Vopnadómur
Höfundur: Magnús Jónsson prúði
Vopnadómur Magnúsar Jónssonar, kóngs umboðsmanns í Þorskafjarðarþingi, genginn að Tungu í Patreksfirði 12. okt. 1581, og dæma þeir málið til næsta Alþingis (1582).
Dómur að allir menn hér á landi sé skyldir að eiga vopn og verjur eftir fjárupphæð.
Í nafni heilagrar þrenningar meðkennum vér Björn Koðránsson, Jón Konráðsson, Gvendur Jónsson, Gottskálk Ólafsson, Þorkell Gunnarsson, Björn Brandsson, Jón Þorkelsson, Erlingur Þorsteinsson, Jón Grímsson, Svartur Jónsson, Ólafur Jónsson, Jón Gvendsson og Jón Þórðarson fyrir öllum og sérhvörjum sem þetta bréf sjá, lesa eða heyra lesið, þá liðið var frá frelsarans fæðing 1581 þann 12. dag Octobris í Tungu í Patrixfirði vorum vér í dóm nefndir af Magnúsi Jónssyni kóngs umboðsmanni í Þorskafjarðarþingi, að skoða og rannsaka, og síðan fullnaðardóms aðkvæði á að leggja um þá klögun og ákæru, sem hann þar samstundis fyrir oss fram bar, sökum fátæks almúga og almenniligrar nytsemi í hans umdæmi, sem var:
Í fyrstu um þann stóra ósið og almenniliga fordjörfun, já og líka vel má heita foröktun og afdráttur Danmerkur og Noregs krúnu, og vors hogbornasta, stórmektugasta kóngs fyrirlitning, sem hér til af nokkrum óforsóttum vorum sýslumönnum og fóvitum nú fyrir fimm árum, sem ei aðeins með skyldu hafa afskipað, já, og með heift og valdi fyrir mörgum dugandis mönnum vopn og verjur brjóta látið, heldur og af dæma látið svo gjörsamliga að menn hafa varla fundist svo um allt landið eitt lagvopn hafi átt eða þorað að hafa, svo opinberlega að hafi haft, frá sér reka, móti allra landa, allra þjóða, öllum plagsið, venju og lögmáli um alla veröldina. Sömuleiðis móti vorra forfeðra venju og plagsið sem plagast hefur til vorra daga, frá því fyrst Ísland fannst og byggðist, er allra handa vopn hafa átt og haft, sínum börnum og erfingjum eftir sig leift og látið, með hvörjum þeir hafa sig, sínar kvinnur og börn og góss fyrir ágangi og yfirburðum annarra þjóða verndað og varðveitt, sem eftirdæmi eru nóg fyrir höndum.
(1.) dæmi. Þá Haraldur kóngur Gormsson ríkti í Noregi vildi hann hafa siglt til Íslands með xv skipa fyrir það íslenskir menn höfðu kveðið níð um hann.
(2.) dæmi. Item Hákon kóngur Hákonarson vildi láta herja á Ísland fyrir sunnan og hefna á þeim Sæmund[i] Jónssyni [og] Oddaverjum fyrir mannsdráp.
(3.) dæmi. Svo og eru mönnum ekki ókunnugar gamlar aðferðir eingé[l]skra manna, er ætluðu að herja á Hólastað, og voru slegnir af ráðsmanninum staðarins og Skagfirðingum nær lxxx eða fleiri á Höfðaströnd.
(4.) dæmi. Kunnugt er mönnum það að eingelskir drápu Svein Þorleifsson, kóngsins fóvita af Danmörk, og hafa svo oft og tíðum rænt og stolið, slegið menn og drepið.
5. dæmi. Item í Grundavík, slíkt hið sama Björn Þorleifsson einn velburðugan mann, kóngsins fóvita, [slógu] eingélskir með mörgum öðrum í Rifi, þar að fimm ára stríð af hlaust millum Danmerkur og Einglands, fyrir hvörja sök kong Kristian inn sendi það bréf og r(éttar) b(ót) með Torfa Arasyni í landið, að eingélskir og írskir skyldu allir friðlausir sem hingað sigldu, utan þeir hefði kóngs leyfi.
6. dæmi. Svo og vita menn breytni og áform sem Sacharias Hóken, einn víkingur og ránsmaður, hafði og vildi hafa haft síðast fyrir sunnan og vestan.
7. dæmi. Þar með trúum vér öngum mönnum úr minni fallnar þær athafnir, rán, stuld, mannslög, heimsóknir, kvenna þýfingar og annað illt, að þeir spillvirkjar, er komu fyrir þremur árum, gjörðu um alla Vestfjörðu og vildu gjört hafa um allt Ísland, hvörja smán, skömm og óbætanlegan skaða útlenskum, innlenskum, ríkum, fátækum, konum og körlum, svo allir menn urðu sökum verjuleysis þann allan ójöfnuð, ofsa og yfirgang þeim að þola. Hvörs ills tilefni er sá dómur, er af hefur dæmt vopn og verjur, og upp á það að vér reynustum ei ættlerar, fordjarfarar vors föðurslands, þar með landráðamenn við vorn herra og kóng, því það er ei hæfilegt að vilja líða skömm, skaða á sér, sínum konum og börnum, góssi og peningum fyrir sína heimsku, forsjónarleysi og ómennsku, og uggandi á að enn megi, sem guð forði, vér verða, hvar ei [eru] stórar skorður viðreistar.
Því vill sagður valdsmann eftir háttalagi og formætti fátæks almúga og annarra bænda og búenda í sínum sýslum fyrirkoma og við sporna. Svo hefur hann og fyrir oss tínt og tjáð, að hann hafi um þetta ráðgast við heiðarlegan og ættburðugan herra Jóhann Bockholt, kóngsins lénsmann yfir Íslandi, og hefur hann samþykkur orðið, að hér skyldi fullnaðardómur á ganga. Svo og hefur vor hogborgnasti kóngur og herra sýnt sína konunglega mildi og umhyggju við oss sína fátæka þegna og undirsáta, í því hans náð hefur oss sent hingað til landsins fyrir ekki í hvörri sýslu vi byssur og viii spjót, sýnandi sína góða mildi og konunglegan vilja í þessu að hans kóngleg náð hefði þóknan á vorum aðburðum vopn og verjur að kaupa og annan viðurbúning að hafa, svo vér mættum oss verja, vorar konur og börn, fé og peninga fyrir hans náðar og vorum óvinum og þeirra áhlaupum, hvað enginn kóngur til þessa gjört hefur svo náðarsamlega við oss Íslendinga, hvað vér hans náð upp á hið náðarsamlegasta þökkum og skulum hans náð í öllum hlutum trúlyndir hittast og finnast meðan vér lifum.
Nú þótt vér kennum oss fákunnuga um slík vandamál að dæma, svo vér séðnir eður álitnir verðum, nein ný lög að byrja, þá þó samt viljum vér vorri skyldu nokkra fullnægju gjöra eftir vorum frekasta formætti, og það annað vér fáum ei yfir tekið f(yrir) réttunum hér síðan fyrir sjálfan kónginn og ríkisins ráðið í Danmörk dæma, hvör sjálfskylda oss ber vort föðurland verja, og hvör sök við skal liggja ef nokkrir fornæmast þar í móti að gjöra. Því vér höfum heyrt að almennilig nauðsyn allra landa væri inni fólgin í fjórum hlutum, sem er í siðum og embætti, í lögum og rétti, það þriðja í vernd og varðveislu síns föðurlands, og fjórða í þeim heilaga religione kirkjunnar og skólanna. Því viljum vér fyrst fyrir hendur taka hvörnin vér skulum fylgi veita. Item hvörjir það skulu gjöra, hvörn kostnað hvör skal til leggja, hvar vitar skulu látast og hvörjir þá skulu kynda, hvörjir innvörðu og útvörðu skulu halda, hvar menn skulu hæli hafa, hvörjir búsmala og aðra hluti skulu undan hafa, hvörjir vopnfæra menn skulu telja og vita í hvörri sveit. Sömuleiðis hvör verkfæri mönnum eru þarflegust til undanfærslu og hvör graftól menn skulu hafa. Síðast hvör vopn og verjur menn skulu í landið kaupa og hvað mörg hvör skal eiga.
Því í Guðs nafni Amen
dæmdum vér alla í sama takmarki skyldugan frið og gott samþykki við alla útlenska menn að hafa og halda, og eftir friði að leita, og öll tilefni þar til að finna að allur ófriður, upphlaup og ósamþykki og sundurþykki mætti niður setjast, og menn forðist allar vondar tilbekkingar við aðra menn. Og þó verði það sama með allri hógværð sætt, samið og niðursett og slegið. En kunni annars að ske eða verða, þá dæmum vér alla menn, ríka og fátæka, sitt föðurland að verja og kóngs umboðsmann flokks foringja að vera, eður þann annan þar þykir í hans stað best til fallinn, bæði að hörku, forsjá og skynsemi. Sömuleiðis hönum skylduga alla að hlýða, ríka og fátæka, unga og gamla, og þeim mönnum hann setur yfir hvörja. Því vor lög votta svo um kóngs kosning. Skal hvör biskup eða sýslumaður setja menn til stjórnar eður hegningar með bændum, að gæta lands fyrir þjófum og illþýði. Skulu þeir sem eftir sitja svo heimilir til gæslu yfir öðrum sýslum sem sjálfra sinna. Ella eru þeir sannir landráðamenn ef ei heldur landið friði fyrir þeirra vangæslu sakir. Hér að hnígur og eiður hirðstjóra og lendra manna
Item bænda eiður og alþýðu.
Item Mannh. iii. cap. Nú ræna menn eður herja, þá eru allir skyldir eftir þeim að fara, sá sem sýslumaður krefur til eður sá sem fyrir ráni varð eða hernaði, hvört sem fara í hella eða hóla eða virki, eða eru þeir á skipum eða hvar þeir hafa hæli er hernað gjörðu. Sekur hvör vi aurum við kóng er ei fer löglega til krafður. En það er hernaður ef menn taka menn eða fé manna af þeim nauðugum, berja menn, binda eða særa.
Item Mannh. vii. Ef sýslumaður þarf liðs að gæta veganda, þá skal hann nefna bændur til sem þarf.
Item í xvi. Nú hefur sá ei liðs kost til sem á telur, þá skal segja til sýslumanni, og ef sýslumaður krefur liðs með sér et cetera, og svo víðar í vorum lands lögum.
Item dæmum vér og alla skylda sig og sína menn að öllum hlutum kosta, svo lengi sem hernaður yfir stendur og vors kóngs vernd kann ei til að koma.
Hér með dæmum vér hreppstjóra í hvörri sveit menn til að kalla og eldkveikingar á hæðstu hæðum setja fyrir krossmessu, þar og alla vega má reyk sjá í byggðir, svo og skylduga til vita að kynda og vörð að halda, sem hreppstjórum þykir trúlyndastir og léttvígastir vera, og sýslumann sem fyrst við varan að gjöra.
Svo og dæmum vér sýslumann með hreppstjórum og öðrum skynsömum mönnum um að ráðgast fyrir krossmessu, hvar þeim þykir skást hæli og virki að hafa, svo að gamlir menn og ungir piltar með konum kynni börn og búsmala og aðra hluti þar í nánd að færa, og alla vopnfæra menn sig saman að taka, alla stigu og eftirfarir óráðvöndum að banna, þeim árásir að veita með ráði sýslumanns og annarra manna.
Svo og dæmum vér hreppstjóra skylduga alla vopnfæra menn að telja og sýslumanni að kunngjöra, og það hvör maður eigi lúður að hann megi öðrum benda og við vara, þar því má við koma.
Svo og skulu allir skyldir, eftir því sem færleik hafa, klafa, hrip eður vögur að eiga, þar þeir í megi sinn varnað með skyndi í láta og þeir mega ei skipum við koma.
Svo skulu þeir axir, pála og pálrekur og aðrar rekur eiga, þar þeir megi garða og grafir umhverfis sig girða og grafa, svo þeir megi fyrir áhlaupum og umsátum sinna óvina ugglausir vera.
Item að þeir kunni eina fylking að gjöra, þar með viti hvört þeir skulu kyrru fyrir halda, að snúast eður eftir renna.
Þetta og annað hljóta þeir að álíta og þeirra ráðum fylgja, er hér vita nökkur deili til, svo þeir verði skikkaðir til alls þessa.
Um vopn og verjur tala gamlar lögbækur í Noregi í hirðsiðum.
Flestum mönnum er það kunnugt, að allar flestar gamlar lögbækur votta bændum lagavopn, fullum bónda í sinni stétt, einvirkjum í sinni stétt, og sumar jafnvel þrælum ef þess er þörf.
Item og af því viti það allir menn, að þessi eiga að vera skyldarvopn handgenginna manna, lendra manna og sýslumanna; ber þeim því fleiri vopn að eiga sem þeir hafa fleiri metorð og tillögur af kóngi en aðrir menn.
En hvör skutulsveinn skal eiga [alla] harneskju, fyrst spandílar, vopntreyju, brynju, brynkollu, brynglófa, brynhosur, hjálm, stálhúfu, skjöld og sverð, spjót og plátu og buklara, handboga með tveimur tylftum brodda.
Þar fyrir í þennan máta höfum vér nú dæmt með fullu dóms aðkvæði alla skattbændur skylda að kaupa og eiga eina luntabyssu og iii merkur púðurs, þar með einn arngeir og annað lagvopn gilt og gott.
Item hvörn þann mann einhleypan, annan hvörn, þann er á x aura skuldlaust, að eiga lagvopn og stikhníf og þá ei bera utan í móti útlendum, og í þröng að fremja, hvar þeir mega ei lengri vopna njóta.
Item alla aðra, unga og gamla, þá sem eru yfir xv vetra, skulu skyldir [að] eiga eitt lagvopn hér gjört eftir sínum efnum, þeir fá því við komið.
Hvör sá sem á xx c, hann kaupi eftir fjárvexti, eftir því sem hann á xx c til: byssu, boga og langspjót fyrir hvörn sinn vígfæran mann og aðrar verjur, sem hann ætlar gagnlegar eftir dýrleika og hann verður til skyldaður, eftir dómi eða kóngs skipan, með því vér erum allir hans undirsátar og erum fríir af öllum leiðangurs ferðum og útboðum.
Dæmdum vér þennan dóm til lögréttu, undir höfuðsmannsins, lögmannanna og lögréttunnar yfirsýn það af að taka sem of frekt er, en því að auka sem vant er. Sömuleiðis hvað há sekt hér skal á vera ef af er brugðið.
Biðjum vér alla og sérhvörja dugandismenn vora fávisku og kunnáttuleysi að umbera, og góðan vilja fyrir verkið að taka, og vonum til allra er sitt fjör og föðurland, konur og börn, frændur og fé, góss og garða elska, munu þetta vort fánýtt erfiði og fánýta samsetning í besta máta virða.
Höfum svo stóru tilefni ei í styttra getað komið.
Samþykkti með oss þennan dóm greindur valdsmann, og setti sitt innsigli með vorum fyrir þetta dómsbréf, er skrifað var í Bæ á Rauðasandi iii nóttum síðar en fyrr segir.