Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þegar flotinu rigndi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þegar flotinu rigndi

það var eitt sinn konungur og drottning, réðu fyrir ríki. Þar bjuggu fátæk hjón nálægt. Konungur átti uxa marga og þótti vænt um þá; en til eins þeirra þótti honum svo mikið koma að hann lét gullfesti um háls honum og hringa á horn hans.

Eitt sinn kemur það fyrir að þetta hans eftirlæti hverfur og finnst hann hvergi þótt víða væri leitað. En það er frá uxanum að segja að nábúi konungs nær uxa hans frá honum og færir heim til sín og slátrar. Einu sinni fer karl út á skóg; en svo bar til er karl var farinn að margir hrafnar komu til bæjar hans. Þeir fóru þegar að éta innvolsið úr nautinu og er þeir voru búnir að éta það bar konan út annað lærið fyrir þá og átu þeir það strax. Eftir það ber hún hvað af öðru og komu æ því fleiri hrafnar og éta allt upp. Kemur maður hennar heim er kvöld var komið. Þá fer hún að segja honum frá því að í dag hafi komið margir englar frá himni og hafi hún gefið þeim alla átuna af uxanum og hafi þeim þótt vænt um það því þeir muni hafa verið svangir. Lætur hann sér fátt um finnast er hann heyrir þetta, en ber þó inn beinanögurnar.

Einn góðan veðurdag kemur hann að máli við konu sína og segir að nú skuli hún fara heim í konungsríkið og stela þar svo miklu sem hún geti. Afsegir hún í fyrstu, en lætur þó til leiðast af fortölum manns síns. Og er hún var farin og karl er ekki nema einn þá setur hann ketil á hlóðir og fer að sjóða kjöt. Nú er konan kom heim (og hafði stolið miklu) og gengur inn, en maður hennar fer upp á glugga svo hún veit ekki og kastar kjöti og floti inn um hvern glugga. Fer þá konan heldur glöð að tína saman og fyllir trog og segir þá við sjálfa sig að þetta muni vera laun fyrir það er hún saddi þá góðu anda á uxakjötinu.

Nú er það frá konungi að segja að hann setur fjölmennt þing og kemur karl þangað sem aðrir og mega þar allir sverja að þeir hafi ekki stolið frá konungi. En áður karl fer að heiman biður kerling hann innilega að segja rétt frá athöfnum þeirra. Hann neitar því þverlega. Segist hún þá muni sjálf fara og segja sannleikann. Karl verður allreiður þessu og bindur hana við stoð í anddyri og fer leiðar sinnar. En er hæst stendur þing konungs heyrist kall þar skammt frá og er farið að hyggja að hvað vera muni. Er þar þá komin kerling og er með stoðina á herðunum. Hún segir þá: „Þú mátt ekki sverja, karlinn minn; við stálum, við stálum.“ Var þá karl tekinn fyrir og krufinn frásagna, en hann kvað konu sína vitlausa vera. Var hún spurð nær þau hefðu það gjört. Hún svarar: „Það var þá er rigndi flotinu og kastað var kjötinu.“ „Heyrið, heyrið,“ segir karlinn, „hvört ég hefi ekki áður rétt mælt; hver minnist þess dags?“ Var þar enginn sem þar hefði minni til og var hún álitin frávita, en karl satt frá segja. Lét þá karl eið fram fara. Fóru þau síðan heim og kom vel ásamt. Dó hún nokkru síðar.

Og endar svo þessa frásögn.