Fara í innihald

Pontus rímur/11. ríma

Úr Wikiheimild

XI RÍMA

[breyta]

Ferskeytt

1. Blásinn lituð fúna fyrr
fölskann kvæða brenndra,
nú skal slökktan hróðrar hyr
Hrumnings kveikjum tendra.
2. Fúni síður fræða báls
feygja mærðar drjúga,
ellefta vill ör til máls
Ymirs strengja fljúga.
3. Ætlað hef eg til ekki tæpt,
orð ef finnast kunna,
fengi eg pílu hróðrar hæft
hvassa lygimunna.
4. Öfundarhatur eldsins menn
innan plagar að steikja,
þar til í efni sjálfra senn
sinna lyganna kveikja.
5. Annars velferð öfunda mest,
eigin nytsemd þenkja,
hans fyrir þetta hugsa helzt
heiður með lygi krenkja.
6. Þó sig skaði þúsundfalt,
þykir engin sneypa;
vilja þar til vinna allt
í vandann öðrum steypa.
7. Margur hatri hjartað brennt
höggur lygunum undir;
eg hefi sjálfur á því kennt,
ekki sízt um stundir.
8. Nú hefur sá hinn góði guð
gefið á loft hið sanna
og so frelst af allri nauð
og umsát lygimanna.
9. Er eg nú þeirra falsi frá,
fjörðinn byggi þenna;
en logandi eldur öfundar þá
innan gjörir að brenna.
10. Eflaust skeður í allri raun,
enn þó dveljist tíðir,
jafnan hreppa lygarar laun
loksins vest um síðir.
11. Sannast mun í sögunni hér,
seint ef hlýða kunnið,
að lygin illan ávöxt ber
og allt það af henni er runnið.
12. Gendill hét, sem greini eg frá,
Galisía barna eini;
trausta öngva telja má
tryggð með þessum sveini.
13. Þessi leit, að lofðungs kundur
lof fékk allra þjóða,
þar fyrir eins og heiðinn hundur
hatar nú Pontum góða.
14. Mjög var hann að máli framur,
margt því spjalla kunni,
við alla slægð og tæling tamur
títt af hjartans grunni.
15. Gekk til Pontum Gendill leiður
greitt með slægða gnóttir,
bað hann gefa sér hest með heiður,
sem hilmirs gaf honum dóttir.
16. Kóngsson býður hvörn sinn hest
honum annan játa,
segir sér þyki þennan mest
þegnum úti að láta.
17. "Dugi ekki svinnum svo,
segi eg af vilja beztum,
veljið yður, ef viljið tvo
vænsta af mínum hestum."
18. Gendill segir, að niflungs náð
nú sé komin að hvörfum,
kvað hann mundi ei drýgja dáð
drengs í meiri þörfum.
19. "Vinina ætla eg vant að sjá,
vel þó nokkuð skvaldri;
þeir munu lítt í þrautum stá,
í þörfum dugðu aldri."
20. Þar næst gekk með grimmd og móð
grams af blíðum fundi;
hatur og reiði í hyggju stóð,
sem hefnast síðar mundi.
21. Ekki lét í þagnar þey
þessi boð sér nægja,
hugsa nú við mildings mey
mætan kóngsson rægja.
22. Þá er liðin var lítil stund
og lýst var yfir forðum,
Elóis hann fer á fund
og flimtrar mjúkum orðum:
23. "Ef þú sver með eiði mér
öngum manni greina,
þá mun eg glósa þýðust þér
þarfa söguna eina."
24. En hún hét honum aftur á mót
öngum manni segja;
sagðist framt hin fríða snót
fullvel kunna að þegja.
25. Gendill tók að greina blítt,
gjörir so orðum víkja,
kvað sér hæfa harla lítt
herra kónginn svíkja.
26. "Þar með dóttur og drottning hans
dyl þú minna orða;
eg er skyldur innan lands
öllu vondu forða.
27. Minn herra, Pontus, mælir, að
hann mildings dóttur unni;
eg veit það hefur öngan stað
út af hjartans grunni.
28. Orðinn er eg þess einka vís
aðra þreyr hann brúði;
af því fær sú öngan prís,
sem einum slíkum trúði.
29. Traustur er hann að tæla frúr,
tamur er ungum vandi;
eg veit hann er öngum trúr
yður í þessu landi.
30. Virðist mér að vísu bezt
viti það meyjan bjarta,
svikara þann sem vítin vest
varist af öllu hjarta."
31. Elóis svarar aftur á mót:
"Annan mann eg hugði;
hér til hefur við hýra snót
haldið trú sem dugði.
32. Öngan hefur hann ærubrest
ungri girnzt að veita;
þeim er lagt til lýta flest,
sem lofligastir heita."
33. "Það er ei gull, sem glóir allt,"
Gendill réð svo mæla,
"fögur orðin kynjakalt
kunna margan tæla."
34. Jungfrú gjörði glysinu þá
og Gendils orðum trúa;
hún vill þegar honum í frá
heim til borgar snúa.
35. Sinni jungfrú sagði frá,
so sem fregnað hafði,
og so greindi allt hún þá,
sem efni þetta krafði.
36. Sídóníu sorg og styggð
sezt í brjóst hið stinna,
en lét á sér drósar dygð
dýrust ekki finna.
37. Þá hinn ungi kóngsson kemur,
klár í hyggju landi,
leika alla frúnum fremur,
fyrr sem hans var vandi.
38. Svo réð hættlig hryggð og þrá
hýra jungfrú stanza,
að öngu orði meyjan má
mildings syni anza.
39. Pontus leit á lauka grund
ljósust hryggðar dæmi;
Elóis hann fer á fund
og fréttir, hvað til kæmi.
40. "Veit eg ei, hvað veldur því,"
vífið anzar herra,
"henni ætla eg hjarta í
hryggð muni síðar þverra."
41. Aftur gekk, sem innt var mér,
unga mey að finna.
"Hvör hefur böl eitt bruggað þér,
bið eg mér að inna.
42. Gjöri þér fyrir guðs míns náð,
greinið mér hið sanna;
hvört hefur jungfrú á jörðu smál
ég eður annar manna?"
43. Sídónía svarar af styggð,
so var höst í máli:
"Völt er mörgum veraldar tryggð,
verður oss glys að táli"
44. Síðan gengur björt á braut,
búin með drakons leiri;
af henni Pontus orðin hlaut
ekki að sinni fleiri.
45. Nú stóð eftir nipinn og hljóður
niflungs fríður arfi;
harmi spenntur, harla rjóður
hann var eins og karfi.
46. Gekk hann burt með hrelldan hag,
hryggðist brjóstið klökkva,
allan hafði dvaldan dag;
drjúgum tók að rökkva.
47. Sáran beið hann sorgar small,
særður harma pílu;
ekki Pontus át né drakk
og svo leggst í hvílu.
48. Talar hann þá við sjálfan sig,
svannann hugsar væna:
"Hvör mun vilja myrða mig
og minni gleði ræna?
49. Það mun ljóst í þetta sinn,
þó það heimurinn kanni;
eg veit ei til þess verknað minn
vera af heinum manni.
50. Langa nótt og dapran dag
dauðans mér þeir stofna;
sorgin eykur sáran hag,
er seint úr brjósti dofnar."
51. Þetta kærði kóngsson þrátt,
krenktur sætum blundi;
lá hann þar so langa nátt,
lítt við hag sinn undi.
52. Sídónía svellur stríð
af sorg og stórum ekka;
ljúf vill ekki lauka hlíð
lengi eta eða drekka.
53. Jungfrú dýr að sakaði sig;
svaraði þöllin veiga;
"Nú skal enginn mennskur mig
manna fá að eiga.
54. Mig hefir tælt einn tignar mann
og trúnað brugðið sönnum,
en eg elska hugði hann
helzt af öllum mönnum.
55. Kólnuð er honum kurt og dygð,
krenkjast siðirnir góðir,
en bera þótti fremd og frygð
fram yfir aðrar þjóðir.
56. Náttúran er næsta svo
naum í öllum greinum;
skömm er það, ef skal hún í tvo
skipta manni einum.
57. Mér hefur fyrri mein og angur
manna bruggað engi;
hugsa eg því, að harmurinn strangur
haldist við mig lengi."
58. Löngum stofna lygarnar klatur
lýða góðra á milli;
þar með trú eg háð og hatur
hreinni vingan spilli.
59. Að morgni vaknar kóngsson klár,
í kirkju fór til bæna,
og eftir á gengur yfrið fár
Elóis finna væna.
60. "Elóis, mig undrar fast
orð þau jungfrú sagði;
fyrir þann stóra hatur og hast
hreyfi eg gleðibragði."
61. Elóis segir öngan stað
eigi slíkt fyrir henni:
"Ræddi hún til reynslu það;
með réttu eg það kenni.
62. Elligar hefur einhvör mann
yður rægt við svanna;
yður skaða ei það kann;
uppi flýtur hið sanna."
63. Lofðungs son að lýsir þá
af landi skuli hann ríða
og unga fyrri ei augum sjá
en aftur veitist blíða.
65. Skildi hann so við skemmu mey;
skrafinu tók að létta;
sorgin byggði sinnu þey;
so gekk heim með þetta.
66. Hoskur bjó sinn hest og svein
hilmirs son til ferðar,
var á töfin valla nein,
vistir tók og gerðar.
67. Fylkir að hann fann í stað
og fær honum kveðju blíða,
orðlofs bað, hann öðlast það,
út um stund að ríða.
68. Seint um kvöld við sjóla skilur,
í svefnhús réð að ganga,
sinnar ferðar flesta dylur,
fer þó Herlant þangað.
69. Kóngsson segir Herlant hátt
hann vilji burtu ríða,
áður en þessi úti er nátt
en eftir skuli hann bíða.
70. Herlant biður hann hoskur þá
að hugsa ei slíkt né mæla:
"Yður skal veitast oss í hjá
auður og nóglig sæla."
71. Pontus segir svinnum þá
svo muni standa verða,
biður hann öngum inna frá
allt sér búið til ferða.
72. Skjótt hann kallar skrifara einn,
skipar bréfin rita;
enginn skyldi annar neinn
af hans burtför vita.
73. Bað ann sína samlagsbræður
senecal hlýðni veita,
einkum meðan yfir þeim ræður,
öngum boðskap neita.
74. Mildings son um miðja nótt,
menntur á listir nógar,
hann reið burtu heldur hljótt
og hleypti þaðan til skógar.
75. Mýrna stigu og langa leið
lætur hann hesta renna;
burtreið hans að gjörist greið;
gráta meyjar þenna.
76. Einsetumann átti þar
einu klaustri ráða,
sem að kvöldi kóngsson var
kominn að leita náða.
77. Það var langt frá lýða byggð
leynt á þessum skógi;
fyrir það voru firrtir styggð,
fári og öllum rógi.
78. Næsta hann þar um nokkra hríð
nýtur í klaustur dvaldi;
bað hann þrátt og sofnar síð,
sig í föstum kvaldi.
79. Daga í viku vildi hann þrjá
venjast sjálfur að fasta;
frjádag hvörn lét herra sá
hárklæði næst sér kasta.
80. Hugsar hann lengra hvörgi þá
heiman ríða úr landi,
að hann mætti allt til sjá,
ef yrði á nokkur vandi.
81. Eina nótt aprílis síð
illir harmar stungu;
fagurt á þeirri fyrstu tíð
fuglar loftsins sungu.
82. Orti hann vísur vænar þá
vill so stytta tíma;
nú skal hverfa hróðri frá;
hvílist þanninn ríma.
83. Langan hef eg tíma tjáð
toga af Suptungs víti;
er því mál, að Þrumnings þráð
þögn í sundur slíti.

Heimild

[breyta]
  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.