Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þáttur af Ingibjörgu og Hildi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þáttur af Ingibjörgu og Hildi

Ungur konungur nokkur hafði búið saman við drottningu sína um nokkur ár án þess þeim yrði barna auðið. Gjörðist konungur af því fár og leiddist heima að sitja, bjóst því til hernaðar og setti trúnaðarmann sinn til að gæta ríkis með drottningu. Og þá er hann fór mælti hann til hennar að hún skyldi hafa fætt honum barn þá er hann kæmi aftur, og eftir það fór hann leið sína. Drottningu varð þungt í skapi, og varð henni reikað út í urtagarð konungs. Hún horfði þar á lilju eina og mælti: „Það vildi ég að ég hefði fædda svona fagra dóttur þá er konungur kemur heim.“ Maður hafði gengið að baki drottningar og heyrt það er hún mælti; sá hét Surtur, svínahirðir konungs, hið mesta illmenni. Hann mælti: „Það mæli ég um að svo verði sem þú mæltir, en litla gleði skaltu hafa af þeirri dóttur. Skaltu sjá hana þrem sinnum á ævi þinni og hvurt sinn leggja nokkuð illt á hana.“ Drottning fer heim og er þungt í skapi. Litlu eftir þetta tekur hún að þykkna, og er tími var til kominn fæddi hún dóttur fagra mjög. Hana lætur hún heita Ingibjörgu. Hún lætur strax fá henni fóstru og skulu þær búa í skemmu einni, og er fóstran bar barnið út mælti drottning við barnið: „Þú skalt eiga barn í föðurgarði, en þó á laun.“ Og eftir þetta kemur konungur heim og þykir vel er hann hefur fengið lífsafkvæmi.

Líða nú stundir þar til Ingibjörg er vaxin nokkuð. Þá sendi drottning eitt sinn eftir henni og fóstru hennar og fóru þær til hennar. Hún horfði á dóttur sína um hríð og mælti: „Þú skalt brenna höll föður þíns á laun.“ Og nú fara þær aftur, og enn líða stundir þar til drottning tekur sótt þá er hana leiddi til bana. Þá lætur hún kalla Ingibjörgu fyri sig, og fer hún þangað og fóstra hennar. Drottning mælti til Ingibjargar: „Þú skalt verða mannsbani á laun,“ og eftir það andaðist drottning. Engi vissi álög þessi utan þær fóstrur. Gengu þær til skemmunnar og var þungt í skapi. Konungur undi lítt eftir dauða drottningar, og tekur hann það ráð að hann biður þeirrar konungsdóttur er Hildur hét, og játaðist hún honum með þeim skilmála að hún fengi að halda meydómi sínum um þrjú ár því hún þóttist of ung. Konungi þótti þetta viturlega mælt.

Fór Hildur heim með konungi og tók sér aðsetur hjá Ingibjörgu og fóstru hennar, og varð brátt mjög ástúðlegt milli þeirra. Sagði fóstran Hildi af álögum þeim er Ingibjörg hefir orðið fyrir og alla orsök þeirra. Hildur bað þær ekki kvíða, kvað allt vel fara mundi, og ekki miklu síðar sagði Ingibjörg Hildi að hana langaði mjög til að eignast afkvæmi. Hildur kvað gott til ráða, „er hér hnoða er þú skalt fylgja hvurt sem það rennur, og muntu finna mann og mun sá biðja þig að hvíla hjá sér. Það skaltu gjöra þó þér þyki hann ófagur.“ Fer nú Ingibjörg eftir hnoðanu út á skóg og þar til hún kemur að húsi nokkru og fer þar inn. Þar sér hún mann sitja ógurlega ljótan. Hann stóð upp mót henni og bað hana velkomna að hvíla hjá sér þá nótt. Henni bauð mjög við honum, en þó varð það að hún lá hjá honum um nóttina, og um morguninn eftir fer hún heim, og litlu síðar finnur hún að hún er ólétt orðin. Surtur svínahirðir hafði grun af því og segir konungi og bað hann reyna hvurt ekki væri satt. „Skaltu í kvöld er þú gengur til hvílu kalla hana til þín og biðja hana að klá þér bakið.“ Konungur gjörir svo, og er Hildur veit þetta mælti hún: „Hafðu kjöltutík þína í möttulskauti þínu svo þú getir sýnt konungi ef hann spyr þig hvað kvikar hjá þér.“ Og svo gjörir Ingibjörg, og er hún kló mælti konungur: „Hvað kvikar hjá þér, dóttir?“ „Kjöltutík mín,“ segir hún og sýnir honum og fer burt síðan. Eftir það mælti Surtur til konungs: „Far þú eitthvurt sinn til skemmunnar og bið Ingibjörgu að syngja nokkuð og vit ef hún hefir meyjarhljóð.“ Konungur gjörir þetta og er Ingibjörg skyldi syngja setur Hildur hana í kné sér og syngur að baki hennar, en Ingibjörg bærir varirnar aðeins. Heyrði konungur að það voru meyjarhljóð og fer hann nú burt og er ánægður.

Nokkru síðar fæðir Ingibjörg sveinbarn frítt. Tekur Hildur við því og kemur í fóstur á laun hjá karli og kerlingu í koti nokkru og kölluðu þau hann sinn son, og er Ingibjörg er heil orðin segir hún Hildi að hana langar mjög að brenna höll föður síns. Hildur bað hana bíða við um hríð, og fer hún á fund konungs og mælti: „Það er mitt ráð, herra, að þér látið sem skjótast gjöra yður nýja höll og flytjið yður og allt fémætt burt úr þessari, því svo hefir mig dreymt að hún mun brenna af lofteldi innan skamms tíma.“ Konungur kvað svo vera skyldi, og lét hann mjög flýta þessu verki, og er því var lokið fer Ingibjörg til um nótt og leggur eld í höllina konungs ena gömlu, og brennur hún til ösku.

Litlu síðar segir hún Hildi að hana langar mjög til að bana manni nokkrum. Hildur kvað Surt þess maklegan. „Skaltu á morgun biðja hann að síga í berg við sjó og taka egg því þig langi mjög í þau, og bjóð honum að halda sjálf í festina. Það mun honum þykja að meiri sæmd og fús til fara, en þegar hann sígur niður í bergið skaltu sleppa festinni og láta hann hrapa, en stilltu svo til að menn verði ekki varir við ferð ykkar.“ Ingibjörg fer nú að öllu eftir því sem Hildur gaf ráð til, og þarf ekki orðum að auka að Surtur hrapaði og lét líf sitt. Brátt saknar konungur Surts, en engi kunni að segja honum hvar hann var niður kominn. Konungur kvað lítinn mannskaða þó hann væri dauður og var engi rekstur að honum gjör.

Líður nú þar til er Hildur hefir setið þrjá vetur í festum; þá gjörir konungur brullaup til hennar. Þar var veizla fögur og var þar faðir Hildar og bróðir hennar þroskaður, hinn efnilegasti maður og vel að íþróttum búinn. Og að þessari veizlu hefur hann upp orð sín og biður Ingibjargar. Konungur játti því fyrir tengda sakir og vináttu, en kvað þó dóttur sína of unga til að giftast. Hildur mælti þá: „Ekki er hún svo ung að veit hún hvað það er að vera móðir, því þau bróðir minn eiga svein þann sem hér elst upp í karlskoti.“ Konungur roðnaði við og spurði hvursu það mætti vera. Þá lét Hildur kalla þangað fóstru Ingibjargar og sagði hún ævisögu Ingibjargar svo konungur heyrði og allur lýðurinn. Þótti konungi mikils um þetta vert og þakkaði Hildi hvursu viturlega hún hefði farið í því efni. Ingibjörg leit þá til unnusta síns og mælti: „Miklu þykir mér þú fríðari en karl sá er ég fann á skóginum, og þykir mér ekki vera mega að þú sért sami maður.“ Hann svarar: „Þó er ég sá sami, en ill vættur hafði það á mig lagt að ég skyldi verða manna ljótastur og búa í einsetu á skógi og sinna ei öðrum mönnum þar til nokkur konungsdóttir hefði sofið hjá mér. Það gjörðir þú og frelstir mig svo úr álögunum. Ertu því maklegust mín að njóta.“ Er þar skjótast af að segja að þau giftast að hinni sömu veizlu, og eru bæði brullupin haldin í einu og að lokinni veizlunni eru boðsmenn með gjöfum út leystir og fer hvur heim til sín. Fer Ingibjörg heim með manni sínum og fóstra hennar, og skilja þær Hildur með kærleika. Konungurinn faðir þeirra Hildar gaf þá upp ríkið syni sínum, og stjórnaði hann þar til elli. Þau konungur og Hildur ríktu bæði vel og lengi og hélzt vinátta [með] þeim öllum til dauðadags. Og lýkst svo þessi þáttur.