Pontus rímur/5. ríma

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

V RÍMA[breyta]

Pontus rímur
eftir Magnús Jónsson
1. ríma Ferskeytt
2. ríma Samhent
3. ríma Gagaraljóð
4. ríma Braghent
5. ríma Stafhent
6. ríma Ferskeytt (með tilbrigðum)
7. ríma Skáhent
8. ríma Ferskeytt
9. ríma Samhent, framrímað
10. ríma Ferskeytt
11. ríma Ferskeytt
12. ríma Úrkast
13. ríma Stafhent

Stafhent

1. Nú er eg fús að fara af stað,
þó fræðum kunni eg lítið að,
brotinn fjórða bæta upp hátt;
beðið hafa þess margir þrátt.
2. Þeir sem elska gleði og glaum,
gæti að hafa siðanna taum;
fyrir utan dygð og æru má
engin skemmtan lengi stá.
3. Ef allt fyrir mátann yfir að gár,
eftirköst í launin fár;
nú skal stofna staðfast ráð,
sem stundum verður lítt að gáð.
4. Komi hér og heyri mig,
hvör sem ætlar að gifta sig,
hvörja kosti hafa á sú,
helzt sem ættir kjósa frú.
5. Gættu mínum orðum að,
ekki skal þér bregðast það;
kvennagóssin þau eru þrenn;
það skulu vita allir menn.
6. Hjartans góss er haldið stærst;
hér með fylgir líkam næst;
auðlegð heyrir og þar til
með öðru því eg greina vil.
7. Ótti guðs er örugg trú,
elska sönn af hjarta nú,
speki forsjál fyrr og síð,
fróm og réttlát allan tíð.
8. Hvar sem elska guðs er gleymd,
græðist aldri þvílík eymd;
forsmán öll á orðum hans
allan brýtur dygða krans.
9. Hvört er auðmjúk ella grimm,
opinber eður í lyndi dimm,
mann það strax á sjónum sér
sýnt hvört logn eður vindur er.
10. Af þeirra orðum merkja má
maður sá hvör, sem að vill gá,
af hjartans nægð að munnur mest
manna talar jafnan flest.
11. Rykti spyrja allir að,
oftast plagar að sannast það,
klæðnað þeirra og aðra art,
ef þær stunda mjög á skart.
12. Lausligt mark að lízt mér slíkt
og lýti stór fyrir hoffólk ríkt
að hlaða sig með silfur og seim,
sem þar til væri fætt í heim.
13. Klæði þau mann beztu ber,
sem bar þau fyrri sauður á sér;
ekki er þetta máti manns
að metna sig af flíkum hans.
14. Má eg segja mönnum, að
mér virðist ei hæfa það
annað skinn hafa út á sér
en innra manni sómi er.
15. Sjá þú til þess, segi eg þér,
selskap hvörjum fylgja gjör;
vini skalt þér velja þá,
sem vitið hafa og skynbragð á.
16. Hæfir skyn að hafa á því,
hvörjum garði ólst hún í
og svo hvörja breytni blíð
brúðurin hefur alla tíð.
17. Hvört sem hreppir sótt eður sár,
sorg eður annað líkams fár,
metnug til þín fjandskap fær,
fussar, ef hún kemur þér nær.
18. Auðmjúk búin alltíð er
í illu og góðu að fylgja þér;
hvört sem þykir ljúft eður leitt,
lætur sig ekki hindra neitt.
19. Ungri konu aldraður mann
ekki skyldi giftast hann;
þau eiga ekki saman um sið,
sín á milli halda frið.
20. Einatt hvört vill öðru mót;
atvik þeirra eru jafnan ljót;
eitt vill súrt, en annað sætt;
ónýtt það, sem heldur mætt.
21. Þá heitt vill kalt eður kviklátt dautt,
kost eður löst, það ríka snautt,
brotið heilt sem bogið rétt,
bundið laust sem kvistótt slétt.
22. Líkams góss skal greina brátt;
gömul orð að sannast þrátt;
flögð eru oft í fagri mynd;
fyrir það er sú ásýn blind.
23. Fagran vöxt og fríðleik með,
frúnum þó það verði léð,
ef þær breyta beint sem má,
betra er jafnan til en frá.
24. Góða siði dagfar dýrt,
dygða fjöldi og málið skýrt,
menntar vel á munn og hönd,
málin kunna leysa vönd.
25. Æska góð og heilsa hrein
hjónunum stýra á rétta grein;
bú sitt kunni að vakta vel,
vera hlýðin sem eg tel.
26. Þanninn gjör eg á þessu skil;
þetta heyrir líkama til;
þriðja góssi greini eg frá,
sem gjörir liggja maktin á.
27. Ríkdóm, virðing, ærleg ætt
og það fé, sem vel er grætt,
göfuga frændur, sem get eg enn,
er gjöra að stoða í nauðum senn.
28. Þetta skyldi hugsa hvör,
sem hafa mætti þessi gjör:
á hjartans góssi mektin mest
mönnum liggur jafnan bezt.
29. Annað bætast öllum má,
enn þó bresti nokkuð á;
sjaldan hleðst so allt á einn,
að ekki fylgi löstur neinn.
30. Eg hefi átta eina þá
ekki neitt að vantaði á,
þeirri var léð, og það skal tjá,
það sem kvinnu prýða má.
31. Nú hefur leitt frá heimi hér
hana drottinn burt með sér,
henni gefið hvíld og frið
um himnaríkis dýrðar mið.
32. Eftir þessa ungu frú
eg má bera sorgir nú,
þar til góður guð vill brátt
gera bót á einhvörn hátt.
33. Dróttin fyrir mér drepi ei út
eður dári mig, þó beri sút;
eg verð að geta hennar hér,
hvörsu lengi í veröldu er.
34. Glósað hef eg nú nú meir en margt,
meyjunum hvörninn skyldi vart;
nú skal segja sögunni frá,
ef sá er nokkur hlýðir á.
35. Eftir liðin árin þrenn,
alla boðar til hófsins menn
kóngur Árgils, kappa lið;
kætast munu flestir við.
36. Herlant með sér hafði þá
hinn unga Pontum greint er frá;
allur lýður hann augum sér;
æskti honum lukku hver.
37. Greifi af Lénal hafði hans
hýran frænda í þennan krans,
Pólídas, sem prísa hæst,
Ponto sjálfum gengur næst.
38. Kóngurinn Pontus kallar á
og kvaddi hann sem hermi eg frá;
báðu guð að gefa honum náð
og gleði fyrir allt sitt ráð.
39. Síðan hann með blíðu bað
fyrir borðum standa rétt í stað,
skenkja kóngi skírast vín
og skaranum kynna listir sín.
40. Kóngurinn Árgils heldur hóf
með herra, greifa og riddara lof;
Sídónía, sagt er frá,
í sínum sal hélt annað þá.
41. Frúr og jungfrúr fagna þá;
flokkur er sá vænn að sjá;
sem gleði er framin, gaman og skraut,
gáði enginn þaðan á braut.
42. Sídónía fregnar fríð
frægð af Ponto alla tíð,
bæði vexti og vænleik hans,
að væri ei slíkur innan lands.
43. Síðan hugsar hæversk á,
hvörninn megi hann augum sjá,
diktar ráð til dag og nátt,
að drósin megi hann líta brátt.
44. Eftir Herlant sendi sú
Sídónía, stolt jungfrú,
gaf honum fálka og fríðan hest
og fagnar honum sem kunni bezt.
45. Hugsar með sér Herlant nú
honum muni eitthvað vilja frú,
að sem ekki augljóst er
fyrir öllum þeim í salnum hér.
46. Innir jungfrú einka björt:
„Eyrindi var það, Herlant, vort
yðar dygð og æru að sjá,
sem oss er jafnan sagt í frá.
47. Eg meina Pontus prýði og makt
prís og lof sem heyri eg sagt,
þann sem mæla ýtar enn,
að árin hafi þér tyftað þrenn.
48. Færið oss hinn fríða svein
og fylgið honum í þeirri grein;
oss langar til að líta þann
landsins fólk af hjarta ann.“
49. „Náðuga frú, það nú skal ske
i nafni guðs nú yður í té.“
Hennar náð að þekkist það,
þá fékk orðlof ganga af stað.
50. Herlant tók að hugsa margt;
í hjartað fló sú ætlan snart
þennan heiður og fengið fé
fyrir hann Pontum veitt að sé.
51. Raunar frómur riddarinn var,
reyndur dygð og vizku snar;
sjálfur þennan gaf sér grun,
grand af slíku vaxa mun.
52. Pólídas í Pontus stað,
prúður hugsar ráðið það,
færa hann til frúinnar skal
með fremd í hennar breytta sal.
53. Sídónía frægðar fús
fór í lítið leyndar hús
og með henni æru vend
Elóis að nafni kennd.
54. Trúði henni hin tigna frú
og tjáði þetta efni nú,
hvörja girnd hún hefur að sjá
hinn unga Pontum sagt er frá.
55. Á húsi einn var gluggi gjör,
góða jungfrú út um sér;
Pontus bíður brúðurin fríð;
báðir komu loks um síð.
56. Af þessu megum skilja skjótt,
hvað skeður bæði dag og nótt,
að meyjar hugur hjá mönnum er,
þó misjafnt láti finna á sér.
57. Hugurinn segir löngum leið,
þó líði tíminn nokkur skeið;
bágt er girnd að brjóta þá,
sem beggja hjörtun standa upp á.
58. Sídónía svinnust gekk
til sætis aftur í kvenna bekk;
fagna þær með fremd og kurt,
fá þær komu Ponto spurt.
59. Pólídas víkur prúðust að,
prýðilig hann sitja bað,
skipar honum sjálfs síns sess;
synjar hann með öllu þess.
60. „Á yðrum stóli eg ætla nú
ekki að sitja, náðuga frú;
þetta ei eg þiggja vil;
það heyrir með öngu til.“
61. Sídónía svaraði þá:
„Sitja megi þér oss í hjá,
að kurt og ættum komnir þér
kóngsbarn ekki síður en vér.“
62. Sveinninn gaf henni aftur anz:
„Eg er Pólídas, frændi hans,
er hér kominn á yðar náð
æðsta líta prýði og dáð.“
63. „Eg meinti Pontus mundi hér
í mínum sal, sem standi þér.“
Höndlar hann með fremd og frægð;
funda skeði það sinn bægð.
64. Herlant lætur kalla klén,
kurtis jungfrú aftur í gén;
virtist honum valla blíð
vera mey á þeirri tíð.
65. „Bað eg yður með blíðu næst,“
brúðurin svarar Herlant glæst,
„Ponto hingað færa fyrst,
svo frúnnar sína bæti lyst.“
66. „Því hafi þér svo þanninn breytt,“
þýðust talaði gulli skreytt;
„ætlan þín er yfrið ljót
og æru minni þvert á mót.“
67. Riddarinn merkti reiði móð
rétt af jungfrú, þar hún stóð,
auðmýkt hafði alla þá,
so yndi hennar mætti ná.
68. „Náðuga frú, það forlát mér
fyrir þann guð á himnum er,
gekk mér ekki ódygð til,
yðar boð eg fylla vil.
69. Þá var ekki þann tíð frí,
þénti Pontus salnum í;
nú skal fara á nýja lund,
nýtan leiða á yðar fund.“
70. Sídónía svarar hér:
„Sjálfir máttuð dvelja fjer
og ekki færa annan mér
í hans stað sem gjörðu þér.
71. Herlant, skulu þér óttast ei,
enginn segi við því nei;
eg veit minn heiður að vakta í stað,
vil eg þér ekki efið það.“
72. „Eigi þetta efa eg kann,
ó, jungfrú,“ að sagði hann;
"yðar föður eg óttast mest,
á eg honum að reynast bezt.
73. Hér með og so óttast eg,
ef aðrir spyrja á nokkurn veg,
öfunda Pontum æ þess meir,
ef yðar virðing skilja þeir.
74. Má hún skaða á marga leið
mannsins tungan illsku greið;
til vestra lýta virðir hvör,
veraldar eru það jafnan pör.
75. Sídónía hermir hér:
„Hafðu öngan efa á mér;
vildi eg heldur vera deydd
en vor sé tignin heiðri sneydd.“
76. „Að vísu, jungfrú, vil eg það
væri satt,“ að Herlant kvað;
„nú skal leiða hingað hann
og hraða ferð sem mest eg kann.“
77. „Bið eg yður bregða ei það,“
brúðurin talar í annan stað;
„dvel ei lengi að vísu við,
vil eg bætist fyrra snið.“
78. Ljótur vani líðst um heim;
liggur mér við að blóta þeim,
sem hindra þau, er hafa sig rétt
handlagt saman í ektastétt.
79. Býr sú til hin beiska dvöl
báðum þeim þá vestu kvöl,
þar hvört að annars hugsar til,
en hirða ei önnur gleðispil.
80. Herlant gekk úr hennar sal,
hæverskliga endar tal,
Pontum leiða ljósrar til;
lyktar ekki fyrri spil.
81. Sídónía gengur greitt
glöð og kát í húsið eitt,
ef sæi Pontum svinna mær;
sátu nú við gluggann þær.
82. Elóis lítur einatt út,
angri firrð sem trega og sút,
síðan hleypur úr sínum stað
Sídóníu meyju að.
83. „Hér fer vænstur heimi í
hvað skal mér að leyna því.“
Sídonía flimtrar flest;
fagnaður því olli mest.
84. Þar næst gengur að glugga frú;
getur að líta báða nú;
leit hún Pontum ljósa þar;
langt hans prýði af öllum bar.
85. Undrast, þegar hann augum sá,
Elóis hún kallar á:
„Hann vænn að máta vísu er,
virðist ei so, jungfrú, þér?“
86. Elóis segir ekki mann,
engill heldur væri hann:
„Eigin hendi guð hefur gjört
góður hann,“ kvað mærin björt.
87. „Á minn eið,“ að sagði sú,
Sídonía, stolt jungfrú,
„söguna þessa sannar mær.“
Í salinn aftur gengu þær.
88. Pontus kemur og Herlant heim;
hvítar fagna meyjar þeim;
kveðja þær með kurt og dáð;
kætast tekur frúinnar ráð.
89. Sídónía mitt á mót
mætum gekk með kærleiks hót;
leiðir hann hin ljósa fús
lofliga í sitt kóngligt hús.
90. Biður hann sínu sæti í
sitja, en hann neitar því.
„Þetta er ekki möguligt mér
mekt að þiggja, sem bjóði þér.
91. Eg er ungur og yfrið smár
óverðugur þess, jungfrú klár.“
Auðmýkt sýnist ágætlig,
í öllum hlutum lækkar sig.
92. Sídónía svarar þá:
„Sýni þér oss mikla þrá.“
„Þér eruð kyns,“ kvað kostuleg,
„kóngsbarn ekki síður en eg.“
93. Pontus segir lýði og lönd
lúta undir jungfrú hönd.
„En eg er fátækur og á ei neitt,
utan það kóngur hefur mér veitt.“
94. Klénust svarar kyrtla skorð;
„Kæri, talið ei þessi orð;
guð skóp yður á önga lund
að yfirgefa neina stund.“
95. Pontus segir svinnri þá
sjálfum guði í höndum stá,
efni sitt og ágætt ráð
allt sé komið hans á náð.
96. Þanninn bíði þeirra tal;
þar af seinna greiða skal;
rímu læt eg lykta hér;
ljóða þrot að höndum fer.
Pontus rímur
Fyrri ríma: Þessi ríma: Næsta ríma:
4. ríma 5. ríma 6. ríma


Heimild[breyta]

  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.

Þessi síða hefur verið prófarkalesin.