Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þorsteinn karlsson og skessurnar tólf

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorsteinn karlsson og skessurnar tólf

Það var einu sinni karl og kerling í koti sínu og áttu einn son sem hét Þorsteinn. Þegar hann var uppkominn missti hann móður sína, en hann var fjárhirðir hjá föður sínum. Karl giftist aftur. – Í leið Þorsteins þegar hann var að smala var hóll einn og var hann þeirrar trúar að byggð væri í hönum. Eitt sinn þá hann gekk hjá hól þessum sá hann konu standa úti bláklædda. Hún býður hönum að koma að tefla. Hann gengur með henni inn í hólinn og fer að tefla. Þau tefla allan daginn og vinnur Þorsteinn alltaf. Um kvöldið segir hún að þetta megi ei so til ganga. Fer hann so heim og lætur ekkert á neinu bera. Um morguninn gengur hann á stað og ætlar ei að koma að hólnum, en hann veit ei fyr til en hann er kominn að hönum og stendur hún þá úti grænklædd og býður hönum að koma að tefla; en hann er tregur, en gerir það þó. Það fer á sömu leið og fyrri daginn.

Þriðja daginn hugsar hann með sér að ekki skuli hann nú koma að hólnum, en það er eins og eitthvað teygi hann þangað til hann er kominn að hönum. Hún stendur þá úti rauðklædd og býður hönum að koma að tefla. Hann er tregur á það, en gerir það þó. Þau tefla lengi um daginn þangað til hún hrindir fram borðinu og segir að þetta skuli ei lengur so til ganga og segir: „Mæli ég um og legg ég á að þú megir til að fara frá föðurhúsum og þú gangir á einn skóg og munu mæta þér fuglar og vilja drepa þig og ef þú kemst fram hjá þeim munu mæta þér hundar og ef þú kemst undan þeim munu mæta þér tólf naut og ef þú kemst undan þeim muntu koma í hellir og þar eru tólf systur mínar er munu sjá fyrir þér.“ Þá segir Þorsteinn: „Mæli ég um og legg ég á að þú standir með aðra löppina á hólnum, en hina á fjallgarð“ – er hann bendir á – „og skuli koma böðlar og kynda bál svo þú brennir að neðan, en kalir að ofan; en ef ég dey eða losna úr álögunum þá skaltu detta ofan í bálið og brenna.“ Þá segir hún: „Kippum upp.“ – en hann segir: „Standi það sem komið er.“ Fer so Þorsteinn heim og hryggur í huga og segir stjúpu sinni af þessu og biður hana ráða. Hún segir að hér sé úr vöndu að ráða, en samt hljóti hann að fara, og býr hún þá ferð hans. Þá hann er albúinn fær hún hönum korn og segir að þegar fuglarnir mæti hönum skuli hann strá korninu í kringum sig og geti það kannske heft ferð þeirra og ef það heppnaðist þá skyldi hann bera sig að komast fram hjá. Líka fær hún hönum ketstykki mörg og skuli hann og fleygja þeim til hundanna, en ef þeir stanzi við, þá bera sig að komast fram hjá. Líka fær hún hönum nokkuð af höfrum og skuli hann fleygja því í nautin þegar þau mæta hönum og ef það kæmi stanz á þau þá skyldi hann bera sig að komast framhjá. Meira sagðist hún ei geta ráðlagt hönum.

Leggur hann so á stað á skóginn og segir ei af ferðum hans fyr en fuglar mæta hönum og ætla [að] rífa hann á hol, en hann stráir korninu í kringum sig og snúa fuglarnir þá að korninu, en á meðan kemst hann fram hjá. Þá kalla fuglarnir til hans: „Nefndu mig ef þér liggur á.“ Heldur hann so lengra áfram og mæta hönum þá hundar og ætla að rífa hann á hol; þá kastar hann ketstykkjunum til þeirra og snúa þeir þá að þeim og á meðan kemst hann fram hjá. En þá kalla þeir á eftir hönum: „Nefndu mig ef þér liggur á.“ Heldur hann so leið sína þar til mæta hönum tólf naut og ætla þau að hlaupa á hann með öskri miklu, en hann fleygir í þau höfrunum og snúa nautin þá að höfrunum, en á meðan kemst hann fram hjá. En nautin kalla á eftir hönum: „Nefndu mig ef þér liggur á.“ Heldur hann so leið sína þar til hann kemur að hellir einum. Gekk hann þar inn, því kvöld var komið, og verður einkis var. Skömmu síðar heyrir hann úti dunur miklar og sér að koma inn tólf tröllskessur ófrýnilegar mjög og fóru þær að matast og gengu síðan til rekkju, en ei urðu þær varar við Þorstein, því hann lét ekkert á sér bæra.

Að morgni fóru þær burt aftur, en þá fór Þorsteinn að skoða sig um í hellirnum. Hittir hann þá hurð eina og getur sett hana upp. Sér hann þar þá inni kvenmann bundinn og situr á stól. Hann heilsar henni, en hún biður hann að forða sér úr slíkum tröllaklóm. Hann spyr hvurnin hún sé þangað komin. Hún svarar að hún sé kóngsdóttir úr einu landi og hafi þær stolið sér og ætli að nauðga sér að eiga einn frænda þeirra er sé þar nálægt, en hún vilji það ei og fyrir það fari þær sona með sig. Hann leysir hana síðan og eru þau allan daginn að ganga um hellirinn. En þegar komið er kvöld bindur hann hana aftur og koma skessurnar skömmu síðar; og áður þær koma felur hann sig og er þær koma inn segir sú sem fyrst er: „Seinkar sendingunni frá systir, en samt finnst mér mannaþefur.“ Sér Þorsteinn að þetta dugir eigi og gefur sig því í ljós. Þá segja þær: „Þú skalt fá nokkuð að gera á morgun.“ Líður so af nóttin. Um morguninn áður þær fara segja þær hönum að láta út allt kornið sitt og láta ei eitt korn [fjúka], auk heldur meira. Fara þær so, en hann fer að bera út kornið, og þá hann er nýbúinn að því fer að hvessa og fer kornið óðum að fjúka. Þá segir hann: „Hvunar ætlað mér liggi meir á fuglum mínum en nú?“ Koma þeir þegar allir og fara þeir allir að tína upp kornið, en Þorsteinn er að bera inn. Þegar þeir eru hættir segja þeir að ekki muni nú mikið vanta. Um kvöldið þegar þær koma segja þær: „Þú hefir ekki verið einn í leik, stráki.“ Hann segir: „Einn hef ég verið og enginn annar.“ Þá segja þær: „Þú skalt fá nokkuð að gera á morgun.“ Líður so af nóttin; en um morguninn segja þær hönum að láta út allar sængur sínar og tæja allt fiðrið í sundur. So fara þær á skóg, en hann fer að bera út sængurnar og breiðir allt fiðrið. Fer þá að hvessa, en fiðrið mikið að fjúka; so hann segir hvunær sér muni meira liggja á hundum sínum en nú. Koma þeir þá þegar og fara að tína í óða hríð, en hann ber inn þar til allt er búið og hundarnir segja að nú muni ekki mikið vanta. Hann þakkar þeim fyrir og fara þeir síðan í burtu. Um kvöldið koma skessurnar heim og segja: „Þú ert ekki einn í leik, stráki.“ Hann svarar: „Einn er ég og ekki fleiri.“ Þær segja: „Þú skalt nokkuð fá að gera á morgun.“ Líður so af nóttin. Um morguninn segja þær að hann eigi að slátra stærsta uxanum sínum, raka og síðan elta hráblauta húðina, smíða spæni úr hornunum og hafa allt ketið soðið til reiðu þá þær komi. Fara þær so burtu. Þá segir hann: „Hvunar ætla mér liggi meir á nautum mínum en nú?“ Koma þau þá með stórhyrndan uxa á milli sín; en þegar þau eru komin inn í hellirinn þá eru það menn og slátra þeir nautinu. Fara so sumir að sjóða, sumir að raka og elta og sumir að smíða spæni úr hornunum. Þá þetta er búið þakkar hann þeim fyrir og fara þau síðan í burt. Hann leysti alltaf stúlkuna á daginn, en batt hana alltaf á kvöldin. Um kvöldið koma þær heim og segja: „Þú hefur ekki verið einn í leik, stráki.“ Hann svarar: „Einn hef ég verið, en ekki fleiri.“ Líður so af nóttin.

Um morguninn fara þær burtu og segja hönum ekkert að gera; en í hellirsdyrunum segir ein skessan hvort hann muni ei ná lyklunum að stóru kistunni, en önnur aftekur það og segir hann nái þeim ekki. Fara þær so burt; en hann fer og leysir stúlkuna og fara þau að leita fyrir sér um hellirinn. Finna þau einn afhellir bundinn aftur með járnviðjum; sprengja þau hann upp. Sjá þau þar margar kistur og eina mjög stóra og hanga lyklar hátt upp í hellirnum. Taka þau eina litlu kistuna og seta hana upp á þá stóru og fara þau bæði upp á hana. Lætur hann hana síðan stíga upp á öxlina á sér og nær hún með því lyklunum. Fara þau so að reyna að komast í þessa stóru kistu og geta loksins með illan leik. Finna þau þar margar gersemar, meðal hvurra var einn stór klæðaströngull og innan í hönum voru þrettán egg. Var eitt gult og visið. Hann tekur öll eggin og skoðar þetta klæði. Það er með vængjum og er gyllt letur á þeim báðum. Fer hann að lesa letrið. Lyftist þá upp klæðið so hann sér að hann getur lesið sig á því hvurt hann vill. Um kvöldið fer hann að hellirsdyrum og stendur á hurðarokum þar til hann heyrir undirgang, og ryðjast skessurnar þegar inn hvur á ettir annari, en hann sprengir eggin jafnóðum í augu þeim so þær detta niður allar dauðar. Þau kveikja so eld og brenna allar skessurnar. Taka þau það sem þeim þykir fémætast og bera það allt út á klæðið. Síðan stíga þau sjálf á það. Les hann sig áfram á klæðinu þar til hann er kominn í landið sem faðir stúlkunnar er í. En fuglarnir, hundarnir og nautin voru menn í ánauðum og hafði skessan í hólnum lagt á þá og losnuðu þeir úr þeim þá skessurnar drápust. Þorsteini eru síðan kenndar allar kónglegar listir og giftir kóngur hönum síðan dóttur sína og varð hann síðan kóngur eftir hann. Unntust þau bæði vel og lengi. Og endar so þessi saga.