Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Botrún, Kotrún og Rósa

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Botrún, Kotrún og Rósa

Forðum daga bjó karl og kerling í koti sínu; þau áttu sér þrjár dætur. Hét sú elzta Botrún, önnur Kotrún, en sú yngsta Rósa. Karl og kerling unnu mikið báðum eldri dætrum sínum, en þá yngstu höfðu þau út undan og mátti hún aldrei frá eldstó ganga og öll sorpverk hafði hún á hendi.

Svo bar við einhvurju sinni að eldurinn dó í kotinu. Botrún býðst til að fara og sækja hann, en karl vill að Rósa fari því hann unni henni minnst. Svo fer að Botrún ræður mestu, fer af stað og gengur lengi lengi unz hún heyrir að sagt er í fjalli nokkru: „Í Kiðufelli – einn bý ég mér í fjalli.“ „Bú þú svo lengi ófarsæll sem þú lifir lengi,“ segir hún. Síðan heldur hún áfram langan veg enn nú, unz hún kemur að einum fögrum og háreistum bæ; bærinn stóð opinn. Hún gengur inn og sér eldur brennur á glæðum; er ketill yfir og í honum kjöt. Ekkert sér hún þar manna. Hún tekur stykki úr katlinum og eldibrand stóran og gengur á stað sinn veg. Þegar hún er komin skammt burt sér hún konu bláklædda koma út á hlaðið. Hún lætur sem hún sjái hana ekki og heldur áfram. Á leiðinni mætir henni hundur stór, svartur; hafði hann stóran gullhring á trýninu. Hann flaðrar að henni og réttir henni trýnið. Hún tekur til og ætlar að plokka hringinn burt, en [í] því bítur hundurinn utan um hönd henni og af handlegginn í olnbogabót. Þegar hún kennir sársaukans fleygir hún eldinum og kjötstykkinu og hleypur hvað fætur toga heim í kotið. Karl verður nær því frá sér numinn af harmi er hann sér útfarir uppáhaldsdóttur sinnar, og segir sig hafi þetta lengi grunað.

Síðan býðst Kotrún til að fara og sækja eldinn, en karl vill eigi; heldur vill hann að Rósa fari. En Kotrún ræður meir og fer af stað, hleypur yfir holt og hæðir unz hún heyrir sagt er í fjallinu: „Í Kiðafelli – einn bý ég mér í fjalli.“ „Bú þú svo lengi ófarsæll sem þú lifir lengi,“ segir hún og heldur áfram þar til hún kemur að reisuglegum húsabæ; hann er opinn. Hún gengur inn í eldhús, sér engvan mann, en eld loganda og ketil yfir með kjöti. Hún tekur eldibrand úr eldinum og kjötstykki og hleypur sinn veg. Við túnfótinn stödd sér hún konu bláklædda heim á hlaði. Hún lætur sem hún sjái hana ekki og hleypur áfram. Á leiðinni mætir henni hundur stór, svartur með lafandi eyru. Henni virðist hann flaðra upp á sig, en hún fer að reyna til að plokka hringinn af trýni hans. Þá bítur hann af henni nefið, en hún missir eldsins og kjötstykkisins og hleypur heim að koti í ósköpum og segir ófarir sínar. Karl verður sem vitstola af þessu; segir sig hafi það lengi grunað og verst þyki sér að sínar eftirlætisdætur skyldu fyrir því verða.

Nú skipar karl Rósu af stað og segir það megi einu gilda um hana. Hún fer og gengur lengi þar til hún heyrir sagt er [í] fjallinu: „Í Kiðafelli – einn bý ég mér í fjalli.“ „Bú þú svo lengi farsæll sem þú lifir lengi,“ segir hún. Síðan heldur hún leiðar sinnar þar til hún kemur að bæ fríðum. Hann stendur opinn, en hún ber að dyrum og í þrjár reisur ber hún svo að enginn kemur til dyra. Loks gengur hún inn, sér eld í eldhúsi lítt logandi og ketil upp yfir með kjöti. Hún hagræðir undir katlinum og leggur að alikveikjur. Í þessu kemur kona bláklædd og spyr hana að heiti; hún segir henni það. „Þér hefur farizt betur en systrum þínum,“ segir hún; „þú ferð frómlega að öllu, en þær svívirðilega.“ Síðan lét hún Rósu setjast inn, gjörir henni vel til góða og að skilnaði kemur hún með stokk og segir: „Hér í er þrennslags klæðnaður er þú átt að eiga og skaltu klæðast þeim lakasta þegar maður kemur að biðja þín.“ Rósa þakkar hinni bláklæddu konu. Síðan tekur hin bláklædda aftur til máls og segir: „Þegar þú ferð héðan mun mæta þér hundur. Hann mun verða vingjarnlegur og flaðra upp á þig; hann mun rétta að þér trýnið og þá skaltu plokka af hringinn og geyma, því hann mun lofa þér að ná honum.“ Síðan kveður Rósa hina bláklæddu sem óskar henni allra heilla. Nú heldur hún áfram unz mætir henni hundurinn með vinalátum og réttir henni trýnið. Hún plokkar af hringinn og lætur ofan í stokk. Síðan heldur hún heim í kot með eldinn og kjötstykki sem hin bláklædda gaf henni. Ekki fagnaði karl mjög heimkomu hennar, heldur segir: „Það lá að að henni vildi ekkert illt til, óhræsinu því arna.“

Nú líður þar til skip kemur að landi. Á því er ríkur kóngsson; hann gengur heim að koti karls og segist vilja finna hann. Karl kemur út og heilsar honum virðuglega. Kóngsson spyr hvurt hann eigi ekki dóttur. Karl kveðst eiga tvær vænar. Kóngsson spyr hvurt karl vilji gefa sér aðra þeirra. „Já,“ segir karl, „ég skal gefa yður þá eldri sem heitir Botrún og er vænni.“ Síðan er hún búin bezta skarti og fer með kóngssyni og siglir hann fram á sjóinn. Þá gengur hann til Botrúnar og fer að virða hana fyrir sér. Síðan strýkur hann allan hennar líkama; þá dettur af henni annar handleggurinn sem von var, því karl hafði sjálfur smíðað hann úr tré. Kóngsson segir: „Því hefur karl svikið mig svona?“ Með það sama snýr hann með hana aftur heim til karls og átelur hann fyrir svikin. Því næst lætur karl Kotrúnu með honum fara. Kóngsson siglir fram á sjó, fer þar að gá að heitmey sinni og strjúka allan hennar líkama. Þá vill undarlegt til – að af henni dettur nefið sem líka var von því karl hafði sjálfur klastrað það af bleiktré og límt á hana. Þá verður kóngsson reiður og snýr heim til karls og segir: „Mér þykir þú, karl, eiga vænar dætur og álitlegar þar sem önnur er handleggslaus en önnur neflaus, og hafðu nú óþökk fyrir svik þín, – en áttu ekki fleiri dætur?“ „Nei,“ segir karl. „Ætli þú ljúgir ekki?“ segir kóngsson. „Ekki á ég fleiri dætur sem ég get talið,“ segir karl, „því valla get ég nefnt svo öskusvínið mitt, hvurt að er mesta endemi í alla staði; hún er inn í eldhúsi og heitir Rósa.“ „Hana vil ég sjá,“ segir kóngsson. „Því viljið þér sjá það aftót?“ segir karl. Samt fer hann inn í eldhús og segir Rósu að kóngsson vilji hana finna. Hún verkar af sér öskuna og býr sig lakasta búning sínum sem hin bláklædda hafði gefið henni. Síðan fer hún út fyrir kóngsson. Kóngsson segir: „Þessi stúlka lízt mér fögur og álitleg og máttu gefa mér hana, karl.“ „Ég hélt aldrei þér vilduð nýta þvílíkt viðundur,“ segir karl. Þegar systur hennar sáu og heyrðu hvað verða vildi tóku þær að hæða hana, en hún gaf sig fátt að.

Síðan siglir kóngsson með hana heim í sitt land, hafði boð úti, stofnar til brúðkaups og gengur að eiga hana. Hafði þessi kóngsson verið í álögum og sá sami sem þær heyrðu til í fjallinu. Voru eitthvað um níu tugir meyja orðnar nef- og handleggslausar, því allar höfðu þær sagt hann skyldi lifa ófarsæll nema Rósa, og með því móti leysti hún hann úr álögunum. En bláklædda konan var móðir hans. Hafði hún farið í einsetu af sorg þegar sonur hennar var kominn í álögin og setzt að í þessum húsabæ. Nú lætur hann senda eftir henni og tekur hann hana heim til sín í ríkið. Síðan stýrir hann ríkinu í mörg ár, og þau Rósa og hann unntust bæði vel og lengi.

Og lýkur svo þessari sögu.