Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Agnedíus kóngsson og Svanslaug jarlsdóttir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Agnedíus kóngsson og Svanslaug jarlsdóttir

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Ekki er getið um nöfn þeirra, en son þann áttu þau er Agnedíus hét; hann var fríður sýnum og unnu foreldrar hans honum hugástum. Þegar Agnedíus var tólf ára gamall kom það fyrir í ríkinu sem bæði olli honum og öllum mikils harms, sem var að drottning tók sótt mikla er hana leiddi til bana, en þó barst kóngur verst af og gekk svo fram um hríð að hann sinnti ekki ríki sínu.

Kóngur átti langt frá ríkinu vin einn er Valdimar hét. Fréttir hann sorg kóngs og leggur af stað að finna kóng; og er hann kemur fer hann að leggja niður fyrir honum að honum tjái ekki þetta aðgjörðaleysi og verði hann að annast ríkið svo ræningjar eyðileggi það ekki; og loks býður hann honum að leggja af stað að leita honum kvonfangs. Er kóngur tregur til þess, en fellst þó á það; og leggur þá Valdimar á stað og veit ei hvert halda skal, en áður hann ákveður það kemur yfir hann þoka mikil og gengur það nokkra stund að hann veit ekki hvað hann er að fara. Loksins verður hann þess var að hann er kominn nálægt eyju einni. Ræður hann þá það af að lenda við hana og vita hvort hún er byggð. Gengur hann þá upp á hana og heyrir hörpuslátt mjög fagran. Gengur hann á hljóðið og sér eftir stutta stund silkitjald. Fer hann þangað og sér að þar situr kona ein mjög fögur og hjá henni sat skrautleg mær sem Valdimar sýndist vera á líkum aldri og Agnedíus kóngsson. Þegar konan sér Valdimar stendur hún upp og heilsar honum mjög kurteislega og spyr hvernig standi á ferðum hans. Segir hann henni hið ljósasta af erindi sínu; og sem kona þessi heyrir að kóngurinn sé nýbúinn að missa drottningu sína segir hún að það sé þá líkt á komið fyrir sér og honum, því hún sé nýbúin að missa kóng sinn; hafi hann verið drepinn, en hún hafi flúið á bát ásamt dóttir sinni er hjá sér sé. Talar hún síðan við Valdimar um ýmsa hluti og lét hann drekka af horni og féll honum hún svo vel í geð að hann hóf upp bónorð sitt til hennar til handa kóngi sínum og tók hún því vel. Er það ekki að orðlengja að hún fór heim með honum; og er kóngur sá hana gleymdi hann sorg sinni og hélt þegar brúðkaup sitt til hennar. Fór brátt að brydda á því að Agnedíusi og Svanslaugu kom mjög vel saman og var drottningu mjög lítið um það gefið, því hún lagði haturshug á Agnedíus, og að lyktum ásetti hún sér að fyrirfara honum og leitaði tækifæris að fullnægja því.

Eitthvert sinn kallar drottning Agnedíus fyrir sig og kvaðst ætla að biðja hann að sækja fyrir sig vatn í brunn nokkurn er þar var skammt frá. Agnedíus grunaði ekkert, en Svanslaug vissi hvað móðir sín ætlaði að gjöra honum og hljóp á eftir honum og náði honum á miðri leið og sagði honum ráðslag móður sinnar og að hún ætlaði með því að drepa hann, því í vatninu væri ormur sem ætti að granda honum. Síðan fékk hún honum stein sem hann átti að kasta í vatnið og segja um leið: „Hún Svanslaug bað þig vera kyrran.“ Fór Agnedíus þá og sókti vatnið og færði drottningu. Tók hún við og sagði um leið: „Of mikið hef ég kennt Svanslaugu.“

Eitt sinn kemur Svanslaug að máli við Agnedíus og segir honum að nú ætli móðir sín að senda hann til systur hennar sem sé tröllskessa og búi í hellir nokkrum. Ræður hún honum til að sópa innan hellirinn þegar hann kæmi þangað, því skessan myndi ekki verða heima; en þegar hún kæmi heim myndi hún spyrja hann hvort hann vildi heldur deyja saddur eða svangur. „Segðu þú viljir heldur deyja saddur; en þegar þú ert búinn að borða þá fáðu henni hring þennan og berðu henni kveðju mína.“ Skilja þau síðan og biðja hvort vel fyrir öðru. Líður ei á löngu þar til drottning gjörir boð fyrir Agnedíus og biður hann með fagurgala miklum að leita fyrir sig að hind þeirri er hún hafi nýlega misst og kvaðst hún öngvum trúa fyrir því nema honum. Síðan heldur Agnedíus á stað og getur ei aðra leið farið en þá sem lá til hellirs þess er Svanslaug hafði sagt honum frá. Kemur hann þar síðla dags og verður þess var að skessan er ekki heima. Fer hann þá inn í hellirinn og tekur til að sópa hann og koma öllu í lag. Þegar hann var nýbúinn að því heyrir hann undirgang mikinn. Sér hann þá hvar skessan kemur og ber fuglakippu. Veður hún nú inn í hellirinn og kallar hátt að nú hafi systir sín gjört vel að senda sér Agnedíus kóngsson og skuli hún slátra honum strax í kveld. Gefur Agnedíus sig þá fram og spyr kerling hann hvort hann vilji heldur deyja svangur eða saddur. Hann kvaðst heldur vilja deyja saddur. Gefur skessan honum þá mat og borðar hann eftir lyst sinni. Stendur hann síðan upp og fær kerlingu hringinn og segir um leið að Svanslaug hafi beðið að heilsa henni. Lítur hún á gullið og kvað sig hefði lengi þangað til að fá hring þennan og myndi Svanslaug vilja að hún liðsinnti manni þessum þar eð hún hefði sent sér hann. Er Agnedíus hjá henni um nóttina; en um morguninn fær kerling honum hind þá er hann leitaði að og lét hann í friði burt fara. Segir ei af ferðum hans fyrr en hann kemur heim í kóngsríki. Gengur hann til drottningar og afhendir henni hindina og lætur hún sem sér þyki vænt um og segir sig hafi grunað að hollast myndi vera að senda hann; en þó brann heiftin í henni til hans og þókti mjög kynlegt að systir sín skyldi hafa sleppt honum. Fer Agnedíus síðan og hittir Svanslaugu og verður hún honum harla fegin.

Svo bar við eitt sinn að Agnedíus og Svanslaug eru á gangi. Sigrar Svanslaugu þá svo mikill svefn að hún má ekki uppi standa. Leggur hún sig þá fyrir og sofnar brátt og lætur illa í svefni. Vekur þá Agnedíus hana og spyr hvað hana hafi dreymt. Segir hún að sig hafi dreymt að móðir sín ætlaði að drepa þau bæði og væri ekkert annað ráð fyrir þau en flýja út á skóg. Gjöra þau það og búa sér til laufskála og borða ávexti af trjánum. Brátt kemst drottning að því að þau eru burtu farin og sendir þræla út á skóg og segir þeim að drepa allt sem þeir sjái lifandi. Fara þrælarnir þá á stað; en Svanslaug vissi af ferð þeirra og segir við Agnedíus að nú sé móður sín búin að senda menn að drepa þau – „og ætla ég nú,“ segir hún, „að láta þeim sýnast kofi okkar vera kirkja; skal ég vera prestur, en þú djákni.“ En það er af þrælunum að segja að þeir ganga lengi dags þar til þeir koma auga á kirkjuna. Fara þeir þá þangað og sjá ekkert utan prest og meðhjálpara hans. Sitja þeir þar allan daginn og hlusta á þeirra fagra söng og geta ei yfirgefið þá. Loksins þegar kveld er komið fara þeir heim og segja drottningu að þeir hafi ekkert séð nema kirkju og hafi í henni verið ekkert nema prestur og djákni er sungið hafi svo fagurt að þeir hefðu ekki getað af sér fengið að gjöra þeim mein. „Það hafa þau verið,“ mælti drottning, „og mun hentast ég fari sjálf.“ Það fór sem fyrri að drottning kom ekki Svanslaugu óvart; hún kemur að máli við Agnedíus og segir að nú komi móðir sín sjálf í dag, – „og skal ég gjöra okkur að álftum og skulum við setast á læk þann er rennur hér nálægt; en jafnsnart og við sjáum hana koma skulum við synda undir hellirsskúta þann sem er að ofanverðu í læknum og ríður þér á að fara aldrei fram undan honum hvernin sem hún lætur.“ Verða þau síðan að álftum og synda á lækinn. Líður ei á löngu áður þau sjá hvar drottning kemur. Fara þau þá undir skútann, en drottning fer að ofanverðu og stappar á bakkann og segir: „Hér eru þið undir.“ Hrekkur þá Agnedíus fram undan, en drottning var ei sein á sér og segir: „Mæli ég um og legg svo á að þú gleymir Svanslaugu og að þið þess vegna aldrei getið náð saman;“ en á Svanslaugu gat hún ekki lagt þar eð hún sá hana ekki. Snýr þá kerling heim, en í sama bili flaug álftin undan skútanum og beit af drottningu nefið. Flugu síðan álftirnar sín í hvorja áttina; og er fyrst sagt frá Agnedíusi á þann hátt að þegar hann hefur flogið um stund fer hann úr hamnum og gengur svo lengi þar til hann nálægist kóngsríki eitt. Stendur þá svo á að kóngur er á dýraveiðum; hittir hann þá Agnedíus og spyr hvernin standi á ferðum hans. Agnedíus kvaðst hafa villzt frá sveinum sínum og viti hann ei hvern fjarska hann hafi gengið. Aumkvast kóngur yfir hann og fer með hann heim til hallar sinnar og tekur hann sér í sonar stað, því hann átti ekkert barn; er Agnedíus þar í góðu yfirlæti og er öllum vel við hann. Eftir nokkurn tíma tekur kóngur sótt mikla. Kallar hann þá fjölmenni mikið saman og lýsir því yfir að hann gefi Agnedíusi allt ríkið og kóngdóm eftir sig. Deyr kóngur síðan, en Agnedíus var krýndur til konungs og sezt hann að í ríkinu og stjórnar því með svo mikilli forsjá að alla furðaði.

Nú víkur sögunni til Svanslaugar; hún leitar sífellt að Agnedíusi og veit loks hvar hann er niðurkominn. Kemur hún sér þá í vist hjá konu nokkurri sem bjó skammt frá kóngsríki. Bauðst Svanslaug til að sauma, en konan hafði lítið efni til þess og fór því að taka sauma úr kóngsríki. Þókti enginn sauma eins vel eins og stúlka sú er komin var í kotið og fékk hún því nóga atvinnu. Þar er til máls að taka að kóngur fer eitt sinn að taka skatt af löndum sínum og segir eigi frá ferð hans og ekki heldur hvernin honum gekk að ná skatti sínum; en þess urðu menn þó varir að honum hafði bætzt hlutur í ferðinni sem var fögur og falleg mey; og var þegar sent til Svanslaugar þess erindis að biðja hana sauma brúðkaupsklæði á kóng og brúðarefni hans. því henni einni var trúað fyrir því. Sezt Svanslaug síðan við saumana og líður svo nokkur tími að ekki sendir hún kóngi fötin. Fer kóngi þá að leiðast og sendir ráðgjafa sinn að sækja þau. Fer hann á stað og kemur í kotið; hittir hann Svanslaugu og spyr eftir fötunum. Hún segist verða búin á morgun. Hann kvaðst ekki geta verið að fara aftur fyrst hún ætti ekki meira eftir og væri rétt fyrir sig að bíða til morguns. Hún sagði að það væri ekki fyrir ráðgjafa að gista þar, en samt væri honum það velkomið ef hann vildi vera svo lítillátur. Fer hann síðan inn með henni og ber hún mat á borð og leiðir hann síðan til hvílu. Biður hann þá hana að sofa hjá sér og tók hún ekkert illa undir það. Háttar hann fyrst; en þegar hún ætlar að fara að hátta segir hún: „Æ, ég gleymdi að fela eldinn.“ „Ég skal gjöra það,“ segir hann. Fer hann síðan ofan úr rúminu og fram í eldhús; en þegar hún heldur að hann sé kominn þangað segir hún: „Maður haldi hellu og hella haldi manni, en ég sofi sætt þangað til á morgun.“ Líður svo nóttin; en strax og hún kemur á fætur fer hún í eldhúsið og er þá ráðgjafinn fastur við helluna og kvartar sáran. Segist hún hafa gleymt að vara hann við hellu þessari, því henni fylgi sú náttúra að hver sem taki á henni berhentur verði fastur við hana. Segist hann nú vilja fá fötin, en hún segist ekki vera klár við þau. Fer hann þá heim og segir kóngi. Verður kóngur þá órór og sendir á stað æðsta ráðgjafa sinn. Þarf það ekki að orðlengja að allt fer á sömu leið og fyrir hinum nema að þessi varð fastur við bæjarhurðina og fór jafnnær heim aftur. Þykir kóngi þetta undarlegt og leggur sjálfur á stað og kemur í kotið og gjörir boð fyrir Svanslaugu. Hún hittir kóng og spyr hann hana eftir fötunum. Hún kvaðst verða búin með þau í kveld. Segist kóngur þá ætla að bíða þangað til hún sé búin. Segir hún að það sé ekki samboðið tign hans að gista hér. Hann segist mundi gjöra sér það að góðu. Leiðir hún hann síðan til stofu og hefur á takteini allt sem hún hefur til. Lætur hún hann þá fara að hátta, en hann kvaðst vilja hún svæfi hjá sér. Tekur hún því fjarri í fyrstu, en lætur þó sem hún ætli að gjöra það og fer að afklæða sig; en allt í einu hrekkur hún saman og segir: „Ég veit ekki hvað hún móðir mín gjörir við mig (því það kallaði hún konuna sem hún var hjá); ég hefi gleymt að láta inn kálfana og má ég til að gjöra það.“ „Ég skal gjöra það,“ segir kóngur. „Ekki þyki mér það sæma tign yðar að elta óþekkva kálfa,“ mælti hún. „Það veit enginn af því,“ mælti kóngur; „ég vil fara.“ „Þér verðið þá að ráða,“ mælti Svanslaug, „en ef þér eigið að geta komið þeim inn verðið þér að halda í stertina á þeim.“ Fer þá kóngur; en þegar Svanslaug heldur að hann sé hér um bil að berjast við kálfana segir hún: „Maður haldi stert og stertur haldi manni, en ég sofi sætt þar til á morgun.“ Heldur kóngur í kálfana alla nóttina þangað til hún kemur út um morguninn; var hann þá nærri dauður af kulda. Fær hún honum síðan fötin og líkar honum þau mæta vel og spyr hvað hún vilji fá í saumalaun. Segist hún ekkert vilja nema standa fyrir borðum á brúðkaupsdegi hans og játar hann því.

Þegar sá dagur kom er kóngur skyldi halda brúðkaup sitt gengur Svanslaug í höllina og hefur hvíta hauka á öxlum sér. Verður mönnum starsýnt á hana, en hún gefur sig ekkert að því og heldur áfram að skenkja vínið. Fara þá fuglarnir að syngja og tekur kóngur eftir því. Heyrir hann þá að þeir syngja: „Frú fín, ætlar þú að yfirgefa mig eins og þegar hann Agnedíus yfirgaf hana Svanslaugu?“ Fer þá kóngur að tala um þetta við drottningu sína. Hún segir þetta sé markleysa ein og skuli hann ekki skipta sér af því; sér hafi líka þótt það skrýtið að hann gat öngvan annan látið standa fyrir borðum en stelpu þessa. Á meðan þau voru að tala um þetta skenkti Svanslaug á bikar fyrir kóng, en kastaði um leið glófa framan í drottningu og varð hún þá að neflausri tröllskessu og sá þá Agnedíus hver hætta honum var búin, því undir skikkju hennar var sverð er hún ætlaði að drepa hann með. Var hún þá drepin; en undireins og Agnedíus hafði drukkið úr bikarnum þekkti hann Svanslaugu og varð þar fagnaðarfundur. Var þegar slegin upp ný gleðiveizla og gekk Agnedíus að eiga Svanslaugu. Var Svanslaug jallsdóttir sem kellingin hafði numið burt með göldrum. Lifðu þau kóngur og drottning í dýrð og fögnuði til æviloka.

Og endar svo þessi saga.