Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Blákápa

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Kóngur og drottning voru í ríki sínu og áttu þrjár dætur. Nafn þeirrar yngstu var Blákápa. Þegar hún var sextán ára kom mektugur kóngsson og beiddi hennar; en hún neitaði honum og fékk hann elztu dóttir kóngs þessa. En hann lagði á Blákápu að hún skyldi að tröllskessu verða og á skeri búa. Og á hvurjum vetri skyldi hún stúlku taka og á sumardegi fyrsta þær drepa og þangað til einhvur kæmi sem ekki hræddist dauða sinn. Liðu nú fimmtán vetur og á hvurjum fyrsta sumardegi drap hún hvurja vetrarkonu sína.

Er nú að segja frá þeim er átti systir hennar að hún hafði átt tröllkall og buggu þau nú í hellri einum, en var þó ekki mjög langt á milli systranna. Áttu þau nú eina dóttir er Hildur hét. Og er hún var orðin fimmtán ára lagðist móðir hennar og sagði hún Hildi að nú myndi hún deyja og faðir hennar vildi taka hana fyrir fylgikonu og ætti hann nú hund þann er gæti – „rakið öll mannaspor frá hellir föður þíns. Skaltu þá er ég dey ettir tvo daga grafa mig í jörðu. Og er faðir þinn vill taka þig til hvílu þá skaltu fara fram og segja að þú eigir ógætt elds þíns. Bittu so föt þín um staur þann er í eldhúskróki er og mun hann þá tala það þú vilt. Skalt þú taka skó þína og snúa attur skóm þínum og skaltu þennan hnykil hafa og láta undan þér renna til þess að þú kemur að hellri stórum og þar mun koma til þín kona og biðja þig að vinna vetrarvist hjá sér. En á sumardaginn fyrsta atlar hún að drepa þig og skaltu ekki hræðast dauða þinn.“ Fór nú eins og móðir hennar sagði. Var Hildur nú hjá Blákápu um veturinn. En á sumardaginn fyrsta kom Blákápa um morguninn og reif með báðum höndum í hár hennar og tók exi er þar lá og ætlaði að höggva af henni höfuðið, og hún sagði að hún hræddist ekki dauða sinn. En er Blákápa heyrði þetta lét hún öxina niður falla og sagði að hún hefði leyst sig úr álögum föður hennar og væri hún nú búin að drepa fimmtán. Fylgdi hún nú Hildi heim til föður síns og átti Blákápa einn bróðir. En hún gerði so mikla ást bróður síns til Hildar að hann gifti sig henni.

Er nú að segja frá því að faðir hans deyr og tekur hann við ríki ettir föður sinn og er nú Hildur ólétt orðin. Og er hún átti tvo mánuði kom gamall maður í kóngsríkið og beiddi kóng að taka sig. En hann hafði heitið Hildi því að taka ekki vetrarvistarmann án hennar leyfis, en nú svaf drottning so fast að hún varð ekki vakin og gekk nú þessi gamli maður so fast að kóngi og sagði það væri heigulslegt af einum kóngi að vera sona hræddur við konu sína að hann ekki geti lofað einum manni að vera, og gerði hann það. Og er drottning heyrði það varð henni illt við og sagði nú skyldi kóngurinn ráða hvurnin færi fyrir sér, og sagði nú gamli kallinn að hann væri bezta yfirsetukona og skyldi hjá drottning vera þá hún ætti barnið. Og er hennar tími var kominn lét hann hana í kames eitt og söng nú so vel að allir duttu í dá, en lét þagnargull undir tungurætur Hildar. Ól hún nú sveinbarn og skar kallinn litlufingur af því og lét í grasið hjá móðurinni og hníf hjá; sagði so að móðirin hefði barnið etið, en kallinn fleygði því. En hann sagðist hafa dottið með hinum út af frá söngnum. Gekk þetta í þrjú skipti og varð kóngur fyrir fortölur kallsins so reiður að hann lét búa til bál og ætlaði að brenna Hildi. Og er búið var að kynda bálið þá kom kona stórvaxin og óð jörðina upp að knjám og tók stólinn er Hildur var bundin á og fór í burt á sama veg. Brá öllum við þetta. Vissi kóngur ekki annað en hún brennd hefði verið. Leið nú eitt missiri og var kóngur ávallt glaður, en so frá því varð hann mikið fár við alla, einkum við kallinn.

Einn góðan veðurdag fóru þeir sér til skemmtunar að ganga út á skóg, en ettir nokkurn tíma féll á þá þoka og stórveður með hríð og eldingum. Vissu þeir ekki hvað farið höfðu fyrri en þeir komu að hellir stórum og kom þar út kona mikil og spurði hvurt þeir ötluðu og hvaða menn það væru; og sögðu þeir það. Konan spurði kallinn hvurt hann vildi fara og koma í eldhús sitt, en bað kónginn fara inn í stofu, og kemur önnur ung kona til hans og segir sú eldri henni að skemmta gestinum meðan hún hiti kallhruminn. Fer nú hvur þeirra hvur í sinn stað. Þá segir kelling: „Segjum við nú ævisögu okkar og byrja þú kallkind.“ En ef hann ætlaði að ljúga sagði hún: „Stíkktu hann stóll og stattu í honum biti!“ Varð hann so hræddur að hann mátti til og segja það sanna. Og er hann var búinn sagði konan: „Ég held að búinn sé grauturinn.“ Og vildi nú kalltetrið smakka hann og fer að lykta af gufunni. Tekur hún undir herðar og hnésbætur og rykkir honum upp í pottinn og segir: „Hér skaltu brenna og soðna þó það sé minnst fyrir álög þín og ólán mitt af þér.“ Heyrir nú kóngur væl kallsins og vill fram fara, en unga konan segir honum kjurrum vera og verður hann nú hræddur við vælið. Kemur nú gamla konan inn og segist vera búin að hreinsa bein föðurs hennar hvurnin sem so fari. Verður hann nú enn hræddari við þessi orð. Segir nú kallinn honum ævisögu sína að segja þeim til ánægju og segir hann hún sé nú stutt. Samt kemst hann nú ekki undan þessu og segir sem nú orðið var og verður mikið hryggur yfir óláni sínu. Þá segir konan hvað hann myndi til vilja gefa þeim er kæmi með konu og börn hans. „Allt það sá vildi kjósa.“ Þá fer hún fram og kemur með allt það er hann vantaði og sagðist hún nú Blákápa alsystir hans vera, en þetta væri Hildur systurdóttir hans er kona hans væri, og börnin þeirra væru þetta, en kallinn væri hún nú búin að drepa í biki og brennisteini. Fór hann nú glaðari í huga heim til borgar sinnar en frá greint verði, með börn sín og konu og systir sína, gifti hana æðsta ráðherra sínum og gaf þeim lítið land er þau ríktu í til dauðadags.

Lýkur sögu Blákápu.