Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Af karlinum sem gróf upp kerlinguna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Af karlinum sem gróf upp kerlinguna

Það er upphaf þessarar sögu að kóngur réði fyrir ríki; hann var ókvæntur, en átti aldraða móður; og kall og kelling bjuggu í garðshorni. Kóngur var svo auðugur að gangandi fé að hann rak uxa svo marga á afréttir sem ríkir menn sauði. Einn uxa átti hann sem af öllum bar að vexti og vænleika.

Eitt sinn um sumar á engjum var kellingu úr garðshorni sárkalt, „Mikið er til þess að vita,“ segir kall, „að þér skuli vera svona kalt, en vita alla uxana sem kóngurinn á hérna á öræfunum; ég fer að sækja einhvörn þeirra.“ „Þá spilarðu svo þú verður drepinn,“ segir kelling. „Nei,“ segir kall, „ég mun spjara mig.“ Lagði svo af stað, finnur uxana og ræðst á þann vænsta, kemur honum heim í garðshorn, slátrar og gjörir sér og kellingunni til góða af honum.

Um haustið sendi kóngur eftir uxum sínum; vantaði þá þann vænsta. Leitað var hans, en fannst hvergi. Hélt kóngur að þjófar hefðu tekið. Móðir hans segir eitt sinn við hann að hún skuli komast eftir því hvort kallgreyið í garðshorni hafi stolið honum. „Láttu mig í stóra skrínu,“ segir hún, „og nógar vistir með mér til vetrarins; biddu svo kall að geyma fyrir þig skrínuna í baðstofunni, því hún sé stór, en þröngt hjá þér.“ Þetta ráð líkaði kóngi vel, arkaði af stað með skrínuna og bað kall geyma. Kall tók því vel.

Nú byrjaðist veturinn með kulda miklum. Eitt kvöld var kellingu sárkalt. Kall sagði við hana: „Því lætur [þú] þér vera svona kalt? Farðu heldur fram og sjóddu okkur bita af uxanum sem ég tók í sumar frá kóngi.“ Kelling fór ofan og sauð, kom svo inn og settist að snæðingi með kalli sínum. Þegar þau voru að borða heyrði kall að hóstað var í skrínunni; hann fleygir frá sér diskinum og að skrínunni og getur náð henni upp; sér hann þá hvað í henni er. „Skammastu þín,“ segir móðir kóngs, „að líta mig þar sem þú hefur stolið uxanum góða frá syni mínum.“ „Þú skalt ekki hafa það í frásögum,“ segir kall og snýr hana þarna úr hálsliðnum, tekur svo matinn allan til sín úr skrínunni, en lætur ostflögu þurra í munn kellingar, lýkur svo aftur skrínunni og hrósar sigri.

Undir sumarmálin vitjar kóngur skrínu sinnar; er hún borin út á hlað. Lýkur kóngur upp skrínu sinni og segir: „Hér mun frétta von,“ en sér þá að móðir sín er dauð og sjálfsagt úr hungri, ostflaga þurr í munni hennar, en enginn matarmoli eftir hjá henni. Kall sagði: „Mikil ósköp eru þetta að þú lézt mig ekki vita hvað í skrínunni var; ég hefði þó eitthvað getað liðsinnt henni,“ Fer svo kóngur heim með líkið, býr það til moldar, en biður kall vera líkmann; hann gjörir það. Er hún svo grafin og biður kóngur að grafa mikinn mat með henni, því hún muni hafa ríkan hug til sín þar hún dó úr hungri; þetta var gjört. Fór svo kall heim til sín; var þá kellingu hans kalt. „Mikið er að sjá þig skelfa af kulda, en vita hvað grafið var í dag með kellingarskrattanum móðir kóngs; ég fer og gref hana upp.“ „Þú verður að,“ segir kelling, „þar til þú verður drepinn.“ „Ég mun spjara mig,“ segir kall, fer af stað, grefur upp kellingu, tekur allt sem með henni var grafið og flytur heim til sín, en tekur kellinguna, setur hana á kistu í bænhúsi kóngs þar sem hann á morgna var vanur að bænast, og fer svo heim. Um morguninn gengur kóngur í bænhús sitt. Þegar [hann] lýkur upp sér hann móðir sína þar, hopar til baka og segir: „Þetta grunaði mig.“ Í gröfina er litið; þá sést þar ekkert af því sem með henni var grafið. Fær hann þá kall til að grafa hana aftur og skipar að láta með henni mikið meira af ætu og óætu en áður.

Eftir þetta fer kall heim í garðshorn, og líður ekki á löngu að kuldahrollur kemur að kellingu hans. Kall var viðstaddur og sagði: „Mikið er að sjá þig skjálfandi af kulda, en vita hvað grafið var hérna um daginn með kellingarskrokkunni móðir kóngs; ég gref hana upp ennþá.“ „Þú verður að þessu,“ segir kelling, „þar til þú verður drepinn.“ „Hugsaðu ekki um það,“ segir kall; „ég mun spjara mig.“ Hann fer af stað þá allt er í svefni, grefur upp kellingu, fer með hana upp á hæstu íbúðarhús kóngs og gengur frá henni fram á húsinu upp af dyrum þeim sem kóngur gengur fyrst um þá hann stígur af sæng. Eftir það fer hann og tekur allt hvað fémætt var í gröfinni og flytur heim til sín. Um morguninn þá kóngur gengur út úr húsi sínu verður honum litið upp og segir til þeirra sem við vóru: „Sjáið þið, piltar! Þarna situr engill.“ Kallar hann þá hástöfum og segir: „Stígi þér ofan, herra minn,“ – en sansar sig strax og segir: „Æ, það er hún móðir mín. Farið þið nú piltar mínir og grafið hana ennþá og sækið kallinn í garðshorn, hann vil ég hafa með. Leggið nú [nóg] af gulli og silfri, matvælum og því dýrmætasta sem ég mun til leggja, með henni; við það mun hugur hennar mýkjast til mín.“ Þetta var gjört. Eftir þetta fer kall heim í garðshorn og hefir nú um hríð allsnægtir.

Eitt sinn eftir þetta setur að kellingu kuldahroll mikinn svo hún titrar og glamra tennur hennar. Kall var viðstaddur og segir: „Mikið er að sjá þetta; nú mun uppi það sem þér getur volgnað af. Ég skal nú fara ennþá og grafa upp móðir kóngs, því mikil fádæmi voru með henni grafin af gulli og silfri, ætu og óætu.“ „Eins og ég hefi sagt þér fyrri,“ segir kelling, „verður þú að þessu þar til þú verður drepinn.“ „Ég mun spjara mig,“ segir kall. Fer hann svo, grefur hana upp, tekur ótemju eina og setur hana á bak hennar, nær svo öllum borgarlyklunum og festir þá við hana, en ótemjan varð bandólm, stökk og steðjaði með kellinguna yfir holt og hæðir. Þá kóngur kemur á ferð sér hann þetta og grunar hvað vera muni, biður menn sína ná ótemjunni; en það tjáði ekki; hún hljóp fyrir sjávarhamra með kellingu á baki sér og drap sig. – En kallinn í garðshorni lifði með kellingu sinni við allsnægtir; er ekki getið að kaldan hafi þjáð hana eftir að þetta gjörðist. – En kóngur varð við þetta allt saman bersnauður.

Lýkur svo þessu efnisríka ævintýri.