Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Bárus karlsson

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Bárus karlsson

Það er upphaf þessarrar frásagnar að kóngur og drottning réðu fyrir ríki. Þau áttu þrjú börn, tvo sonu og eina dóttur. Þeim vóru þegar á unga aldri kenndar allar þær listir er kóngabörn vóru vön að læra í þann tíma og þóttu öðrum fremri í hvívetna. Kóngur lét byggja þeim kastala ramgjörvan og vel vandaðan að allri smíð; hafði kóngsdóttir með fríðum meyjaskara aðsetur í öðrum enda hans, en bræður hennar með sveinum sínum í hinum. Líða svo stundir að ekkert bar til tíðinda.

Kall og kelling bjuggu í garðshorni; þau áttu einn son er Bárus hét; hann var snemma stór vexti og sterklegur. Lagðist hann í eldaskála og mannaðist því lítt. Hafði hann ekki ástríki af föður sínum, en kellingu var vel til hans, gaf honum að skafa pottana og var honum hin bezta í öllu.

Nú er að segja frá því að þegar kóngsbörnin vóru orðin nokkuð vaxin tók móðir þeirra sótt þá er hana leiddi til bana. Var hún hörmuð af öllum, en þó einkum af kónginum og börnum hans. Lagðist kóngur í rekkju af sorg og sinnti ekki stjórnarstörfum. En er tímar liðu sáu hinir helztu menn ríkisins að ei mátti svo búið standa og gengu því fyrir kóng og leiddu honum fyrir sjónir að þetta væri hið mesta óráð að liggja alltaf í sorg, kváðu miklu viturlegra að hann leitaði sér kvonfangs aftur, enda væri það ráð til að bæta honum missirinn. Kóngur sá að þetta var satt og tók því vel umtölum þeirra og reis úr rekkju. Lætur hann nú búa eitt skip með fríðum fararkosti og góðum drengjum og setti þar yfir ráðgjafa þann er hann trúði bezt. Áttu þeir að leita honum að drottningarefni; en við því varaði hann þá að taka ekki neina þá mey eður konu er þeir vissu ekki deili á. Lofuðu þeir því.

Fara þeir svo af stað og sigla víða um lönd og finna þá enga mey er þeim líkaði til handa herra sínum og vóru þeir nú komnir í fjarska frá heimkynnum sínum. Þá kom eitt sinn þoka mikil og hafvillur; vissu þeir ekki neitt hvað þeir fóru unz þá um síðir rak að landi einu er þeir þekktu ekki. Formaðurinn og nokkrir aðrir gengu upp á land til að kanna það. Fara þeir víða um landið og verða engra mannabyggða varir. En er kvöld var komið verður fyrir þeim rjóður eitt og tjald í rjóðrinu. Þeir líta þar inn og sjá tvo kvenmenn; var önnur að sjá döpur í bragði og roskinleg, en þó hin fríðasta, en hin var unglegri og kvað miklu minna að henni. Þeir heilsuðu þeim virðuglega, einkum þeirri eldri, og tóku þær því hæversklega. Hin eldri spurði hvað þeir væru að ferðast. Þeir sögðu henni allt af létta um sínar ferðir og spurðu aftur hvurnig stæði á högum þeirra. Hún sagði að það mundi lítið koma út af því þó þeir vissu það, – „en satt að segja þá var ég um hríð gift voldugum kóngi þar til kom ófriður og féll hann í bardaga, en ég flúði með þernu minni er nú er hér hjá mér.“ Eftir það kvöddu þeir hana og gengu til skips síns. léttu atkerum og sigldu frá landinu. Er ekki að orðlengja að þá rak þrívegis að landinu aftur. Segir þá sá er fyrir var að það sé auðsjáanlegt að þeir eigi ekki héðan að komast að svo stöddu. Ganga þeir því enn að finna ekkjudrottninguna og hitta þeir þær nú í sama stað og áður og kveðja þær virðuglega og tóku þær því vel. Ráðgjafinn sagði henni allt hvað gjörzt hafði frá því þau skildu og kvað það auðsært að hún væri ætluð konungi sínum og herra til drottningar – „og vil ég nú biðja þig,“ sagði hann, „að fara með okkur“. Hún svaraði: „Það hafði ég ætlað að giftast ekki aftur, en þó fyrir bænastað ykkar verð ég að gjöra það, og þessi þerna verður að vera með mér.“ Þeir urðu glaðir við svör hennar og sögðu að valla mundi finnast sæmilegri kvenkostur en hún. Síðan er hún leidd til skips og fylgdi þernan með og er hennar ei framar getið. Þeir vinda upp segl og kom þá blásandi byr og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir lentu við hafnir kóngs. Og er það sást úr borginni að sendimenn vóru aftur komnir lét konungur búa glæsilegan vagn og ók til stranda og sté út á skip. Fagnar hann vel mönnum sínum og spyr hvað þeim hafi orðið ágengt. Þeir sögðu sem var og það með að hún var niðrí skiphúsinu. Kóngur bað þá að lofa sér að sjá hana og leiddu þeir hann til hennar og kvöddust þau innilega. Leizt honum undireins yfrið vel á hana og fékk ósjálfráða elsku til hennar. Er hún nú leidd í vagninn og aka þau bæði í honum heim til borgar. Tók hún nú við öllum ráðum sem einni drottning bar að hafa. Virðist hún hvurjum manni vel.

Það er frá börnum kóngs að segja að þegar stjúpuefni þeirra var nýkomin gengu þeir [bræður] til föður síns eitt sinn og sögðust ætla að biðja hann að láta setja kastala þeirra niður út á skóg – „því við stöndum þar betur að vígi að stunda dýraveiðar; en systir okkar vill ekki annað en fylgjast með okkur.“ Kóngur sagði það skyldi gjört að vilja þeirra. Lét hann nú smiði sína rífa kastalann og setja niður þar sem þeir bræður mæltu fyrir, og er það var búið settust þau systkinin þar um kyrrt.

Frá kóngi er það að segja að þegar drottningarefnið var búin að vera eitt hálft ár hjá honum gjörir hann það bert fyrir alþýðu að hann ætli nú að giftast þessum kvenmanni og gjörðu menn að því góðan róm, því hún hafði lagt gott til hvurs hlutar er við hana kom þenna tíma er hún var búin að vera. Er nú búizt við veizlu og boðið múg og margmenni. Kóngur sendi mann til barna sinna og bað þau að koma til veizlunnar, en þau neituðu því í einu hljóði. Fór sendimaður og sagði kóngi þetta og mislíkaði honum stórum og þóttist smáður af börnum sínum, en drottning dró úr því það sem hún gat. Var veizlan hin ágætasta og allir meiri menn með gjöfum út leystir.

Bráðum fannst það á að þegar drottning var alveg setzt í völdin skipti hún um lunderni. Varð hún nú stórráð og næsta uppvöðslumikil; en mikið unni kóngur henni. Þegar þau vóru búin að vera saman um hríð segir kóngur að hann ætlar að fara að taka skatta og skyldur af löndum sínum og verða æði-tíma burtu; – „fel ég æðsta ráðgjafa mínum og þér ríkið til gæzlu á meðan og vona ég að það sé þá vel geymt“. Drottning segir: „Mikið þykir mér fyrir að sjá af þér, en þó verður svo að vera fyrir því að nauðsyn krefur.“ Lætur nú kóngur búa skip sem fljótast og siglir af stað. Segir ekkert af hans ferðum.

Drottning er nú eftir heima. Og litlu síðar gengur hún einn dag einsömul út á skóg og kom að kastala þeirra kóngsbarnanna og hrósaði þeim mjög mikið og dáðist að fegurð þeirra og háttsemi allri; en þau tóku vel máli hennar og slógu upp veizlu fyrir henni. Var þar hið bezta veitt. Þegar hún ætlaði af stað veik hún yngri kóngssyninum afsíðis og sagði: „Það er nú svo mál með vexti að mér hefur lengi verið hinn mesti hugur á að ná blíðu þinni, en aldrei elskað föður þinn. Vil ég því giftast þér og er þá ekki mikils vert að ráða kallinn af dögum og er þá þitt ríkið.“ Kóngssyni líkaði sem von var illa þessi málaleitun drottningar og brást reiður við og sagði hún mundi ei fá sig til að samþykkja nein ódáðaverk. Gekk hann þá snúðugt burt frá henni. En er drottning sá og heyrði aðfarir hans varð hún harla ófrýnleg og sagði ei víst að hann yndi ætíð betur hag sínum en þó hann gerði sinn vilja. Skildu þau nú og varð ekki af kveðjum með þeim. Kemur drottning heim til borgar og ber nú ekkert til titla eða tíðinda, frétta eða frásagna fyrr en það sást til borgarinnar að skipafloti kóngs lagði að höfnum. Drottning ekur í vagni til stranda; og þegar kóngur gekk af skipsfjöl var hún fyrir og fagnaði honum hið bezta. Spyr hún nú kóng að hvurt hann vilji ekki að hún slái upp fagnaðarveizlu þegar hann sé nú heppilega heim kominn. Kóngur sagði að það mætti vel vera. Var nú búizt við virðuglegri veizlu. Drottning spyr hvurt kóngur ætli ekki að senda eftir börnum sínum, því vel geti verið að þau komi nú þó þau hafi ekki komið í brúðkaupið. Kóngur féllst á þetta og sendi mann með orðsending til barna sinna að hann bæði þau að koma heim til borgar; og er maðurinn kom að kastalanum fann hann allar hurðir lokaðar og sá engan mann; fer heim til borgar og segir kóngi þetta. Honum bregður kynlega við, en trúir þó ekki meir en svo og sendi því fjóra menn til að verða fullviss um hvað satt er í þessu. Þeir fara að kastalanum og sjá allt hið sama og hinn. Brjóta þeir nú einn glugga og fara inn og leita um öll herbergi og verða einkis varir. Og að svo gjörðu fara þeir heim til borgar aftur og segja kóngi hvar nú var komið. Snýst nú allur fögnuðurinn í sorg og sút. Þó lét kóngur leita barna sinna í marga daga bæði nær og fjær og fannst ekkert. Fékk þetta öllum mikillar sorgar, en þó einkum kóng og drottningu. Lögðust þau bæði upp á sængina og bar drottning sig engu betur. En þó með tímalengdinni rættist það af þeim aftur.

Nú er þar til að taka sem fyrr var frá horfið að Bárus kallsson var hjá foreldrum sínum og hélt sínu fyrra háttalagi. Það var einn morgun er kelling móðir hans kom í eldaskálann að Bárus var allur á lofti með þvílíkum hreyfingi að kelling þóttist aldrei hafa séð hann í slíkum ham og spyr hvurt hann sé ær orðinn. Hann segist vera með öllu viti, – „en draum hefur mig dreymt“. „Hvurnig er hann látandi?“ segir kelling. Bárus segir: „Mér þótti koma til mín kvenmaður, undur fríð og dægileg, og sagði við mig: „Ef þú frelsar mig ekki þá gjörir það enginn.“ Er nú ekki mig að letja að ég fer af stað að leita að þessum kvenmanni og skal ég hana finna ella dauður liggja.“ Kelling sagði hann skyldi ekki vera að þessari vitleysu, en hann sagðist fara mundi hvað sem hún segði. Gengur hún nú í burtu og kemur aftur með poka og fær honum og segir: „Úr því þú ert alráðinn að fara burt þá er hér nestiskorn og mun þó skammt hrökkva.“ Síðan fær hún honum öxi biturlega og sagði að hún væri þó betri en ekki neitt. Bárus þakkar henni gjafirnar og sagði: „Ef mér vill nokkur lukka til þá skal ég vitja þín, því þú hefur mér ástríki sýnt, en sama er mér hvað af föður mínum verður.“ Og að svo mæltu kveður hann móður sína og biður hún vel fyrir honum. Hann var lítt búinn að klæðum. Gengur hann nú á skóga og eyðimerkur og fer svo fram um hríð. Veit hann ekki hvað stefna skal.

Einn dag kemur hann fram í eitt rjóður og sér þar fyrir sér þrjú kvikindi sem vóru að fljúgast á um hrossskrokk. Það var bjarndýr og hundur geysistór, þriðja var fálki. Bárus hugsar með sér að það muni ekki vert að spara þessi illdýri og hleypur með reidda öxina og ætlar að vega að bjarndýrinu, en það tók til orða og mælti: „Þér er miklu nær að gjöra okkur gott en illt.“ Bárus stanzaði og sagði: „Ég held það sé ekki hægt að gjöra ykkur mikið gott skynlausum skepnunum.“ Björninn segir: „Við erum börnin konungsins sem hvurfum úr kastalanum og skalt þú nú skipta með okkur þessum skrokk svo að öll séu ánægð.“ Bárus sagði það mundi vinningur að höggva sundur skrokkskömmina. Síðan sundrar hann honum í þrjá jafna parta, sinn handa hvurju. „Ekki líka okkur þessi skipti,“ sögðu þau. Nú skiptir hann í fimm parta jafna og segir að hvur bróðir eigi tvo, en hún einn. „Þá er skipt að vilja okkar,“ segir björninn. Leggst nú Bárus til svefns, en vaknar við þrusk mikið og litast um. Sér hann nú að þau eru að fara úr hömunum og eru nú í dái. Hann fær sér vatn og dreypir á þau og rakna þau bráðum við og þakka honum fyrir að hann hafi frelsað sig úr þessari ánauð. Segir nú eldri bróðirinn að stjúpa þeirra hafi lagt á sig að hann yrði að bjarndýri, en bróðir sinn að hundi og systir að fálka og fljúgast á um hrossskrokkinn og „aldrei losast úr þeim álögum nema ef einhvur væri svo hugaður að vega að okkur og síðan að skipta með okkur skrokknum svo að öll væru ánægð. Þetta hefur þú nú gjört og er því miður að við getum ekki launað þér eins og þú átt skilið. Nú gefum við þér hami þessa er við vorum í og skalt þú geta farið í þá hvenær sem þú vilt.“ Bárus þakkar þeim fyrir sig innilega. Þau spyrja hann nú hvað hann sé að fara. Hann sagði það sem fyrr er þar frá sagt. Þau segja að það sé bezt fyrir hann að koma nú með þeim heim til borgar því að þessi kvenmaður er hann hafi dreymt sé sú er nú hafi hann frelsað og því sé draumurinn fram kominn. Bárus kvað nei við; og er þau sáu að ei tjáði að letja hann gefa þeir bræður honum nokkuð af fötum af sér og kveðja hann síðan og óska honum allra heilla og fara síðan heimleiðis.

Bárus heldur nú áfram eitthvað í blindni þar til eitt kvöld að hann kemur að húsi einu litlu, en vel byggðu; var hurð hnigin í hálfa gátt. Hann gengur inn og sér þar borð með vist á og eitt rúm vel uppbúið; og með því hann var svangur og orðinn nestislaus þá tók hann sér fáeina bita af matnum og síðan smýgur hann undir rúmið, en er þó samt svo að geta séð sem gjörst það sem við ber í húsinu. Þegar hann er nýlagztur niður heyrir hann úti kvak og eins og vængjaþyt og þar næst koma inn í húsið þrjár álftir og eru með kvaki miklu og skima allt um kring. Koma svo úr hömunum þrír kvenmenn naktir og finnst honum mikið um fegurð þeirra, en þó bar ein langt af og þar þykist hann kenna þá hina sömu er hann dreymdi forðum. Þær leggja frá sér hamina, hvurn á sinn stað, og gætir Bárus vandlega að hvar þessi lét sinn ham. Eftir það matast þær og leggjast svo til svefns í rúminu. Ekki heyrði hann þær tala neitt saman. Þegar Bárus heldur að þær séu sofnaðar fer hann undan rúminu og tekur ham stúlku sinnar og úr honum nokkrar flugfjaðrir og fer svo undir rúmið aftur. Um morguninn vakna þær og taka hami sína og fara í þá og svo út; en hann fer undan rúminu og sezt á það. Þegar lítil stund er liðin kemur sú aftur er haminn átti og segir að hann verði að fá sér fjaðrirnar sínar, því hún geti ekki komizt án þeirra með systrum sínum. Bárus tekur í hönd henni og segir: „Þar ég hef nú náð fundi þínum þá mun ég ekki sleppa þér fyrr en þú ert búin að segja mér hvur þú ert og hvurnig stendur á högum þínum; enda hefur þú líklega vitjað mín í svefni í þeirri von að ég mundi frelsa þig, en þá verð ég að vita fyrst hvað starfa skal.“ Hún segir: „Ég má ekki tefja lengi því þá næ ég ekki systrum mínum, en þó verð ég nú að segja þér nokkuð. Ef þú ferð upp á þetta hús í vel heiðríku veðri og horfir í vesturátt þá sérðu í fjarska djarfa til lands. Það er konungsríki eitt og þar var faðir minn stjórnari. Hann átti ágæta drottningu og með henni einn son og þrjár dætur og er ég hin yngsta og heiti Anna. Fyrir nokkrum tíma bar það við að jötunn einn kom í ríki föður míns. Hann var hið ferlegasta tröll og var allt við hann hrætt. Drap hann menn og rændi fé. Síðan kom hann til föður míns og bað eldri systur minnar, en honum var synjað ráðsins. Þá varð hann reiður og lagði það á að borg föður míns skyldi verða að glerhöll og hverfa með mönnum og öllu er á var út á reginhaf og vera að hálfu upp úr sjónum; þar átti fólkið að lifa hinu vesælasta lífi. En okkur systrum lagði hann það til að níundu hvurja nótt skyldum við geta farið í álftarham og flogið í þetta hús.“ Bárus sagði: „Er ekkert til undanlausnar?“ „Jú,“ sagði Anna, „ef einhvur getur náð fjöregginu risans og sprengt það á glerhöllinni erum við frelsuð úr þessum ánauðum, en það hygg ég seint verða; og nú vil ég fá fjaðrirnar.“ „Þú færð þær ekki,“ segir Bárus, „nema þú gefir mér hringinn sem þú hefur á hendinni.“ „Það skal ég gjöra,“ segir hún og tekur hringinn af hendi sér og fékk honum, en hann þakkaði henni fyrir og fékk henni fjaðrirnar. Kveðjast þau svo og fer hún leiðar sinnar.

En hann gengur út og upp á húsið og var þá heiðskírt veður. Sér hann þá í vesturátt sorta er hann þykist vita að land muni vera. Nú fer hann í fálkahaminn og flýgur þar til hann kemst á þetta land, þá fer hann úr hamnum og gengur á land, og er hann hefur nokkuð gengið verður fyrir honum bær; þar bjó járnsmiður, aldraður maður. Bárus beiddist gistingar og var það í té. Fékk hann þar góðan beina. Það sá hann að allt fólk var þar dapurlegt og spyr hann járnsmiðinn hvað því valdi. Hann segir: „Það er nú saga að segja af því. Hér kom jötunn í ríki þetta, hinn mesti óvættur, og um sama leyti hvarf borg sú er konungur vor sat í með mönnum og öllu og vita menn ei hvað veldur. En jötunninn tók sér aðsetur í hellir á fjalli einu hér skammt frá og verður landsfólkið að sæta af honum hinni ógurlegustu kúgun. Er það eitt að á hvurjum morgni verður maður að fara til hans með tólf geitur er hann tekur í skatt og þegar sendimaður er búinn að slátra geitunum drepur risinn þá. Þeir eru ætíð hér nóttina áður en þeir fara til risans. Það er nú hvurt sem annað að geitfé landsmanna er þrotið, enda fæst nú enginn maður til að fara með geiturnar og eru flestir kvíðandi um það hvurnig fara muni.“ Bárus segir: „Ég skal nú fara með geiturnar á morgun.“ Smiðurinn segir: „Það held ég þegið verða; en ólíklegt er að þú viljir svo ganga í opinn dauðann að raunarlausu.“ „Á það mun þó hætta verða,“ segir Bárus. Síðan er gengið til svefns.

En um morguninn býst Bárus af stað með geiturnar, en fer þó að öllu heldur seinlega. Segir smiðurinn að risanum muni þykja hann koma heldur seint, en Bárus kvaðst aldrei um það hirða hvurt honum líkaði betur eða ver. Kveður hann nú smiðinn og fer af stað. Og þegar hann kemur svo að sást heim að hellirnum sér hann að jötunninn stendur við hellirsdyrnar og studdist fram á járnstöng afar mikla og kallar hann þá til Bárusar að hann skuli, leiður þræll, flýta sér með geiturnar. Bárus kallar á móti að hann sé víst mátulegur til að sækja þær til sín og kveðst ekki fara einu feti lengra. Þegar risinn sér að hann ætlar ekki að koma fyllist hann af reiði og stekkur af stað; og er hann var kominn nærri Bárus reiðir hann upp járnstöngina og ætlar að Bárus skuli að fullu ríða; en hann varð ekki ráðalaus og hljóp undir höggið og hjó öxinni í kviðinn á risanum og gekk hún á hol, en stöngin festist í jörðunni; en úr kviðnum á jötninum kom héri og hljóp af stað. Bárus brá sér þá í hundshaminn og hljóp á eftir héranum og reif hann á hol. Kom þá úr kviði hans rjúpa; en Bárus brá sér þá í fálkahaminn og sló hana og hremmdi með klónum, settist svo á jörð og varð að manni og krufði rjúpuna og fann þá egg í sarpinum og geymdi hann það vandlega, gekk svo að þar sem risinn lá í fjörbrotunum og hjó af honum höfuðið, fékk sér svo eldfæri og brenndi hann til ösku. Eftir það fer hann aftur til baka og rak með sér geiturnar.

Þegar hann kemur til smiðsins segir Bárus honum að hann sé kominn aftur með geiturnar. Verður smiðnum bilt við og segir að þá muni ekki góðs að vænta, því hann meinti að Bárus hefði ekki þorað alla leið til risans. En Bárus kvað risann ekki mundi neinum mein vinna þar eftir; og nú segir hann smiðnum allt sem farið hafði. Varð smiðurinn og allir aðrir sem heyrðu yfirmáta glaðir. Er Bárus þar um nóttina í mesta yfirlæti; en um morguninn bauð smiðurinn honum að vera þar eftirleiðis, en Bárus kvaðst ekki geta þegið það og fór af stað; óskuðu allir honum góðs.

Gengur hann nú þar til að hann kemur á yzta odda landsins. Þar tekur hann sér hvíld, en að því búnu bregður hann sér í fálkahaminn og flýgur í þá átt er hann vissi að glerhöllin var; og þegar hann kemur þangað tekur hann sér hvíld um stund á glerhöllinni. Síðan flýgur hann upp og lætur eggið detta ofan á höllina, en hún hvarf jafnskjótt. Flýgur hann nú inn til lands og var þá mjög að þrotum kominn er hann komst á landið. Kastar Bárus þá af sér hamnum og gengur áleiðis til höfuðborgarinnar. Var hann nú allur orðinn rifinn og tættur á þessu ferðalagi.

Þegar hann kemur nærri höfuðborginni sér hann hvar menn eru að ganga þar og þar í smáflokkum og var því líkast sem þeir væru að leita einhvurs. Bárus finnur sumt af þessum mönnum og spyr hvað þeir séu að ganga. Þeir segjast vera að leita að manni þeim sem frelsað hafi allt landið úr eymd og álögum – „og ætlar konungur að láta hann fá makleg laun verka sinna, eða hefur þú ekki séð hann?“ Bárus kvað nei við og hélt áfram heimleiðis til borgarinnar. En þegar hann kom nálægt sjálfri borginni sér hann hvar þær eru á gangi kóngsdæturnar og þekkir hann Önnu, en hún kom jafnsnart auga á Bárus og gengur til hans og heilsar honum vingjarnlega og segir að faðir sinn sé að láta leita að honum og skuli hann nú koma með sér heim í staðinn; en hann sagðist ekki hafa verðskuldað það. Þá tók hún í hönd hans og sá á henni hringinn þann er hún gaf honum áður og spyr hvar hann hefði eignazt grip þann, en Bárus sagði sem var. Eftir það fer hann með þeim systrum í kastala þeirra. Er hann nú tekinn úr ræflunum, en fenginn virðuglegur klæðnaður. Eftir það fer hann með þeim í höllina, gengur fyrir kóng og kveður hann virðuglega; en hann tók vel kveðju hans og spyr hvaðan hann sé og hvað hann heiti. En Bárus sagði af því hið ljósasta. Þá gekk Anna að föður sínum og sagði að hann væri sá er þau hefði frelsað. En er kóngur heyrði það setti hann Bárus hið næsta sér. Lét hann hann þá segja sér og hirðinni til skemmtunar af ferðum sínum og þótti öllum honum hafa gæfusamlega tekizt. Síðan tekur kóngur svo til máls: „Nú skalt þú, Bárus, fyrir drengskap þinn kjósa þér það til launa er þú helzt vilt, en veizt að ég get úti látið.“ Bárus segir: „Þá er því ekki að leyna að ég kýs Önnu dóttur yðar mér til konu með því ríki er hún er til borin.“ Kóngur kvað það skyldi auðfengið af sinni hendi, en hún réði mestu sjálf. Er þetta nú borið upp við hana og var það auðsókt; og er mærin föstnuð Bárusi; en hann segist ætla að finna móður sína áður en brúðkaup þeirra fram fari.

Og þegar hann er búinn að vera þar um hríð er ferð hans búin á einu skipi skrautlegu með fríðu föruneyti. Kveður hann kóng og festarmey sína og siglir síðan af stað. Er ekki sagt af ferðum hans fyrr en hann tók höfn skammt frá kastala þeirra kóngsbarnanna og gengur með nokkra menn heim að kastalanum og finnur þá bræður. Þeir fagna honum með hinum mestu virktum og bjóða honum að setjast að veizlu hjá sér, og þiggur hann það með þökkum. Var þar hin sköruglegasta veizla, en þó sá Bárus að þeir bræður vóru dapurlegir mjög og spyr hvað því valdi. En þeir segja bræður að þegar þeir skildu við hann hefðu þeir farið heim til borgar og yngri bróðirinn gengið að stjúpu þeirra og rekið hana í gegn; hefði þá kóngur orðið reiður og viljað að þeir væru teknir fangnir; – „en aðrir báðu þá fyrir okkur,“ segja þeir, „og við sögðum allt sem var um álög okkar, en hann var ófáanlegur til að trúa neinu á drottninguna. Hefur hann alltaf verið að ráðgjöra að hefna á okkur og hefur þó verið gjört allt sem hægt er til að hindra hann frá því. Og nú ætlar hann bráðum að sækja að okkur hér í kastalanum með eldi og járni; en við viljum heldur deyja saklausir en að bera vopn móti föður okkar.“ Bárus segir: „Þetta er mikið illa farið og skal ég allt kapp á leggja að koma honum til að sættast við ykkur.“ Þeir segja að það muni torvelt veita.

Þegar veizlan var úti fór hann til borgar með fylgd sinni; og þegar þar kom gjörir hann boð fyrir kóng og lét kóngur leiða hann í höllina fyrir sig og spyr hvaða maður hann sé. En Bárus sagði honum allt sem var um sína hagi – „og er það,“ sagði hann, „erindi mitt við yður að ég hef heyrt að þér ætlið að láta drepa syni yðar fyrir það að sá yngri réði stjúpu sinni bana. En það get ég með sönnu sagt að hún hafði nóg til þess unnið, því ég varð til þess að frelsa börn yðar úr álögunum.“ Kóngur varð hálfbyrstur við orð Bárusar og sagði: „Hvað vilt þú vera að skipta þér af þessu sem þér kemur ekkert við eða getur þú fært mér nokkrar sönnur á mál þitt?“ „Já,“ sagði Bárus. Brá hann sér þá í alla hamina þá er systkinin höfðu verið í, og þegar hann var kominn úr þeim aftur sagði hann við kóng: „Hér máttuð þér nú sjá í hvaða ásigkomulagi börn yðar vóru og vona ég að þér rengið nú ekki lengur sögusögn mína.“ Kóngur sagðist nú sjá að þetta og það er þau hefðu um álögin sagt mundi vera satt – „og er mér víst mál að sættast við börn mín ef þau vilja nú taka af mér sættum.“ Er nú sent eftir kóngsbörnunum, og þegar þau komu heim til borgarinnar bað kóngur þau að fyrirgefa sér það sem hann hefði gjört þeim rangt til og var það auðfengið. Varð þar nú mesti glaumur og gleði og veizla hin bezta. Fór þá Bárus að finna kellingu móður sína. En þegar hann kom að kotinu varð kelling hreint forviða að svo praktuglegt fólk skyldi koma til híbýla sinna. En Bárus sagði henni þá hvur hann var og má nærra geta hvað hún hefur orðið honum fegin; en þá var kallinn dauður; Fór hún þá með Bárusi heim til borgar og sat hann þar nokkra daga í bezta fagnaði. Bauð hann þeim systkinum að fara með sér og þáðu þau það; og líka fór móðir hans með honum. Var hann út leystur með hinum beztu gjöfum.

Fer nú þessi fylgd til skips og sigldi til hafs og gaf vel byri þar til hann kom þar að höfnum sem tilvonandi tengdafaðir hans réði fyrir. Gekk hann á land með öllu fólki sínu og heim til borgar. Fagnaði allur landslýður Bárusi, en þó einkum kóngur og Anna. Er nú slegið upp fagnaðarveizlu og að þeirri veizlu báðu kóngssynirnir systra Önnu og var því máli vel svarað. En bróðir Önnu bað aftur systur bræðranna. Eru nú þessi fjögur hjónaefni saman vígð og við veizlu búizt og múg og margmenni til boðið. Stóð veizlan marga daga með alslags viðhöfn og veraldarprjáli; og að henni endaðri vóru allir virðingarmenn með gjöfum út leystir. En þeir bræður bjuggust heim með konur sínar og skildi Bárus við þá með hinum mestu kærleikum. En Bárus varð þar kóngur. Héldu öll þessi hjón vináttu meðan líf entist; og unntist allt bæði vel og lengi. Og lýkur svo þessari sögu.