Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Einfætla

Úr Wikiheimild

Einu sinni var kóngur og drottning, en þess er eigi getið hvað þau hétu; þau áttu engin börn og jók það mjög harma konungs.

Eitt sinn bjóst kóngur til burtferðar og kvaðst mundu verða burtu tvö ár. Hótaði hann drottningu sinni að ef hún eigi hefði alið barn er hann kæmi aftur skyldi hún týna lífi. Drottning varð mjög angurvær af þessu og vissi eigi hvernig hún skyldi bæta úr þessum vandræðum; en þó leizt henni bezta ráðið að leita fróðra manna. Þar í grenndinni var gamall maður er öðrum fremur hafði orð á sér fyrir vizku, og til hans fór hún og kvað fyrir honum harmatölur sínar. Hann kvaðst mundu geta hjálpað henni ef hún vildi fara að sínum ráðum, en hún kvaðst þeim hlýða vilja. Hann sagði henni þá að hún skyldi drekka úr læk einum er hann til tók og mundu þá koma tveir fiskar, annar svartur, en hinn hvítur; skyldi hún láta hvíta fiskinn renna ofan í sig, en varast að láta hinn fara eftir. Drottning þakkar honum heilræði og fer til lækjarins, leggst þar niður og drekkur úr honum. Koma þá þegar báðir fiskarnir og renna þeir báðir ofan í drottninguna. Drottning varð nú þunguð og er tímar liðu ól hún tvö börn; annað var mjög fagurt stúlkubarn og var hún nefnd Ingibjörg, en hitt barnið var einfætt og stökk það þegar niður á gólf og mælti: „Það þarf ekki að skíra mig; ég heiti Einfætla.“ Að því mæltu hvarf barnið; en Ingibjörg óx upp í höllinni hjá móður sinni og dafnaði vel.

Þegar kóngurinn kom heim fagnaði hann dóttur sinni og hélt hirð sinni mikla veizlu. En er veizlan stóð sem hæst veit enginn fyrri til en Einfætla kemur hoppandi inn á hallargólfið og kallaði hátt svo undir tók í allri höllinni: „Sæll vertu faðir minn, sæl vertu móðir mín, sæl vertu Ingibjörg systir.“ Konungur varð reiður yfir því að slík ómynd skyldi kalla sig föður sinn og bauð að taka hana og berja, en hún var þá öll á burt.

Nokkru síðar hvarf Ingibjörg kóngsdóttir og vissi enginn hvað af henni var orðið nema Einfætla. Einfætla hélt til í helli einum skammt frá helli skessu nokkurrar og hafði skessa sú tekið Ingibjörgu. Tók hún af henni höfuðið, geymdi það í kistli og smurði það með lífsteini, ætlaði svo að láta það á dóttur sína á heiðursdegi hennar, en á Ingibjörgu lét hún aftur selshaus. Einfætla tók Ingibjörgu í helli sinn og lét hana dvelja þar hjá sér. Konungur varð mjög sorgbitinn af hvarfi dóttur sinnar og þótt honum þækti skömm til Einfætlu koma hét hann henni þó að breyta við hana sem dóttur sína ef hún kæmi með Ingibjörgu. Einfætla var vinstúlka skessudóttur og einn dag er skessan eigi var heima lét hún hana sýna sér í allar hirzlur hennar. Og um kvöldið er skessan kom heim stakk Einfætla sér milli stafs og veggjar og lét ekki á sér bera. Um nóttina er hún hélt að kerling mundi vera sofnuð fór hún að gjöra hávaða og er hún var þess vís orðin að þær báðar sváfu fast fór hún fram úr fylgsni sínu, tók höfuð systur sinnar og fór heim til sín með það. Daginn eftir setti hún það á hana, en tók af selshausinn. Lét hún systur sína lofa sér því að ef tveir biðlar kæmu þá skyldi hún ekki giftast nema annar gengi að eiga sig. Síðan fer hún heim til kóngs með systur sína og varð þar mikill fagnaðarfundur. Skömmu síðar komu tveir biðlar og var Ingibjörg fús að giftast öðrum ef hinn gengi að eiga Einfætlu og varð það úr. Þóttist sá ver haldinn er Einfætlu hlaut. Síðan voru brúðhjónin leidd í eina sæng; en er maður Einfætlu vaknaði um morguninn var fríð kóngsdóttir í rúmi hjá honum, en hamurinn lá á gólfinu og var hann þegar brenndur. – Lýkur hér svo þessari sögu.