Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ævintýr af kaupmanni og hans fríðu konu

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Ævintýr af kaupmanni og hans fríðu konu

Kaupmaður einn átti sér unga og fríða konu; hún lét svo dátt að honum að hún lofaði honum ei að heiman eður til sinna kaupferða utan hann kæmi heim aftur að kvöldi, því á daginn gæti hún illa umborið það að missa hann, en með engu móti á nóttunni. En með því kaupmaðurinn þurfti lengri tíma til sinnar verzlunar þá gekk þessi kvinna hans til einnrar kerlingar og mælti: „Mín góða vinkona, ég hefi heyrt sagt að þú gætir því til leiðar komið að mennirnir kæmi heim til kvenna sinna þá þær við þyrftu.“ Sú gamla galdrakerling mælti: „Sjá til að þú getir fengið mér þrjú augnabrúnahár manns þíns, þá skal ég gjöra það er þú biður.“ Eftir það mælti sú óþola kvinna við mann sinn: „Minn elskulegasti, gef mér þrjú brúnahár þín til yndis og skemmtunar á meðan þú ert að heiman.“ Hann mælti: „Á laugardaginn læt ég raka mig og þá skaltu fá þau.“ Hún mælti: „Ég get ekki beðið svo lengi.“ Í þá daga höfðu kaupmenn loðnar selskinnstöskur. Nú gekk þessi kaupmaður inn í hús sitt og tekur þrjú hár af tösku sinni og lét þau innan í pappír og fær þau konu sinni, en hún þakkar honum af kærleika. En svo bar við að kaupmaður ferðaðist til sinnar útréttingar, en hún fór til vinkonu sinnar og færði henni hárin. En kaupmaðurinn kom til þess staðar er hann ætlaði sér og margir kaupmenn aðrir, en um kvöldið gengu þeir til herbergis og hengdu töskur sínar á þilið. En sem þeir voru háttaðir tók þessi kaupmannstaska sem hárin voru af tekin að kvika á þilinu og alltjafnt vex það meir og meir þar til hún stökk af uglunni og hleypur til dyra og svo upp og niður um hurðina, en kaupmaðurinn biður að ljúka upp fyrir henni því hún mundi brýnt erindi eiga. Að upploknu fór hún sinn veg og nam ei fyr staðar en hún kom að húsdyrum húsmóður sinnar; þar barði hún á dyrnar. Kvinnan heyrði það og meinar mann sinn kominn vera, hleypur á fætur og lýkur upp, en taskan hljóp upp um hana. Henni brá við og vill forða sér, en það dugði ei, því hvurt sem hún flúði fylgdi taskan henni. Svo varð hún í heilar þrjár nætur að þola henni það að brölta á maganum á sér unz kaupmaðurinn kom heim. Hef ég ei heyrt það að hún hafi oftar leitað ráða til þessarar fúlu kerlingar.