Vita Nuova
Útlit
Vita Nuova
Höfundur: Jón Thoroddsen yngri
Höfundur: Jón Thoroddsen yngri
Ljóðið „Vita Nuova“ kom út í ljóðabók Jóns Thoroddsen, Flugur, árið 1922.
- Úti er dagurinn blár og bjartur, en inni situr sorgin og segir fanganum sögur. Skuggarnir þyrpast í hornin og hlusta.
- Sólin hækkar á lofti. Geislarnir, sem skjótast dansandi gegnum járnvarinn gluggann, kyssa burt myrkrið úr klefanum.
- Einn þeirra vogar sér lengra en aðrir. Hann dansar eftir gólfinu, og kyssir á fótinn á Oscari Wilde. Fanginn lítur upp og undrast. Sorgin hættir að segja frá og brosir.
- Oscar Wilde stendur upp og gengur að glugganum. Hann horfir á litlu, bláu röndina, sem fangarnir kalla himin. Og hann sér hvítt ský þjóta eftir himinhafinu.
- Undarlegur söngur vaknar í huga hans. Hann er útlagi, sem á heima handan við hafið. Þar bíður hans eitthvað, sem hann elskar.
- Þú, sem ég elska.
- Ég hrindi bátnum úr nausti, því ég er sjúkur af heimþrá. Og ég hrópa til þín yfir hafið:
- Með hvítum seglum stefnir hann að ströndum þínum, útlaginn, sem elskar þig.