Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þorsteinn karlsson

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þorsteinn karlsson

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu sér eina dóttur sem Ingibjörg hét. Karl og kerling voru í koti sínu þar nálægt; þau áttu sér einn son sem Þorsteinn hét. Þegar börn þessi voru komin nokkuð á fót léku þau sér saman barnleikum. Fór því fram um stund unz Ingibjörg stálpaðist betur; lét kóngur þá búa til handa henni kastala og fékk henni margar þernur; skyldi hún leika sér við þær, en hætta öllum leikum við Þorstein af því kóngi þótti það ekki hæfa.

Leið nú og beið um langan tíma að ekkert bar til tíðinda. Þegar Ingibjörg var orðin gjafvaxta urðu margir til að biðja hennar, kóngar og kóngasynir, jarlar og höfðingjar, því hún var orðlögð á hvert land fyrir fegurð, kurteisi og kvenlegar listir. En þeir fengu allir hryggbrot, ekki af því að kóngi þætti ekki dóttur sinni neinn þeirra fullkosta, heldur af hinu að hann hafði tekið það í sig að gefa engum dóttur sína nema þeim sem gæti fyllt gráan nautsbelg af orðum sem hékk uppi yfir hásæti kóngs í höllinni; það var kallaður orðabelgur. En það gat enginn biðlanna. Þegar þetta barst út vildi enginn leggja virðing sína í hættu að reyna sig á orðabelgnum því öllum þóttu endalokin auðsén og því minnkaði brátt aftur biðlagangurinn.

Nú verður að geta þess að kóngur átti laug skammt frá borginni; þangað gekk hann þriðja hvern laugardag í bað, en drottning hans og dóttir hina laugardagana tvo, sín hvorn. Þorsteinn karlsson vissi hver háttur var á með baðgöngur þeirra kóngs, og einn laugardag sem hann vissi að kóngur mundi lauga sig fór hann til karls og kerlingar og bað þau að ljá sér gulltaflið góða; því þau áttu þrjá kjörgripi, gulltafl, gullhlað og gullmen,[1] og fundust hvergi jafngóðir gripir. Karl og kerling voru treg til þess, sögðust lengur hafa átt taflið óeytt, en hann mundi sólunda því ef það kæmist í hendurnar á honum. Þorsteinn sagði að þau skyldu ekki vera hrædd um það, þau skyldu fá taflið aftur og margfalt meira. Fór þá svo að þau léðu honum taflið og fór hann með það til kóngslaugarinnar og var þar fyrir þegar kóngur kom og ætlaði að ganga í baðið. Þegar kóngur sér Þorstein segir hann: „Hvað aðhefst þú hér, Þorsteinn karlsson? Snautaðu burtu svo ég geti gengið í baðið.“ Þorsteinn svarar:

„Hvar ég stend um hæstan dag
og hefst ekki neitt illt að,

þar má ég vera.“ Kóngur fer þá að tygja sig til baðsins, en Þorsteinn slær sundur gulltaflinu og fer að tefla við sjálfan sig. Kóngi verður litið á taflið og spyr hvað Þorsteinn hafi þar meðferðis. Þorsteinn segir það sé tafl; kóngi þykir taflið firna fagurt og falar það af honum. Þorsteinn kveður nei við og segir að þarna sé hann kominn með bannsetta ágirndina, að vilja komast yfir eina góðgripinn sem foreldrar sínir eigi. Kóng langar því meir til að eiga taflið og býður honum fyrir það fullt verð; en það var ekki við það komandi. Kóngur reiðist og segist skuli láta drepa hann ef hann vilji ekki selja sér taflið. Það segist Þorsteinn vita að hann geti, en það sé ekki konunglegt að myrða einn karlsson sér til fjár. Mýkti þá kóngur málið og bauð Þorsteini tífalt og hundraðfalt verð fyrir taflið og að taka foreldra hans og hann sjálfan með þeim í kóngsríki og annast allt saman. En Þorsteinn vildi engum þeim kostum taka. „Er þá taflið ekki falt fyrir neina muni?“ segir kóngur. „Jú,“ segir Þorsteinn; „ef þú vilt kyssa á rassinn á mér skal ég gera þér kost á því.“ Kóngur bað hann dragast burtu áður en hann léti drepa hann fyrir háðungaryrði og fruntaskap sinn. Þorsteinn sagði að hann réði sínum orðum um það, en sér væri ekki taflið útbært; leggur hann nú saman taflið og gerir sig líklegan til að ganga burt. Kóngur segir þá við þjónustumann sinn að hann skuli ganga eitthvað afsíðis frá lauginni litla stund, en kallar til Þorsteins og segist vilja tala við hann; segist kóngur þá muni vinna það til taflsins sem hann hafi sett upp við sig úr því þeir séu þar tveir einir, en biður Þorstein þó að hafa það ekki á orði við nokkurn mann. Síðan vinnur kóngur skildagann og fær svo taflið, en Þorsteinn fer heim í karlskot. Þegar hann hittir karl og kerlingu og þau sjá hvergi taflið snupra þau hann og segja að svo hafi farið sem þau varði. Hann hughreysti þau aftur með því að þau mundu fá fullt fyrir taflið þó seinna væri.

Næsta laugardag átti drottningin að ganga í bað og var þá kóngur ekki heima. Þorsteinn fer til foreldra sinna og fékk hjá þeim fyrir mikla eftirgangsmuni gullhlaðið; fer hann svo með það til laugarinnar og bíður þar þess að drottning kemur og ein hirðmey með henni. Þeim drottningu og Þorsteini fara að öllu sömu svör á milli og áður eru greind nema drottning hét honum ekki afarkostum til að ná gullhlaðinu, en Þorsteinn lét það ekki falt fyrir neitt nema hann fengi að sofa hjá henni. Drottning bað hann aldrei til slíks ætla, en Þorsteinn lét sem sér væri ekki gullhlaðið útfalt og lézt ætla heim með það. Drottning segir þá að hún haldi hún verði að vinna það til að hann sofi hjá sér í nótt, fyrst kóngurinn væri ekki heima, heldur en verða af gullhlaði, og segir honum að koma um kvöldið í ljósaskiptunum. Fær hún svo gullhlaðið, en Þorsteinn fer og sefur hjá drottningu um nóttina. Þau karl og kerling undu hálfu verr við að missa gullhlaðið en taflið og kölluðu hann óspilunarmann sem ekkert verði við hendur fast. Þorsteinn leið það með þögn og þolinmæði og hughreysti þau sem áður.

Nú leið næsta vika og kom laugardagur; þá biður Þorsteinn foreldra sína um gullmenið og voru þau alltreg á því. Þó segir kerling að það sé mátulegt að það fari líka, hann sé svo búinn að fara með hina gripina þeirra hvort sem sé svo þeir sjáist aldrei aftur. Fær svo Þorsteinn menið og fer með það til laugarinnar og beið þangað til kóngsdóttir kom. Þegar hún kom að lauginni segir hún hvað karlsson sé þar að snudda og skuli hann hypja sig í burtu svo hún geti laugað sig. Þorsteinn segir að hún hafi ekki látið svona drembilega við sig meðan þau voru yngri og lékust við barnleikum. Hún biður hann hafa engin orð, en dragast burtu. Þorsteinn segir þá sem áður:

„Hvar ég stend um hæstan dag
og hefst ekki neitt illt að,

þar má ég vera.“ Fer hann þá og dregur upp hjá sér menið og læzt vera að skoða það. Kóngsdóttir kemur auga á menið, þykir það góður gripur og vill gjarnan eiga. Fara þeim svo öll hin sömu orð á milli sem fyrr segir. En hvað sem hún býður honum fyrir menið vill hann ekkert þiggja. Loksins gerir hann það falt fyrir sömu þóknun sem hann setti upp á fyrir gullhlaðið við drottningu. Ingibjörg fyrtist við þá frekju hans; en hann sagði að sér væri enginn otunareyrir í meninu og ætlaði að leggja á stað með það heim. Fer þá svo að Ingibjörgu mæðir huggæði og fær hún menið með því móti að hann sofi hjá henni nóttina eftir, og það varð úr. Þegar Þorsteinn kom með tvær hendur tómar heim í karlskot og var búinn að lóga öllum góðgripum karls og kerlingar urðu þau stæk við hann. En hann bar það vel og sagði að þau skyldu ekki lengi þurfa að sjá eftir gripum sínum.

Skömmu síðar býst Þorsteinn því bezta sem hann átti til og segir við karl og kerlingu að nú ætli hann heim í kóngsríki, en þau sögðu að hann mundi eiga þangað erindi eða hitt þó heldur. Þorsteinn gengur svo fyrir kóng þar sem hann situr yfir borðum með drottningu sinni og dóttur og allri hirðinni; liggur gulltaflið á borðinu fyrir kóngi, en drottning hefur gullhlaðið á höfðinu og Ingibjörg gullmenið um hálsinn. Þegar Þorsteinn kemur fyrir hásæti kóngs heilsar hann þeim kurteislega, hefur upp orð sín og biður Ingibjargar. Kóngur segir hvorki af né á um það, en spyr hvort hann hafi ekki heyrt þann skildaga sem hann hafi sett öllum biðlum dóttur sinnar. Þorsteinn segir sér sé ekki ókunnugt um það og sé hann nú kominn þess erindis að reyna að fylla orðabelginn. Lætur svo kóngur taka ofan belginn og fá Þorsteini. Hann tekur við og byrjar á því að hann segir: „Nú er vika síðan Ingibjörg kóngsdóttir fékk hjá mér gullmenið sem hún hefur um hálsinn fyrir það að ég svaf hjá henni.“ Roðnaði þá Ingibjörg af sneypu og vissi ekki hvað hún átti af sér að gera. Þorsteinn heldur svo áfram að þylja í belginn og segir: „Nú er hálfur mánuður síðan drottningin fékk hjá mér gullhlaðið sem hún hefur fyrir það að ég svaf hjá henni eina nótt meðan kóngur var ekki heima.“ Drottning skipti litum, en tjáði þó ekki að bera af sér því Þorsteinn þuldi enn og sagði: „Fyrir þrem vikum fékk kóngurinn hjá mér gulltaflið góða sem liggur á borðinu hjá honum fyrir það að hann kyssti á – “. Þá kallar kóngur upp og segir: „Sussu, sussu, fyrri er fullt en út úr flói; fullur er orðinn orðabelgur og langt fram yfir það. Skaltu eiga dóttur mína og hálft ríkið meðan ég lifi og allt eftir minn dag.“ Hélt svo kóngur brúðkaup Þorsteins og dóttur sinnar; en þau tóku karl og kerlingu heim í kóngsríki og fóru vel með þau meðan þau lifðu. Og búin er sagan.


  1. Aðrir segja að gripirnir hafi verið gullkóróna, gullofið handklæði og gullábreiða; hafi kóngurinn fengið hjá karlssyni kórónuna, drottningin handklæðið, en kóngsdóttirin hárgreiðuna. Þeir sem segja svona frá (Norðlendingar sumir) segja að karlsson hafi heitið Rennandi.