Rask

Úr Wikiheimild
Rask
höfundur Þorsteinn Erlingsson

Ljóðið var ort af Þorsteini Erlingssyni fyrir samkomu Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn í tilefni af aldarafmæli danska málfræðingsins Rasmusar Christians Rask árið 1887.

Þú komst þegar Fróni reið allra mest á,
er aflvana synir þess stóðu
og myrkviðrin umliðnu öldunum frá
þar eldgömlu skýjunum hlóðu,
en hamingja Íslands þá eygði þig hjá
þeim árstjörnum fyrstar sem glóðu;
og þaðan vér áttum þann fögnuð að fá,
sem fæst hefur komið að góðu.
Því fátt er frá Dönum, sem gæfan oss gaf,
og glöggt er það enn, hvað þeir vilja.
Það blóð, sem þeir þjóð vorri út sugu af,
það orkar ei tíðin að hylja:
svo tókst þeim að meiða´ hana meðan hún svaf
og mjög vel að hnupla og dylja;
og greiðlega rit vor þeir ginntu um haf -
það gengur allt lakar að skilja.
Hví mundi þó Ísland ei minnast á hann,
sem meira en flestir því unni,
sem hvatti þess drengi, sem drengur því vann
og dugði því allt hvað hann kunni,
og hjálpaði að reisa við helgidóm þann,
sem hruninn var niður að grunni.
Því lætur það börnin sín blessa þann mann
og bera sér nafn hans á munni.