Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)
Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna
höfundur Íslenska ríkið
Fengið af vefsíðu utanríkisráðuneytisins [1]

Varnarsamningur
milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins.

Inngangsorð[breyta]

Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður- Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður- Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum. Samningur sá, sem hér fer á eftir, hefur verið gerður samkvæmt þessum tilmælum.

1. gr.[breyta]

Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður- Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum, sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður- Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum, lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.

2. gr.[breyta]

Ísland mun afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenskum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.

3. gr.[breyta]

Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.

4. gr.[breyta]

Það skal háð samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar, hversu margir menn hafa setu á Íslandi samkvæmt samningi þessum.

5. gr.[breyta]

Bandaríkin skulu framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningi þessum þannig, að stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslensku þjóðarinnar, og skal ávallt haft í huga, hve fámennir Íslendingar eru, svo og það, að þeir hafa ekki öldum saman vanist vopnaburði. Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum. Page 2

6. gr.[breyta]

Samningur sá, er gerður var hinn 7. október 1946 milli Íslands og Bandaríkjanna um bráðabirgðaafnot af Keflavíkurflugvelli, fellur úr gildi við gildistöku samnings þessa, og mun Ísland þá taka í sínar hendur stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ísland og Bandaríkin munu koma sér saman um viðeigandi ráðstafanir varðandi skipulag á rekstri flugvallarins til þess að samræma starfsemi þar því, að hann er jafnframt notaður í þágu varnar Íslands.

7. gr.[breyta]

Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður- Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt. Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annaðhvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.

8. gr.[breyta]

Samningur þessi er gerður á íslensku, og á ensku, og eru báðir textar jafngildir. Hann gengur í gildi, er hann hefur verið undirritaður af réttum yfirvöldum Íslands og Bandaríkjanna og ríkisstjórn Íslands hefur afhent ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku tilkynningu um, að samningurinn hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu.


Gert í Reykjavík hinn 5. maí 1951.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands:

Bjarni Benediktsson,

utanríkisráðherra Íslands.


Fyrir hönd ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku:

Edward B. Lawson,

sérlegur sendiherra og ráðherra með umboði fyrir Bandaríki Ameríku á Íslandi

Viðaukar[breyta]