Pontus rímur/4. ríma

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

IV RÍMA[breyta]

Pontus rímur
eftir Magnús Jónsson
1. ríma Ferskeytt
2. ríma Samhent
3. ríma Gagaraljóð
4. ríma Braghent
5. ríma Stafhent
6. ríma Ferskeytt (með tilbrigðum)
7. ríma Skáhent
8. ríma Ferskeytt
9. ríma Samhent, framrímað
10. ríma Ferskeytt
11. ríma Ferskeytt
12. ríma Úrkast
13. ríma Stafhent

Braghent

1. Elska þessa efnis bað mig aftur skunda;
so er eg rímna fús til funda,
ef fljóðin vildu þar til stunda.
2. Eitt er það sem eg hefi að gáð um ævi mína:
allir safna auð fyrir sína,
aldri meina það skuli dvína.
3. Ætla þar fyrir allt muni þeim að óskum ganga,
í hættu þar fyrir hvörja spranga
og hirða ei, hvörjir góssin fanga.
4. Þá minnst að varir dauðinn dapur dæmir feiga;
síðan njóta sízt er eiga;
að sönnu jarðneskt góss er leiga.
5. Eg man þetta oft hafa skeð á ævi minni;
ekki tel eg þá upp að sinni;
engin trú eg þörf til vinni.
6. Heimskur er sá hvör það gjörir í hug sér festa;
reikna eg þetta ráð hið vesta;
reyndar skal það ekki bresta.
7. Eg vil kenna börnum góssi beztu að safna;
ef þau vilja hinu hafna,
hljóta munu lukku jafna.
8. Ofan á þetta aldri kann úrættis ganga;
enginn má það frá þeim fanga
fyrir sinn dóm eða lygi ranga.
9. Náðugan guð þér leifið yðar líkams örfum;
sá mun duga í þeirra þörfum,
í þrautum hjálpar trúardjörfum.
10. Þar hafi þér hann Abraham fyrir eftirdæmi
og af Davíð dýrligt næmi,
hve drottinn fór með þeirra afkvæmi.
11. Þar næst kennið yðrum börnum alls kyns mennter;
það sem vísum lýðum lént er,
til lofs og frama bezt að hent er.
12. Öxlum þeirra er það bera enginn þungi;
stelur ekki pening úr pungi;
plagar so hegða rétt hinn ungi.
13. Þetta góss er frjálst af leigu og ferjutollum
hleypur með þeim í háska öllum;
hætt er ei við stórum föllum.
14. Enginn kann þess allar dygðir upp að telja;
kost áttú að kaupa og selja,
kjós hvörtú vilt heldur velja.
15. Börnin stóðu í stríðri sorg og stórri mæðu,
að þrotum komin flestri fæðu,
fanga mundu land, ef næðu.
16. Frá Mólógrant að lukkan þessa lýði sendi,
við Britannía litlu lendi;
löng var nauð fyrir þeirra hendi.
17. Vindur og sjórinn voru so stór, að vill ei þrjóta;
loks um síðir byrðing brjóta
í bratt eitt sker upp víkja hljóta.
18. Upp í skerið öll þau koma, eyðist pína;
þá tók fyrir þeim þraut að dvína,
og þakka guði miskunn sína.
19. Báðu síðan blessaðan guð sér björg að veita,
öll á hann af hjarta heita;
hjálpar mun þeim aldri neita.
20. Sá góði guð lét föðurlig augu ei frá þeim venda,
huggun vill hann sínum senda;
sé honum lof fyrir utan enda.
21. Þar var klaustur nýtum nærri, er nauðir líða,
landið skógi vaxið víða;
verður barna frásögn bíða.
22. Britannía stýrði kóngur stoltra jafni;
Árgils þessi er að nafni,
óspart bráðir veitti hrafni.
23. Hann var frómur, hoskur, trúr og hniginn elli;
þessi kóngur prýddur pelli
plagaði heiðna leggja að velli.
24. Hann var vanur úr hörðu stríði hvörgi flýja;
hans drottningin heitir Lía
hertugasystir af Normandía.
25. Hún lá sjúk af ámu mjög, so ei má hræra,
sig kunni ei úr sæng að færa;
sér þau áttu dóttur kæra.
26. Sídónía svinnust kann við sorgum hlífa,
gamna styggðu geði vífa
og gleðiangur í burtu drífa.
27. Af dygðum, fegurð, siðum og sæmd, að so má inna;
hennar líka, heiðurs kvinna,
í heiminum mátti ei þann tíð finna.
28. Alla hennar prýði ekki þarf eg orðum skreyta;
jungfrú hvör skal heiðurs neyta
og henni kunna eftir að breyta.
29. Ráðsherra var haldinn einn, sá Herlant nefndi,
dýraveiðar stórar stefndi,
stigamönnum grandið efndi.
30. Riddari þessi reið á skóg að réttum vanda;
Herlant lítur hjört einn standa,
honum vill með spjóti granda.
31. Að sjónum hleypti hjörturinn þá og Herlant eftir;
frægur ekki ferðum heftir,
fyrri en dýri að lyktum sleppti.
32. Síðan lítur sitja börn í sjóvar klettum;
honum er næsta fýsn á fréttum
og fregna þau að málum réttum.
33. Hann réð spyrja hvellu máli, hvörjir væri,
síðan ríður sjónum nærri;
þau svara honum röddu skærri:
34. „Vær erum börn og ættuð öll af öðrum þjóðum,
yfrið þyngd af þrautum móðum;
þér komuð oss á tíma góðum.“
35. „Galisía gjörði kóngur gildur stýra;
hér má sjá hans soninn dýra,“
so réð Únítas Herlant skýra.
36. „Pólídas hlýtur frændi hans og forlög kanna.“
Allt þau honum sögðu hið sanna:
„Synir erum vér herramanna.“
37. Riddarinn sýndi Pontus heiður og Pólídas meður;
minnka tók að vísu veður;
vel hann þau í orðum gleður.
38. Fram í skerið ríða gjörði riddarinn strangi;
í sínu burt hann flutti fangi
fjörutigi börn, þó erfitt gangi.
39. Síðan kom í kóngsins sal, er kveðjur falla,
greina tók nú athöfn alla;
ókjör náðu flestir kalla.
40. Þá Árgils fregnar fráfall kóngs og friðar gröndun,
kristna menn í heiðinna höndum,
hrakta, kvalda, strengda böndum.
41. Kóngurinn grætur, því að hann harmar þann hinn dauða;
með grimmd hann hatar gæfusnauða,
sem gjörðu kristnum afla nauða.
42. „Tíbúrt, eg og Frakka kóngur fylgdunst lengi,
í Hispanía höfðum gengi
heiðinna þjóða brytja drengi.
43. Þakkir vil eg gjöra góðum guði að vanda,
hans son lætur hjá mér standa
og herrasyni Spanía landa.“
44. Hrópar kóngur hárri röddu á Herlant þenna:
„Þú skalt menntir kóngssyni kenna,
sem kanntú bezt um veturna þrenna.“
45. Síðan bauð hann greifum og herrum hvörra hinna
list og frægða verkin vinna
og veraldarskemmtan alla finna.
46. Pontus lærði skot og sund og skylming efla,
hamra renna, hending kefla,
hlaupa, steðja, skák að tefla.
47. Að vizku, fegurð, vöxt og auðmýkt var yfir alla;
margir réðu hann klénan kalla,
sem kunnu málið innan halla.
48. Orðtak var það allra manna innan landa:
„Að hæversku, kurt og hofmanns vanda
honum mun engi á sporði standa.“
49. Hræddist guð og heyrði hans orðin, hvar sem kunni,
heiðurinn sótti af hjarta og munni,
hvörjum manni í landi unni.
50. Frómur lét sitt fyrsta verk að fara í klæði;
sér honn þvoði og söng sín fræði;
að sermón frá eg í kirkju stæði.
51. Aldri fyrri át né drakk en endast tíðir;
einum sermón sjálfur hlýðir,
so gekk hann til borðs um síðir.
52. Af borðum sínum aumum gaf og alltíð sendi,
áður en fæðu át og kenndi,
aldri var svo smátt fyrir hendi.
53. Enginn heyrði unga Pontus eiða sverja,
sig gjörði með sannleik verja,
ef sveinar á með lygi herja.
54. Líkt var glaður í leikum, hvört hann léti eða hlyti;
af hvörju sem hann hreppti býti,
hélt hann það fyrir engin lýti.
55. Ef menn gjörðu órétt honum einu sinni,
bað hann þá með blíðu inni,
að bragnar það ei oftar vinni.
56. Aldri gekk til leiks, þar framið var last eður reiði;
á því var honum allur leiði;
hjá illu trú eg hann jafnan sneiði.
57. Enginn hreppti angur af hans orðum neinum;
lét hann ei af gleðigreinum,
góður öllum dándisveinum.
58. Ónýtt fólk, sem aðra lagði í orða ræðu,
á því hafði hann fulla fæðu,
flestir þó á sönnu stæðu.
59. Ef þeir frúr og eðelmenn í orðum lesta,
minnka heiður meyja eður presta,
mislíkaði hið allra vesta.
60. Oft hann sagði ógótt væri öllu að trúa,
kvað menn skyldu förlan frúa
fyrir þeim til bezta snúa.
61. Lítilæti, auðmýkt og so alla prýði,
að heiðri þekkur hofsins lýði,
hatur og lýti alltíð flýði.
62. Ef hann mætti eðelmanni út á stræti,
ofan tók með lítillæti;
lét hann sitt fyrir gömlum sæti.
63. Siði bar sem dygð og dáð yfir drengi alla;
flestir máttu hann klénan kalla;
kann hans líkinn finnast valla.
64. Arma hans og annan vöxt má enginn víta;
eins og snjór var hörundið hvíta;
hann var eins og engill líta.
65. Andlitsrjóður og eygður vel í allan máta;
einn það gjörði öðrum játa,
að hann vænstan heita láta.
66. Sídónía af honum spurði allt hið rétta;
dygð hans náði fríðust frétta,
festi strax í hug sér þetta.
67. Oft bað guð þess, að hann mætti hún augum líta,
hæversku, dygð og hörundið hvíta;
hjartað jungfrú tók að bíta.
68. Bar hún af hvörri fremd og frægð í Frakka ríki;
hvörgi fannst þá hennar líki;
hróður er bezt á enda víki.
Pontus rímur
Fyrri ríma: Þessi ríma: Næsta ríma:
3. ríma 4. ríma 5. ríma


Heimild[breyta]

  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.

Þessi síða hefur verið prófarkalesin.