Fara í innihald

Reisupassi Sölva Helgasonar

Úr Wikiheimild
Reisupassi
Höfundur: Sölvi Helgason
Heimild: Ný félagsrit 1849 bls. 153 - Hæstaréttardómar - Sölvi var dæmdur fyrir skjalafals, að hafa sjálfur skrifað reisupassann og falsað undir nafn sýslumanns.)

Sýslumaðurinn yfir Norðurmúlasýslu gjörir vitanlegt: að herra silfur- og gullsmíður, málari og hárskerari m.m. Sölvi Helgason Guðmundsen, óskar í dag af mér reisupassa frá Norðurmúlasýslu yfir austur- og suður- og norðurfjórðunga Íslands, til ýmislegra þarflegra erinda. Meðfram öðrum hans erindum, ætlar hann að setja sig niður í einhverri sýslu á þessari ferð sem annar handverksmaður, hver að er þó flestum handverksmönnum meiri, og betur að sér til sálar og líkama: og er hann fyrir laungu búinn að gjöra að sig nafnfrægan í norður- og austurfjórðungum landsins með sínum framúrskarandi gáfum á flestum smíðum, og á alla málma, klæði og tré; líka fyrir uppáfinningar og ýmsar fróölegar og hugvitsfullar kúnstir, en þó mest fyrir iðni, kapp, minni, ástundan, sálarflug, skapandi ímyndunarafl og kraft, bæði smekk, tilfinning og fegurð í öllum bókmenntum og vísindagreinum, líka svo fyrir karlmennsku, krapta og glímur, fjör og fimleika, gang og hörku, sund og handahlaup. Með sundinu hefur hann bjargað, að öllu samanlögðu, 18 manns, er fallið hafa í ár, vötn (ströng og lygn) og sjó. Á handahlaupum hefir hann verið reyndur við færustu hesta, bæði nyrðra og eystra, og hefir hann (að frásögn annarra en hans sjálfs) borið lángt af.

Margar eru hans íþróttir, fleiri og meiri, þó ekki sé hér upptaldar, og mætti þó tilnefna nokkrar, sem hann skarar fram úr öðrum í, sem eru: allar listir hér að ofan töldu, einnig frábær ráðvendni og stilling, góðmennska og lítillæti, hógværð og hreinskilni, greiði og gjafmildi og fl. Fyrir þessar dyggðir og listir, sem hann er útbúinn með, og sem hann sýnir jafnt öllum, af öllum stéttum, þá er hann elskaður af hverjum manni, í hverri röð sem er, sem verðugt er.

Þessi passi gildir frá 1. ágústmánaðar 1843 til þess 30. júníusmánaðar 1844, handa herra gullsmið, málara og hárskerara S. H. Guðmundsen, sem reisupassi, en að öllu sem fullkominn sýslupassi, ef hann setur sig niður í einhverri sýslu, eins og hér er getið um að framan.

Þessi passi gildir fyrir herra Guðmundsen héðan frá Norðurmúlasýslu yfir allan þann part landsins, sem hér er að framan skrifaðaur (þótt enginn embættismaður teikni á hann) heim til Norðurmúlasýslu aptur, ef hann setur sig ekki niður í einhverri sýslu á ferðinni, eins og hans áform er, sem fyr er sagt hér að framan.

Þessi passi gjörist gildandi fyrir herra silfur- og gullsmið, málara og hárskerara Sölva Helgason Guðmundsen, til að fara svo hart og hægt um landið, sem honum þóknast, á þessu tímabili, sem hér er fyr frásagt í passanum, því hann er í þeim erindum, er hann verður að hafa hæga ferð, en það er við náttúrufræði, að skoða grös og steina, málma og svo frv. En að vetrinum ætlar hann að skoða, hvernig veður haga sér til í hverju héraði á þeim parti landsins, sem hann fer um (eða reisir um), og þarf hann að halda miklar skriptir á öllum þessum tíma, bæði dagbækur, veðrabækur og lýsingabælur af ýmsum pörtum landsins, líka teikningar af ýmsum hlutum, s.s. fossum, hverum, fjöllum, jöklum, elfum, ám, brunahraunum, gjám, stöðum, fjörðum, eyjum, draungum, standbjörgum, eyðisöndum, öræfum, skógum, dölum, giljum, grafningum, byggðum, bæjum, fiskiverum, höndlunarstöðum, byggðalögum, búnaðarháttum og svo mörgu og mörgu fleira, sem ekki verður hér upptalið, sem hann ætlar að skoða og sjá og um að skrifa og sumt upp að teikna, allt á sinn kostnað m.fl.

Það er mín ósk og þénustusamleg tilmæli til allra, sem margnefndan herra gullsmið m.m. S. H. Guðmundssen fyrir hitta, að þér látið hann passéra frítt, og liðsinnið, hjálip og lánið honum það sem hann meðþurfa kann til ferðarinnar, því það er óhætt fyrir hvern mann, að hjálpa honum og lána, ef hann þess með þurfa kann, þótt hann fjarlægist þann, er kynni lána honum peninga og annað sem hann kynni meðþurfa, sjá hans vitnisburður hér að framan.

Passinn þessi gildir, þó ekki sé um það getið hér að framan í passanum, yfir allan Vestfirðingafjórðung, ef herra Guðmundsen á þangað erindi, eða vill þar eitthvað skoða, viðkomandi náttúrufræðinni, eða ef hann vill þar setja sig niður sem handverksmaður í einhverri sýslu þar.Samt gildir ekki þessi passi, hvorki þar né í hinum fjórðungum landsins um lengra tímabil, en hér er getið um að framan, nefnilega frá 1. ágústusmánaðar 1843 til þess 30. júníusmánaðar 1844 sem reisupassi, en að öllu sem sýslupassi, hvar sem hann setur sig niður í hverjum fjórðungi landsins, og þarf hann ekki sýslupassa héðan frá Norðurmúlasýslu, annan en þenna.

Norðurmúlasýslu skrifstofu 1sta águstusm. 1843.
F.Ch. Valsnöe
(l.s)