Fara í innihald

Skarphéðinn í brennunni

Úr Wikiheimild

eftir Hannes Hafstein

Buldi við brestur,
brotnaði þekjan.
Reið niður rjáfur
og rammir ásar.
Skall yfir eldhafið, ólgandi, logandi,
eldvargar runnu fram, hvæsandi, sogandi.
Reykurinn glóðþrunginn gaus upp úr kafinu.
Gaflaðið eitt stóð sem klettur úr hafinu.
Nár var þá Njáll,
nár var Bergþóra.
Burtu var Kári,
brunninn Grímur,
höggvinn Helgi.
Héðinn stóð einn
tepptur við gaflað
og glotti við tönn.
Gulrauðar glóðir
glampa og braka.
Blóðroðin birta
blaktir um garpinn.
Skín hún á andlitið skarpfölt og tannirnar,
skiptandi blæ, meðan logagráðs hrannirnar
flétta úr eldtungum umgjörðir titrandi
utan um hetjuna, bjartar og glitrandi.
Hélt hann á rammri
Rimmugýgi.
„Hvað er nú öx mín,
hitnar þér nokkuð?
Þú skyldir eigi
svo þurrmynnt vera
væri í annað
en eld að bíta“.
Gunnspáir glóðu
geislar á hyrnu,
stirndi á stál
og stæltar eggjar.
Skarphéðinn glotti við skínandi stálinu:
„Skil ég þig öx mín, ber kveðjur úr bálinu“.
Hefndþrungna bengýgi hóf upp og lét hana
hverfa í gaflaðið, langt upp á fetana.
Leit hann á eldibranda
aðfallandi.
Hvað var í huga
Höskulds bana?
Kominn bónleiður
til búðar hinstu
eldibrand tók sér
í axar stað.
Færðust að logarnir, brestandi, brakandi,
báldrekar skriðu fram, eldmakka skakandi,
lögðust að fótum hans, fæturna sleikjandi
flakandi tungum, og glóðmökkum hreykjandi.
Hnykluðust vöðvar
á herðum þreknum,
efldum er armi
upp hann lyfti,
losaði kyrtil
frá loðnu brjósti,
helrún brenndi þar:
inn helga kross.
Beit svo á kampinn, og krosslagði armana,
karlmennskuró sló um ennið og hvarmana.
Ljómandi kringum hann logarnir kvikuðu,
ljósgeislar fagnandi á honum blikuðu.
Dimmt er í skála,
dökkir mekkir
hefjast úr ösku
og hrundum rústum.
Inni við gaflað
í ösku stendur
Héðinn örendur
með opnum sjónum.
Heyrst ei hafði
hósti né stunur.