Pontus rímur/2. ríma

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

II RÍMA[breyta]

Pontus rímur
eftir Magnús Jónsson
1. ríma Ferskeytt
2. ríma Samhent
3. ríma Gagaraljóð
4. ríma Braghent
5. ríma Stafhent
6. ríma Ferskeytt (með tilbrigðum)
7. ríma Skáhent
8. ríma Ferskeytt
9. ríma Samhent, framrímað
10. ríma Ferskeytt
11. ríma Ferskeytt
12. ríma Úrkast
13. ríma Stafhent

Samhent

1. Enn fer eg með annan slag
upp að byrja þennan dag,
styðja á fætur fallinn brag
og finna nýrra óðar lag.
2. Hér fer eg með kvæði kátt
að kynna yður á nýjan hátt,
so þér mættuð sjálfir brátt
sannar dygðir iðka þrátt.
3. Lít með innri augum á
og eyrum heyr eg greini frá;
meðan list að lærir þá
langt eyrindi að þeim ná.
4. Þó eg segi sinni mitt,
so vil eg allir gefi það kvitt,
reiðist ei þó raunar hitt,
að ræði fólk um álit sitt.
5. Það er ei hofmenn hugsast mér,
þó hispri þeir í klæðum sér;
og ei sá heldur með auðinn fer
og alla dýrð, sem heimurinn lér.
6. Tveir eru menn í hvörjum hér;
heilög skrift það greinir mér;
ytri bæði og innri er,
eflaust geym í minni þér.
7. Klæð þinn ytra og innra mann
öllum dygðum á minn sann;
þá mun þykjast heppinn hann,
hvör sá maður þig prísa kann.
8. Læri hvör að sigra sig;
son minn, viltú heyra mig;
ráð er bezt þú þekkir þig;
það er íþrótt prýðilig.
9. Sjálfs þíns blíða blekkja kann;
bróðir, hugsa prettinn þann;
hræsnin aldri heiður vann;
hvörn guð þekkir lifandi mann.
10. Oft er í ljósi eyrir sá,
sem undir snjónum fólginn lá,
til lítils kemur á sjónum sjá
að setja hús eður vindi á.
11. Allar dygðir andinn gaf;
ei kann heimurinn segja af;
þessar sömu í hirzlu haf,
so hræsnin dragi ekki í kaf.
12. Þann eg held nú mestan mann,
sem mótgang heimsins líða vann;
sárar girndir ei sigra þann
í sorg og gleði sér hegða kann.
13. Hann sem er glaður hvörninn snýst,
með hófi tekur allt, sem býðst,
lærir sig að sigra fyrst,
af sorgum heimsins aldri lýst.
14. Þar með fróður að forðast vél
og forsjá kunni hjartans þel,
alla smán að umber vel;
eg þann rétta styrkinn tel.
15. Falinn stendur, fátækur ríkur,
fríður, ljótur reiknast slíkur;
kvalinn, sæll og kóngum líkur,
klæddur pelli, þó beri flíkur.
16. Fanginn laus, en lifir deyddur;
lastaður prísast, ríkur sneyddur;
veraldligur allur eyddur
yfirvinnur píslum neyddur.
17. Líkaminn þá fallinn fraus,
fékk sér sálin varmað hús;
þá ytri er fanginn, innri laus,
allra bezta frelsi kaus.
18. Þá hold er sterkt, en sálin sjúk,
sínum verður að hlýða búk,
þá er ekki þrælkan mjúk,
þola má hans vald og brúk.
19. Þá má kallast sálin sæl,
sér á hún fyrir líkam þræl,
skipar honum djörf og dæl
dygða veginn aftur á hæl.
20. Hugsa um það held eg skárr
hvörn einn daginn síð og ár,
jafnan hvar þú gengur og gár,
gröf fyrir þínum fótum stár.
21. Valtur heimur virðist mér;
veit það einn sá reynir gjör;
elskum guð um allt fram vér;
ekkert vissara en dauðinn er.
22. Annað birti eg öllum spil,
þó á því kunni lítil skil;
þeim mun heldur vera í vil
eg víki aftur sögunnar til.
23. Þegar að sólin harmi hratt,
hryggð af öllum skepnum datt,
lifandi dýrin léku glatt,
laufið út á blómi spratt.
24. Svo er varið sögunni hér;
segja skal, hvör háttur er,
hvörsu Pontus hegðar sér
hjá heiðnum þjóðum sem honum ber.
25. Hann af öllum börnum bar,
blíður í nauðum staddur var;
af heiðnum neyddur höndum þar,
hæverskt greiddi kóngi svar.
26. Kóngur býður börnum þá
að birta sínu slekti frá,
og hvörja iðju höfðu há,
er herramönnum þéntu hjá.
27. „Erum fátækrar ættar vér.“
einn þá Pontus kóngi tér,
„ól oss Tíbúrt öll upp hér
fyrir einn guð, so þér skiljið gjör.
28. Vér fæddum hunda og hauka hans,
herra kóngur, og annan fans
eftir sið hér innan lands,
einninn boði stjórnarans.“
29. „Á yðrum klæðum og ásján má
annað snið,“ kvað kóngur, „sjá;
eg ætla hitt, sem enn skal tjá,
að ættuð sé stórum herrum frá.
30. Eg vil bjóða börnum nú
beint að láta af sinni trú;
ef ekki dugir upptekt sú,
á annan veg skal ráði snú.
31. Takið trú á Machúmet;
mun það skást, eg þar til get;
þetta boð eg börnum set.“
Blíð þau fyrir sér standa lét.
32. „Fanga munuð fremd af mér,
ef fögnuð þennan kjósi þér;
annars dauðann yður eg sver;
er þá keypt að öllu verr.
33. Annars hagur er orðinn hrelldur;
er sá heimskur slíku veldur;
veljið, hvort þér viljið heldur;
að vísu yðar makinn geldur.“
34. Enn réð Pontus anza þá:
„Aldri göngum vér trúnni frá;
í yðar valdi er sem má
oss að leggja dauðann á.“
35. „Illa mun ganga á minn sann
fyrir átrú ranga,“ sagði hann;
„þér skuluð fanga fullvel þann,
sem fæsta langa eftir kann.“
36. Riddari einn var kóngi kær,
kvöld og morgna gekk honum nær;
Patríces, það vitum vær,
var hans nafn; sá lukku fær.
37. Hann nam trúa á helgan Krist
heimugliga, með allri list,
af heiðnum neyddur harðri vist;
hafði fyrir það einörð misst.
38. Gekk fyrir kóng og gæfu bað,
gerir so haga orðum að:
„Náðugi herra, heyrið það,
hvað eg til legg í annan stað.
39. Ef yðar þætti æðstri náð
eins og mér um þetta ráð,
hef eg að því gjörla gáð;
gjörist að heyra þörfin bráð.
40. Eg vil taka börnin blíð
beint með mér á þessari tíð,
undirvísa árla, síð,
ef yðar trú þeim kennist fríð.
41. Ef það tekst á öngan veg,
annað ráð skal sjá til eg;
séu þau í þessu treg,
þá tvímæli allt af dreg.
42. Þau skulu ekki gjöra oss grand
né ganga lífs um nokkurt land;
eg skal þeim hefna harðri hand,
heiti eg því með tryggða band.
43. Eg skal fyrir þeim eitthvað sjá;
aldri skulu þau lífi ná.“
Pródus kvað við kærligt já;
kóngi síðan gengu frá.
44. Pontus og so öll börn smá
óvænt þótti horfast á,
ekki meintu annað þá
en þau mundu dauðann fá.
45. Allsvaldandi einn guð er,
um aldir sína miskunn lér,
hjálpar þeim í hörmung fer,
af himnum þeirra ánauð sér.
46. Riddarinn leiddi börnin brátt
beint með sér í húsið smátt,
gjörði að hóta grimmu þrátt,
ef gleymdu ei sínum tekna hátt.
47. Anza börnin öll á mót:
„Ei vér hræðunst þvílík hót;
vér tökum ei veika makt í mót;
Machúmets trú er yfrið ljót.“
48. Riddarinn fann þau full með dygð,
föst í trú fyrir utan blygð;
þar af fékk hann fagra frygð
og fagnar þeim án allri styggð.
49. Blíður spurði börnin þá,
hvört borðað hefðu nokkrum hjá;
honum hið sanna hermdu frá,
að hungur liðu um dagana þrjá.
50. Drykk og fæðu gaf þeim greitt;
guðsbörn ekki vantar neitt;
er þeim nú með öllu veitt,
sem eftir kann að verða beitt.
51. Börnin ræða beint um það,
hvört bera skuli sig fæðu að:
„Oss á að deyða öll í stað.“
En þau Pontus þegja bað.
52. Hann huggar þau og hermir þá:
„Hjartans vinir, lítið á.“
Kvað í herrans höndum stá
að hjálpa písl og dauða frá.
53. „Vér vitum það, að einn guð er
almáttugan játa ber;
hann vora neyð og vanmátt sér;
verum glaðir, hvað sem sker!“
54. Hrópa þá með hárri raust
af hjarta og munni efalaust,
báðu guð með blíðri raust
börnum sínum veita traust.
55. Riddara þóknast, rétt eg tel,
ræða Ponto yfrið vel,
baðst þá fyrir með blíðu þel,
að börnin sláist ekki í hel.
56. Frá þeim víkur geysigreitt
gengur að sjó með fólk ei neitt;
en ef fleira verður veitt,
vænt hann keypti skipkorn eitt.
57. Bjó til skip og bera lét fljótt
bjór og vín á þeirri nótt,
um sig hafði heldur hljótt,
honum var ei með öllu rótt.
58. Byr var nógur, en bilar ei rá;
bjó til skip sem fljótast má,
mat og drykk um mánuði þrjá;
mun þeim endast kostur sá.
59. Í sínu valdi hafði hann
heldur gamlan kristinn mann
dagliga þenkja á dauðann vann,
drottin lofa tíðum kann.
60. Honum í hendur börnin blíð
bráðliga fékk á þeirri tíð,
áminnandi árla og síð
ekki dvelja langa hríð.
61. Leggja bauð í leyni eitt,
lét þeim allt í hendur greitt;
hamingju guð þá hefur þeim veitt,
á haf út komust yfrið breitt.
62. Skipmann tók sér eina ár
og fyrir börnin þessi gár,
er nú glaður, en ekki fár;
efni í góðan punkt að stár.
63. Ungi Pontus anzar þá
í annað sinn sem heyra má:
„Góði vin, vér gjörum tjá
guði lof þú ert oss hjá.
64. Göfgum hans guðligu náð
góða forsjá hefur oss tjáð;
vort allt biðjum hann vernda ráð;
vera mun til þess þörfin bráð.
65. Fær oss rétt í Flandern þú,
til Frakka ríkis ella snú;
það væri gæfa guðlig nú,
góð ef tækist ætlan sú.“
66. Þessu játar skipmann skjótt,
skipar þeim gleðjast öllum fljótt:
„Vér höfum mat og vista gnótt,
vor mun ætlan ganga ótt.“
67. Eðli Pontus heyrði hann,
hvað þar talar hinn gamli mann;
hjartað gleði og fögnuð fann;
fyrir þá náð hann drottni ann.
68. Biður þau falla á bæði hné,
blessuðum guði þakkir té;
honum um aldir heiður sé,
af hvörs manns tungu lofið ske.
69. Barnið hvört með blíðu geð
biðja þanninn fyrir sér réð,
væri guðs það vilja með
að vernda oss sá náð fær téð.
70. Síðan allt að settu traust
á sannan drottin efalaust,
sungu lof með sætri raust,
af sorgum öllum gjörðust hraust.
71. Pontus sigldi af sagðri hafn,
sjónar lét hann fljúga hrafn;
honum er engi að heiðri jafn,
hefur alltíð varandi nafn.
72. Vindur landi veik þeim frá,
veðrið stóð í seglin há,
ýta hlaut þeim aldan blá
undan landi, fram á sjá.
73. Sinna feðra firrast dyr,
fjölgar nauð og allan styr,
staðir og lönd að stóru kyrr,
steytti þau frá landi byr.
74. Látum mæta sigla um sjá,
sátu að gæta stjórnar þá;
káta vætir glýjan grá;
gátu bæti hvör sem má.
75. Allir virða efnið mitt,
orðgnótt stirða, en prísa sitt;
ei mun eg hirða um þann kvitt,
öngra byrða leita vítt.
76. Ef elska sjálfs að er í för,
ei fæ eg á dómi kjör;
sína fordild sækir hvör;
svo eru flestra bræðra pör.
77. Vegsemd önga virðing ber;
vanþökk heimur í staðinn tér;
grandvarliga gæt að þér;
guð himnanna allt að sér.
78. Líður á nátt, en lauka gátt
lætur dátt til sængur brátt;
lykta eg þátt á þennan hátt
þiggja mátt og gjör þér kátt.
Pontus rímur
Fyrri ríma: Þessi ríma: Næsta ríma:
1. ríma 2. ríma 3. ríma


Heimild[breyta]

  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.

Þessi síða hefur verið prófarkalesin.

Á eftir fjórðu vísu vantar punkt í útgáfunni og er það leiðrétt hér.