Sonnetta

Úr Wikiheimild
Sonnetta
höfundur Jóhann Sigurjónsson
Vorið er liðið, ilmur ungra daga
orðinn að þungum, sterkum sumarhita,
æskan er horfin, engir draumar lita
ókomna tímans gráa sinuhaga.
Við erum fæddir úti á eyðiskaga,
eilífðarsjórinn hefur dimma vita,
fánýtar skeljar fyrir blóð og svita
fengum við keyptar, það er mannsins saga.
Þó hef ég aldrei elskað daginn heitar
- eilífðar nafnið stafar barnsins tunga -
fátæka líf! að þínum knjám ég krýp,
áþekkur skuggablómi, er ljóssins leitar,
- leggurinn veldur naumast eigin þunga -
fórnandi höndum þína geisla eg gríp.