Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Dýrgripir kóngssonar og þjónustan stelvísa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Dýrgripir kóngssonar og þjónustan stelvísa

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér þrjá syni. Ólust þeir upp í ríkinu og voru mjög efnilegir. Kóngurinn átti þrjá dýrgripi og var það fyrst klæði sem mátti lesa sig á hvort maður vildi upp eða niður á jörðina og land úr landi. Annað var gullhringur og fylgdi hönum sú náttúra að hvur sem hafði hann varð sterkríkur. Þriðja voru glófar; þeim fylgdi sú náttúra að hvur sem brúkaði þá voru so vinsælir.

Einu sinni leggst kóngur veikur og hugsar hann muni deyja. Kallar hann þá syni sína fyrir sig og segist atla að skipta með þeim eigum sínum, því þessi sótt muni draga sig til dauða, og eigi sá elzti að eiga alla fasteign, annar allt lausafé, sá yngsti klæðið, gullhringinn [og] glófana. So deyr hann. Nú er þessi yngsti óánægður yfir því að bræður hans eru búnir að læra allt, en hann ekkert. Fer hann því að læra í skóla, en móðir hans geymdi dýrgripina. Einu sinni fór hann til móður sinnar og biður hana um hringinn. Hún segir að hann muni týna hönum, fær hönum hann samt. So fer hann að auðgast so mikið á litlum tíma. Þjónusta hans býður hönum að geyma hann; hann fær henni hann. Einu sinni kemur hún til hans döpur mjög og segir að illa sé komið fyrir sér, hún sé búin að týna hringnum ellegar hönum hafi verið stolið. Hann segir að það dugi ekki að tala um það; það sé komið sem komið sé. Fer hann so aftur til móður sinnar og fær glófana. Verður hann þá strax mjög vinsæll. Þjónusta hans býður hönum að geyma þá. Hann þiggur það og fer á sömu leið og áður. Í þriðja sinn fer hann til móður sinnar og fær klæðið, segist atla að fara að sigla í önnur lönd, því hann sé orðinn útlærður. Þegar hann ætlar að fara biður þjónusta hans hann að lofa sér að fylgja hönum. Hann lofar henni það. Stíga þau so á klæðið og líða so á því lengi. Á einum stað sjá þau fallegt rjóður. Hún segir að þarna sé bezt að hvíla sig. Þau gera það. Þau borða so og drekka; þá segir hún að það sé rétt að þau sofni dálitla stund. Hann gerir það, en þegar hann vaknar er hún farin og klæðið hvorfið. Sér hann nú að hún hafi stolið hinum gripunum. Gengur hann so á stað þangað til hann kom að einni móðu. Hann drekkur so úr flösku sem hann var með, leggur so út í hana; en þegar hann kemur út í hana miðja verður hann veikur og kemst með veikan mátt upp úr. Var hann þá orðinn eins og spilltur maður. Fyllir hann flöskuna af því, gengur so á stað og kemur þá að annari móðu og drekkur so vín úr flösku áður en hann leggur út í. Þegar hann er kominn út í hana miðja finnur hann að sér er farið að batna og því meira sem hann veður því betur styrkist hann og þegar hann kemur upp úr er hann orðinn alheill. Hann fyllir tvær flöskur úr vatninu, gengur so langan tíma þangað til hann kemur í eitt kóngsríki. Hann hittir þar menn úti og liggur illa á þeim. Hann spyr hvort nokkuð sé að í ríkinu. Þeir segja að dóttir kóngsins liggi veik og dugi ekkert hvað sem reynt sé við hana. Hann spyr hvort hann eigi ekki að reyna að lækna hana. Þeir fara til kóngsins og segja að það sé kominn ókenndur maður sem vilji reyna að lækna hana. Kóngur segir að hann muni valla geta það þegar öngir hefðu getað það fyrri, lætur það samt eftir. Hann fer so til hennar og fer að gefa henni inn úr betri flöskunum og batnar henni þá dag frá degi þangað til hún verður alheil og kóngur borgar hönum það mjög vel.

Hann er þar so eitt ár. Þá segir hann við kóng að hann ætli að fara að finna þann sem hann lærði hjá. Kóngur ljær hönum skip og menn og siglir hann so þangað og þekkist þar nú ekki, en hann þekkir þar þjónustustúlku sína. Var hún orðin vellrík og urðu margir til að biðja hennar, en hún tók öngvum. Hefur hann þá bónorð sitt til hennar. Hún tekur hönum, lætur so fara að bera allt út á skip og meðal hvurs var böggull einn. Hann spurði hvað væri innan í þessum böggli. Hún sagði að hún hefði þjónað manni sem hafi verið að læra í skóla og hefði hann gefið sér í þjónustukaup þegar hann fór, þessa dýrgripi: klæði sem fylgdi sú náttúra að það mátti lesa sig á því yfir lönd og sjó, annað gullhring sem hefði þá náttúru að hvur sem hefði hann á hendinni yrði svo vellríkur, þriðja glófar; þeim fylgdi sú náttúra að hvur sem brúkaði þá yrði mjög vinsæll. Hann segir það sé bærilegt að eiga þessa dýrgripi. Þegar allt er búið að bera allt út í skip segir hann að hún skuli súpa á flösku sem hann réttir henni áður en hún færi í skipið. Hún sýpur þá drjúgum á. Verður hún þá allt í einu so veik. Hann segir að þetta sé sami maður sem hún hafi stolið af öllum dýrgripunum og eigi hún því ekkert í þessum auð, skilur hana þarna eftir og siglir so á landið aftur, fær so dóttur kóngsins og hálft ríkið við hann, en allt ettir hann þá hann var dauður. Endar so þessi saga.