Pontus rímur/10. ríma
Útlit
X RÍMA
[breyta]Ferskeytt
- 1. Fús er út hinn þrifni þustur,
- þagnar leystur bandi;
- Fjölnirs skeiða gríða gustur
- gengur af hyggju landi.
- 2. Mundi eg tíunda meyjum óð
- mjúkum orðum slyngja,
- ef eg hefði allt eins hljóð
- og Orpheus að syngja.
- 3. Pallas veiti lið og lán
- lyndi mannsins spekja,
- hjarðar guð, sem heitir Pán,
- af höfga upp að vekja.
- 4. Bólginn hans að blási kjaftur
- belgja í pípu kalda,
- so hann Mídas eyrum aftur
- opnum mætti halda.
- 5. Stentóríus með stríða rödd
- sterkt skal ópið herð;
- mætti þussa gabbi glödd
- galda sveitin verða.
- 6. Fyrst Appolló hörpu hljóð
- hæða og gabba flester,
- þá mun skylt að skemmta þjóð
- skvaldri því, sem vest er.
- 7. Cerberus þeim syngi reiður
- sína rödd í eyra,
- sem gleðin er og glaumur leiður
- og gaman mega aldri heyra.
- 8. Aðra fá ei ósk af mér
- eftir mínum vanda
- en plagaðir og píndir verr
- fyrir Plútons dyrum standa.
- 9. Jungfrú, ætla eg þetta þér
- þenna flokk að vinna,
- á meðan í orðum áset mér
- af öðrum toga að spinna.
- 10. Vér inntum heiðinna ævispjöll
- aldri glöggt af munni,
- hvörsu raskast friðarins föll
- og flúði hvör sem kunni.
- 11. Lesum af þeim lengra meir,
- sem lífi halda náðu;
- hverfa úr sögunni höldar þeir,
- sem Heljar stíginn tráðu.
- 12. Verð eg segja virðum frá,
- er vörgum bráðir afla,
- hestar óðu að hnjánum þá
- hræjum drifna skafla.
- 13. Friðsöm dýrin fengu náð,
- fuglinn meinlaus hlakkar,
- meðan vísirs varma bráð
- varga sveitin smakkar.
- 14. Flokkur hinn heiðni fellur þar,
- fargar orðstír góðum;
- ekki á lífi eftir var
- einn af heiðnum þjóðum.
- 15. Kóngsson reið með kappa sveit,
- kom þar skeiðir lágu,
- hyggst að fara í hefndar leit
- hinna, er fangna sáu.
- 16. Heiðnir stukku hauðri af,
- hælis leita kunna,
- sjálfir steyptu sér á kaf
- og sukku niður til grunna.
- 17. Kappar leystu kristna menn,
- kvalda af písl og nauðum,
- sára gjörðu að græða senn
- og gröft að veita dauðum.
- 18. Pontus rétt með reiðisvip
- róa lét til skeiða,
- kanna vill nú Códrus skip
- og kemur á drekann breiða.
- 19. Það var skip með Skrímnirs vess
- skorið á ýmsar lundir;
- leit hann aldri líkann þess
- liðnar ævistundir.
- 20. Lítt trú eg þessi laufa Týr
- liðinu heiðna vægi;
- síðan sprang á sjóvar dýr
- sonur kóngs hinn frægi.
- 21. Tókst þar brátt hið mesta morð;
- mann þeir öngan spörðu;
- Pontus hjó þá brátt fyrir borð
- bragna þá, sem vörðu.
- 22. Pontus einum bragna bauð,
- beint var hræðslu sólginn,
- sér að vísa allan auð,
- sem á var skeiðum fólginn.
- 23. Trauður gjörir það tiginn bað,
- tjáir ei við að fresta,
- sýnir honum í sögðum stað
- silfur og gullið mesta.
- 24. Gripi og háfur góðar fann,
- gæddar hirzlum vöndum,
- slíkan auð ei heyrði hann
- hvörgi á Norðurlöndum.
- 25. Kristna lét hann kappa þann,
- kunni latínu ræða;
- síðan lét af sárum hann
- sjálfur Pontus græða.
- 26. Códrus hafði um hauður og hlé
- hrausta kónga slegið,
- árin tólf það ofsafé
- úr ýmsum löndum dregið.
- 27. Þjáð skyldi ekki þvílík nauð
- þann í vöku og blundi,
- hefði vitað hvör þann auð
- hreppa um síðir mundi.
- 28. Orðtak það hjá ýtum gengur,
- ef ágirnd fylgir magni,
- örfum hans að illur fengur
- aldrei komi að gagni.
- 29. Skildi tal með skötnum þeim
- skorti ei prís né æra;
- féð allt lét til hallar heim
- herra Pontus færa.
- 30. Heiður jókst á hjörva fund,
- hans er líkinn valla;
- nú þarf ekki niflungs kund
- nokkur snauðan kalla.
- 31. Síðan endast styrjöld stór;
- stýrðu kristnir lukku;
- herinn heim til hallar fór
- og heiðinna erfi drukku.
- 32. Fólkið gjörðist furðufátt;
- fagnað ei má dvína;
- kóngur þakkar herrum hátt
- hjástoð alla sína
- 33. Þá var tal með tignum flest
- af toga slíkum spunnið,
- hvörjir verkin hreysti mest
- hefðu í slaginu unnið.
- 34. Frægð af Ponto fyrstum rís,
- fremd og alls kyns prýði;
- honum lögðu heiður og prís
- helzt yfir aðra lýði.
- 35. Guðfreyr þá var greindur næst
- gildum stillirs arfa;
- Andri af Lator ekki smæst
- afrek þótti starfa.
- 36. Vernarð greindu virðar þá
- væri hinn mesti kappi;
- hermir sagan herra sá
- hinum nærri stappi.
- 37. Enginn þeirra afrek má
- orðunum sínum glósa;
- heiðurinn veittist herrum þá,
- sem helzt þeir vildu kjósa.
- 38. Átta daga öllum þeim
- ekki bar til hryggða;
- síðan riðu herrar heim,
- hvör til sinna byggða.
- 39. Ferðin tókst þeim fullvel greið;
- fylgdi Pontus mengi;
- síðan hverfur heim á leið
- hann með röskva drengi.
- 40. Pontus kætti kóngsins þjóð,
- köppum virtist furði;
- dóttir kóngsins dygg og rjóð
- dýran sigurinn spurði.
- 41. Einkum fékk hún alla spurt
- athöfn riddarans sterka,
- fremd og prýði, fegurð og kurt
- og fjölda snilldar verka.
- 42. Þetta gjörði göfugri frú
- gleði í hjartað magna;
- hoskust býst við hringa brú
- honum með blíðu fagna.
- 43. Þegar kurtis kemst á snoð
- um komu riddarans stranga,
- sendi honum blíðust boð
- og bað hann til sín ganga.
- 44. Pontus verkið þetta þrátt
- þá var fús að vinna;
- kemur tíðum kóngsson brátt
- kléna jungfrú finna.
- 45. Strax á móti meyjan gekk
- mætum hilmirs kundi,
- alla gleði og yndi fékk
- ung af þeirra fundi.
- 46. Jungfrú guði þakkar þá
- þennan heiður og sóma
- allan þann, sem innter frá;
- af honum flestir róma.
- 47. "Hæstan fögnuð hjartans þel
- hefur af þessu fengið,
- að yður hefur að óskum vel
- allt í stríðinu gengið.
- 48. "Náðuga frá," að kóngsson kvað,
- "kyns það margan blekki;
- flestir lofa lýðir það,
- sem lítt er vert eða ekki.
- 49. Eg vil þakka yðar náð
- með auðmýkt, jungfrú bjarta,
- heiður, prís sem dygð og dáð,
- dýran mér af hjarta.
- 50. Allt það bezta innast má
- og eg kann fremst að megna;
- skrumlaust öllum skýri eg frá;
- skeður það yðar vegna.
- 51. Fremd og prýði, fegurð og skart,
- fús vil eg það játa,
- yðar sómi og ærlig art
- öll mér lízt í máta."
- 52. "Mitt hefur hjarta manndóms hrærzt,"
- mælti fæðir ljóna,
- "yður, jungfrú, allra kærst
- með æru og dygð að þjóna.
- 53. Gefi mér þar til gæzku og náð
- guð af sinni mildi
- yður þjóna af æðstri dáð,
- eins og eg kjósa vildi."
- 54. "Kæri vin," að kurtis frú
- klén við Pontus sagði,
- "við yður held eg alla trú,
- sem okkar á millum lagði.
- 55. utan hugsi ódygð mér
- eflaust nokkra sýna;
- við það skulu að vísu þér
- vináttu minni týna."
- 56. "Yðar er ætlan ekki fín,"
- enn réð Pontus róma;
- "hafið ei þenna hug til mín,
- sem hæfir ei okkar sóma."
- 57. Þessi og önnur þvílík orð
- þeirra fóru á milli;
- kvaddi síðan skikkju skorð;
- og skildu so með snilli.
- 58. Sjálf þar eftir svinnust beið;
- sorgum hrinda brúðir;
- hilmirs syni heim á leið
- hofmenn fylgja prúðir.
- 59. Þegar liðið var langt í frá,
- letrin oss það skýra,
- kóngurinn náði krankleik fá,
- kunni ei ríkjum stýra.
- 60. Hertuga, greifa og göfuga menn
- gramur til sín kallar;
- þessir flýta síðan senn
- sinni ferð til hallar.
- 61. Ráðgast um við dýra drótt,
- dugir ei þanninn standi,
- öllum greinir sína sótt,
- segir, hvör á er vandi.
- 62. "Vandhæfi á virðist mér,
- sem vora tign má prýða;
- veljið einn að vísu þér,
- sem viljið fúsir hlýða.
- 63. Herrar segja hann muni sjá
- hæstar þarfir ríki.
- "Oss er enginn annar hjá,
- sem er hans Pontus líki.
- 64. Vér skulum þar fyrir velja hann
- fyrir vora nauðsyn bráða,
- af því kóngsson allvel kann
- öllu landi að ráða.
- 65. Þessu játar þá til sanns
- þengill fús af mildi:
- "Öngan heldur innan lands
- eg annan kjósa vildi."
- 66. Pontus hermir herrum þá,
- að hafi sig misgáð illa:
- "Ungur er eg yður í hjá
- alla hluti að stilla."
- 67. Ekki tjáði orðum neitt
- undanfæri að skýra;
- hvört honum var það ljúft eða leitt,
- löndum varð að stýra.
- 68. Prís og heiður Pontus vann,
- prýða siðirnir góðir;
- þar með elska og óttast hann
- allar landsins þjóðir.
- 69. Hollur var honum hilmirs lýður
- hlýðni og sæmd að gjalda;
- og so hvað hann brögnu býður
- búinn var hvör að halda.
- 70. Ósamþykki eyddi hann
- og efldi á meðal ríkja;
- og hann vissi enginn mann
- út af lögunum víkja.
- 71. Allir forþént fengu laun,
- forðast styrjöld alla;
- þar fyrir hann í réttri raun
- ráðvandan má kalla.
- 72. Hryggva gleður, en saddi svangt,
- sjálfur nakta klæddi,
- hjálpar aumum, rétti rangt,
- rænta peningum gæddi.
- 73. Guðsþjónustu gjörði mest
- göfugur Pontus rækja;
- landsins mun því liðið flest,
- hann langt að ráðum sækja.
- 74. Kvendið allt af kóngsson spyr,
- kveikist sárri pínu;
- fyrir hann ástar heitan byr
- hún hafði í brjósti sínu.
- 75. Hvör bað guð í hjarta sér
- hann sinn verða mætti,
- en hann þeirra æ þess verr
- angrið miður bætti.
- 76. Elskuteiknin allar þær
- óspart frammi létu;
- ást af Ponto engin fær,
- oftliga fyrir það grétu.
- 77. Látum frúnum stríð og styggð
- standa í þeirra valdi,
- greinum hitt, að hatur og lygð
- honum kom fyrst að gjaldi.
- 78. Heimsins blíða blekkir þá
- í beztu virðing standa,
- heiðri og löndum falla frá
- í fár og stóran vanda.
- 79. Kunna vænlig vináttuhót
- að vísu margan blekkja;
- því er vant um veganna mót
- vini og frændur þekkja.
- 80. Hlaðinni skeið er heim á leið
- að halda bezt í tíma;
- fyrðum sneið að færist greið;
- falli tíunda ríma.
Heimild
[breyta]- Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.