Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Bjarndrengur

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu þrjár dætur. Þegar þær voru frumvaxta fór kóngur, dætur hans og öll hirðin út á leikvöll einn til leika; en þegar leikarnir stóðu sem hæst sló yfir miklri þoku og myrkri so það villtist hvað frá öðru; en loksins komst allt heim um kvöldið nema yngsta dóttrin, hún villtist og gekk lengi þangað til hún kom að einu húsi; hún gengur þar inn og var orðin örmagna af þreytu so hún hvíldi sig. Hún sá að fat stóð á borðinu með fuglaketi; hún tók sér þar af nokkurja bita. So þegar kvöld var komið kom þar inn mjög stórt bjarndýr so hún verður hálfhrædd; so þá talaði það til hennar að hún skyldi ekki vera hrædd við sig. Hún biður það að koma sér til hans föður síns, en það segir hún eigi að verða hér nokkurja stund. Um kvöldið kastar það bjarndýrshamnum og kemur þar úr maður og sagðist hann vera kóngsson í álögum og vera maður á næturnar, en bjarndýr á daginn. Hún er so hjá hönum nokkra stund, en þegar tímar líða fram verður hún ólétt og fæðir síðan sveinbarn og þau nefna það Bjarndreng. Þegar hann er fjögra ára segir bjarndýrið að það hljóti nú að verða í burtu eitt ár, en biður hana innilega að hleypa drengnum aldrei út. Þegar ár er liðið kemur hann heim aftur og er nokkurn tíma hjá henni. So segir það aftur að [það] hljóti að fara og vera í burtu þangað til Bjarndrengur sé átta ára. So kemur hann aftur og er þá lengi nokkuð heima. Þá segir það við hana að það verði að reisa í burtu þangað til Bjarndrengur sé tólf ára; það tekur henni sterkan vara fyrir að hleypa honum aldrei út. Leiðir hann þau bæði að einu húsi og lýkur því upp; hann gefur drengnum öxi og segir að bíta muni á flest; hann gefur hönum og so horn með smyrslum í og segir hönum að það muni græða flest. Síðan læsir hann húsinu og lætur lykilinn á linda við belti sér. Hann leiðir þau so að steini einum miklum og segir hönum að þegar hann sé tólf ára eigi hann að vera so sterkur að hann taki hann upp á bringu sér og áminnir þau sterklega að Bjarndrengur fari ekki út fyr en hann komi aftur og kveður þau síðan.

Leið svo fram þar til hann var kominn á tólfta ár; þá er drengurinn orðinn so mikill fyrir sér að hún ræður ekki við hann og vill hann endilega fara út að reyna sig á bjarginu og ræður hún ekkert við að hindra hann frá því og brýzt hann svo út. En þegar hann kemur út sér hann mörg dýr á skógnum meðal hvurs er eitt mjög stórt ógurlegt bjarndýr; hann fer á móti bjarndýrinu og drepur það þegar með öxinni sem hann hafði tekið þegar hann fór út; en þegar hann er búinn að drepa það sér hann að faðir sinn liggur þar dauður. Er þá móðir hans nærstödd og kemur þar að og tekur þá lykilinn af belti hans og ganga þau síðan heim. Hleypur hann þá að steininum og þrífur upp á bringu sér. Henni féll þetta slys sonar síns so þungt að hún lagðist í rekkju og andaðist af harmi. Þegar hann er nú orðinn einn tekur hann lykil þann er var við belti föður síns og lýkur upp húsi því er faðir hans læsti, tók þar nokkuð af fjármunum er hann gat stungið á sig. Síðan gengur hann í burtu og gengur lengi með sjó. Hittir hann þá mann og er hann að henda steinum út í sjóinn. Hann spyr manninn að heiti; hann kvaðst Steinn heita. Hann spyr hann hvaðan hann sé, en hann kvaðst vera frá kónginum úr Morlandi. Bjarndrengur kvað hönum vera mál að hætta þessu og fylgja sér. Ganga þeir síðan báðir út á skóg. Þeir hitta þar mann og er [hann] að rífa niður tré og kanta. Bjarndrengur spyr hann að heiti; hann kvaðst Trérífur heita. Bjarndrengur spyr hvaðan hann sé; hann kvaðst vera frá kónginum úr Morlandi; hann segir að komi skip til sín á hvurju ári sem fari hlaðið með timbri. Bjarndrengur segir hann skuli hætta þessu og fara með sér; hann gerir það; ganga so lengra út í skóginn og byggja sér þar skála og setur Bjarndrengur þá reglu að einn þeirra skuli jafnan vera heima að matreiða, en tveir að fara til veiða út á skóg. Steinn á að vera heima fyrsta daginn. Þegar hann er rétt búinn að sjóða kemur til hans risi og biður hann að gefa sér ket. Steinn gefur hönum bita. Lætur risinn það detta úr krumlunum á sér og biður Stein að rétta sér það; en þegar Steinn beygir sig niður fleygir risinn sér ofan á hrygg hönum og linar svo í hönum hrygginn að hann getur ekki upp staðið og fer so risinn burt; og liggur so Steinn þar þangað til hinir koma heim um kvöldið og Bjarndrengur sér hvað um er að verast. Tekur hann horn sitt og ber úr því um allan hrygginn á Steini. Leggja þeir hann í rekkju og verður hann albata um nóttina. Næsta dag verður Trérífur heima, en Steinn og Bjarndrengur ganga á skóg. Um daginn kemur risi inn til hans þegar hann er að sjóða og fara viðskipti þeirra á sömu leið og fyrra daginn fyrir Steini. Lá hann næstum hryggbrotinn á gólfinu um kvöldið þegar hinir koma heim; og ber þá Bjarndrengur á hann úr horninu og leggja þeir hann í rúm; verður hann alheill um nóttina. Þriðja daginn á Bjarndrengur að vera heima, en Steinn og Trérífur að ganga á skóg. Þegar hann er næstum búinn að sjóða kemur til hans risi og biður hann að gefa sér ket. Bjarndrengur segist skuli bráðum gera það, en þegar hann er búinn tekur hann höndur risans og bindur þær á bak aftur; tekur hann síðan í skegg hans og teymir hann á því út að einni eik í skóginum og bindur hann með skegginu fastan við eikina og fer síðan heim og eru þeir so heima um nóttina.

Daginn eftir ganga þeir að vita um risann og er þá risinn burtu, en skegg hans er fast við eikina og kjálkafillurnar með. Bjarndrengur fór þá að rekja blóðdrefjar sem lágu frá eikinni, og fylgdu hinir eftir. Koma þeir um síðir að hellirsmunna sem liggur ofan í jörðina og eru þar bergtröppur ofan að ganga og ærið langt á milli spora. Hann lætur Stein fara fyrstan niður í bandi og þegar hann er kominn niður fjórar tröppur treystist hann ekki lengra og draga þeir hann so upp aftur. Þá fer Trérífur niður og kemst hann átta tröppur niður og vogar hann ekki lengra. Var hann þá dreginn upp aftur. So þá fer Bjarndrengur og áminnir þá að svíkja sig nú ekki við festarhaldið; so hann fer niður og kemst niður tólf tröppur. Þá kemur hann á hellisgólf og gengur eftir því litla stund og sér hann þá birtu nokkurja; sér hann þar bráðum stúlku sem er að gráta. Hann spyr hana hvaðan hún sé. Hún segir þær séu hér þrjár dætur kóngsins úr Morlandi og hafi fjórir risar sem hér séu numið þær í burtu, en einn af þeim hafi komið í gær með bundnar höndurnar fyrir aftan bak og afrifnar kjálkafillurnar. Hann spyr hana hvort hún vilji að hann drepi risana. Hún segir að sér þækti vænt um að hann frelsaði þær; so hann drepur alla risana með öxi sinni. Sker hann síðan allar tungurnar úr hausunum og ber þá síðan alla til festar og það sem fémætt var og draga hinir það upp. Lætur hann síðan stúlkurnar fara; en þegar þær eru upp komnar kemur festin ekki aftur. Heggur hann sér þá spor í berginu og er að þar til hann kemst upp. Gengur hann so með sjó þar til hann hittir skip; so hann getur komizt til Morlands. Þegar hann kemur til Morlands stendur til að Steinn og Trérífur ætla að fara að giftast kóngsdætrunum. So hann gerir boð fyrir eina kóngsdóttrina; hann spyr hana hvort hún geti ekki komið því til leiðar fyrir konunginn föður hennar að hann sé sá hinn sami sem hafi hjálpað þeim úr hellri risanna, en hinir hafi svikið sig með því að taka í burtu festina. En hún spyr þá hvort hann hafi nokkuð til sannindamerkis; en hann kvaðst hafa allar tungurnar. Hún gengur þá til föður síns og segir að nú sé kominn sá sem hafi frelsað þær, en hinir hafi neytt þær til að segja ósatt; og kóngur segir hvort hann geti nokkuð sannað sögu sína þar hinir hafi komið með höfuð risanna; en hún segir það sé bezt að athuga hvort ekkert vanti. So kóngur lætur sækja hausana og eru þeir skoðaðir. Vantar þá allar tungurnar og kemur hann þá með tungurnar og sannar það mál hans; en þegar þeir heyra þetta Steinn og Trérífur þá verða þeir að meðkenna sannleikann og kveður kóngur upp þann dóm að annar þeirra skuli steglast, en setja hinn í gaddatunnu og velta niður eftir brekku hvar í hann skyldi stingast til bana. Var so þessi dómur framkvæmdur en síðan má Bjarndrengur eiga hvurja kóngsdóttir hann vill. Hann giftist síðan einni þeirra og eru hönum kenndar kónglegar listir og varð hann síðan kóngur í Morlandi og andaðist í góðri elli.

Og endar svo þessi saga.