Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Álfheiðar saga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfheiðar saga

Einu sinni er sagt að hafi verið kóngur og drottning. Þau áttu þann son er Geir hét. Hann var snemma bráðgjör og vel að sér um marga hluti. Hann hafði þann sið að fara daglega á dýraveiðar og var hann þó oftsinnis lattur þess af föður sínum, en það tjáði ekkert. Einu sinni sem oftar reið hann að vana á dýraveiðar með mönnum sínum. Nú vóru þeir allan daginn til kvölds. Þá koma þeir að einu litlu húsi og banka á dyr. Þar kemur út öldruð kona. Þeir spurja hana að nafni og ætterni. Hún kvaðst Hildur heita, en lengra mundi að segja frá ætterni sínu, og kvaðst mundi skemmta þeim með því að segja þeim ævisögu sína ef þeir vildu gera sér þá ánægju að þiggja hjá sér gistingu um nóttina. Kóngsson spyr menn sína hvurt þeir eigi að þiggja boðið og ráða þeir honum til þess því nú sé dagur að kvöldi kominn. Eru þeir þar svo um nóttina og er nú drukkið fast um kvöldið. Þegar þeir taka að gjörast ölvaðir þá biður kóngsson Hildi að segja ævisögu sína og byrjar hún svo söguna á þessa leið: Hún kvaðst vera kóngsdóttir; – „og þegar ég var ung þá þótti ég ein með álitlegri konum svo margir kóngar og kóngasynir urðu til þess að biðja mín, en ég synjaði allra þessara mála þvert á móti vilja föður míns og átaldi hann mig oft harðlega, en það tjáði ekki því í ungdæmi mínu hafði ég kynnzt við einn ungling mér ótignari, en sem þá fyrir happ og tilviljun var orðinn kóngur í næsta landi. En allt fyrir það vildi faðir minn fyrir engvan mun gefa honum mig. Einu sinni sem oftar kom kóngur úr fjarlægu landi að biðja mín, en ég synjaði eftir vanda. En faðir minn sagði að ég skyldi ekki undan komast. Þá tók ég til minna ráða og lét búa út skip og lét á það allt það sem ég átti dýrmætast í eigu mín og sigldi úr landi því faðir minn hafði gefið mér sex daga frest til umhugsunar; en á meðan átti kóngur að sitja að veizlu. Nú sigldi ég allt hvað af tók og komst á fimm dögum til þess lands sem ég ætlaði til og hitti ég þar fornkunningja minn sem tók við mér báðum höndum. Svo vorum við saman í þrjá mánuði áður en við héldum brúðkaup okkar að föður mínum forspurnum. (En síðan hef ég heyrt að faðir minn hafi látið leita mín, en hann fekk engva upplýsingu um hvarf mitt.) Á þennan hátt vorum við saman í tvö ár. Á þeim tíma áttum við eina dóttir sem við nefndum Álfheiði og er það fallegasta barn sem ég um dagana hef séð.

Einu sinni sem oftar þegar við að vanda sátum undir borðum þá var kóngi flutt mikil hersaga. Hann bregður skjótt við og spyr hvur fyrir ráði. Menn sögðu það vera föður minn. En þegar ég heyrði það þá varð ég svo hrædd að ég leið í öngvit. En þegar ég raknaði við þá var allt borgarliðið komið til móts við herinn. Þá varð mér það fyrst fyrir að taka barnið og flýði burt með nokkuð af frekustu nauðsynjum og hélt til skógar við þriðja mann. Og á þennan hátt var ég á mánaðarfresti kominn í annað land, og bar fátt til tíðinda þangað til einu sinni komum við að einu stóru bjargi og áðum þar nætursakir. Ég sofnaði skjótt af því ég var þreytt. En þegar ég loksins vaknaði þá voru fylgdarmenn mínir drepnir, en barnið horfið. Nú vissi ég ekkert hvað til bragðs skyldi taka; en með því ég hafði nokkra dýrgripi og gullpeninga á mér þá réð ég það af að fara til sjávar og fá mér far með skipi þó ég kostaði þar til aleigu minni. Nú lagði ég fótgangandi af stað þangað til ég eftir langa mæðu komst til sjávar og fekk mér far með skipi og komst að lokum til þessa lands. En þegar ég kom hingað þá fékk ég menn til að byggja þetta hús. Síðan hef ég búið hér og veit ég ekkert hvunær raunir mínar taka enda, en þó segir mér hugur um að ég fái einhvurn tíma raunaléttir í ellinni.“

Kóngsson þakkaði henni með mestu virktum skemmtunina og menn hans á sama máta. En af því kóngsson var orðinn ör á sér af drykkjunni þá heitir hann fyrir sér að hætta ekki fyrri en hann finni Álfheiði annaðhvurt lífs eða liðna. Eftir það hætta þau talinu og ganga til rekkju og sofa fast um nóttina og vakna ekki fyrr en Hildur vekur þá og segir að mál sé að búa sig til ferðar því fólk sé orðið hrætt um þá. Þeir bregðast skjótt við og stíga á hesta sína og ríða heim til hallar og er þeim vel fagnað. En þegar fram líða stundir þá sækir kóngsson ógleði mikil svo faðir hans spyr hvað að honum gangi. Hann svarar að kyrsetur leiðist sér þar sem allir aðrir kóngasynir séu í siglingum, en hann segist hvurgi hafa farið nema um ættjörðu sína og biður nú föður sinn fararleyfis. Hann (faðir hans) veitir honum þá bæn og er nú búið út mikið skip með alslags matar- og drykkjarvöru og mikið af gulli og silfri og var allt hið ríkmannlegasta og siglir hann nú úr landi með fríðu föruneyti, og blés á góður byr og lentu þeir í hafvillum og komu að þremur vikum liðnum að einu ókunnu landi. Þeir kasta þar akkerum og stíga á land. Þeir ganga svo nokkurn tíma þangað til þeir heyra söng mikinn. Þeir ganga á hljóðið og sjá álengdar mikið og stórt hús og stóran garð í kring. Þá undrar að sjá svo stórt hús standa einsamalt í þessari eyðimörku. Þeir ganga svo að húsinu og er þar opið hlið. Þeir ganga þar inn og verða ekki nokkurs varir og stendur þar allt opið fyrir þeim. Þeir ganga svo um mörg herbergi og verða einkis varir og bera þeir svo mikil matföng þar inn og halda sér þar mikla veizlu allt til kvölds; þá lögðust þeir til hvíldar og sofnuðu skjótt. En þegar þeir eru búnir að sofa nokkra stund þá vakna þeir við mikinn söng svo kóngsson rís úr rekkju og klæðist og gengur á hljóðið og upp í einn háan turn. Þegar hann kemur þar sér hann kvenmann sitja á stól og spilaði á gígju. Hún tekur þannig til máls: „Þar ert þú kominn, Geir kóngs[son]; þú hefur lengi leitað að gæfu þinni.“ Hann undrar að hún skuli heilsa svo kunnuglega upp á sig og spyr hana að nafni. Hún kveðst Álka heita og vera dóttir kóngsins af Grikklandi. Hann spyr því hún sé hér komin. Hún segist hafa verið gift einum kóngssyni – „og héldum við brúðkaup okkar áður en við fórum frá Grikklandi. En ég átti gamla fóstru sem var mjög fjölkunnug og hafði hún kennt mér þessa sína list. Henni var mjög á móti skapi að ég gengi að eiga þennan kóngsson því hún þóttist ein eiga að ráða gjaforði mínu, en hún var ekki spurð að. Þegar ég var búin að taka við öllum heimanmund mínum og öll skip vóru tilbúin og ekkert var eftir nema að kveðja vini og vandamenn þá gekk ég í kastala til fóstru minnar til að kveðja hana. Þá tekur hún þannig til máls og kenndi ég þá harðlega hennar vonzku. Hún sagði að héðan af skyldi flest snúast mér á móti þangað til ég bæði sig fyrirgefningar á því sem ég hefði styggt sig. En ég sagði að ef nokkurn tíma rektist fram úr hörmum mínum þá skyldi ég hegna henni að maklegleikum, og skildum við svo að fátt varð um kveðjur með okkur. Svo hélt ég ofan til sjávar og steig á skip. Nú siglum við í nokkra daga og var á blásandi byr þangað til við sáum land. En þegar skammt var til lands þá brotnaði skipið í spón, en mönnum og fé varð bjargað og var allt flutt til lands og svo fóru menn að leita að byggð, en fundu enga. En með því að nógir voru tréskógar þá var tekið til smíða og að fjórum mánuðum liðnum þá var enduð smíðin því þá var þetta hús sem hér er, fullgjört. Nú var tekið til að smíða skip og var það jafnsnemma búið; og nú átti fyrst að reyna skipið áður en menn sigldu alveg úr landi og fór allur þorri manna nema ég og nokkrar þjónustustúlkur og öll matföng og annað fleira og fórum við niður til sjávar að horfa eftir skipinu. En þá rann á blásandi byr svo skipið hvarf fljótt úr augsýn og veit ég ekkert um það framar hvurt það hefur farizt eða komizt af og þykir mér álögur fóstru minnar hafa komið fram á mér. Svo sátum við hér heilt ár með mikilli sorg og lifðum bæði á þeim föngum sem okkur var eftir skilið og líka á því sem við sjálfar gátum útvegað okkur af fuglum og öðrum villudýrum. En einu sinni sem oftar fóru þær á veiðar nema ein sem vön var að vera hjá mér og hafa þær ekki komið síðan svo nú eru ekki neina við tvær og á ég bráðum von á henni af veiðum. En nú vil ég biðja yður liðveizlu og skal ég kunna yður mikla þökk fyrir.“ Hann tekur því vel og kvaðst mundu reyna það sem í hans valdi stæði til að hjálpa henni. „En nú vil ég,“ segir hún, „spyrja yður hvurnig stendur á komu yðar hingað.“ Hann segir henni allt sem áður er sagt og biður hana ef hún geti sagt sér nokkuð hvar Álfheiður var niður komin. Hún segir að snemma á morgun megi hann koma til sín, en nú sé honum bezt að leggjast til hvíldar. Hann gerir svo og sefur af til morguns, en hún situr eftir og hugsar til þess er hún lofaði.

Um morguninn rís Geir snemma úr rekkju og hittir Álku að máli og spyr hvurt hún sé nokkurs vísari. Hún segir það vera og segir að á Grikklandi þar sem faðir sinn sé, nokkuð frá höll hans, sé stórt bjarg – „og búa þar tveir dvergar ljótir og illir viðureignar, og sé hún ekki þar þá veit ég eigi hvar hún er niður komin. En hún er ekki gripin úr höndum þeirra þó þér vitið hvar hún er, en ég mun veita þér lið eftir megni.“ Geir þakkar henni með mörgum fögrum orðum og segir mönnum sínum að búast skjótt til ferðar og gera þeir svo og er nú tekið allt fémætt úr húsinu og sigla þeir svo úr landi og komast [á] nokkrum tíma til Grikklands og koma við land nálægt bjargi því sem áður er um getið og stígur kóngsson á land með kóngsdóttur og annan mann, en hitt skyldi gæta skipa. Ganga þau inn í þykkvan skóg og finna þar fyrir sér lítið og laglegt hús og biðjast þar gistingar. Er þeim þar vel fagnað. Snemma næsta morgun kemur Álka til kóngssonar og biður hann klæðast; hún segist ætla að fylgja honum til bjargsins. Gerir hann svo. Ganga þau nú tvö ein til klettsins. Þegar þau koma þar þá fær kóngsdóttir honum hring og tígulkníf og bað hann hvörtveggja vel geyma, og við það skilja þau, en hann drepur ábjargið og kom þar út dvergur og spyr hvur sé svo vogaður að ónáða sig. Kóngsson segir til sín. Dvergurinn spyr hann erinda. Hann segist vera kominn til að leita Álfheiðar konungsdóttir. Þar eftir fylgir dvergurinn honum inn og voru lagleg híbýli. Þar inni sér kóngsson annan dverg. Hann heilsar honum kurteislega og spyr hann að nafni. Hann kvaðst Austri heita. Austri spyr hann að erindum. Hann segir sem fyrr. „Heldur þú,“ segir Austri, „að hún sé hér komin?“ „Fyrir því hefur mig órað,“ segir Geir, „og því er ég hér kominn.“ „Ég vona þó,“ segir Austri, „að ég og Norðri bróðir minn getum fríað okkur af ráni Álfheiðar. En nú skaltu, Norðri,“ segir hann, „færa honum vín til hressingar.“ Gerir hinn svo og kemur hinn skjótt aftur með stóra vínkönnu og setjast þeir allir til drykkju og undrar Geir það mikið að Austri stendur aldrei upp. Og um kvöldið ber Norðri hann til rekkju, en vísar Geir til annarar rekkju og síðan er allt í þögn. En um morguninn snemma vekur Norðri kóngsson og biður hann klæðast. Þar eftir gengur hann að rúmi bróðir síns og vekur hann og klæðir og ber síðan til sætis. Þar eftir ber hann mat á borð og setjast þeir allir þar að. Þá spyr Austri hann því hann leiti Álfheiðar. Hann segir honum allt hið sanna af ferðum sínum og spyr hvurt hann geti ekkert liðsinnt sér. Austri segist muni reyna ef hann vinni eina þraut. Geir spyr hvur hún sé. Austri segir: „Við vorum ekki nema þrír bræðurnir og bjuggu foreldrar okkar hér og höfðu eigi fleiri manna. Það var venja okkar bræðra að fara hvurn dag á skóg og höggva við í eldinn. Eitt sinn þegar við að venju höfðum þenna starfa þá sáum við stóran gamm koma fljúgandi í loftinu og hafði mann í klónum. Hann flaug svo lágt að hann barði mig með vængnum svo ég féll niður, en gat þó höggvið til hans með brenniöxi minni svo hann vængbrotnaði, en sleppti manninum og var hann þá mikið lerkaður og fylgdum við honum heim til foreldra okkar og var honum þar vel hjúkrað. En þegar hann var albata þá sýndu foreldrar okkar honum alla auðlegð sína; en með því hann var vanþakklátur þá reyndi hann að sæta tækifæri til að drepa foreldra okkar. En með því þau ekki vöruðust illsku hans, þá tókst honum það eitt sinn er þau höfðu gengið út af húsi sínu, en við bræðurnir sátum inni og heyrðum ógnarlegt hljóð og gengum út og sáum hvað um var að vera. Þá skelltum við í mesta flýtir aftur bjarginu svo hann gat ekki komizt inn. En þegar hann sá að illverk hans upp á þennan máta var ónýtt þá reiddist hann svo mikið að hann gekk að bjarginu og sagði ef nokkur heyrði mál sitt þá skyldi sá grimmilega kenna á sér. Hann tók þar eftir upp hjá sér tvær gullspennur og sagði að þær skyldu vefjast utan um fætur mína og herða alltaf að þangað til jafngott gull er borið við – „og mun það seint verða því nú veit ég eigi annað eins gott nema hjá Álku kóngsdóttur á Grikklandi og er það ekki í höndum ukkar; því þó þið beitið fjölkynngi þá náið þið því ekki því nú þegar skal ég vara hana við.“ En ég sagði að þegar ég kæmist úr þessari kreppu þá skyldi hann vera hengdur hæst upp í bjargið og við það skildum við. En nú sit ég hér nær dauða en lífi því alltaf kreppir að fótum mínum.“

Nú dettur kóngssyni í hug hringurinn og knífurinn sem Álka hafði gefið honum og tekur nú hvurju tveggja upp og ber við. Springur þá strax utan af fótum hans og verður hinn við það glaður í bragði og þakkar honum með mörgum fögrum orðum hjálpina og segist nú muni reyna að finna Álfheiði. Eftir það ber bróðir hans hann til rekkju og smyr sárin ágætum smyrslum. Þar eftir gengur hann í burtu og kemur að vörmu spori aftur með Álfheiði og verður kóngsson við það mikið glaður og spyr á hvurn hátt hún sé hjá þeim. Þeir segja að þegar þau hafi verið sofnuð undir þessu sama bjargi þá hafi komið stigamaður sem hafi búið hér í skógnum, stungið móðir hennar svefnþorn, en drepið alla mennina og ætlað að ræna meyjunni; – „en við urðum fljótari til og náðum henni og síðan hefur hún verið hér.“ Og þar eftir þakkar kóngsson þeim mikillega til hjálpina og gefur þeim svo mikið sem þeir vilja af gulli og silfri. En dvergarnir gáfu honum eitt ker af gulli sem hafði þá náttúru að það þraut aldrei vín á því. Þar eftir skildu þeir með miklum kærleikum og fer svo kóngsson með Álfheiði og hittir Álku þar sem hún var ennþá í húsinu og segir henni allt sem farið hafði. En hún samfagnar honum og segir að nú sé hún búin að vita hvar maðurinn sinn sé niður kominn; – „og þykir mér vænt um að hann hefur átt skemmtilegri daga en ég því hann er nú hjá föður mínum og hefur fóstra mín gefið honum drykk svo hann hefur gleymt mér. Og vil ég nú að þér fylgið mér heim til föður míns.“ Hann gerir svo og var þeim þá vel móti tekið og slegið upp veizlu; og að veizlunni endaðri er Geir leystur út með góðum gjöfum. En það er að segja frá því að þegar fóstra Álku sá hana þá varð hún að flagði og var síðan brennd.

Nú víkur sögunni aftur til Geirs. Hann sigldi til föður Álfheiðar og frétti hvurnig stríðið á milli kónganna hefði farið. Faðir Álfheiðar hafði unnið og þeir sætzt. Þar eftir hefur hann upp bónorð sitt til Álfheiðar og er það auðsótt. Þar eftir siglir hann úr landi með mikilli sæmd og heim til föður síns og verða foreldrar hans honum mikið fegnir. Nú er stofnað til mikillar veizlu og giftist kóngsson þar Álfheiði og sat Hildur veizluna. En að henni endaðri þá fer hvur heim til sín; en hann gefur Hildi skip sem hún sigldi heim til sín á. Og lýkur hér þessari sögu.