Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þú ert mitt ofurefli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Þú ert mitt ofurefli“

það var einu sinni karl og kerling sem ekkert áttu í eigu sinni og ekki einu sinni neinn krakka, en höfðu tökustrák sem var heldur ódæll, enda fóru þau ekki sem bezt með hann.

Einu sinni bað kerling hann að sækja vatn, en strákur sagðist hvergi fara nema hann mætti koma með brunninn inn á eldhúsgólfið. Kerling sagði að hann mætti það ekki því þá færi allt á flot í eldhúsinu. Strákur sagðist þá hvergi fara svo að kerling varð að sækja vatnið sjálf. Einnig bað hún hann að sækja fyrir sig tað, en strákur sagðist hvergi fara nema hann mætti koma með allan taðhlaðann; en kerling vildi það ekki og varð því að sækja taðið sjálf.

Þegar karl kom heim um kvöldið sagði kerling honum að hún réði ekkert við strákinn því hann væri svo óþægur. Karl sagðist skyldi fara með hann út á skóg og reyna að temja hann. Hann fer svo með strák út á skóg um morguninn. Þegar þeir eru komnir út á skóginn sendir karl langri járnstöng sem hann hafði í hendinni svo langt upp í loftið sem [hann] getur og segir svo karl stráknum að sýna sér hvað langt hann geti sent. Strákur tekur við stönginni, en getur naumast staðið undir henni. Karl segir honum að henda. Strákur segist vera að bíða eftir því að þykka skýið þarna beri upp yfir þá; hann segist ætla að senda stönginni upp í það. Karl vill ekki fyrir neinn mun að hann sendi stönginni og segir: „Það er bezt þú snáfir í burtu því þú ert mitt ofurefli.“ Og rak hann þá strákinn burt frá sér og varð hvor feginn að losast við annan.