Skúli fógeti
Útlit
eftir Grím Thomsen
- VIÐLAG:
- Hvass er hann og kaldur af Esjunni, en —
- ekki eru þeir smeykir, þeir útnesjamenn.
- Þrekvaxnar eltir um Íslands haf
- öldurnar Góu stormur;
- hafskipið faðmar og færir í kaf
- fláráður Miðgarðsormur.
- Brýtur kjölur í bylgjum hrygg,
- svo bárurnar sáran stynja,
- en laushentur ægir lætur á brigg
- löðrunga þétta dynja.
- Ránar dætur fljúga á flaust,
- faldinum hvíta hreykja,
- og allt, sem á þilfari liggur laust,
- lafandi tungum sleikja.
- Rifna þá voðir og slitna þá stög,
- stengur og viðir molast,
- fyllir knör og í freyðandi lög
- fjórir af hásetum skolast,
- en hinir leggjast í búlka á bæn,
- þó bænahald sé þeim ei tamast;
- skipstjóri æðrast, og grenjandi græn
- gjálpin á súðinni hamast.
- Hann Skúli fógeti á farinu var
- ferðunum Hafnar vanur;
- í fjórtánda sinni frægan bar
- festar um hafið svanur.
- Brá eigi Skúla, þótt gnötraði gnoð,
- á grönina mundi hann bíta;
- í litklæði fór hann og studdist við stoð,
- stórhöfðinglegur að líta.
- Gildur á velli og gildur í lund
- gulls var hann skrýddur baugum,
- Fróða skein honum mjöl á mund,
- en móðurinn út úr augum.
- Til skipverja kallaði Skúli snjallt:
- „Skreiðizt þið fram úr bælum,
- heitt er í víti, þó hér sé kalt,
- og hættið þið öllum skælum.
- Þið munuð fá að súpa á sjó,
- þótt sitjið og bælið fletið,
- og háttunum ná í helvíti, þó
- þið hjarið á meðan þið getið.“
- VIÐLAG:
- Hvass er hann og kaldur af Esjunni, en —
- ekki eru þeir smeykir, þeir útnesjamenn.
- Við kenningu þessa brá þeim í brún
- og byrstir þustu á fætur,
- þeir sinntu nú ekki, þótt hlunna hún
- hömpuðu Ægis dætur.
- Þeir hertu á stögum og hirtu nú ei,
- þótt hörundið tæki af lófum;
- en Skúli stóð sjálfur við stýri á fley
- og stýrði því undan sjóum.
- Slotaði rokinu og stilltist dröfn,
- stormurinn var á enda,
- og Víkur að endingu heilum í höfn
- heppnaðist þeim að lenda.
- Mælti þá Skúli: „Þið skilduð ei gjör,
- hví skrautlega var eg klæddur,
- meðan að öldurnar knúðu knör,
- og kuggurinn stundi mæddur.
- Þótti mér Rán heldur halda sér til
- með höfuðtrafinu bjarta,
- svo gjöra vildi ég gyðjunni skil
- og gegn henni líka skarta.
- En — hefðum við átt að sökkva í sæ,
- sýna það vildi eg, ef okkar
- ræki á fjörur af hafi hræ,
- að hunda það væri ekki skrokkar.“
- VIÐLAG:
- Hvass er hann og kaldur af Esjunni, en―;
- ekki eru þeir smeykir, þeir útnesjamenn.
- Ljóðmæli, 1969.