Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Búkollu saga

Úr Wikiheimild

Einu sinni voru hjón sem áttu þrjá sonu; hét einn Ásmundur, annar Sigmundur og þriðji Þorsteinn. Þorsteinn var hafður út undan. Þau áttu eina kú sem hét Búkolla og ekki annan fénað. Kýrin var afbragðs góð og kunni mannamál. Einu sinni þegar hún var nýborin og búið var að láta kálfinn upp í básinn slokknaði ljósið hjá hjónunum svo þau fóru fram að kveikja. Þegar þau komu inn aftur var kálfurinn horfinn. Næsta haust fór allt á sömu leið. Þriðja haustið bjuggu hjónin svo vel um að þau höfðu eld hjá sér inni til að kveikja ef ljósið dæi. En þegar kálfurinn var kominn upp í básinn slokknaði ljósið og eldurinn um leið. Nú urðu hjónin að fara fram til að kveikja í eldhúsi. Þegar þau komu inn var kálfurinn horfinn og kýrin með. Nú urðu þau angurvær því ekki var annað til matar en mjólkin úr Búkollu. Þá segir kall við Ásmund son sinn: „Þú verður að fara, Ási minn, að leita að kúnni og kálfunum; ég vona þér takist að finna þau.“

Nú býr Ásmundur sig á stað og fékk ekki annað nesti en smjör í skel, en þrenn plögg hafði hann og þrenna skó. Hann gekk einn dag og hafði þá gengið af sér sokka og skó. Um kvöldið át hann þriðjung úr skelinni. Svo gekk hann annan dag og fór eins, og svo hinn þriðja og fann ekkert. Þá kom hann um kvöldið að stórum helli og stóðu tvær skessur úti. Þær spurðu hann hvað hann væri að fara. Hann sagði: „Ég leita að Búkollu og kálfum föður míns; eða vitið þið nokkuð um þau?“ „Það skaltu nú bráðum fá að vita,“ sögðu þær og brugðu snæri um háls Ásmundi og hengdu upp á snaga öðrumegin hellisdyranna. Þar dó hann.

Skömmu eftir þetta þegar kalli og kellingu lengdi eftir Ásmundi sögðu þau við Sigmund að hann skyldi fara að leita Búkollu, því Ásmundur mundi ekki koma aftur. Þau bjuggu hann út eins og Ásmund og sendu á stað. En allt fór á sömu leið fyrir honum; skessurnar hengdu hann á snaga hinumegin hellisdyranna.

Nokkru seinna sagði kall við Þorstein son sinn: „Nú er bezt þú snáfir af stað að leita bræðra þinna og kýrinnar þó það verði líklega til ónýtis. Ég vil ekki sjá þig lengur fyrir augunum á mér.“ Þorsteinn fór af stað illa útbúinn og komst fyrsta kvöld að stórri eik. Þar lagðist hann niður og sagði: „Baulaðu nú, kýrin Búkolla, ef þú ert á lífi!“ Þá heyrði hann drun í jörðinni mjög langt burtu og vissi af því að kýrin lifði og hvert hann átti að stefna. Daginn eftir lagðist hann aftur niður og bað Búkollu að baula og nálgaðist þá baulið. Þessu hélt hann fram þangað til hann kom að hellisdyrunum og sá bræður sína hengda sinn hvorumegin dyra. Skessurnar stóðu úti og spurðu hvað hann væri að fara. „Ég er að leita mér bjargar,“ sagði Þorsteinn, „og er mjög svangur. Bið ég ykkur að gjöra mér eitthvað gott og lofa mér að vera í nótt.“ „Snáfaðu þá inn í hellinn,“ sögðu þær, „og slettu þér þarna á fletið! Ef þú hrærir þig héðan munum við drepa þig.“ Þorsteinn lagðist út af eftir að hann hafði etið eitthvað lítið sem honum var gefið. Um kvöldið fóru skessur ofan og fram. Þorsteinn læddist á eftir. Hann sér þær ljúka upp afhelli og er þar Búkolla inni og kálfarnir. Þær fara að mjólka kúna. Þá gengur hann inn og leggst niður. Þegar skessur voru háttaðar lætur Þorsteinn illa í svefni og berst um á hæl og hnakka. Skessur vöknuðu og sögðu hann skyldi hafa frið, ella mundi þær drepa hann. Hann sagði sig dreymdi illa, en nú skyldi hann vera kyrr. Skömmu seinna hraut hann og fer að brjótast um. Þær vakna og segja að enn ærist hann og muni þær ekki þola slík ólæti. Hann lofar enn góðu og er nú kyrrt um stund. Þá fer hann enn að brjótast um með miklum ærslum, en nú vakna skessur ekki. Þá rís hann á fætur, stingur al í rúmið og segir: „Mæltu fyrir mig þrjú orð þegar mér liggur á.“ Því næst gengur hann fram, lýkur upp afhellinum, rekur út kálfana og kúna og fer henni á bak. Nú ríður Þorsteinn hvað fara gjörir og rekur kálfana. En það er að segja frá skessum að þær vakna og kalla hvort Þorsteinn sé í fletinu. „Já!“ segir alurinn. Nú sofna þær aftur og vakna annað og þriðja sinn og spyrja hins sama. Alurinn svarar: „Já!“ Fjórða sinn vöknuðu þær og kölluðu hvort strákurinn væri kyrr. Þá tók enginn undir. Nú hlupu skessur upp og fram. Þá fundu þær að Búkolla var horfin og kálfarnir, stukku nú af stað og stikuðu stórum. Fljótt dró saman milli þeirra og Þorsteins. Þegar hann sá þær koma segir hann: „Hvað er nú til ráða, Búkolla?“ „Taktu hár úr hnakka mér,“ sagði hún, „og kastaðu aftur fyrir þig og mun koma svo mikið vatn að enginn komist yfir.“ Hann gjörði þetta, og fór eins og Búkolla sagði að mikið vatnsflóð kom svo enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þegar skessur sáu þetta sögðu þær: „Ekki skal þér þetta duga; við skulum sækja hundinn hans föður okkar og láta hann lepja vatnið upp.“ Þetta gjörðu þær og lapti hundurinn allt vatnið. Þá stukku þær enn á eftir Þorsteini og dró brátt saman. Þá segir hann: „Hvað er nú til ráða, Búkolla?“ „Taktu hár úr herðum mér,“ sagði hún, „og kastaðu aftur fyrir þig. Mun þá koma eldur svo mikill að logar til himins.“ Hann gjörði þetta og kom upp svo mikið bál að engum var fært yfir nema fugli fljúganda. Þá sögðu skessur: „Ekki skal þetta duga; við munum sækja hundinn föður okkar og láta hann elgja öllu vatninu í eldinn svo hann slokkni.“ Þær gjörðu þetta og dó niður eldurinn. Þá hlupu þær yfir og á eftir Þorsteini; og með því þær lögðu mikið undir sig dró enn saman. Þá segir Þorsteinn: „Hvað er nú til ráða, Búkolla?“ „Taktu hár úr hala mér og kastaðu á bak þér og mun koma af himinhátt fjall.“ Hann gjörði svo og kom upp fjallið svo hátt að engin skepna komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þá sögðu skessur: „Ekki skal þetta hjálpa þér; við skulum sækja stóra nafarinn hans föður okkar og bora gat á fjallið svo við komumst í gegnum.“ Þetta gjörðu þær, fóru að bora og gengu að í jötunmóði þangað til nafarinn komst gegnum. Þá skriðu þær í nafarraufina; en nú hafði mjög dregið sundur með þeim Þorsteini. Hlupu því skessur af öllum mætti og náðu um síðir svo að þær sáu flóttamanninn á kúnni. Þá spyr hann enn Búkollu hvað væri til ráða. „Þú skalt segja þeim,“ sagði hún, „að líta heldur á undurin í hafinu en að sinna þér“. Hann gjörði þetta og varð þeim litið út í hafið. Þá hljóðuðu þær upp og urðu að steini því dagur ljómaði í hafi, en þetta voru nátttröll.