Fara í innihald

Odds þáttur Ófeigssonar

Úr Wikiheimild
Odds þáttur Ófeigssonar

Eitt sumar kom af Íslandi Oddur sonur Ófeigs Skíðasonar og kom norður við Finnmörk og var þar of veturinn. Þá var Haraldur konungur yfir Noregi.

Og er þeir sigldu norðan of vorið þá mælti Oddur við skipverja sína: „Ferð þessi er með nokkurri ábyrgð,“ segir hann, „því að hingað á engi maður kaupferð að hafa nema með konungs leyfi eða sýslumanns. Er sá nú og maðurinn til fenginn að heimta finnskattinn og hafa þar yfirsókn er ekki þykir væginn sem er Einar fluga. Vil eg nú vita hve mikið þér hafið að gert of kaup við Finnana.“

En þeir duldu að þeir hefðu keypt. Og nú er þeir fara norðan og sigla fyrir Þjóttu þá sjá þeir að langskip brunar fram undan eyjunni og til þeirra. Var þar Einar.

Og er þeir sáu þetta þá bað Oddur menn við búast og varast að eigi fyndist með þeim finnskatturinn „og ef það er eigi alltrútt sem mig grunar er þér munuð keypt hafa við Finna látum nú þá koma fé það í einn stað allt ef rannsakað verður skipið.“

Og nú reynist það sem Oddur gat og bera fram hver það er keypt hafði og fela síðan þannig sem Oddi sýnist ráðlegast og höfðu lokið starfi þessu áður en Einar kemur að þeim. Nú leggja þeir snekkjuna fram hjá skipinu og var á byr, lætur sá og þróaðist heldur í hverri og óx.

Oddur kvaddi Einar því að þeir kunnust og mælti hann Einar: „Kunnigur ertu Oddur,“ segir hann, „að því er vel samir. En þér hafið verið í vetur með Finnum og má það vera að aðrir menn þínir hafi eigi jafn vel við séð að kaupa við Finna en oss er það ofboð í hendur fengið af konungi og viljum vér rannsaka skipið yðart.“

Oddur segir og kvað heimilt skyldu að líta yfir varnaðinn og lúka menn upp kistur sínar. Ganga þeir Einar á skipið upp og leita og finna ekki af finnskattinum.

Þá mælti Einar: „Heldur hafa þessir menn meir við séð en eg hugði. Ætla eg nú varlega mega rjúfa búlkann því að veðrið vex og mun hitt ráð að vér förum á vort skip.“

Þá mælti maður er sat á búlka: „Sjá skaltu áður bagga þenna er eg hefi, yfir hverju hann búi,“ tekur til og leysir en Einar bíður og er þar ól löng um baggann og torsótt að leysa og er hann lengi að.

Einar biður hann leysa skjótt. Hann kvað svo vera skyldu og tekur þar úr enn bagga og leysir og eru þar um margar ólar og fatrast mjög fyrir honum.

Þá mælti Einar: „Sein gerir þú málin,“ segir hann og bíður þó enn ef nakkvað megi það finnast í hans böggum er honum væri til sakagiftar.

Og því næst kemur upp hinn þriðji bagginn og er hann fékk þar til raufað þá var þar ekki í nema tötrar einir og það er engu var nýtt.

Þá mælti hann Einar: „Allra manna armastur,“ segir hann, „hefir þú dvalið oss og gabbað að eyin er vötnuð.“

Fer nú síðan á skip sitt því að byrinn þróaðist og máttu þeir eigi við haldast kaupskipið. Skiljast nú við svo búið.

Þá mælti Oddur: „Nú höfum vér sett undan ágangi Einars flugu en þar þætti mér oss nú máldeili á að vér hittum eigi konung.“

Einar sendir þegar orð konungi og lætur hann vita hvað títt er.

Og nú er þeir koma suður við Mjölu þá bar þar svo til að Haraldur konungur var þar fyrir og sjá þeir kaupskipið.

Og nú með því er konungi var komin fréttin áður þá mælti hann er þeir sáu skipið: „Nú kann vera,“ segir hann, „að mjög vel beri til. Þetta mun vera skipið Odds og er eigi óskaplegt að við finnumst. Og sjaldan hefir Einar svo vaðboginn farið sem fyrir þeim Oddi.“

Konungur var reiður. Þeir Oddur leggja nú að eyjunni. Og meta þeir konungur eigi muninn, fara þegar á fund þeirra Odds og fagnar hann vel konungi. En konungur svarar fá og heldur reiðulega og kvað Odd ómaklega við sig búa, lést jafnan hafa tekið við honum með sæmd en kvað hann nú hafa farið og keypt við Finna að óleyfi sínu.

Oddur segir: „Fegnir mundum vér herra því,“ segir hann, „að hafa sunnar tekið land en Finnmörk en hinu mátti eg heldur ráða að kaupa ekki að óleyfi yðru.“

Konungur mælti: „Þess get eg,“ segir hann, „að vera mundu sakar til þó að þér væruð allir upp festir og hengdir við hið hæsta tré. Og þó að þú sjálfur sért þessa eigi sjálfur valdur þá líst mér þó þannig að eins á menn þína að þeir munu eigi sparað hafa að kaupa ólofað og viljum vér rannsaka yður.“

„Það skal heimilt herra,“ segir Oddur.

Var nú svo gert og finna þeir ekki.

Þorsteinn hét maður, frændi Þóris hunds. Hann var ungur maður og vænn, vinur Odds góður, og var þá með konungi. Hann Þorsteinn dvelst eftir á skipinu þá er þeir konungur gengu í brott og bregður síðan Oddi á mál leynilega og spyr hvort þeir voru nokkurs af valdir um þetta mál og lét að konungur væri reiður og mundi mjög vera eftir leitað við þá.

„Það ætla eg að eigi beri skírt af oss of málið. Tóku þeir það í fyrstu með sínu einræði svo að eg bannaði en nú hefi eg þó síðan ráð til gefið með þeim að leynast mætti.“

„Hvar er nú komið féið?“ segir Þorsteinn.

Oddur segir honum að allt var í húðfati einu.

Þorsteinn mælti: „Hér mun konungur enn koma og rannsaka en það sama húðfat skaltu taka og leggja undir konung og búa þar hásæti á ofan. Mun hann þess síst vara að því er eg get að undir honum sjálfum muni vera það er hann leitar en þó er það allt með nokkurri hættu.“

Fer Þorsteinn síðan í brott en Oddur gerir sem hann lagði til ráð. Kom konungur þar litlu síðar og settist í rúm það eða sæti er var honum búið en konungsmenn leita fjárins bæði í kistum og hvetvetna var upp brotið það er vænast þótti til vera að þeir hefðu fólgið og fannst ekki.

Konungur mælti: „Eigi má eg þetta skilja því að ekki er þar á móti að féið er hér á skipinu það er vér leitum.“

Oddur svarar: „Það er fornt mál herra að oft verður villur sá er geta skal.“

Konungur gengur nú í brott og menn hans en Þorsteinn dvelst enn eftir á skipinu og mælti við Odd: „Eigi mun þetta bragð lengur duga og mun konungur sjá þetta af stundu og seint mun hann af láta hyggjast um leitina. Svo skuluð þér til ætla. Nú skulu þeir láta féið koma í seglið og færið síðan seglið upp við tréð og allt mun nú upp brotið á skipinu, bæði búlki og annað.“

Svo gera þeir Oddur sem Þorsteinn mælti og fer hann á braut.

Og er hann kom eftir þeim konungi þá spyr konungur hví hann dveldist eftir.

„Nauðsyn átti eg til herra,“ segir hann, „eg varð að gera að hosu minni.“

Konungur varð fár um.

Og litlu síðar kemur konungur á skip Odds og mælti: „Það kann vera,“ segir hann, „að þér búið setið mitt með finnskattinum og skal þar nú fyrst leita og hvervetna um skipið og svo mikið sem oss verður fyrir þá skuluð þér því harðara niður koma.“

Og er nú leitað þar sem í hug kemur og finnst eigi.

Gengur konungur á land en Þorsteinn hvimar eftir nokkuð svo og mælti við Odd: „Eigi mun þetta enn lengi hlýða og dugir nú ekki annað en flytja af skipinu og flytjið fyrir nesið fram en eg mun ganga aðra leið heim en konungur. Þá mun hann síður vita að eg hafi dvalist eftir. Og í kveld þá er dagur er undir vindið þá upp akkerin og tak nú til farsnilli þinnar Oddur, því að svo mun konungur yður nær leggja ellegar að eigi rekist þér undan. Miklu er hann maður ráðgari og þrárri á það er honum leggst í lund.“

Oddur kvað Þorsteini mjög vandlaunað lið það er hann veitti þeim. Skiljast þeir. Fer Þorsteinn á brott en þeir Oddur gera sem hann mælti, eru í starfi um nóttina.

Og um morguninn kom konungur og lét nú leita í seglinu og fannst eigi og grunaði konung eftir jafnan hvar þeir mundu fólgið hafa.

Oddur mælti: „Herra, nú máttu eigi gruna oss því að hver leppur er upp brotinn á voru skipi.“

Konungur segir, lét að eigi mundi sú raun á verða sem hann segir og kvað enga slíkt hafa að sér fært. Máttu þeir ekki festa orð á konungi, svo var hann reiður.

Og líður af dagurinn.

Og er náttar flytja þeir aftur féið á skip sitt og búast um og í óttu kemur á byr og hóf þá frá landi.

Konungur vaknar snemma og mælti: „Nú þykist eg vita og sjá allt ráð þeirra eftir og munu fleiri hafa hlut í átt en þeir einir og vættir mig að nú finnum vér á skipinu það sem vér leitum. En eigi kunni eg að gefa þeim banasök meðan mér var get til. Skulum vér nú fara og leita.“

Og er þeir koma úr tjöldum og litast um þá sjá þeir segl þeirra Odds utarlega við eyjar og þá mælti konungur: „Þar mun nú skilja með oss Oddi að sinni. En þú Þorsteinn kannt vel fylgja þínum vinum og meira virðir þú nú þá Odd en mig og kann vera að þú segist í ætt þína um svikin.“

Þorsteinn segir: „Ekki eru þetta svik herra þótt þú drepir eigi Odd er verið hefir vinur þinn góður og marga aðra menn um getsök og þykir mér það trúleikur við þig að firra yður slíkri óhæfu.“

Þeir Oddur létu í haf og höfðu góða byri.

Þá mælti Oddur við háseta sína: „Nú skal segja yður hversu farið hefir og hvað mér gekk til hverskis. Eg bað yður eigi meira kaupa að Finnum en leyft var en þér fenguð eigi við séð. Og er svo var komið og vér hittum Einar þá mælti eg því að þér skylduð bjóða honum sæmilega en gera þó langmælt við hann og fá mart til faturs að eg vissi að þér voruð sakbitnir. Bað eg því sigla meðan hann dvaldist að þannug mátti skjótast skilja með oss. Og þá fyrst er konungi var sagt að séð var skipið þá spurði hann hvort það mundi vort skip en Þorsteinn vinur vor sagði og kvað menn þar draga fiska. „Góð veiður,“ sagði konungur, „veit sá er sig kann og mun sú veiður undir mér.“ Nú höfum vér þó haldið veiðinni og komist á brott og er það mjög Þorsteini að launa.“

Oddur kemur út hingað og fer til bús síns.

Sá maður var þá í förum er Hárekur hét, frændi Þorsteins, og kom í Miðfjörð. Þá var hér illa ært en Oddur bauð honum til sín og sendir utan með honum stóðhross góð, rauð að lit og hvít mönin á, til handa Þorsteini og kvað hann verið hafa sinn fjörgjafa.

Hárekur fer utan um sumarið og hittir Þorstein, var hann þá enn með konungi, og færir honum hrossin og kvað Odd hafa sent honum.

Þorsteinn segir: „Þetta er mér mest ólið því að nú mundi yfir hylmast ellegar en nú mun eigi leynast mega og er nú nakkvað vandráðið.“

Þorsteinn sýnir nú konungi hrossin og kvað Odd hafa sent honum að gjöf.

Konungur segir: „Ekki var eg gjafanna verður frá Oddi og hefir hann þér sent en eigi mér og þú skalt hafa“ og biður drepa hann.

En menn voru þess ófúsir og réðst Þorsteinn brott frá hirðinni og var í öngri konungs vingan.