Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Bjarnhéðinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Bjarnhéðinn

Einu sinni var afdalsbóndi einn, sæmilega fjáður. Hann fór eitt vor í kaupstað og hafði með sér dóttur sína frumvaxta. Lauk bóndi erindum sínum í kaupstaðnum svo að ekki bar til tíðinda; lagði hann síðan upp með dóttur sinni og komst úr kaupstaðnum í áfangastað. Tók hann þar af hestunum, spretti af og hefti hestana; síðan tjaldaði hann. En þegar þau feðgin ætluðu að fara að borða vantaði malinn. Mundi þá bóndi að hann hefði skilið hann eftir hjá kaupmanni þeim sem hann verzlaði við og hefði beðið hann að geyma hann. Nennti bóndi nú ekki að ríða til kaupstaðarins aftur og bað dóttur sína að gjöra það fyrir sig. Fékk hann henni gæðing sinn til að ríða. Stúlkan fór og kom að búðinni þegar kaupmaður var að loka. Gjörði hún þá uppskátt erindi sitt og lauk kaupmaður upp aftur búðinni, fann malinn og fékk stúlkunni. Reið hún svo burtu aftur; en þegar hún kom skammt úr kaupstaðnum fékk hún bæði náttmyrkur og þoku. Reið hún þá sem mest mátti hún, en fann brátt að hún var villt orðin. Reið hún þá í ofboði slíkt sem af tók um dali og hóla, fjöll og firnindi, en aldrei grisjaði hið minnsta í þokuna. Hélt hún á endanum að hún væri búin að vera á ferðinni eina viku.

Allt í einu kemur hún í dálítið dalverpi; þar sér hún lítinn bæ skammt frá sér. Fer hún þá af baki, bindur hestinn við fótinn á sér og leggst niður að sofa. Sofnar hún fljótt og vaknar við það að spyrnt er á hana fæti. Lítur hún þá upp og sér roskinn karl standa hjá sér. Hann segir: „Það er gott þú ert komin; mig hefir lengi langað til að ná þér. Dragðu þig í bæinn; það nær en að liggja hérna. Þú verður svo að vera hjá mér hvort sem er, því þú fær aldrei að fara heim til þín aftur.“ Stúlkan fór nú, þó nauðug væri, heim í kotið með karlinum. Segir ekki neitt af sambúð þeirra nema þau áttu einn son saman og hún var hjá honum átta eða níu ár. Þá segir karlinn einu sinni seinasta veturinn við stúlkuna: „Nú mun ég eiga skammt eftir ólifað, en þú skalt þó vera hér kyr með son okkar til vorsins, þá skaltu fara út í hesthús. Þar muntu finna hest inni; hann skaltu taka og ríða honum. Láttu hann ráða ferðinni því hann mun rata.“ Skömmu síðar dó karlinn og gróf stúlkan hann. Var hún kyr í kotinu og þókti það þó dauflegt því sonur hennar var mjög ódæll henni og gjörði henni allt til hugraunar. Hljóp hann oft burtu frá kotinu og var stundum burtu heilar vikur svo hún vissi ekkert hvar hann var, en þegar hann kom heim reið hann húsum og barði utan kofana svo brakaði í hverju tré. Leið svo veturinn.

En þegar vorið kom fór stúlkan út í hesthúsið og fann þar gráan hest; honum fór hún á bak, en drengurinn gekk. Lét hún hestinn ráða ferðinni og leiddist nú leiðin því hún vissi ekkert hvað hún fór eða hvert halda átti. Strákurinn sagði að það væri von eða hitt heldur þó, að henni leiddist; þetta væri ekki langur vegur heim til hennar; hann vissi það vel því hann hefði nokkrum sinnum farið þar á milli. Loks fór stúlkan að kannast við átthagana og bráðum komst hún heim að bæ foreldra sinna og varð hún því harðla fegin. Þegar þau mæðgin komu að bænum segir strákur henni að bíða á húsabaki með hestinn á meðan hann gjöri vart við sig. Hún gjörir það. Hleypur strákur nú að bæjardyrunum og ber svo gríðarlegt högg á hurðina að hún mölbrotnar. Bóndi kemur til dyra og biður strákur hann að lofa sér að vera. Bóndi þverneitar því, því hann var reiður út af hurðarbrotinu. Strákur segist þá skuli vera hvort hann vill eða ekki. Og í því þeir eru að kífa um þetta kemur stúlkan fram á hlaðið og heilsar föður sínum. Þekkti hann hana þegar og varð þar fagnaðarfundur mikill; leiddi hana í bæinn til móður hennar sem hafði legið rúmföst síðan hún hafði horfið. Sögðu þau nú hvort öðru hvað á dagana hefði drifið frá því þau sáust seinast. Settist nú dóttir bónda að hjá foreldrum sínum og sonur hennar með. Var hann þá skírður og kallaður Bjarnhéðinn; var hann stór og sterkur svo undrum gegndi og ódæll og óþekkur að því skapi. Gat hvorki móðir hans né afi komið við hann neinu tauti.

Þegar Bjarnhéðinn var tólf ára gamall biður afi hans hann einu sinni að sækja fyrir sig við í skóg og fær honum tólf hesta með reiðing. Bjarnhéðinn var fús á það og fer snemma dags á stað. Varð afi hans feginn mjög því nú hugsaði hann að Bjarnhéðinn mundi ekki koma fyrst um sinn aftur, en því urðu allir fegnastir að hann væri sem sjaldnast fyrir augum sér. Seint um kvöldið heyrist hundagjamm mikið á bænum og segir fólkið að einhvur muni koma, en ómögulega geti það þó verið hann Bjarnhéðinn. Bóndi fer út og kemur þá Bjarnhéðinn í hlaðið með alla hestana fullklyfjaða og rekur þá í loftinu. En þegar hestarnir komu í hlaðið duttu þeir allir dauðir niður. Reiddist þá bóndi og sagði að Bjarnhéðinn skyldi ekki hjá sér vera lengur. Bjarnhéðinn sagðist ekki heldur vera upp á það kominn. Fer hann þá inn í bæinn og segir móður sinni að faðir hennar sé búinn að skipa sér burtu og sagðist hann ekki heldur kæra sig um að vera þar lengur; hleypur síðan burtu sama kvöldið og hverfur út í náttmyrkrið.

Gengur nú Bjarnhéðinn lengi lengi eitthvað út í bláinn þangað til loks að hann kemur þar að sem maður er að fella eik í skógi. Hann gengur að manninum, rekur honum snoppung svo hann fellur í óvit, og segir um leið: „Því ertu svona rækalli smáhöggur? Þú átt að höggva stærra.“ En þegar eikhöggvarinn raknar við aftur spyr Bjarnhéðinn hann að hvar hann eigi heima. Hinn segist eiga heima í skála þar ekki langt frá og vera vinnumaður hjá skálabúanum. „Á hverju lifir skálabúinn?“ segir Bjarnhéðinn. „Hann lifir á því,“ segir hinn, „að drekkja skipum sem með ströndinni fara, og ræna þau.“ „Það líkar mér,“ segir Bjarnhéðinn; „hjá honum vil ég vera.“ Gengur hann síðan með eikhöggvaranum heim til skálans og finnur skálabúann og biður hann taka sig fyrir vinnumann. Skálabúinn spyr hann hvort nokkurt gagn sé í honum. Bjarnhéðinn segir að honum sé bezt að reyna það, – „en ekki mun ég sitja auðum höndum þegar þið eruð nokkuð að starfa,“ segir hann. Ræðst hann í vist hjá skálabúanum. Skiptu þeir nú svo verkum með sér að einn skyldi gæta skálans og allra heimilisstarfa, einn fara á skóg eftir eldivið og einn á dýraveiðar, alltaf á víxl. Tókst þetta nú fyrst lengi vel. En einu sinni þegar þeir Bjarnhéðinn komu heim frá sínum störfum, en húsbóndinn hafði verið heima, þá fundu þeir skálabúann bláan og blóðugan og barinn til óbóta og allt ógjört sem gjöra þurfti heima við. Þá undraði þetta og spurðu hverju þetta sætti. Skálabúi segir að þar hafi um daginn komið inn einhver forynja í mannsmynd og farið svona með sig. Daginn eftir var eikhöggvarinn heima og fór allt á sömu leið fyrir honum og skálabúa. Nú hlakkaði Bjarnhéðinn til morgundagsins því þá átti hann að vera heima. Undireins og þeir hinir voru burt farnir sópar Bjarnhéðinn skálann og býr upp rúmin til þess að ekki skuli þó allt verða ógjört að kvöldi hvernig sem fara kynni. Síðan setur hann upp pott á hlóðirnar og býr í hann og fer nú að sjóða; en á meðan á því stendur heyrir hann þrusk mikið fyrir utan skálann og stórkarlalegt hóstakjöltur. Leið ekki á löngu áður skálahurðinni er lokið upp með hægð og kemur þar inn karl stumrandi á tveimur hækjum. Var hann stór mjög og ófrýnilegur, með skegg sem náði ofan á kné; hann gekk hægt og hægt og hálfhóstandi inn eftir skálanum. Þóktist Bjarnhéðinn vita að þetta mundi sá vera sem gletzt hefði áður við þá skálabúa, og ætlaði nú að vera var um sig. Aðkomandi yrðir á Héðin og biður hann að gefa sér bita úr pottinum. Bjarnhéðinn gjörir það og færir upp feikilega stórt kjötstykki og færir honum. Karl tekur móti með krumlunum, en stykkið var glóandi heitt svo hann þoldi ekki að halda því fyrir hita og datt það niður á gólfið. Biður hann þá Bjarnhéðin að gjöra svo vel og ná upp fyrir sig kjötbitanum, því hann segist eiga svo illt með að beygja sig fyrir brjóstveiki og elliburðum. Héðinn þykist nú sjá að með þessu muni karlinn ætla að pretta sig. Er hann nú var um sig, en beygir sig þó niður eftir kjötstykkinu; en í því dembir karlinn sér ofan yfir hann. En af því Bjarnhéðinn var við því búinn gat hann skotizt út undan honum og komizt ofan á karlinn. Stimpuðust þeir þá nokkuð, en svo lauk að Héðinn gat bundið hendur og fætur á karlinum. Fór hann þá með hann út úr skálanum, tekur sér reiptagl sterkt mjög, klýfur skegg karlsins og bindur sinn lokkinn við hvora eik af tveimur sem stóðu norðan undir skálanum. Þóktist hann nú vel hafa að verið og gengur inn í skálann aftur og heldur áfram að sjóða.

Um kvöldið koma þeir skálabúi heim og sjá nú að Héðinn er búinn að öllu sem gjöra þurfti heima. Þeir spyrja hann tíðinda og hvert enginn hafi komið þar um daginn. Bjarnhéðinn lét lítið yfir því; síðan snæddu þeir allir. Eftir máltíð biður Héðinn þá kompána að koma út með sér því hann ætli að sýna þeim nokkuð skrýtið; þeir gjöra það. Ganga þeir nú að eikunum, en þá brá Héðni heldur en ekki í brún, því karlinn var allur í burtu, en skeggið sat eftir, sinn lokkur bundinn við hvora eik Gjörðu þeir skálabúi nú mikið gys að Héðni því þeim sárnaði það niðrí að hann skyldi hafa borið af sér í viðskiptunum við forynju þessa. „O jæja, karltetur,“ segja þeir, „lengi máttu stæra þig að þú skyldir þá ekki geta bundið karlhróið almennilega úr því þú fórst að bera það við á annað borð. Þarna er þá komin öll mikilmennskan þín.“ Bjarnhéðni sárnaði allt þetta svo mjög að hann heitstrengdi að leita karlsins og linna ekki fyr en hann fyndi hann. Skálabúinn og eikhöggvarinn strengdu þá og heit að þeir skyldu aldrei yfirgefa Héðin, heldur fylgja honum dyggilega, og létust gjöra það af því þeim þækti Héðni takast svo drengilega, en raunar var það af því að þeir gátu ekki unnt Héðni einum frægðarinnar af fundi skemmdarkarls þessa sem þá hafði svo grátt leikið.

Leggja þeir nú allir þrír á stað og ganga nú lengi lengi og leita um skóga og fjöll, dali og hóla og finna ekkert. Loks koma þeir í eitt rjóður; þar var tómahljóð undir. Þá segir Bjarnhéðinn að hér muni sá vera sem þeir leiti að. Rótar hann þá til í rjóðrinu og finnur loks hellu eina mikla. Hann þrífur hana upp og sjá þeir að þar er op djúpt niður í jörðina. Bjarnhéðinn spyr félaga sína hvor þeirra vili verða til að síga niður í holuna; en þeir skoruðust undan, því þeim þókti það heldur en ekki geigvænlegt. Bjarnhéðinn segist þá muni síga niður sjálfur, en biður þá geyma vel festarinnar og bíða sín þrjá sólarhringa, en yrði hann þá ekki kominn sagði hann að þeir skyldu fara hvert á land þeir vildu. Þeir lofa þessu og sígur nú Bjarnhéðinn niður festina. Þegar hann kemur niður sér hann þar jarðhús mikið og rúmgott. Hann leitast fyrir og finnur hurð fyrir sér; henni lýkur hann upp. Þar sér hann mann býsna ófrýnilegan liggja í fleti einu. Sá yrðir á hann fyr og segir: „Ekki get ég þakkað þér fyrir seinast.“ Kannast þá Héðinn við að þetta var sá sem hann leitaði að, en var nú skegglaus og þó engu fríðari sýnum en fyrri. Spyr nú Bjarnhéðinn hann hvort hann búi hér einn. Hinn segir það ekki vera. „Hér fyrir innan eru þrjú afhús,“ segir hann, „og býr sinn þríhöfðaður þussinn í hverju. Hafa þeir rænt þremur kóngsdætrum og tekið sína hver, en kóngurinn faðir þeirra hefir látið þau boð ganga um öll lönd að hver sem frelsaði dætur sínar skyldi fá hverrar þeirrar sem hann vildi og hálft kóngsríkið með; en það hefir engum enn tekizt.“ Bjarnhéðinn spyr hvort ekki muni unnt að drepa þussana og segist vilja reyna það. Hinn segir það muni mikil gæfuraun vera, „en ef þér er það alvara,“ segir hann, „þá súptu á horni þessu;“ – og um leið fékk hann Héðni geysistórt dýrshorn. Bjarnhéðinn tók við horninu og drakk úr meira en helming; réttir síðan hornið frá sér. Hinn tekur við, lítur í hornið og segir: „Svona á þér þá að ganga.“ „Nú, átti ég að ljúka úr horninu?“ segir Héðinn; „fá mér það aftur.“ Tekur hann þá við horninu og drekkur það í botn. Það fann Bjarnhéðinn að honum óx þrek og fjör við drykkinn og gat hann varla ráðið sér þegar búið var úr horninu; var eins og hver limur hans og liður væri svo mjúkur og styrkur og aukinn nýju afli. Þá fær maðurinn honum gullbúið sverð, biturlegt mjög og svo fagurt að ljómaði af um jarðhúsið. „Þetta vopn skaltu hafa,“ segir maðurinn; „ég vona að það bæði bíti og verði lánsamt ef þig bilar ekki hug né dug.“ Nú gengur Bjarnhéðinn inn eftir jarðhúsinu og kemur að fyrsta afhúsinu. Hann hrindir því upp og gengur inn. Sér hann þar sæng mikla og liggur fjarskalega ljótur þussi þríhöfðaður í rúminu fram við stokkinn, en fögur og fríð mey situr uppi grátandi fyrir ofan hann. Bjarnhéðinn hefir engin orð, heldur leggur þussann þegar í gegn til bana með sverðinu áður hann vaknaði. Burtu fer Héðinn þaðan og inn í næsta afhús; þar ber honum sama fyrir sjónir og þar fer allt á sömu leið. Nú fer Héðinn inn í þriðja afhúsið; er þar eins háttað; þar liggur þríhöfðaður þussi sofandi í rúmi og einkar fríð mey situr uppi fyrir ofan hann og flóir í tárum. Mærin yrðir á Héðin og segir: „Ef þú drepur þussann þá skal ég engan mann eiga annan en þig; er ég voldugs og ríks konungs dóttir.“ Bjarnhéðinn ætlaði engar sveiflur að hafa nema leggja þussann í gegn eins og hina; en í því bili vaknar þussinn og ræðst á vegandann. Tekur þá Bjarnhéðinn móti honum, en sleppir sverðinu og verða þar sviptingar harðar. Finnur Héðinn að hér var við fjarskalegan aflsmun að eiga, en svo var hann mjúkur að ekki gat þussinn fellt hann eða komið honum af fótunum. Héðinn sér að í gólfinu stóð hella á rönd og var hvöss ofan og að þussinn vildi alltaf koma sér að hellunni. Nú mæddist Bjarnhéðinn og sér sitt óvænna. Hann gat þá skotrað sér á hlið við helluna og yfir hana. Þetta varaðist ekki þussinn svo hann datt áfram á hellubrúnina og braut í sér bringuteinana. Kom þá mærin að með sverð Bjarnhéðins og hjó hann með því öll höfuðin af þussanum. Að þessu búnu fór Bjarnhéðinn og hjó öll höfuðin af þussunum og skar úr þeim allar níu tungurnar; þær lét hann í belti sitt, en hausana alla níu kippaði hann upp á band. Fór hann svo með þá og kóngsdæturnar og allt sem fémætt var í jarðhúsinu, til festarinnar. Lét hann þá draga þetta allt upp í festinni, kóngsdæturnar þrjár, þussahausana níu og það sem fémætt var í jarðhúsinu.

En nú mundi hann fyrst eftir manninum sem gaf honum drykkinn og léði honum sverðið, og vill vitja um hann. Biður hann þá kompána sína að bíða sín dálitla stund því hann hafi gleymt nokkru inni í jarðhúsinu. Þeir lofa því, en Héðinn fer inn í jarðhúsið aftur. Finnur hann manninn í fletinu, þakkar honum sverðslánið, segir honum hvar komið er og biður hann að koma nú með sér upp úr jarðhúsinu. Maðurinn segist ekki vilja það. „Ég er búinn að gjöra svo margt og mikið illt af mér,“ segir hann, „að ég vil nú ekki lifa lengur og bið þig að höggva nú af mér höfuðið.“ Bjarnhéðinn neitaði því og taldi það úr á allar lundir. Hinn bað hann því innilegar að höggva af sér höfuðið. Þegar nú Bjarhéðinn gat engu tauti við ráðið þá segir hann: „Jæja, úr því þú vilt það endilega skal ég höggva af þér höfuðið;“ – og um leið hjó hann af honum höfuðið. Gengur hann nú til festarinnar og ætlar upp. En þegar þar kom var festin burt og hellan komin yfir jarðhúsmunnann. Sá nú Héðinn að kompánar hans höfðu svikið sig; var hann nú í vandræðum. Snýr hann þá inn aftur í jarðhúsið því upp um jarðhúsmunnann gat hann ekki komizt. Mætir hann þá fríðum og fallegum kóngssyni sem heilsar honum vingjarnlega og þakkar honum fyrir síðast. Héðinn varð forviða við og spyr hver hann sé. Hinn segist vera sá sem hann hafi fyrir skemmstu höggvið af höfuðið. „Er ég bróðir kóngsdætranna sem þú frelsaðir frá þussunum,“ segir hann; „stálu þeir mér með þeim og lögðu síðan á mig, en úr þeim álögum hefir þú nú leyst mig.“ Bjarnhéðin furðaði á sögu kóngssonar og glaðnaði nú mikið yfir honum. Segir hann þá kóngssyninum frá hvernig þeir kompánar sínir hafi svikið sig í tryggðum, dregið upp festina, lagt helluna yfir jarðhússmunnann og farið burtu með öll níu þussahöfuðin og allar þrjár kóngsdæturnar. Spurði hann nú kóngsson hvort hann vissi nokkur ráð til að komast burtu úr jarðhúsinu. Kóngsson lét lítið yfir því, en sagði þó að þeir skyldu reyna fyrir sér. Gengu þeir þá innar eftir jarðhúsinu og í einhverjum stað segir kóngsson að hér muni helzt vera tiltök að reyna að höggva sér göng út úr jarðhúsinu. því það var holað út í klöpp eða berg. Taka þeir nú til og fara að höggva klöppina með sverðinu kóngssonarnaut. Gengur það tregt mjög, en þó komu þeir loksins gati á jarðhúsið og gátu skriðið út um það. Gengu þeir þá eftir leiðsögn kóngssonar um fjöll og firnindi, grundir og skóga. Loks koma þeir í eitt rjóður. Þá segir kóngsson að hér skuli hann bíða því nú væri skammt heim í höll föður síns, – „en ég ætla heim í höllina og vita hvað þar er títt; mun ég ekki verða lengi og skal ég koma aftur til þín hið bráðasta.“ Fer nú kóngsson, en Héðinn leggst niður í rjóðrinu og fer að sofa. Vaknar hann ekki fyr en kóngsson spyrndi við honum fæti sínum og vakti hann. „Ekki hefir þú miklar áhyggjur út af kóngsdætrunum,“ segir hann, „að þú skulir sofa svona vært eins og ekkert sé um að vera; en ég ræð þér nú til að rísa hið skjótasta á fætur, því á morgun ætla þeir kompánar þínir að ganga að eiga tvær af systrum mínum. Hafa þeir flutt þær heim og sagzt hafa frelsað þær og sannað það með þussahausunum sem þeir höfðu til sýnis. Er nú ráð fyrir þig að gefa þig fram í tíma, því illa liggur á systrum mínum út af svikum hrekkjamannanna við þig. Hefi ég talað við þær, en ekki látizt vita neitt um þig, og bað hin yngsta mig að leita þig upp lifandi eða dauðan; er henni þú mjög [hug]fastur. Ég gekk í höllina og lét eins og ég kæmi úr leiðangri og sýndi hrakmennunum alla kurteisi, en faðir minn hefir þá í hávegum eins og sómdi lífgjöfum dætra hans.“ Ganga þeir kóngsson hú heimleiðis til hallarinnar og inn í kastala kóngssonar. Þar lætur kóngsson bera Héðni fæðu kostulega og segir að hann skuli gista þar um nóttina, – „en ég mun ganga í höllina,“ segir hann, „og gjöra þér við vart í tækan tíma á morgun.“ Leið nú nóttin.

Daginn eftir kemur kóngsson aftur til Héðins og biður hann dubba sig upp sem bezt og færir honum skrautleg klæði nýskorin til að fara í. Varð þá Bjarnhéðinn allur annar maður en áður. Bjóst hann um vel og var bæði tignarlegur og fríður og að öllu hinn höfðinglegasti. Lét nú kóngsson hann ganga með sér í höllina. Heilsar kóngsson föður sínum og segir að hér sé kominn maður sem vilji tala við hann. Kóngur spyr hvort það sé hinn mikli maður sem beri höfuð og herðar yfir alla og sé svo kurteis og fríður sýnum. Kóngsson játti því. Gengur nú Bjarnhéðinn fyrir konung og kveður hann kurteislega. „Er ég hingað kominn, herra,“ segir hann, „til þess að láta þig vita að ég hefi frelsað dætur þínar úr þussahöndum, því ég hafði heyrt boðskap þinn sem út var genginn viðvíkjandi frelsun þeirra.“ Kóngur brást reiður við og kvað hann furðu djarfan að ljúga svo greypilega þar sem hér væru þeir tveir menn innan hallar sem með rökum hefðu sannað að þeir væru hinir réttu frelsendur dætra sinna. „Hver eru þau rök, herra?“ segir Héðinn. „Það eru hausar þussanna allir níu,“ segir kóngur. Héðinn spyr hvort enginn galli sé á hausunum eða hvort ekki vanti neitt í þá. Kóngur segir að ekki sé það. „Þó mun vanta allar tungurnar í hausana,“ segir Héðinn. Það sagðist kóngur ekki hafa aðgætt og lét hann þá bera inn í höllina alla níu þussahausana. Var nú skoðað upp í þá og var engin tunga í neinum; það þókti öllum kynlegt. Bjarnhéðinn sprettir þá af sér beltinu og tekur upp allar níu þussatungurnar og féllu þær í hausana. Sá kóngur nú að hér voru svik í og neyddi nú skálabúana til að segja upp alla sögu. Síðan sagði kóngsson sína sögu og þar á eftir Héðinn sína. Sönnuðu kóngsdæturnar allar sögurnar og það að Bjarnhéðinn einn hefði frelsað sig úr höndum þussanna. Voru þá svikararnir teknir og hengdir á hæsta gálga, en Bjarnhéðinn gekk að eiga yngstu kóngsdótturina, en það var sú sem við hann talaði í jarðhúsinu forðum. Vildi kóngur þegar afhenda honum hálft ríkið, en Bjarnhéðinn sagðist ekki vilja taka við því; það skyldi kóngssonur hafa. Þar á móti baðst hann eftir að mega vera landvarnarmaður og það fékk hann. Settist hann þar að síðan og sókti til sín afa sinn og móður; voru þau hjá honum til dauðadags og undu vel hag sínum. En Bjarnhéðinn lifði lengi og vel og stóð ætíð með sóma í stöðu sinni.

Og ekki kann ég þessa sögu lengri.