Pontus rímur/7. ríma

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

VII RÍMA[breyta]

Pontus rímur
eftir Magnús Jónsson
1. ríma Ferskeytt
2. ríma Samhent
3. ríma Gagaraljóð
4. ríma Braghent
5. ríma Stafhent
6. ríma Ferskeytt (með tilbrigðum)
7. ríma Skáhent
8. ríma Ferskeytt
9. ríma Samhent, framrímað
10. ríma Ferskeytt
11. ríma Ferskeytt
12. ríma Úrkast
13. ríma Stafhent

Skáhent

1. Það mun ráð um Sónar sáð
sjöunda birtist tíma,
finna lag og lengja brag;
að lyktum byrjast ríma.
2. Förlast svar það forðum var
furðugreitt að anza;
bannar mér nú mótkast hér
megin, gleði og dansa.
3. Þó skal hryggð úr hjartans byggð
hrinda af öllu kappi,
so þeirra háð, sem hafa mig smáð,
harla fjærri stappi.
4. Ekki neitt skal vera þeim veitt
vont af minni hendi;
hvör veit nú nema háðung sú
hjá þeim sjálfum lendi.
5. Þá veitir blítt, má vænta, að strítt
vefji oss sorgar böndum;
í dag er mér á morgun þér
meingjörð vís fyrir höndum.
6. Þá hugsar víst, að hann muni sízt
hnekkjast sinni gleði,
oftast blað um vendist það
ætlar sízt að skeði.
7. Lukkan hér svo hvirful er
hvörjum til sinna gæða;
upphaf blítt plagar einatt títt
endir hryggvan fæða.
8. Ræð eg þeim, sem hugsar á heim,
hann sig sjálfan þekki,
að horfi þá so hamingju á,
að hrapi um síðir ekki.
9. Hjólið er valt, það hefur allt,
hrapar niður til grunna;
það lága þrátt að hefst upp hátt,
ef hamingjan þess vill unna.
10. Hvört sem skeður mót eða meður,
misjafnt kann að ganga,
alla stund á eina lund
ævi haldi langa.
11. Annað er það ekki mér
og svo gár úr minni;
hér eg þá vil herma frá,
hvað mér býr í sinni.
12. Það er nú mest í veröld vest
vill einn annleiks njóta,
enginn mann þorir á minn sann
orði fyrir hann skjóta.
13. Hræðist vald, að hann muni gjald
hafa fyrir einörð sína;
vinskap meir að meta þeir,
en mútur suma pína.
14. Í dómum helzt að vísu velst
vilji nokkra manna;
það lýsist brátt, ef leitast smátt;
lýtin dylja hið sanna.
15. Menn láta stéttir, lög og rétt
löstu ei um vanda,
ríkja tjón og religión
rækslulausa standa.
16. Gleymist guð og gjörvöll boð,
sem gaf hann oss að halda;
enginn vill fá atvik ill
né orða sinna gjalda.
17. Hvað hugsi þér, að hreppum vér,
þá herrann kallar dauða;
hörðust hér að höndum fer
hörmung allra nauða.
18. Óttunst guð, en alls kyns nauð
einatt forðunst ranga,
so megum þá með gleði gá
fyrir guð í dóminn stranga.
19. Góss og líf sem lönd og víf
látum fyrir það rétta;
guð mun mest með blíðu bezt
bítala aftur þetta.
20. Dæmafjöld að fást ei töld,
er forðum daga skeðu,
gæfu þá, sem gjörðu fá
fyrir guði, er forsvar téðu.
21. Hér er nú eitt, sem hefur mig beitt
hölda sveit að greina,
dikta há nú dýrum frá
dæmisöguna eina.
22. Þá veizlan stóð með gleði góð
og gaman að hvörju bragði,
kom einn mann í klénan rann,
kóngi boðskap sagði.
23. „Komin er hér, sem greini eg gjör
glöggt með orðum sanna,
heiðin sveit, sem hvör mann veit,
með hundrað þúsund manna.“
24. Gleðin þraut, en gengu á braut
göfugir menn úr höllu;
sorg í stað þeim sótti að
og sigrar þá með öllu.
25. Á miðjum dag, þegar minnkar plag,
mest vill nú til sorgar;
riddari brátt með röskvan mátt
ríða sást til borgar.
26. Eðelmenn tveir að tignum þeir
traustum fylgja þegni;
hann segir þá brátt af bezta mátt
boðskap eftir megni:
27. „Af Babílon að soldáns son,
sá sem Códrus heitir,
býður þér með britskum her
brodda efldist sveitir,
28. utan þú af þinni trú
þenkir nú að láta;
minnkast goð og mektar boð;
Machúmet skaltú játa.
29. Þar með skatt og skyldur hratt
skaltú kóngi gjalda;
ef annars sker, þá áttu þér
eymd fyrir höndum kalda.
30. Britanníá mun brenna þá
beint í logandi eldi;
hann deyða mun að mínum grun
menn í þínu veldi.“
31. Þá hann Krist sem kunni byst
kallsað hafði lengi,
hræðslu þó og þögn að sló
þegar að kóngsins mengi.
32. Riddarinn var sá harla hár,
hraustur og styrkur mætti;
öngan fann í heimi hann
honum jafn sér þætti.
33. Pontus leit, að lýða sveit
lostin var með angri;
enginn neitt gaf andsvar greitt
ógnaræðu langri.
34. Gengur brátt með hreystihátt
hann fyrir kónginn ríka,
segir sér raun í reiðilaun
ræðu heyra slíka.
35. Féll á hné sá firrist spé,
frænings þaktur grjóti,
orðlofs bað og öðlast það
andsvar greiða á móti.
36. Pontus gekk að gildum rekk,
gjörir svo orðum venda:
„Þín mun trú, sem tjáðir þú,
taka einn vondan enda.
37. Veit mín trú mér virðist þú
valla af manni skera;
tækdur er hann, sem telur þig mann
tungulausan vera.
38. Enn vill guð úr allri nauð
öllum sínum bjarga;
herra þinn skal, heiðingi minn,
hafa til fæðu varga.
39. Skattagjald og skyldugt vald
skulu þér aldrei hreppa;
heiður og prís sem hamingjan vís
úr höndum mun þér sleppa.“
40. Riddarinn biður sig reyna við
röskva tvo, ef vildi:
„Þá hittist nú, hvör helgri er trú
og hærra þykir í gildi.“
41. Prúður svar gaf Pontus þar,
plagar fús að stríða:
„Tveimur er brák að beizla fák
burt við þig að ríða.
42. Eðelmann minn, að ofsi þinn
ekki er hóf að dafni;
þenki eg brátt á þennan hátt
þinn muni finnast jafni.
43. Ungur em eg á allan veg
orrustu við þig heyja;
eflaust skal fyrir okkar tal
annar tveggja deyja.
44. Hér skal nú fyrir helga trú
hætta mínu lífi,
láta sjá, hvör meira má;
minn guð trú eg hlífi.“
45. Kastar niður kesju viður
klárum sínum glófa:
„Mig fýsir þess, og það er ei gets,
þína hreysti að prófa.“
46. Anzar þá, sem inni eg frá,
öðlings sveininum fríða:
„Annan til eg einka vil
út með þér að ríða.“
47. „Eg vil einn,“ kvað ungur sveinn,
„afl þitt fyrstur kanna;
ei eg þarf í styrjar starf
styrkinn fleiri manna.“
48. Kóngur hryggð og stóra styggð
strax fékk heyrðra orða;
hirðin öll á víðum völl
vill honum burtreið forða.
49. „Mig angrar það,“ so kóngur kvað,
„ef kurtis skaltú bjóða
burtreið þeim, sem ber um heim
bezt lof allra þjóða.“
50. Pontus bað hann bregða ei það
beint og hugsa skyldi
Davíð, þann hinn mikli mann,
mjög vel Golíat felldi.
51. „Gjör mig heldur, herrann gildur,
hoskur af gæzku þinni,
riddara brátt á beztan hátt
og bregð ei ætlan minni.“
52. Fylkir slær, sem fregnum vær,
frægur riddarann prúða,
honum fær í hendur tvær
herjans bjartan skrúða.
53. Fékk honum sverð með gylltri gjörð,
gripur fannst ei vænni;
þar með hest, sem hér kann bezt
að hlaupa á jörðu grænni.
54. Frægðir jók og tygjast tók
tiggja sonurinn mildi,
setur upp hjálm með handar málm
og hélt á gylltum skildi.
55. Herskrúð var, sem herrann bar,
hulið dýrum steinum;
ljóma brá þar langt í frá
sem loga af eldi hreinum.
56. Reiðskap þann, sem hafði hann,
huldi ægirs ljómi;
síðan sprang á söðla Gang
siklings arfinn frómi.
57. Þá var blíður furðufríður
fús til hreysti leita;
lofaði allur lýðurinn snjallur
lofðungs soninn teita.
58. Margur grét, þá mildur hét
við manninn heiðna stríða,
aumka, þá so ungan sjá
einn á burt vill ríða.
59. Kóngur dýr og drottning skýr
döpur til hans líta,
lukku báðu lengi af dáð
lofðungs arfa hvíta.
60. Ríður á braut með skart og skraut
skrýddur kóngsson pelli;
hittast þá sem herm eg frá
herrar tveir á velli.
61. Hryggðar ör í hjartað snör
hilmirs dóttur fleygði,
kvinnum þá stóð kurtis hjá,
kóngsson valla eygði.
62. Senda lét sú syrgði og grét
svinnust Ponto merki;
gladdist þá, er þetta sá
þengils sonurinn sterki.
63. Þakkar brátt á beztan hátt
brúði gjöfina fríða,
hristi spjót og hleypti á mót
hinum, er út vill ríða.
64. Hittast þeir á hestum tveir;
heiðna frá eg svo mæla:
„Ætlan þín er ekki fín;
æskan mun þig tæla.
65. Vel þér einn, hinn væni sveinn,
vaskan mann að fylgja,
barn ertú að berjast nú
og brytja fæðu ylgja.“
66. Prúður svar gaf Pontus þar,
plagar ei ræðu langa:
„Þú skalt af mér fyrir metnað hér
maklig gjöldin fanga.
67. Annað þarf í þetta starf
þiljur Óðins döggva
en yggla þig eður ætla mig
í orðum niður að höggva.
68. Þörf er nú á þína trú,
að þér skal Machúmet bjarga;
heyrðú mig, eg hugsa þig
hafa til fæðu varga.“
69. Keyrði hest sem mátti mest
mildings sonurinn harði
og hleypti þá sem hraðast má;
hvörgi annan sparði.
70. Í gegnum háls á stýfir stáls
sterkt varð spjót að ganga;
Pontus hlaut, þá beztu braut
burtstöng sína langa.
71. Heiðni mann að hæfði hann
hvössum styrjar broddi;
stöngin hrökk, en hlífin klökk
hvörgi skarst fyrir oddi.
72. Pontus brá, sem birti eg frá,
björtu hlífar grandi;
hjálmsins blik að hrepptu svik;
hinum vill aukast vandi.
73. Andlit þó hann af honum hjó
öðlings son með sverði;
undir þær hann af honum fær
aldrei græddar verði.
74. Hinn heiðni þá hann hlaut að sjá
hlífar litast dreyra,
gramdist mest og gjörir nú hest
greitt að Ponto keyra.
75. Grimmur högg að gaf þá snögg;
greinir þetta ríma;
prísast sá, en prúðum þá
Ponto lá við svíma.
76. Heiðni brátt að missir mátt;
miklar blæða undir;
valla hann á hesti kann
að hræra sig um grundir.
77. Pontus snart að höggur hart
höfuð af gildum búki;
þeirra fund á þessa lund
þanninn trú eg lúki.
78. Þá var gleði, er það var skeð,
þengils dýru mengi,
þakka rétt, að það hefi eg frétt,
þetta drottni lengi.
79. Hér má sjá, að hamingjan þá
hrekur úr sessi fleiri,
sem aðra smá hér akta hjá
og öllum látast meiri.
80. Pontus frakkur stinnur stakk
strax í höfuðið sverði
framan á odd og ber svo brodd
beint með slíkum verði.
81. Heiðnum fær í hendur tvær
höfuð af riddara fínum,
biður þá skjótt með blíðu fljótt
að bera herra sínum.
82. „Segið bert, hvað guð hefur gjört
glöggt fyrir mig að verka,
að barnið eitt hafi drepið og deytt
döglings manninn sterka.
83. Yðar goð mega öngva stoð
einum sínum veita;
þrífst ei sá, eg það skal tjá,
þeim sem á þau heita.
84. Vor guð einn er ekki seinn
öllum sínum bjarga,
hjálpar þá hann hrópað er á,
heftir ánauð marga.“
85. Ríða þeir nú traustir tveir
tiginn kóng að finna,
inntu frá því orðna þá,
útveg ferða sinna.
86. Angur og þrá, sem inni eg frá,
ærna fékk af slíku,
ásamt gramur illsku tamur
með öllu hans mengi ríku.
87. Sá harmur ber so hjartað sker,
að heiðnum minnkar kæti;
lykta eg brátt nú þennan þátt,
þrifnust jungfrú bæti.
88. Í annað sinn skal ung og svinn
eiga von á betra,
lausnarinn ef líður minn
lifnað fleiri vetra.
89. Fyrst að þér eruð haldnar hér
helztar allra kvenna,
vilji er það enn af mér
þér eignist diktinn þenna.
90. Hvar sú er, sem heiðurinn ber
helzt yfir meyjar allar,
eigni sér enn óð af mér;
það endir á rímu kallar.
Pontus rímur
Fyrri ríma: Þessi ríma: Næsta ríma:
6. ríma 7. ríma 8. ríma


Heimild[breyta]

  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.

Þessi síða hefur verið prófarkalesin.