, í mörgum eintökum, á efnisbundnum grunni. Þar má telja tölvuskjái, og hvers kyns aðrar leiðir til að margfalda texta. Við „texta” má einnig bæta „myndum” og sama niðurstaða á við. Helsta sérkenni margfaldaðs texta er nákvæm endurtekning upplýsinga, og það er einmitt það sem að ekki finnst í hefðbundnum skrifum. Það voru William M. Ivins með Prentum og sjónrænum samskiptum og Elizabeth Eisenstein með Prentpressunni sem áhrifavald breytinga sem mestar áherslur hafa lagt á þessa ályktun. Ef að prenttæknin var ekki orsök breytinga í sögu fimmtándu og sextándu aldar Evrópu, eins og Eisenstein virðist stundum leggja til, þá var hún þó grundvallarþáttur í þeim breytingum sem þá áttu sér stað. Vegna prenttækninnar var í fyrsta sinn hægt að miðla þekkingu á stöðugan og öruggan máta. Vísindi og tækni gátu þróast, hugmyndum var dreift og þær svo gagnrýndar. Með stöðugan og almennan texta til umræðu, gat gagnrýnin menning dafnað. Rökræður áttu sér stöðugan grundvöll þaðan sem hægt var halda lengra. Áherslurnar sem sagnfræðingar, líkt og Eisenstein, leggja á prent, hafa helst byggst á bókum, mögulega vegna þeirrar einföldu ástæðu að þær voru sú prentskjöl sem helst lifðu af árin. Það er óneitanlega erfiðara fyrir sagnfræðing að rannsaka dagblöð eða plaggöt, erfiðara að finna eintök sem hafa þolað tímans tönn og að meta áhrif þeirra. Enda er þessi grein sögunnar orðin þekkt sem „saga bókarinnar”. Bók er yfirleitt lesin af einni manneskju í einu, og sú manneskja er iðulega einsömul. Hægt er að mæla í mót þessari ályktun með að minnast iðjunnar, sem nú er æ sjaldgæfari, að lesa upphátt, í kirkjum, í skólum og öðrum stofnunum, og á heimilinu, Textar eru einnig lesnir í einrúmi en á meðal almennings: í strætisvögnum, í almenningsgörðum, á bóka- söfnum. Því getur lestur átt sér mjög sýnilega og augljósa samfélagslega vídd. En raunverulegri og mögulega sannari samfélagsleg vídd lesturs á sér stað þegar að lesandi tekur prentað efni, og snýr merkjum þess í meiningu. Blaðsíðan, sem einnig gæti verði skjár, er sá sameiginlegi grundvöllur þar sem fólk getur átt fundi. Það er mögulega um langan veg aðskilið, hvort sem er í tíma eða rúmi, ókunnugt og óaðgengilegt hvort öðru. Það gæti einnig þekkt hvort annað, og komið saman síðar til að ræða um lestur textans. Þá gæti samfélagsleg vídd textans orðið hópur fólks í kring um borð, að vísa til textans, vitna í hann, rökræða um hann og íhuga. Texti er afurð rifhöfunda, ritstjóra og prentara. Og með heppni gætu hönnuðir einnig átt smá hlut að máli. Textinn er saminn, prófarkarlesinn, leiðréttur, og svo kannski lesinn og leiðréttur aftur. Svo er hann fjölritaður og honum dreift. Að lokum er hann svo lesinn í einveru, en sameiginlega, til að komast að sameiginlegum skilningi. Viðfangsefnið tungumál sem sameign samfélagsins var þróað af Benedict Anderson í gegnum bók hans Samfélög ímyndunaraflsins. Bók þessi er ein af örfáum almennum sögubókum sem ætti að vera prentmeisturum dýrmæt því hún tekur tillit til sögu prentunar, í raun er prentun útgangsefnið í ritgerð Andersonar. Í einum kaflanum þræðir Anderson saman vöxt auðvaldsstefnunnar, útbreiðslu prentunar, sögu tungumála, og uppruna þjóðarmeðvitundar. Hann gengst við handahóskenndum ákvörðunum án nokkurs efa. Hann skrifar um tungumál byggð á stafrófinu, í stað tákna, „að það hversu handahófskennt hvert einasta kerfi er, þar sem tákn koma í stað hljóða, auðveldaði samsetningarferlið.” En, ólíkt póststrúktúralistunum, þá lætur hann ekki þar við sitja. Ekkert afl stóð sig líkt og auðvaldsstefnan, í að safna saman skyldum sérmálum sem, innan þeirra takmarka sem málfræði og setningafræði settu, sköpuðu vélrænt tilorðið prentmál, sem gat auðveldlega dreifst um markaðinn. En þetta er ekki samantekt um rányrkju auðvaldsins. Anderson heldur áfram: Þessi prentmál lögðu grunninn fyrir þjóðarmeðvitundina … þau sköpuðu sameinaðan vettvang fyrir viðskipti og samskipti, lægra settan en hinn latínumælandi en ofar settan en þann sem einkenndist af mæltum sérmálum. Mælendum hinna fjölmörgu afbrigða frönsku, ensku eða spænsku, sem gæti reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt, að skilja hvorn annan í samræðum, varð kleift að skilja hvorn annan í gegnum prent og pappír. Um leið urðu þeir smám saman meðvitaðir um hinar hundruðir þúsunda, jafnvel milljónir manna, sem að deildu þeirra sérstaka tungumálasviði, og um leið um það að það eru einungis þessar hundruðir þúsunda eða milljónir, sem tilheyra því. Þessir samlesendur, sem þeir tengdust í gegnum prent, mynduðu í sínum veraldlega, sérstaka, sjáanlega ósýnileika, fóstur hins þjóðarímyndaða samfélags. Þetta ‘ímyndaða samfélag’ gæti reynst torrætt fyrir ýmsa, sérstaklega ef að þeir tilheyra þjóðfélagi sem mælir á einu af ríkjandi tungumálum heimsins. En jafnvel, í hinni enskumælandi stórborg, þar sem þessi orð eru skrifuð, er hægt að skilja það og finna fyrir því. Grísk, ítölsk og írsk dagblöð eru seld hjá smákaupmönnunum í þessu hverfi og eru lesendum sínum hér sem leiðari eða lífslína inná breiðara svið þeirra tungutengda menningarsamfélags. Þetta er of tilfellið, og þá yfirleitt fyrir eldri lesendur. Fyrir aðra frá þessum samfélögum, og einnig fyrir okkur, sem tölum ensku sem móðurmál, er staðbundna vikublaðið sá vettvangur þar sem við komum saman, þar sem við lesum í hverfið. Þó að athöfnin að lesa, eins og Benedict Anderson orðaði það, eigi sér stað ‘í hvelfingum hugans’ þá á hún sér þessi samfélagslegu tengsl. Við höfum alltaf lesið í sameiningu, ásamt samlesendum okkar.

  1. Kinross, Robin: Fellow Readers. Notes on multiplied language. Hyphen Press, London 1994.