Sprettur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Sprettur
höfundur Hannes Hafstein
Ég berst á fáki fráum
fram um veg.
Mót fjallahlíðum háum
hleypi ég.
Og golan kyssir kinn.
Og á harða, harða spretti
hendist áfram klárinn minn.


Það er sem fjöllin fljúgi
móti mér,
sem kólfur loftið kljúfi
klárinn fer.
Og lund mín er svo létt,
eins og gæti ég gjörvallt lífið
geisað fram í einum sprett.


Hve fjör í æðar færist
fáknum með!
Hve hjartað léttar hrærist!
Hlær við geð
að finna fjörtök stinn!
Þú ert mesti gæðagammur,
góði Léttir, klárinn minn!


Hve hátt'ann lyftir hnakka,
hvessir brá
og hringar hreykinn makka.
Horfið á!
Sko, faxið flaksast til!
Grundin undir syngur söngva
slétt við Léttis hófaspil.


En læg nú sprettinn, Léttir,
líttu á,
við eigum brekkur eftir,
hún er há.
Nú æjum við fyrst ögn,
áður söng og hófa hljóði
förum rjúfa fjallaþögn.