Veislan á Grund/3. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Lítilli stundu síðar kallaði Helga húsfreyja allar þjónustustúlkur sínar inn í dyngjuna og lét vandlega aftur.

Þar voru saman komnar allar griðkonur hennar sjálfrar og nokkrar af næstu bæjunum.

Helga var hörð á svipinn, svo hörð, að enginn hafði nokkurn tíma séð hana slíka. Griðkonur hennar skulfu á beinunum fyrir augnaráði hennar.

„Ég vil, að þið vitið sjálfar, hvað hér er í efni,“ mælti hún hægt og alvarlega. „Kóngsmenn og Sunnlendingar koma með ófrið og yfirgang á hendur okkur. Eyfirðingar eru að safna mönnum. Hér dregur ef til vill til mikilla tíðinda.

Nú hvílir heill og heiður Norðlendinga á okkur konum. Ef við bregðumst nú, verða ráðstafanir hinna að engu.

Þessir menn, sem koma, spara oss Norðlendingum enga skapraun og svívirðu. Það ofbeldi, sem við konur gætum ef til vill vikið okkur undan að þessu sinni, mundi yfir okkur koma að nokkrum dögum liðnum, og þá að mönnum okkar, bræðrum eða feðrum vegnum.“

Helga þagnaði um stund og leit hvasst yfir hópinn. Augu sumra kvennanna stóðu full af tárum, en allar horfðu þær þó framan í hana, fast og einarðlega.

„En jafnframt því, sem þessir menn eru dýrslegir í grimmd sinni og rángirni, eru þeir einnig dýrslegir í gleði sinni og munaðarfýsn. Góður matur, vín og konur eru þeirra æðstu gæði. Hófsemi og bindindi hafa þeir aldrei þekkt, sjálfsafneitun er eðli þeirra og áformi fjarstæð.

Þennan breyskleika þurfum við að nota fyrir vopn á þá sjálfa. Við verðum að gera þeim dvölina á Grund svo góða, að þeir gleymi stundinni, gleymi hættunni og gleymi því, að þeir séu í óvinalandi staddir. Við eigum að skapa þeim einnar nætur algleymi, með góðu víni, gleðskap og blíðu. Við verðum að halda þeim hér, þar til Eyfirðingar koma.

Þessir höfðingjar heimta konur til sængur með sér á yfirreiðum sínum, hvar sem þeir koma. Auðvitað! - Allir karlmenn eiga að vera þrælar þeirra, allar konur ambáttir þeirra. - Mikið mundi þeim finnast skorta á Grundarrisnuna, væri ekki þetta látið eftir þeim. - Takist okkur ekki að halda þeim uppi við gleðskap nægilega lengi, verðum við að vera við því búnar að fylgja þeim til sængur.“

Húsfreyjan þagnaði aftur um stund. Það var sem þyrfti hún að sækja í sig styrk til að geta fylgt fram erindi sínu til fulls. Þegar hún hóf aftur máls, var röddin hörð og hvell eins og stál.

„Það er ekkert smáræði, sem á okkur konur er lagt að þessu sinni. Við eigum að svæfa þennan óaldarflokk við barm okkar. - Við verðum að ganga í návígi við siðleysi og spilling þessarar hryggilegu óaldar í allri nekt sinni. Við verðum að ganga í greipar drukkinna illmenna, sem einskis eru vísir að svífast; við verðum að gera okkur upp blíðu við menn, sem við höfum andstyggð á og gætum með köldu blóði kyrkt í greip okkar, ef við hefðum afl til. - Og við verðum að verja sjálfar okkur fyrir þessum mönnum, með þeim ráðum og meðulum, sem guð hefir lagt oss konum í hendur, - ef ekki á hólmgangan að verða okkur sjálfum til skammar.

Ég ætla sjálf að ganga fram í broddi fylkingar. Ég ætla að leggja mig í hættuna við höfðingja þeirra og sjá, hvernig fer. Engum manni væri honum meiri gleði að geta gert svívirðu en Einari bónda mínum. - Ég ætla að ganga þar fram, sem hættan er mest. Viljið þið fylgja mér?“

„Já - já - já - já -já.“ - - Flest jáin komu með grátstaf.

Helga leit hörðum augum yfir allan hópinn, hvort allar hefðu svarað. Þegar hún sá, að svo hafði verið, hélt hún áfram:

„Til slíkra hluta má engan kvenmann reka nauðugan. Þær, sem ekki treysta sér, skulu segja til sín í tíma og hrökklast héðan burtu áður en á reynir. - Vitið það, að ég geri harðar kröfur til ykkar. Ég vil ekki vita heimili mínu neina vansæmd gerða. Engin kona er svo örm, að ekki geti hún varið sóma sinn fyrir karlmanni, ef hún vill, - ef hún vill. Vei þeim, sem þiggja feigra manna faðmlög! - Vitið það, að hér skuluð þið standa allar fyrir mér á morgun, - allar, hver ein og einasta, og skrifta - vægðarlaust, ef mér þóknast að krefjast þess. - Viljið þið enn þá fylgja mér?“

Allar stúlkurnar þögðu, en - engin leit undan.

„Gott og vel,“ mælti Helga. „Svo er eitt að lokum. Hver ykkar, sem gerir þeim aðvart um hættuna - með einu orði, hálfu orði, bendingu eða rósamáli, hver ykkar, sem lætur ginnast af kjassi og fagurgala þessara manna til að ljósta upp leyndarmáli okkar, skal verða lamin í hel hér í dyngjunni að öllum hinum ásjáandi. Það skiptir minnstu, hvernig fer um hverja einstaka af okkur. En eitt ógætnisorð, eitt atvik í hugsunarleysi, getur hrifsað sigurinn úr höndum okkar og sökkt öllu Norðurlandi í eymd og sorg og smán. - Viljið þið lofa fullkominni þagmælsku, fullum trúnaði og leggja við líf ykkar?“

Stúlkurnar játuðu allar hátt og hiklaust.

Það var sem glampi óvæntrar gleði rynni snöggvast yfir svip húsfreyjunnar. Hún leit framan í hvert andlitið eftir annað og sá þar nú hvergi hik eða hræðslu. Flestar voru þetta ungar og óreyndar stúlkur, fáeinar giftar, en menn þeirra langt í burtu. Sumar voru óprúttnar og til í hvað sem vera skyldi, en sumar voru varla komnar af barnsaldri og skildu auðsjáanlega ekki nema til hálfs, um hvað var eiginlega verið að tala.

Meðal annars sá hún Dísu litlu frænku sína, sem hún hafði sjálf alið upp og var augasteinninn hennar. Hún var ekki nema 16 ára og bar af þeim öllum að fegurð. Hún starði á hana stórum, skærum og barnslegum augum, og munnurinn á henni stóð opinn af undrun. Var það ekki allt of mikill ábyrgðarhluti að hætta slíku barni út í aðra eins mannraun?

En svipur húsfreyjunnar harðnaði aftur, og ásetningur hennar stóð fastur eins og bjarg. Hún hikaði ekki við að leggja allt í hættu, líka það, sem henni var kærara en hún var sjálfri sér.

„Þá horfist vel á um allt. - Látið nú sjá og verið hugvitssamar að finna upp ráð til að tefja þeim tímann með. Reynið að lokka frá þeim vopn og hertygi, reynið að svæfa þá, og ef það tekst, þá snúið um annarri hvorri skálm á fötunum, sem þeir fara úr, svo að þeim verði ógreiðara um að klæðast aftur. Gerið þeim allan þann ógreiða, sem þið getið upp hugsað, án þess að flekka hendur sjálfra ykkar í blóði þeirra. Hafið þið skilið mig? Nú eruð þið héðan af sjálfráðar að því, hvað þið hafist að.“

Síðan gekk húsfreyjan að tveim gríðarstórum kistum, sem stóðu þar í dyngjunni, járnslegnar mjög og vafðar utan með gráum selskinnum til að verja þær raka - og lauk þeim upp báðum. þar var geymdur alls konar kvenfatnaður og kvenskart. Þar voru hálsmen, sylgjur og armhringar, steinasörvi, silfurfestar, stokkabelti, gullhlöð og gullsaumaðir lindar; kyrtlar, faldar, motrar, slæður, skikkjur, safalaskinn, - allt, sem nöfnum tjáði að nefna af prýðilegum kvenklæðnaði, og nóg úr að velja handa þeim öllum, sem þar voru, og þó fleiri hefðu verið. Í þessum kistum var arfur margra kynslóða, margra alda samandreginn auður í klæðum og kvensilfri.

Hún fékk nú hverri af konunum það, sem henni var ætlað að bera á þessum „heiðursdegi“. Hún útbýtti klæðum og dýrgripum á báðar hendur og mátaði á hverja stúlku, hvað henni færi best.

Stúlkurnar réðu sér varla fyrir gleði. Þær voru allar gagnteknar af einum anda, allar hrifnar með af einum og sama mikla og drengilega ásetningi, að bregðast ekki trausti húsmóður sinnar. Þessi einingarinnar andi gerði þær allar að samglöðum systrum. Þær öfunduðust ekki hver við aðra, þótt ein fengi eitthvað fegurra en önnur. Þær dönsuðu í faðmlögum út úr dyngjunni eins og glöð börn. Hættan freistaði. Löngunin til ævintýra laðaði.

Þegar allar voru farnar úr dyngjunni, nema húsmóðirin ein, sneri Dísa litla aftur í dyrunum og gekk til hennar.

„Hvað verður okkur gert, frænka mín?“ spurði hún lágt í barnslegum bænarrómi.

„Ekkert, - vona ég,“ svaraði húsfreyjan þurrlega.

„Segðu mér það, frænka mín! Hvað er hætt við, að þessir menn geri okkur - illt?“

Húsfreyjan leit hvasst á hana.

„Ekkert, - ef þið eruð nógu stilltar og fastar og einbeittar á reynslustundinni og látið þá ekki fara með ykkur eins og þeir vilja.“

„Ó, ég er svo hrædd!“

„Hertu upp hugann og vertu sterk og örugg. Þú verður að læra að horfast í augu við aldarandann eins og hann er, læra að bjarga þér og bera ábyrgð á sjálfri þér, hvað sem fyrir þig kann að koma. Annars verður þú aldrei manneskja. - Svona, farðu nú! - Nei, bíddu svolítið við!“

Húsfreyjan tók upp úr kistunni hníf og belti, hvort tveggja silfurbúið, og fékk henni.

„Þetta á Björn minn að fá í afmælisgjöf næst. - Berðu það í nótt, og beittu því fyrir þig, ef á að misbjóða þér, - en ekki nema þér liggi mikið á. Láttu engan ná því af þér. Og ef þú skyldir þurfa að grípa til þess, þá gerðu það svo, að ekki þurfi oft að bregða. En mundu mig um það að misbeita því ekki. Spenntu beltið á þig innanklæða, en þó svo, að þú náir fljótlega til hnífsins. Svona, - nú ert þú því betur vopnuð en við hinar sem því munar, að þú ert í meiri hættu.“

Þegar húsfreyjan gekk úr dyngjunni, stóð Dísa enn með hnífinn í höndunum og hugsaði. Svo rétti hún úr sér, dró andann djúpt og gekk út á eftir, - ákveðin í því að mæta forlögum sínum.