Piltur og stúlka/2

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Piltur og stúlka höfundur Jón Thoroddsen eldri
{{{athugasemdir}}}

Þegar Sigríður hafði verið þrjá vetur í Skagafirði í góðu yfirlæti, tók systir hennar sótt, hæga í fyrstu, en jókst með degi hverjum; fylgdi þar með rænuleysi og magnleysi. Sigríður vakti yfir systur sinni nótt og dag og veitti henni alla þjónustu með hinni mestu alúð og umhyggju; grunaði hana, eins og raun varð á, að sótt þessi mundi hana til bana leiða, og var því ávallt mjög harmþrungin og beiddi guð að lengja líf systur sinnar. Það var eina nótt, að Björg var mjög þunglega haldin og talaði næstum því alla nóttina í óráði og fékk engan blund á augu fyrr en rétt undir morgun, þá rann á hana svefnhöfgi nokkur. Sigríður sat allajafna við sængurstokkinn og flaut í tárum, því hún sá þegar, að ekki mundi langt að bíða skilnaðar þeirra systra. Loksins hné hún út af úrvinda af svefni og lagði höfuðið á koddann fyrir framan systur sína, og rann á hana mók nokkuð; og vaknaði hún þá við það, að farið var hóglega með hendi um vanga hennar; það var systir hennar, sem vaknað hafði og lagt höndina á kinn hennar. Þá var kominn ljómandi dagur, og skinu fyrstu morgunsólargeislarnir inn um allt húsið. Björg var þá með öllu ráði og segir við Sigríði:

Þú svafst, elskan mín. Mér varð það óvart, að ég vakti þig, komdu nú til mín og kysstu mig. - Sigríður gjörði það. - Þetta skal vera okkar skilnaðarkoss, sagði Björg. Vertu blessuð, svo lengi þú lifir. Berðu þig að vera góð og guðelskandi, bljúg og barnsleg í huga, eins og þú nú ert; vertu foreldrum þínum hlýðin og auðsveip; en biddu nú fyrir mér, að ég megi deyja; það er svo unaðsamt, er guð sendir manni geisla sinnar sólar í andlátinu.

Eftir að Björg hafði þetta mælt, hallaðist hún aftur að svæflinum, og sé að henni hægt mók, og úr því vaknaði hún ekki aftur til þessa lífs. Allir, sem þekktu Björgu, hörmuðu mjög andlát hennar, en Sigríður þó mest; samt stóð hún fyrir greftrun hennar og leysti það vel af hendi og skörulega, og síðan annaðist hún um búið á V... það eftir var vetrarins, en byggði jörðina um vorið með ráðum og tilstyrk bestu bænda þar í sveitinni.

Ekki undi Sigríður sér norður þar eftir andlát systur sinnar; ritaði hún nú föður sínum til og bað hann að sækja sig, og fór hún þá að Tungu, og tók faðir hennar við fjárforráðum hennar.

Meðan Sigríður var í Skagafirði, ólst Indriði upp með föður sínum á Hóli; var hann nú orðinn hinn mesti atgjörvismaður til munns og handa, og þótti mönnum sem fáir væru hans jafningjar þar um sveitir, og fyrir því töluðu það margir, að mjög væri ákomið með þeim Sigríði í Tungu, því hún þótti og einhver hinn ágætasti kostur þar í héruðum. Sigríður var allra kvenna fríðust; hún var vaxin vel og meðallagi há, þéttvaxin og mittisgrönn; hún var fagurhent og fótsmá, eygð vel og allra kvenna fegurst hærð; hárið ljóst og svo mikið, að í beltisstað tók; hverri konu var hún sléttmálari; rómurinn hreinn og snjallur og tilgerðarlaus; hún var vitur kona og vel stillt.

Þegar Sigríður hafði verið einn vetur í Tungu eftir andlát systur sinnar, tók faðir hennar sótt þá, er hann leiddi til bana. Sigríður harmaði föður sinn mjög, en bar þó vel harm sinn. Ingveldur móðir hennar bjó í Sigríðartungu eftir bónda sinn og réð mann fyrir búið, og kvaðst hún ekki vilja sleppa búskap, fyrr en Ormur sonur hennar kvongaðist; hann var á þessum missirum kominn í Bessastaðaskóla, en var á sumrum með móður sinni. Ormur þótti uppivöðslumikill og ófyrirleitinn um allt, en þó raungóður. Allkært var með þeim systkinum.

Þau Indriði óg Sigríður hittust nokkrum sinnum um þessar mundir, og höfðu menn það fyrir satt, að þeim geðjaðist allvel hvort að öðru, og sannaðist að því skipti það, sem mælt er, að sjaldan lýgur almannarómur. Indriði og Sigríður voru nú á þeim aldri, sem karl og kona, er þekkjast og sjást og fellur hvort öðru vel í geð, trauðla geta vináttumálum einum bundist. Vinátta sú og ylur, sem verið hafði með þeim, á meðan þau voru börn, var nú búinn að taka aðra stefnu í hjörtum þeirra og snúinn í heita og einlæga ást, er þau báru hvort til annars. Nú þótt svo megi virðast, sem ekki þurfi mikið áræði til þess að bera það mál upp fyrir einhverjum, er maður veit áður, að honum er jafnkunnugt sem manni sjálfum, segist þó flestum svo frá, er í þá raun hafa komið, að ekki sé hið fyrsta ástarorð ætíð auðlosað á vörum þeirra, sem unnast; og svo fór fyrir Indriða, þó hann við og við sæi Sigríði, enda vildi jafnan svo illa til, að þau Sigríður næstum því aldregi urðu tvö saman í einrúmi; en eftir því tóku menn, að Indriði fór að venja þangað komur sínar, sem hann vissi, að Sigríðar var von á mannfundi, og þess á millum gjöra sér ferðir að Tungu, þó lítið væri annað erindi en að sjá Sigríði; og einu sinni sem oftar kom hann þangað, og voru þar þá fyrir aðrir gestir. Ingveldur lét vísa þeim gestunum í stofu og heita þeim kaffi, en bað Sigríði dóttur sína vera þar í stofunni og ræða við þá, er hún sjálf ætti að snúast í mörgu, sem við lá á heimilinu. Ingveldur var vön því að gefa þeim Indriða og Sigríði auga og gæta þess, að þau töluðust ekki margt við, en með því að nú voru fleiri menn við í stofunni, hirti hún ekki um, þó Sigríður ræddi við Indriða eins og hina gestina. Nú bar svo einu sinni við, að þau Indriði urðu tvö saman eftir í stofunni. Sigríður hafði alltaf haldið uppi tali við þá gestina, en er þeir voru út gengnir, þagnaði hún og leit í gaupnir sér; Indriða varð og orðfall um hríð, en bæði sátu þau sitt hvorum megin við dálítið borð, er þar var í stofunni. Svona leið dálítil stund, að þau yrtu hvorugt á annað, þangað til Sigríður allt í einu lítur upp og framan í Indriða og varð í sama bili rjóð út undir eyru. Þess háttar augnaráð og tillit stúlkna eru yngismenn vanir að skilja, og Indriði hefði orðið að vera skynskiptingur, ef hann hefði ekki ráðið í, hvað Sigríði þá flaug í huga.

Manstu, Sigríður mín, segir hann, þegar við vorum lítil, hvað okkur var vel til vina og þótti vænt hvort um annað?

Já, alltaf man ég það, Indriði minn góður, sagði Sigríður, og varð henni einhvern veginn ósjálfrátt að grípa um höndina á Indriða; en rétt í því henni slapp seinasta orðið af vörunum, var stofunni lokið upp, og fékk hún ekki tíma til að kippa aftur að sér hendinni, fyrr en móðir hennar var komin inn á mitt gólf, og hafði Ingveldur eitthvert veður af viðræðu þeirra Indriða og var nú ærið gustmikil; og varð ekki meira af viðtali þeirra Sigríðar og Indriða að því sinni. Indriði ríður síðan heim og tekur nú að íhuga svar Sigríðar og öll atvik; finnst honum þá, að Sigríður mundi sér ekki fráhverf, ef hann beiddi hennar. Hann segir þessu næst foreldrum sínum fyrirætlun sína um að leita ráðahags við Sigríði, og leist þeim vel á, en töldu þó ei ólíklegt, að Ingveldur mundi verða því mótfallin. Er þá svo ráð fyrir gjört, að Ingibjörg móðir Indriða skuli bera þetta mál upp fyrir þeim mæðgum, er hún hitti þær, og skyldi allt fara sem hljóðast fyrst um sinn.

Eitthvert skipti um haustið skyldi vera brúðkaup nokkuð á prestsetrinu í Sigríðartunguhrepp; ætlaði síra Tómas að gifta aðstoðarprestinum dóttur sína. Til þessarar veislu var þeim Tungumæðgum boðið, svo og þeim hjónunum frá Hóli og Indriða. Þau mæðgin frá Hóli riðu til boðsins, en Jón hreppstjóri var krankur og fór því ekki. Þær mæðgurnar í Tungu höfðu og ásett sér að fara, en þenna sama morgun fundust ekki hestarnir í Tungu, og var þeirra þó leitað fram undir hádegi, og fannst enginn nema klár einn gamall og staður, er kallaður var Níðhöggur, sem aldrei gekk úr túninu; honum skyldi fylgdarmaður ríða, ef eitthvað fengist fyrir þær mæðgurnar; og með því þeim þótti leitt að setjast aftur, er þær voru ferðbúnar, var það til bragðs tekið að senda á næsta bæ fyrir neðan Sigríðartungu og biðja þar um hesta. Þar var ekki mikið til um reiðskjóta; þó fengust þar tveir hestar, og var annað hryssa apalgrá; henni átti Sigríður að ríða, en aldrei hafði fyrr verið lagður söðull á hana, og tók hún þegar að snúast á hlaðinu og ausa, undir eins og Sigríður var komin á bak; gekk svo lengi, og verður hún að fara af baki aftur og reyna til að teyma hana á veg; en allt fór á sömu leið, hverjum brögðum sem beitt var við hryssuna, að jafnóðum sem Sigríður var stigin í söðulinn, tók Grána að ausa og gekk nú eins langt aftur á bak eins og hún hafði áður verið fram leidd; líður nú fram að hádegi, eru þær Sigríður og Grána þá búnar að færa leikinn út í mitt túnið, og gengur Sigríður þar af henni, og verður ekki af för hennar; en Ingveldur ríður til boðsins, og var þar fyrir margt manna, og voru menn farnir að búast til kirkjugöngu. Ingveldi var vísað í loft til kvenna; var þar komin Ingibjörg frá Hóli, og heilsar hún Ingveldi blíðlega. Flestar konur voru þar á íslenskum búningi; Ingveldur var og á íslenskum treyjufötum og hafði skuplu á höfði og nælt niður að framan. Ingibjörg á Hóli hafði krókfald ekki mjög háan, en fór vel.

Tekur þá brúður að skauta sér, og segir hún við Ingibjörgu: Ég ætla að biðja yður, Ingibjörg mín, að láta á höfuðið á mér, ég sé þér kunnið á því lagið; ég er ánægð, ef það fer eins vel á höfðinu á mér í dag eins og á höfðinu á yður, enda er faldurinn yðar fallegur og vel lagaður; það er munur að sjá blessaða krókfaldana en horngrýtis skuplurnar, sem ekki eru fyrir aðrar en afgamlar kerlingarhrotur.

Þegar prestsdóttir sagði þetta, hafði hún ekki gáð að því, að Ingveldur var þar og hafði skuplu; en það var rétt eins og öllum, sem voru í loftinu, hefði dottið hið sama í hug, og litu allir undir eins framan í Ingveldi, og þurfti ekki að segja henni, hvað til bar; hún roðnaði út undir eyru, en stillti sig þó um að svara. Ingibjörg tók nú að skauta brúðinni, en Ingveldur settist á rúm þar í loftinu hjá konu nokkurri, er Gróa hét. Þær Ingveldur og Gróa voru vinkonur. Gróa bjó á þeim bæ, sem heitir á Leiti; Hallur hét bóndi hennar, og var hans sjaldan getið að nokkru, því Gróa þótti vera þar bæði bóndinn og húsfreyjan. Lítt voru þau hjón við álnir, en Gróa var fengsöm og húsgöngul; hún var og vitur kona og svo fróð um alla hluti, að hún vissi fyrir víst, hvað skammtað var hvert mál á flestum bæjum í öllu því byggðarlagi; aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum; og svo var hún orðvör, að aldrei greindi hún sögumann; var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því, blessuð! Ávallt vissi hún að haga svo orðum sínum, við hvern sem hún talaði, að hverjum fyrir sig virtist sem Gróa ætti engan betri vin hér á jörðu en sig og að hún væri engum trú nema sér einum. Þörfin, sem oft gjörir þá að vinum, sem ella mundu ekki vinir, hafði gjört þær Gróu og Ingveldi að aldavinkonum, og gat hvorug annarrar án verið. Ingveldi var svo varið, að hún aldrei hafði rétt góða heilsu, nema hún við og við fengi fréttir um það, hvernig mönnum liði á öðrum bæjum; aftur þurfti Gróa að eiga einhvern að, sem hugaði fyrir nefinu á henni, ella mundi það hafa orðið henni æði útdráttarsamt; en Ingveldur var jafnan vön að stinga að henni tóbakslaufi, rjólbita eða blöðkuvisk, ef vel sagðist. Brátt tóku þær Gróa og Ingveldur tal sín á milli, og var það mjög af hvíslingum, er mörg voru eyru þar í loftinu. Ingveldur þuklar nú undir svuntu sína og dregur þar upp rjólbita og laumar að Gróu, og tekur henni þá heldur að hægjast um málbeinið og hvíslingarnar að verða tíðari.

Guðsást fyrir mig, segir Gróa, og fyrir nefið á mér; það er eins og vant er; yður leiðist ekki að hugsa fyrir því.

Og ekkert að þakka, Gróa mín. Hefði ég verið heima, skyldi ég þó hafa látið það vera ögn burðugra; ég greip þenna mola með mér til vonar og vara, því ég hugsaði það gæti þó verið, að ég sæi þig hérna; en hvað kemur til, að þú kemur aldrei fram eftir núna?

Og minnist þér ekki á það, elskan mín. Ég kemst aldrei frá barnagreyjunum, og hann er svo óspakur, krakkaormanganóruskinnsgreyið yngsta, að ég má aldrei líta augunum af honum, hvað þá heldur, að ég komist út af bænum, og hefur mig þó oft langað til þess, ég segi það satt, að koma fram eftir, því hvar kemur maður á annað eins sæmdarheimili og að Tungu? En margs þarf við; ekki get ég sagt, að ég hafi séð smér í sumar; allt hefur gengið í það að kreista saman leigurnar, og þó læt ég það allt vera, ef ég á eitthvað í nefið - en nú hafið þér bætt úr því, blessaður unginn, eins og yðar var von og vísa.

Það er nú allt minna en ég vildi, Gróa mín. En hvað ég vildi segja, kemur þú aldrei fram að Hóli?

Ó nei, elskan mín, þangað kem ég ekki; og til hvers er þangað að koma? Ekki víkur hún Ingibjörg nánösin ketti sleikju eða hundi beini; ég hef mestu andstyggð á öllu því hyski, ég get ekki gjört að því. Þá er það fallegur bölvaður sláni - guð fyrirgefi mér, að ég blóta - strákurinn þeirra þar, hann Indriði!!

Hvers er von, kelli mín! sagði Ingveldur.

Það er satt; ég veit ekki, hvert hann ætti að sækja góðmennskuna; dúfan hefur aldrei komið úr hrafnsegginu enn þá; því segi ég það, ekki gæti ég trúað því, þó mér væri sagt það, að þér létuð hana Sigríði mína í þær hendur, þó sumir séu að geta þess til.

Og ekki held ég, Gróa mín, að það verði, ef ég má ráða; mér hefur aldrei verið neitt um það Hólsfólk og mun aldrei verða.

Á, það var líklegra, og það hef ég alltaf sagt. Í þessu varð Gróu litið til Ingibjargar, þar sem hún var að laga faldinn á höfðinu á prestsdóttur, og segir hún þá: Guð náði hana Valgerði mína að láta kerlingarandstyggðina vera að krumla sig; hún hefði þó getað beðið yður að láta á höfuðið á sér.

Ég var ekki eins vel fær um það kelli mín eins og sú, sem hún valdi til þess, sagði Ingveldur og saug um leið upp í nefið.

Æ, hvernig getið þér nú farið að tala, heillin góð!

Þetta mun henni þó hafa sýnst, eða heyrðir þú ekki, hvernig hún lagðaði mig áðan?

Ójú, því var nú verr og miður, að ég heyrði það; en það er ekki fyrir það, þetta er mesta trippi, stelpan, þó hún sé prestsdóttir; og vitið þér, hvers vegna hún vildi ekki láta yður skauta sér?

Ónei.

Æ, mig grunar, að hún væri hrædd um, að þér munduð sjá það, sem ekki á að sjást, en hver heilvita getur þó séð; þér munuð hafa heyrt það, sem talað er?

Ónei, ekki hef ég heyrt það.

Þá get ég sagt yður það; um hana og prestinn hérna.

Nú, nú!

Og því þau biðu ekki með brúðkaupið til vorsins, eins og fyrst var talað.

Á, já, já, nú fer ég að skilja.

En hitt er víst ekki satt, um fleiri.

Rétt í þessu kemur einhver inn í loftið og segir, að presturinn sé kominn út í kirkjuna og bíði brúðhjónanna; verður þá þys mikill í loftinu, og keppast konurnar við að komast sem fyrst ofan; verður þá ekki meira af samræðum þeirra Gróu og Ingveldar, og hvíslar Gróa að Ingveldi, rétt í því þær fóru út úr loftinu: Ég skal segja yður það allt saman seinna, sem ég hef heyrt og ólygin stúlka hérna á heimilinu hefur sagt mér, en ekki vil ég samt láta bera mig fyrir því, blessuð!

Þessu næst ganga menn til kirkju, og verður þar ekki annað til tíðinda en að hjónaefnin eru saman pússuð. Eftir að komið var úr kirkju, gengu menn undir borð; og var sætum skipað á þá leið, að Ingibjörg á Hóli sat næst síra Tómasi, en út frá henni Ingveldur frá Tungu, og þóttust menn sjá, að Ingveldur roðnaði í framan, þegar hún var til sætis leidd, og gátu þess til, að hún þættist eins vel komin til þess sætis, sem Ingibjörg hafði hlotið; gátur manna voru og ekki fjarri sanni. Ingveldur var hljóð mjög um daginn, og þótt þar væri hin dýrðlegasta veisla og steik og annar fagnaður á borðum, snerti hún samt varla á nokkrum bita. Lítið er það, sem kattartungan finnur ekki, segja menn, og svo er um þá virðingagjörnu. Síra Tómas var glaður mjög að þessari veislu og skrafhreifinn, yrti á marga og leitaðist við að skemmta, einkum þeim konunum; en hvort sem það heldur var af ásettu ráði gjört eður af tilviljun, þá bar ætíð svo við, að hann kallaði Ingibjörgu á Hóli maddömu, þegar hann ávarpaði hana; en jafnan, er hann sneri málinu til Ingveldar, sagði hann aldrei nema blátt áfram: Ingveldur mín! Ingveldi þótti sem ekki ætti að draga af sér það, sem hún ætti og guð hefði gefið henni, og var henni það verra en þó hún hefði fengið sinn undir hvorn vanga, þegar prestur talaði til hennar, en varð aftur bleik sem nár í hvert skipti, sem hann ávarpaði Ingibjörgu.

Þá er menn voru gengnir undan borðum, sýndi Ingveldur vonum bráðara á sér fararsnið, og hugðu menn hana kranka. Indriði kom þá að máli við móður sína - og vildi ég, segir hann, að þú, móðir, minntist þess, er þú hést mér, að vekja máls á bónorðinu, og mun ekki annan tíma betra færi á gefast.

Annan veg virðist mér þetta, sonur, sagði Ingibjörg, sýnist mér Ingveldur ekki hafa verið með glöðu bragði í dag, hvað sem veldur; en þó má ég gjöra það fyrir þín orð að hætta til þess.

Sætir hún þá lagi að fá færi á Ingveldi, áður en hún riði brott; og einhvern tíma stóð svo á, að þær urðu tvær saman fyrir ofan bæinn; gengur þá Ingibjörg til hennar og kveður hana blíðlega og segir:

Mig langar til að tala nokkur orð við yður, áður en þér farið; ég hef verið beðin þess af manni, og þykir mér mikið undir því, hverju þér svarið.

Mín er æran og yðar lítillætið, maddama góð, ef þér viljið tala við mig, og látið mig heyra erindi yðar, sagði Ingveldur og glotti við. Ingibjörgu grunaði nú af þessu svari, hvernig fara mundi, og þagnaði við; en með því að svo langt var komið, að illt var afturhvarfs, tekur hún aftur til máls og segir:

Það er erindi mitt, að sonur minn Indriði hefur beðið mig að koma að máli við ykkur mæðgurnar um það, hvort ykkur mundi það óskapfellt, að hann leitaði þar ráðahags, sem er Sigríður dóttir yðar; segir hann, að þar sé sú kona, er hann helst mundi kjósa sér fyrir ættar og atgjörvis sakir af þeim kvenkostum, sem hér eru nærindis.

Verður það, sem varir og ekki varir, sagði Ingveldur. Síst mundi mig hafa grunað það, að þið á Hóli leituðuð til mægða við okkur smámennin fyrir handan ána, og vil ég víst vita, hvort þetta mál er af alvöru flutt eður ekki.

Ekki er það með nokkru falsi af okkar hendi, sagði Ingibjörg; munu það og margir mæla, að ekki sé óákomið með þeim Indriða mínum og Sigríði dóttur yðar.

Það munuð þér og aðrir verða að skoða sem þeim líkar, hvert jafnræði sé með þeim; en skjótt er að svara erindi yðar, maddama góð, af minni hendi, að aldrei gef ég samþykki mitt til þess ráðahags; um vilja Sigríðar veit ég ekki; þó er mér næst að halda, að hún muni líta í aðra átt, ef hún gefur um að giftast að svo stöddu.

Síðan gekk Ingveldur burt sem skyndilegast; breytti hún nú ráði sínu um heimreiðina og var hin kátasta það eftir var dagsins.

Ingibjörg segir Indriða þessi málalok, og verða þau honum til mikillar ógleði og það þó verst, er hann þóttist mega ráða af orðum Ingveldar, að hyggja hans um vilja Sigríðar mundi hafa verið tómur hugarburður. Riðu þau mæðgin heim við svo búið, og tekur Indriði nú ógleði mikla, svo að hann nær því mátti engu sinna. Ingveldur ríður og heim frá boðinu um kvöldið og er hin kátasta. Ekki segir hún Sigríði frá viðræðum þeirra Ingibjargar.

Litlu síðar kom upp sá orðrómur þar í sveitinni, að Indriði á Hóli hefði beðið sér stúlku vestur í héruðum og þó minni háttar bóndadóttur, en ekki fengið, og því væri hann nú orðinn hálfgeðveikur. Enginn vissi gjörla að greina höfund þessara frétta; en þeir, sem lengst komust í rannsókninni, höfðu það fyrir satt, að ólyginn maður hefði sagt þær Gróu á Leiti. Ingveldur lét hvern mann, sem kom að Tungu, segja sér þessar fréttir og innti að öllu sem nákvæmast, og var ekki ugglaust um, að hún á stundum gjörði gys að, einkum ef Sigríður var við. Sigríður lét sér jafnan fátt um finnast. Líður svo veturinn og vor hið næsta, að ekki batnar Indriða ógleðin, og ekki kom hann að Sigríðartungu á þessum missirum. -