Vesturfararsaga 1873

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Vesturfararsaga 1873
höfundur Guðmundur Stefánsson
Þetta er bréf sem Guðmundur Stefánsson, faðir Stephans G. Stephanssonar, ritaði, líklega til Helgu systur sinnar 12. nóvember 1873, og segir frá ferð fjölskyldunnar vestur um haf.

Þessi texti er fenginn af Vesturfaravef Ríkisútvarpsins [1]


Næst mínu geði er að skrifa ekkert til Íslands, því ævin hefir ekki verið svo ánægjuleg síðan ég fór þaðan.

Fyrst þennan litla tíma sem við dvöldum á Akureyri lá Guðbjörg sár-veik og alla heilu ferðina þangað til núna að hún er lítið eitt hressari.

Ég þarf ekki að segja frá veru okkar á Akureyri og þeim svikum sem við urðum þar fyrir af Walker og jafnvel Lambertsen, sem þó kom seinna betur í ljós, því það er kunnugt heima og sumt mun vera búið að skrifa heim.

Þegar búið var að skipa öllum hrossum fram og flutningi okkar, fórum við Íslendingar um borð á skipinu Queen, 153 að tölu með börnum og öllu saman. Var okkur sagt að fara niðurá næsta dekk og búa þar um okkur. Það var vondur staður, ákaflega þröngt og hitastækjan óþolandi uppaf hestunum sem stóð svo þröngt sem mögulegt var í allri lestinni og eins á dekkinu beggja megin útvið skansklæðninguna í réttum, og urðu þau fyrir öllum sjávargangi, svo þau duttu stundum hálf-flöt, en fótuðu sig þó aftur.

Nú vórum við Íslendíngar þá, eins og fyrr segir, komnir um borð á skipinu ásamt mörgum löndum sem fylgdu okkur um borð kl. 2 aðfaranótt 4a ágúst. Nú var farið að kynda maskínuna; fór þá skipið eins og að titra og hreyfast. Nú ætluðum við að kveðja landa okkar, en það vildi ekki lukkast vel, því nú var ekki til setu boðið, og ruddust þeir allir ofaní bátana og í land.

Nú tók skipið á rás út eftir firðinum með miklum hraða, en ég lagðist með ólund framí stafn á skipinu og sá hvernin aumingja bæirnir, sem ég þekkti svo, vóru að hverfa mér í seinasta sinni, og var það hörð freisting.

Svo var haldið djúpt, að um morguninn sá ég Tjörnes, það seinasta af ættjörðu minni.

Nú var þá kominn 5. ágúst, töluvert slæmur í sjóinn, svo margir fóru að verða veikir og selja upp. Mér var óglatt, en lítið kastaði ég upp.

6. ágúst var veður meira. Seldu nú flestir upp, og vóru margir dauð-veikir.

7. ágúst var veðrið betra. Nú vóru margir heilbrigðir, en allir betri. Þennan dag sáum við Færeyjar, þó ekki nema í hillingum.

8. ágúst klukkan 4 sást land, en þegar við komum nær, sáum við að þetta vóru Hjaltlandseyjar. Þær eru hrjóstrugar, en þó byggðar, og sáum við bæi á bæði borð, því skipið sigldi eftir sundum milli eyjanna. Nú var flaggað eftir hafnsögumanni, og gekk honum illa að komast út til okkar, því straumur og vindur var mikill, og sýndist okkur litla skipið hans mundi hvolfast, en okkar skip beið á meðan. Þó komst hann loksins til okkar; hann var við 2an mann. Klukkan 9 komum við til Leirvíkur; þar var kastað akkerum. Það er mikið snotur bær, en lítill, lítið stærri en Reykjavík, en hefir mikið fleiri innbúa. Þar fór Walker, Lambertsen og nokkrir Íslendingar uppí bæinn.

Nú vóru hestar farnir að drepast, því meðferðin var sú bölvaðasta, og óskaði ég oft að þeir dræpist allir. Heyinu var kastað undir þá einu sinni í sólarhring, og það var svo lítið að sumir fengu ofurlitla næring, en sumir ekkert sem meinlausastir vóru, og aldrei nokkurn dropa af vatni, og sárnaði mér þegar þeir vóru að bera vatn eftir skipinu, en aumingjarnir vóru að teygja sig eftir því, þeir sem á dekkinu vóru, en ég gat hverki bætt úr því né öðru, því þeir liðu það ekki Íslendingum; þeir lofuðu þeim að brjótast um þangað til þeir gáfu upp andann. Síðan að góðum tíma liðnum vóru þeir halaðir uppí reiðann og kastað fyrir borð. 6 drápust, sem ég vissi víst, fallegir gripir, og var nú komin góð lykt í borð- og svefnstofu okkar. Alltaf óskaði eg mína góðu hesta sem ég lét í Félagið dauða, en það lukkaðist ekki. Nú var hér skipað upp 15 hestum, því Walker átti hér bú, og vóru þeir þangað færðir. Seint um daginn var létt akkerum.

9. ágúst kl. 12 f(yri)r m(iðdegi) komum við til Aberdeen, og var siglt langt inní bæinn, sem er fjarska stór, höfnin er gjörð af manna höndum, borðstokknum á skipinu lagt meðfram bryggju, og var nú önnur bryggja lítil eða eins og breiður fleki lagður af borðstokknum og uppá aðalbryggjuna, svo ekki skyldu hestar missa fætur ofaná milli. Nú var farið að reka hestana, fyrst þá sem vóru á þilfarinu, og var 1 og 1 látinn fara hver á eftir öðrum uppí grindarétt sem stóð rétt fyrir ofan bryggjuna. Þar stóð múgur og margmenni báðu megin við hestana sem upp komu, meðal hverra var fjöldi af strákadjöflum með svigabrotum og bareflum, og fékk hvur hestur ekki minna en 2 högg sitt hvurju megin. Þegar allir hestar vóru komnir upp af dekkinu, var tekið til þeirra sem vóru í lestinni, og vóru þeir allir halaðir uppí reiða, látnir síga niðriá dekkið, reknir síðan upp og fengu allir sömu viðtökur. Seinast vóru allir reknir burt og í hvarf við stórt hús, og það sá ég seinast til þeirra.

Kl. 5 e(ftir) m(iðdegi) var siglt þaðan, og komum við kl. 2 f(yrir) m(iðdegi) til Granton, sem var sá staður sem við áttum að skilja við okkar hræsis hestaskip.

Nú var borðstokknum lagt við bryggju sem var rétt fyrir neðan tollhús <þar> sem farangur okkar átti að rannsakast. Snemma um morguninn kom maður framá skipið. Hann var lymskulegur mjög, fór að biðja kvenfólk að gefa sér brennivín og tóbak, en það var lítið um þess háttar hjá okkur. 2 eða 3 koffort stóðu opin, og fann hann í einu tóbaksbita, krítaði á það og gekk burt. Við höfðum vit á að þurka krítina af og skipta bitanum. Að litlum tíma liðnum kom annar maður sem talaði dönsku. Hann sagðist eiga að rannsaka farangur okkar, en hinn væri embættisbróðir sinn. Leið nú nokkur tími þangaðtil okkur var sagt með allt okkar uppúr skipinu. Var þá kvenfólk og börn látið fyrst ganga, en karlmönnum sagt að bera upp farangur okkar, sem var hörð vinna, því nú var fallið undan skipinu, svo leggja mátti stiga ofaní skipið og uppá bryggjuna, og máttum við bera þarna upp allan farangur okkar, en rekið var hart eftir okkur. Þegar allt var komið upp, byrjaði rannsóknin. Fundu þeir ekkert sem tolltækt var, hættu svo eftir litla leit, og komustum við flestir hjá þessari lúsaleit.

Biðum við svo tímakorn þarna hjá farangri okkar, þangað til okkur var sagt að gufuvagn væri kominn, sem ætti að flytja okkur til Glasgow. Var það hér í fyrsta sinn að ég sá gufuvagn. Það er ekki gaman að lýsa þessu heljartrölli, sem allt drepur sem fyrir því verður, ef það hörfar ekki undan. Hann er að sjá sem spegilgler fagur, allur úr járni með gufustrompi uppúr sér. Fyrir aftan gufustrompinn er önnur pípa mjó. Hún er til þess að þegar maður tekur í streng sem liggur til pípunnar, þá öskrar hann svo ógurlega að heyrist margar mílur vegar, svo allir hrökkva saman, sem ekki hafa heyrt það fyrri, en þetta öskur þýðir 'varaðu þig', en ef það er ekki gjört, er hver sú lifandi skepna sem ekki hlýðir orðin dauðans herfang. Fast við gufuvagninn kemur kolavagn, þá flutningsvagnar, og eru þeir fullir af ýmsum varningi og flutningi vesturfara. Þá koma sjálfir fólkvagnarnir, og eru þeir gróflega langir, en breiddin er þessi: eftir endilöngum vagninum er mátulegur gangur fyrir 1 mann, en báðu megin eru sæti eins og í kirkju, hvurt sæti mátulegt fyrir 2 menn, svo sem 4 álnir á hæð, og eins þiljaðir uppyfir manni eins og niðri og þeir bestu allir málaðir og með stoppuðum sætum, stórir glergluggar hver við annan á hliðunum, svo maður sér um allt úti og getur tekið gluggana opna, ef heitt er. Salerni er í hverjum vagni og vatnsílát til að drekka úr, ef mann þyrstir. Nú eru þessir vagnar hvur aftan við annan, þangað til þeir eru orðnir kannske 20 til 30, og er það svo löng lest að því trúa fáir sem ekki hafa séð það, að gufuvagninn skuli rífa þessa lest alla áfram með svo miklum trölldómi að lestin fer þingmannaleið á 1um kl(ukku)tíma. Þetta er nú allt gott, ef allt væri hættulaust.

Nú var okkur skipað inní vagnana fljótt. Ég var heldur seinn, þegar mest var rekið eftir, því Guðbjörg var alltaf fárveik af brjóstmeini því sem hún fékk á Akureyri og hafði alla leiðina og er ekki nærri því batnað enn, þó hún rétt fylgi fötum; Lauga var þá veik líka. Þegar við vórum komin inní vagnana, fór öll lestin á stað. Mér þótti það mjög skemmtilegt, ef eg hefði haft nokkra skemtun. Nú hélt lestin til Edínarborgar. Þar var tafið lengi um daginn, og fórum við útúr vögnunum og gengum dálítið um bæinn með Lambertsen. Síðan var farið á stað aftur, og var þá farið um tíma undir jörð í kolsvarta myrkri, en bráðum birti aftur. Nú fór að verða fagurt yfir að líta, fagrar ekrur og skógarrunnar, og er það fögur sjón, en allt bregður fyrir fljótlega, því lestin öskrar áfram.

Bráð(lega) var okkur skipað útúr vögnunum, því nú var komið til Glasgow. Var búið að kveikja á götunum. Nú var löng leið að ganga að veitingahúsi sem okkur var fyrirhugað að gista í. Nú kom maður til okkar og benti okkur að ganga á eftir sér; það var móttökumaður sem tekur á móti vesturförum. Lambertsen gekk á eftir; var það löng halarófa. Var rekið eftir að menn skyldu ganga hart, en sumir vesælir og margir með börn. Flykktist sá mannfjöldi með okkur, að ég hef ekki séð eins margt fólk saman komið, allskonar óþjóðalýður með hlátri og ólátum, stundum inní þyrpinguna okkar til að villa okkur sundur, en við gengum snúðugt, svo þeir urðu fegnir að hörfa til baka.

Loksins komum við að húsinu; þar vórum við talin inn eins og fé. Þetta var nú veitingahús; þar fengum við mat um kvöldið og rúm um nóttina. Daginn eftir vórum við um kyrrt. Þar fundum við Íslendinga, konu Einars Bjarnasonar frá Reykjavík með 10 börn og 1a stúlku og hafði beðið í 4 daga eftir okkur.

11. ágúst. Hér vórum við (um) kyrrt um daginn. Skiptu sumir hér peningum, og gekk það misjafnt, og virtist mönnum Lambertsen heldur spilla í laumi eins og oftar.

Ég fór lítíð útí bæinn; þar eru margar snörur, svik og þjófnaður. Hér eru þeir stæðstu hestar sem ég hef nokkru sinni séð, fullkomin seiling mín á hæð, þó ykkur þyki ótrúlegt. Fyrst hafði eg litlum peningum að skipta, enda þorði eg það ekki heldur, svo gjörðu 2 aðrir, og þurfti eg ekki að iðrast þess.

Seint um daginn kallar Lambertsen okkur saman karlmennina og tekur nú með ánægju af okkur þetta hálfa pund sterling, sem hann sagði okkur að hann væri búinn fá linun um fyrir biðina á Akureyri, og mátti ég láta 18 r(íkis)d(ali) fyrir mig og mína. Þarna vórum við aftur um nóttina og þurftum ekkert að borga; það gjörði Allan.

Um morguninn áttum við að fara um borð á skipi því sem átti að flytja okkur yfir Atlantshaf. Nú máttum við ganga nærri eins langan veg eins og þegar við komum til Glasgow. Loksins komum við til skipsins, og lá það með borðstokkinn við bryggjuna, og þurfti ekki annað en stíga framá skipið. (Þess þarf hvergi, hvar sem skip leggja að eða frá landi.)

Þetta var ákaflega stórt skip, Manitoban að nafni, allt úr járni nema í einstöku stað innan. Nú var kominn svo mikill fjöldi fólks af öllum þjóðum, sem ætluðu til Ameríku, Danir, Svíar, Norðmenn, Skotar, Enskir, Þjóðverjar, Frakkar; með þessum skyldum við fara.

Var mönnum sagt að fara niðurí skip og búa þar um sig. Við Íslendingar vórum allir sér í einu herbergi, og var það bærilegt, nokkuð þröngt. Að stundu liðinni vórum við rekin uppá dekk og talin og skoðuð vegabréf okkar. Var okkur svo sagt að fara ofan aftur. Á skipinu vóru í það heila 720 manns. Undir hliðum skipsins báðu megin vóru náðhús, fyrir karlmenn öðru megin, en kvenfólk öðru megin; 7 gátu setið í einu hverju megin, og féll allt ofaní sjó.

Þennan dag var siglt til Grenvik; það er lítill bær. Hér skildi Lambertsen við okkur og hélt til baka á gufubát, og söknuðum við hans ekki. Nú var siglt til Liverpool. Hér var það sem Lambertsen sagði okkur að við fengjum vegabréfin til Milwaukee, sem við borguðum fyrir á Akureyri. Nú brást þetta með öllu, og sáum við nú svikin, og var það allt skrifað Allan, og mun Lambertsen varla verða agent Íslendinga oftar, því Allan vill láta allt vera sem áreiðanlegast.

Þegar við höfðum dvalið hér litla stund, kom maður framá skipið til okkar og sagðist eiga að vera túlkur okkar yfir hafið, sagðist heita Bentsen, norskur að ætt. Það var illt að skilja hann. Hann bannaði Íslend(ngum) að ganga uppí bæinn, því það væri hættulegt, en kvaðst mundi ganga með svo sem 10, ef þeir þyrftu að kaupa eitthvað, og svo var gjört; komu þeir svo bráðum aftur.

14. ágúst fórum við frá Liverpool, og var haldið í útvestur. Segi ég því lítið um ferð okkar yfir hafið. Það var bærilegur viðurgjörningur á skipinu. Þá 2 sunnudaga sem við vórum á því lásum við Íslend(ingar) eins og heima. Lítið bar til tíðinda á leiðinni. 1 barn dó; foreldrar þess vóru vestan úr Dalasýslu á Íslandi. Þegar það var dáið fyrir stundu, komu 2 af skipverjum ofan og lögðu járnplötu báðu megin við líkið, margvöfðu svo striga þétt að og saumuðu svo utanum, báru svo uppá dekk og lögðu á afvikinn stað og breiddu yfir. Að stundu liðinni komu margir uppá dekkið, yfirmenn sumt, tóku 2 líkið og báru ofaní skip; fylgdi því fjöldi fólks. Var þar tekin opin hliðin á skipinu, og hélt einhvur embættismaður ræðu með aftur augun og upplyftar hendur; síðan var því varpað útí sjó. Túlkur okkar reyndist okkur ágætlega, og fórum við oft til hans, þegar við þurftum.

25. ágúst komum við til Quebec. Nú var farangur okkar drifinn úr skipinu, og gekk það fljótt. Síðan var hann keyrður á vögnum sem hestar gengu fyrir uppí tollbúðina. Hér kom Páll Þorláksson til okkar að taka á móti Íslendingum. Nú vóru merkt uppá nýtt koffort og pokar okkar. Þeir sem ætluðu til Milwaukee máttu nú borga uppá nýtt ferðina frá Quebec, þó við værum búnir að borga allt saman á Akureyri. Páll áleit mikið betra fyrir Ontario-menn að fara vestur, en nú var ekki hægt viðgerðar.

Þeir sem vestur fóru vóru þessir: Þorlákur frá Stórutjörnum með sitt fólk, Magnús frá Hrappsstöðum með konu og börn, Jón frá Mjóadal með konu og börn, Guðmundur frá Mýri með konu og börn, Stefán frá Ljósavatni; úr Eyjafirði þessir: Pétur Thorlacii frá Stokkahlöðum með sitt fólk, Hallgrímur frá Rútsstöðum með sitt fólk, Kristinn Ólafsson með konu og börn -- og konan frá Reykjavík með sín börn, Gísli frá Mjóadal með sína konu, í allt 43 menn.

Nú var okkur skipað inní vagnana, og þaut nú lestin á stað eins og elding.

Ekki er gott að flytja mat á járnbrautum, því þröngt er í vögnunum, og eru menn heldur svangir, en snemma á daginn kemur umsjónarmaður vagnlestarinnar og spyr hvurt menn vilji fá að borða, skrifar töluna á fólkinu og sendir með málþræðinum, sem alltaf liggur með járnbrautinni, til næstu póststöðva. Síðan ólmast hann áfram (vagninn) margar þingmannaleiðir, þangað til að manni er skipað útúr vögnunum og ínní hús þar sem maturinn er til og allt til reiðu, en dinner máltíðin. Ég mátti borga 1 dollar fyrir okkur 4 allstaðar þar sem við keyptum mat, og þótti gott þegar maður gekk ósvangur frá.

Þegar vagnlestin ólmaðist sem mest áfram eitt kveld í myrkri, ól kona Kristins Eyfirðings barn, og stansaði vagnlestin á meðan hún var borin inní hús og barnið ólaugað, og vóru þau hjón þar eftir með börnum sínum, og skutu Íslendingar saman fáeinum dölum uppí kostnaðinn.

Daginn eftir var vagnlestin tekin sundur og Ontario-menn skildir frá okkur, og var það svo fljótt að við gátum engan kvatt, og þótti okkur sárt. Var okkur nú knýtt aftaní aðra lest.

Morguninn eftir komum við á landamerki Englendinga og Bandamanna. Er það fljót sem skilur á milli, og stendur sinn bær á hverjum bakka. Hér fór vagnlestin framað fljótinu, og var lestin stytt svoleiðis að það vóru gjörðar þrjár raðir jafnhliða hvur annari, og færðist svo fleki, sem vagnarnir stóðu á, framá fljótið og yfirum með gufuvél. Þarna var þá vagnlestin okkar komin uppá götur í hinum bænum og við þó í vögnunum.

Hér fórum við úr híbýlum okkar, því nú átti að rannsaka farangur okkar, og var það gjört eftir langa bið, og mátti hver sá sem flutti sængurföt borga 10 cent. Nú var haldið þaðan um miðjan dag.

Seint um daginn vórum við rekin útúr vögnunum á póststöðvum og vísað inní stórt hús þangað til önnur lest kæmi, sem tæki okkur. Þarna biðum við framá nótt þar til loksins að hún kom. Var okkur þá sagt inní aftasta vagninn Íslendingum, og höfðum við aldrei fengið eins góðan vagn í allri ferðinni.

Nú var haldið áfram alla nóttina, þangað til í dögun um morguninn að lestin stóð kyrr allt í einu, af því stór ás í gufuvagninum hafði brotnað. Þetta var á sjálfan höfuðdaginn. Hér var ein járnbraut sem vagntrossan stóð á, en þéttur skógur beggja megin. Ég og fáeinir landar vórum komnir á fætur og út, en margir sváfu. Dimm þoka var á. Nú fór að heyrast til annars gufuvagns á sömu brautinni á eftir. Skipaði þá umsjónarmaður okkar vagnlestar undirmanni sínum að ganga eftir brautinni á móti lestinni til að gjöra þeim aðvart að stoppa, en þessi þjón svaraði illu á móti og drattaði lítið eitt til baka. Nú sá ég hvar gufutröllið kom, kallaði eg þá upp að fólkið reyndi að koma fljótt útúr vögnunum, en allt var nú orðið um seinan. Guðbjörg komst nauðuglega ofan, en í sömu svipan kom gufuvagninn aftanundir okkar vagn og braut hann allan að aftan, næsta vagn fyrir framan, svo að ekki sást eftir af honum nema brot eins og lófi manns beggja megin við járnbrautina, og þriðja vagninn fram til miðs, og með sama hljóp gufan í þessa brotnu vagna, svo þeir fóru strax að sviðna og brenna.

Ég sá ekkert af löndum nema þá sem út komust með mér, ég vissi ekki annað en ég mundi ekki framar sjá börn mín í þessu lífi og fjölda Íslendinga. Nú gekk eg æði-langt frammeð þessari voða sjón, fann eg þá Stefán minn í skóginum, berhöfðaðan og blóðugan á höfði og brunninn á höndum og fótum, og spurði eg hann hvurt hann hefði séð systir sína, og sagði hann að hún væri lengra útí skóginum, heil og ósködduð, og fleiri landar.

Það er fljótt yfir sögu að fara að guð hafði varðveitt alla Íslendinga frá lífs- og limatjóni, en 5 særðust meir og minna, sem vóru þessir: Stefán, Sigurbjörg systir, kona Hallgríms frá Rútsstöðum og drengur sem þau áttu og Eiríkur úr Eyjafirði, mest hann og Stefán. En það sem dó var kona svensks manns og tvö börn þeirra, annað stúlka um tvítugt, þýsk kona með barni og enskur maður; lifði tvennt af þessu með harmkvælum frameftir deginum.

Hér tapaðist margt sem menn höfðu með sér í vögnunum, hattar, skór, teppi, ábreiður, töskur og margt fleira sem brann, því þeir sem næstir vóru drifu fólkið útum gluggana, en skeyttu ekki um annað, sem náttúrlegt var.

Nú var kominn fjöldi af bæjarmönnum, því örskammt var til næstu póststöðva. Vóru þeir særðu látnir í vagn ásamt fleirum og svo leiddur af mönnum heim í bæinn, og vóru þeir særðu fluttir uppi hús til lækninga. Síðan vóru fylltir fleiri vagnar af fólki og leiddir á sama hátt af mönnum.

Hér fengum við svo góðar móttökur að þær gátu ekki verið betri, þó við hefðum komið til vina okkar á Íslandi eftir margra ára útlegð. Ég var berhöfðaður sem aðrir fleiri. Þá kom til enskur maður gamall og benti á höfuð mér, en ég benti á járnbrautina. Þá skildi [hann] hvar ég hefði misst höfuðfatið. Þá gekk hann inni hús og sagði mér að koma líka. Hér tók hann fínan hatt af höfði sér og setti uppá mig. Ekki varð eg var við svoleiðis gjafir fleiri.

Hér vórum við þar til seint um daginn að nýr gufuvagn var fenginn, sem átti að halda áfram með okkur. Var þeim særðu boðið að vera eftir, en allir vildu reyna til að komast áfram. Var svo lagt á stað, og kom[um við] um kveldið til vatnsins Michigan. Þar fórum við á gufuskip um kveldið kl. 9 og komum til Milwaukee kl. 6 um morguninn. Þar tóku landar okkur vel.

Þar vórum við í 9 daga hjá Haraldi Þorlákssyni og keyptum húsnæði og kost, en þeir særðu vóru á kostnað vagnbrautastjórnarinnar og fengu að auk nokkuð fyrir verkafall, og svo fengum við borgað það sem við töpuðum á vagninum góða.

Þessa daga sem ég var í Milwaukee leiddist mér svo, að ég hef aldrei tekið annað eins út af leiðindum. Þar er líka sá mesti freistingastaður sem ég hef komið í, og langaði mig til að komast útá landið að sjá og læra vinnu hjá bændum. Fórum við svo eftir þessa 9 daga á gufuvagni 80 enskar mílur norður í landið á 4 klukkutímum, og kostaði ferðin fyrir manninn nærri 3 dollara. Stebbi varð eftir og Eiríkur, því þeir vóru ekki grónir, en þeir sem fóru vóru þessir: Jón frá Mjóadal, Magnús Gíslason, Hallgrímur bróðir hans.

Fórum við hér til norskra bænda, sinn til hvers; sá sem ég er hjá heitir Óli Oftelie. Hér er stórt pláss sem Norðmenn byggja. Stefán kom hingað eftir rúma viku. Strax fórum við að vinna eftir að við komum hingað ýmislegt, aldrei þó saman Íslendingar, Stefán til og frá, en ég oftast heima. Við erum hér sér í húsi og fáum sumt hjá húsbóndanum, en sumt fáum við annarstaðar, það sem við þurfum að lifa af, en heldur þarf að lifa spart til að gjöra ekki miklar skuldir, því vinnulaun eru lítil um þennan tíma.

Lauga mín vinnur fyrir sér sjálf. Hún er hjá húsbændum okkar (því ekki er annað kvenfólk en konan), og þykir þar mikið í hana varið fyrir það hvað hún er höndug í sér. Þaug hafa gefið henni nýja skó, og svo er hún í fæði hjá þeim.

Einn morgun snemma kom húsbóndinn til mín og segir mér að fara til næsta bæjar til að þreskja. Það er sver vinna. Það ganga 10 hestar fyrir vélinni, tveir og tveir samsíða með jöfnu millibili í hring utanum stöpul sem einn maður stendur uppá í miðjum hestahringnum og keyrir hestana, en þeir renna í kringum stöpulinn án þess að þeim sé stýrt; svo er það út búið. En vélin ryður úr sér hálminum svo fljótt að þrír menn hafa nóg með að bera upp hey úr honum, en kornið kemur að sínu leyti eins fljótt á öðrum stað útúr henni. Alltjend eru tólf menn við þreskingu. Þetta er gjört hjá hverjum bónda, og leggja þeir saman til þess. Eftir tvo daga við þessa vinnu bólgnaði ég undir hendinni, og gróf í því og kom út mikið af blóði og greftri, og hef [ég] ekki getað unnið í mánuð.

Hér eru bændur efnaðir. Húsbóndinn er virtur á 70 þúsund dollara eða eigur hans -- svo eru bændur virtir hér allir til skatts -- , og eru þó margir ríkari en hann. Faðir hans kom frá Noregi fyrir 26 árum, en Ó1i þá 14 ára, og gengu frá Milwaukee, því öngvir vóru peningar til að komast öðru vísi, og tóku hér land, og þetta eru þeir búnir að græða.

Einu sinni hefi eg farið til kirkju, og var messugjörðin rétt eins og á Íslandi, þó ég skildi lítið. Norðmenn eru allteins vel kristnir og Íslendingar, miklu meiri reglumenn, og bændur hér vinna meira en bændur heima. Flest vinna er hér hörð, og gjöra mest vélarnar, því það þarf að vinna með þeim, en þær reka á eftir, og held eg þoli hér aldrei vinnu, síst í sumarhitanum, og vildi eg gjarnan vera kominn heim aftur, en svo hefir verið skrifað að fleiri hafi verið fyrsta árið.

Ekki verðum við hér nema til vorsins, því Óli ætlar húsið sem við erum í norsku fólki sem hann hjálpar að komast þaðan og hingað, því Norðmenn eru alltaf að hjálpa uppá landa sína að komast hingað. En líklega verðum við hér einhvurstaðar nálægt í sumar, en á endanum held eg það sé áform flestra landa að taka land, líklega í Nebraska, því þar er ekki nema hálfbyggt, en landkostir góðir.

Það held eg sé gott fyrir alla unga menn á Íslandi, sem einhvurn tíma hugsa til að búa, að koma hingað, því ekki þurfa þeir að vera hér lengi til að eignast dálítið. Sama er að segja um einhleypt kvenfólk, og höfum við oft verið beðin um stúlku. En ekki er þeim til neins að koma, sem ekki líkar neinstaðar, og ekki heldur þeim sem vilja fá léttari vinnu.

Framfarir og vinnuvélar og regla á öllu hér, því get ég ekki lýst, því það er ótrúlegt fyrir þá sem aldrei hafa séð neitt eins og ég.

Það þótti mér aumt þegar Jón kom ekki á eftir mér til skemmtunar, því það var sá maður sem hefði bjargast hér bærilega, og vona eg að hann komi seinna án þess ég vilji ginna hann til þess.

Eftir veturnæturnar kom hríðarveður, harka og snjór, sem hélst í viku. Svo batnaði aftur. Nú er komið aftur frost og dálítill snjór.

Líklega kemur þú aldrei til Amerlku. Þó held ég það væri gott fyrir börn þín, því ekki er að óttast að afkomendur manns líði hér skort, það er að segja ef þeir sem hingað eru komnir komast einhvurstaðar bærilega niður.

Af því það er kostnaðarsamt að koma mörgum bréfum héðan til Íslands, bið eg þig að láta fólkið okkar á Eyjadalsá fá að sjá þetta klór, það er að segja ef þú getur sjálf lesið það, því ég ætla ekki að láta þurfa að segja að aðrir hefðu skrifað það og það, en það bið eg þig fyrir að láta ekki flíka klóri mínu víðar.

Ég bið nú hjartanlega að heilsa öllum kunningjum mínum og bið góðan guð að varðveita þá alla og gefi okkur að sjást og sameinast í eílífu lífi.

Endað 12. nóvember 1873 Guðmundur Stefánsson

Af því að eg er ekki búinn að senda bréfið á stað, en hefi frétt úr bréfi frá Íslandi þá sorgarfregn að Helga systir mín sé sáluð, og hugsaði jeg ekki að það mundi verða fyrsta fréttin að heiman, og ræð eg það því af, vinur, að senda þér bréfið, en bið þig að láta það ekki fara neinna á milli nema að Eyjadalsá, því eg hef ekki tök á að klóra nema eitt bréf til ykkar.

Ég vildi að litli Stebbi auminginn væri kominn til mín, því hér er kostnaðarminna að lifa en á Íslandi, því eg ímynda mér að við verðum aldrei mikið skuldug þegar veturinn er liðinn, því vinnu höfum við annað slagið og Norðmenn eru okkur vænir.

Ef þú sæir þér fært, þá held eg það væri gott fyrir þig að fara til Ameríku.

Góður guð styrki þig til að stríða góðu stríði í þínum einstæðingsskap og vinna sigur.

Það mælir þinn G.S.

Mér gleymdist að segja frá því, að Lauga mín hefir fengið alklæðnað hjá húsbændum sínum í kaup.

Fáein stef læt eg fylgja með, sem Stebbi hefir hjálpað mér um eftir systir mína undir þínu nafni.

Skrifirðu mér, ritarðu svo utan á: Mr. Guðmundur Stefansson Care of Mr. Ole O. Oftelie

Utica P.O. Dane County. Wisconsin America. U.S.