Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Brúnka

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni kall og kelling í koti sínu og áttu sér þrjá syni og var haldið so mikið upp á tvo, en einn sem hét Þorsteinn hafður út undan. Þegar þeir voru orðnir fullorðnir vildu þeir fara að leita sér frægð[ar] og frama. Þeir fóru so og fengu nesti og nýja skó. Þeir ganga lengi þangað til þeir koma að stórum bæ. Þeir biðja um veturvist. Húsbóndinn segir að þeir fái það með því móti að þeir passi féð sitt í vetur og skili því öllu á sumardaginn fyrsta og þá megi þeir kjósa hvað þeir vilji af eigum sínum, en ef þeir geti það ekki þá drepi hann þá. Þeir ganga að því og gengur það vel fram eftir vetrinum, en á sumardaginn fyrsta vantar allt féð so hann drepur þá.

Það er að segja af Þorsteini stráknum sem var í kotinu [að hann] vill fara að leita sér frama. Þau létu það eftir. Hann gengur so á stað og kemur að þessum bæ sem bræður hans komu. Hann biður um veturvist og fær það með sama móti og hinir. So eru drógar þar hjá honum á gaddinum þegar hann er að gefa og þar er brún meri sem var nötnust hjá honum. Hún talar við hann og segir að það muni ekki vanta féð hjá hönum á sumardaginn fyrsta, hann skuli kjósa sig. Hún segir að hér hafi verið drepnir bræður hans af því þeir hafi ekki getað það. Á sumardaginn [fyrsta] skilar hann honum öllu fénu. Bóndi spyr hann hvað hann vilji kjósa. Hann segir að það sé brún meri með hrossunum hans, hann kjósi hana. Bóndi segir það verði að vera og hafi hann þó sízt viljað missa hana. So kemur hann til merarinnar og segir hann sé búinn að fá hana. Þá segir hún hönum að fara á bak. Hann fer á bak. Þau halda so áfram. Ríður hann so til kvölds og kemur so að hellir. Þá skipar hún hönum að skera sig og bera so allt inn og muna sig um það. Hann er tregur til þess, en hún skipar hönum það. Hann gerir það nauðugt og ber so allt inn og so er hann þar um nóttina og heyrir mikinn undirgang. En um morguninn þegar hann kemur út stendur Brúnka fyrir utan dyr og segir: „Svikið hefurðu mig; þú hefur skilið eftir vömbina og mæli ég um og legg ég á að aldrei verði vömb í meri.“ So tekur hann hana og fer á bak og ríður til kvölds og kemur þá að hellir. Hún skipar honum að skera sig og bera sig so alla inn og muna sig um að skilja ekkert eftir. Hann gerir það og sker hana í sundur og ber so allt inn. So er hann í hellirnum um nóttina og heyrir þá þvílíkt hark og undirgang. Um morguninn þegar hann kemur á fætur stendur Brúnka fyrir utan dyrnar og segir: „Illa sveikstu mig. Ekki barstu mig alla inn; í gær skildirðu eftir vinstrina. Mæli ég um og legg ég á að það verði aldrei vinstur í meri.“ So fer hann á bak og ríður til kvölds og kemur þá að þriðja hellir, fer þá af baki. Hún skipar hönum að skera sig og bera allt inn í hellir og passa að skilja ekkert eftir og muna sig um það. So sker hann hana í sundur og ber allt inn. Hann er þar um nóttina og heyrir þá langtum meiri undirgang en fyrri næturnar. Um morguninn þegar hann kemur út stendur Brúnka fyrir utan dyrnar og segir: „Svikið hefurðu mig ennþá. Ekki hefurðu borið í gær inn keppinn. Mæli ég um og legg ég á að aldrei verði keppur í meri.“ Hún segir: „Nú komum við í eitt kóngsríki í kvöld og skaltu biðja kóng um veturvist og biðja að lofa þessari brúnu meri að vera líka;“ – hann sé ánægður að liggja í stallinum. So fer hann á bak og kemur í kóngsríki og biður kóng um veturvist og lofa þessari brúnu meri að vera líka og hann geti legið í stallinum hjá henni, hann þurfi ekki annað rúm.

Þegar hann er búinn að vera þar um tíma þá segir kóngur að þeir eigi að fela sig þrisvar hvor fyrir öðrum og hann ætli að gera það fyrst; og ef hann gæti falið sig fyrir honum þá skyldi hann fá dóttur sína og hálft ríkið við sig, en ef hann gæti það ekki þá dræpi hann hann. So hann segir þetta Brúnku að kóngur ætli að fela sig í dag. Hún segir hönum að vera natinn við járnsmiðinn kóngsins og hvolfa úr stokkum hans og ef hann sæi nagla með tveimur hausum þá skyldi hann berja so fast með hamri sem hann gæti þar á. So fer hann til járnsmiðsins og fer að skoða í stokkana hans. Á botninum á einum er nagli með tveimur hausum. Hann tekur hamar og lemur á. Þetta er þá kóngur og kallar: „Atlarðu að drepa mig, skrattinn þinn?“ Þorsteinn segir að ekki hafi hann vitað það; hann hafi hugsað það væri nagli, en ekki maður. So fer hann til Brúnku og segir henni. Hún segir hann skuli verða að hári fyrir miðjum stalli. So kemur kóngur og fer að leita um stallinn og þegar hann kemur að miðjum stallinum þá fer merin að bíta so hann má til að fara. So segir Brúnka að í dag skyldi hann vera natinn við eldakellingu og bjóða henni að brýna nálar og ef hann sæi þar nál með tveimur augum þá skyldi hann bora í þau. Hann fer til eldakellingar og býður henni að brýna nálar. Hún þiggur það; og so hvolfir hann úr nálhúsinu og brýnir nálarnar. Eina nál sér hann með tveimur augum. Hann borar í þau. Þetta er þá kóngur og orgar upp og segir: „Atlarðu að bora úr mér augun, skrattinn þinn?“ Hann segir hann hafi ekki vitað það. So fer hann til Brúnku. Hún segir hönum að verða að hári í miðjum ennistoppnum á sér. So kemur kóngur inn og leitar í faxinu, en þegar hann ætlar að leita í ennistoppnum þá fer merin að bíta so hann má til að fara. Brúnka segir við Þorstein að hann skuli vera natinn við þvottakonurnar og mundi hann sjá tvo silunga og væri annar rauður, en annar svartur og mundi sá svarti flýja hann, en sá rauði ásækja hann, og ef hann næði þeim svarta þá skyldi hann slá honum við. So fer hann og er natinn hjá þvottakonunum við lækinn. Hann sér tvo silunga og er annar rauður, en annar svartur og hann flýr hann, en sá rauði ásækir hann. Hann grípur þann svarta og slær hönum við. Þetta er þá kóngur og orgar upp og segir: „Ætlarðu að drepa mig, óhræsið þitt?“ Hann segir hann hafi hugsað að það væri ekki [hann], heldur silungur. So fer hann til Brúnku. Hún segir hann skuli verða að nagla í annari afturlöppinni. So kemur kóngur og fer að leita og þegar hann atlar að leita undir atturlöppinni á henni slær hún og bítur so hann má fara og segir að það sé þessari bölvaðri brúnu meri að kenna.

So gengur Þorsteinn fyrir kóng og segir að nú sé hann búinn að vinna til að fá dóttur hans; hann hafi fundið hann alltaf, en hann aldrei sig. Kóngur segir að ekki gifti hann þvílíku óhræsi dóttur sína og segir að sá skuli fá hana sem bezt veiði dýr á skógnum. Þeir riðu so allir [af] stað, en þegar þeir koma út fyrir borgarhliðið hleypir Þorsteinn merinni ofan í, en hann var að toga í stertinn á henni að vita hvort hann gæti togað hana upp úr. Þá segja hinir að hann muni vinna til kóngsdóttir í dag. Þeir fara so allir; en þegar þeir eru farnir rykkir merin sér upp úr. Þeir eru allan daginn út á skógi og veiða ekkert, en hann veiðir so mikið; og þegar þeir koma sjá þeir soddan obboð hjá hönum af dýrum. Þeir biðja hann að láta sig fá það. Hann segir hann geri það ef hann fái hestana sem þeir ríði. Þeir gera það. So fara þeir heim og fá það kónginum; so fara þeir aftur og það fór á sömu leið og í fyrra sinnið og so fara þeir í þriðja sinn og veiða ekkert, en Þorsteinn mikið og hafa ekkert að láta fyrir. Þorsteinn segir að alténd geti þeir látið sig fá eyrun af þeim. Þeir gera það og hann setur eyrun í vasa sinn. So fara þeir heim. Þá segir kóngur að ekki láti hann þá fá dóttur [sína], þeir séu eyrnalausir.

So kemur stríð að landi að herja upp á kónginn. Kóngur segir að sá skuli fá dóttur sína sem bezt gangi fram í stríðinu. So fóru þeir og Þorsteinn hleypir Brúnku ofan í fen. Þá fara hinir að segja að sá muni vinna til kóngsdóttir í dag. So er farið að stríða. Brúnka segir að bráðum sé kóngurinn fallinn, það sé búið að drepa undan hönum hestinn og skuli hann fara, og rykkir sér upp úr; og so ríður hann fram í herinn og þá er búið að drepa hestinn undan kónginum so hann stekkur af baki og setur kónginn í söðulinn á Brúnku, en kóngur brá sverði undir iljina á hönum. Þorsteinn gekk so vel fram í orustunni að kóngur fékk sigur. So fóru þeir heim, en kóngur gerir boð fyrir alla sem voru í stríðinu, segir það sé maður sem sé með skurð í iljinni. So þeir fóru allir að skera skurð í iljina á sér. Kóngur lætur bera spjótið við skurðinn, en það stendur ekki heima; en þegar hann fer að bera það við skurðinn á Þorsteini þá stendur það heima. Kóngur s[egir] að þetta sé maðurinn.

So Þorsteinn fær kóngsdóttir og er farið að bjóða og búa veizlukost. Brúnka biður hann að lofa sér að vera undir borðum og muna sig um það. Hann lofar því; og so er slegið upp veizlu og Brúnka var undir borðum. So datt af henni hamur – hann var brenndur – og var hún fallegasta kóngsdóttir. Kóngur var nýbúinn að missa drottningu sína og giftist henni; so Þorsteinn hafði hálft ríkið við hann, en allt ettir hann og varð þá kóngur. Og endar so þessi saga.