Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ferjustrákur í kóngsgarði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ferjustrákur í kóngsgarði

Einu sinni var karl og kerling nærri kóngsgarði; þau áttu sér einn son sem ekki þókti stíga í vitið. Karlinn hafði þá atvinnu að hann ferjaði menn yfir fljót sem þar var nærri kóngsgarðinum. En þegar fram liðu tímar dó karlinn; sagði þá kerling við son sinn að nú yrði hann að taka við ferjunni og flytja menn yfir fljótið eins og faðir hans sæll hefði gjört og fékk honum þar með kirnu eða dall dálítinn til að láta það í er honum gyldist í ferjutoll. Strákur fór svo til ferjunnar og flutti fyrsta daginn menn yfir sem ráku fjárhóp. Síðan fara þeir að tala um ferjutollinn og höfðu þeir þá ekkert í hann að láta nema lamb eitt. Strákur tekur við því og sker það til þess að koma því ofan í kirnuna eins og móðir hans hafði boðið honum, og þangað til er hann að saxa það í sundur að honum tekst að koma því ofan í kirnuna. Um kvöldið færir hann móður sinni kirnuna með lambinu í. Verður þá kerling gröm við hann af þessari meðferð á lambinu og segir að hann hefði átt að bera það á örmum sér. „Ég skal gjöra svo á morgun, móðir góð,“ segir strákur. Daginn eftir fer hann að ferja. Komu þá menn er fluttu eintómt brennivín og höfðu ekkert annað að láta en það í ferjutollinn. Var nú bæði að strákur hafði ekkert ílát undir það, enda hafði móðir [hans] sagt honum að bera það á örmum sér, svo hann lætur mennina hella brennivíninu um alla handleggina á sér og verður hann gagndrepa af því. Þegar hann kemur heim til kerlingar var hann bæði hróðugur yfir því að hafa hlýðnazt svo vel boði móður sinnar að hafa borið heim ferjutollinn á örmum sér og þó aumur yfir því að hann var vindandi votur á handleggjunum. Þegar hann sagði kerlingu frá þessu náði hún ekki upp í nefið á sér yfir klaufaskap hans og sagði að hann hefði átt að hafa með sér flösku til að láta brennivínið í. En strákur svaraði góðu um sem fyrri og sagði: „Ég skal gjöra svo á morgun, móðir góð.“ Þriðja daginn fór hann að hafði með sér flösku; og ferjaði hann þá menn sem fluttu með sér mikið af brauði. Þeir guldu honum eitt brauðið í flutningskaupið, en hann settist við og hætti ekki fyrr en hann var búinn að mola það allt niður til agna og koma þeim í flöskuna og lagði svo glaður í huga heim til móður sinnar og sagði henni hvað sér hefði nú áskotnazt og sýndi henni flöskuna troðfulla af brauði. Kerling varð þá afar reið við hann, atyrti hann og sagði að hann yrði ekki notaður til neins, enda skyldi hann ekki vera ferjumaður lengur. Henni hugsaðist nú það ráð til að láta strákinn mannast betur og kynnast fleiru að senda hann heim í kóngsgarð og sagði honum að taka þar vel eftir því sem fyrir hann bæri. En fyrsta daginn er hann fór þangað sagði hún honum að segja: „Guð ávaxti ykkar verk“ – því hún bjóst við að hann mundi sjá menn við plægingu eða sáningu. Fer svo strákur heim í kóngsgarð og kemur þar að sem þrælar voru að hengja tík. Hann stendur hjá þeim um stund, glápir á þá og segir síðan: „Guð ávaxti ykkar verk.“ Þrælarnir brugðust reiðir við og snupruðu strák burtu, því þeir tóku þetta fyrir skens af honum. Þegar hann kemur heim til móður sinnar segir hann henni hvað fyrir sig hafi borið og hvað hann hafi sagt. Kerling verður allsendis hissa og segir að hann hefði átt að segja: „Svo leiða menn hræ til gálga.“ „Ég skal segja svo á morgun, móðir góð,“ segir drengur. Daginn eftir fór hann heim í kóngsgarð og mætir þar líkfylgd; er þar fluttur til grafar æðsti ráðgjafi kóngs. Strák verður heldur starsýnt á allan þann flutning og mannfjöldann er líkinu fylgdi, en segir í því líkfylgdin fór fram hjá: „Svo leiða menn hræ til gálga.“ Kóngsmönnum þókti þetta óvirðulega talað um svo mikinn mann og góðan sem ráðgjafinn hafði verið og ráku strák út af borginni með fúkyrðum. Fór hann svo til móður sinnar og sagði henni allt af sínum förum. Hún lét illa yfir hver klaufi hann væri að haga orðum sínum og sagði hann hefði átt að segja: „Sálir réttlátra eru í guðs hendi.“ „Ég skal segja svo á morgun, móðir góð,“ segir strákur. Daginn eftir fór hann í kóngsgarð og kom þar að er þrælar voru að birkja hest. Hann staldraði við hjá þeim um stund og segir svo: „Sálir réttlátra eru í guðs hendi.“ Þrælarnir stukku upp á nef sitt af þessu og þókti hann tala óviðurkvæmilega og ráku hann burt úr borginni. Þegar strákur kemur heim til sín segir hann móður sinni allt af létta. En hún getur ekki á sér tekið út af því hvað óliðlega honum farist orð og segir að hann hafi átt að segja: „Þetta eru mikil skarnverk.“ „Ég skal segja svo á morgun, móðir góð.“ Næsta dag eftir kemur strákur í kóngsgarð; stendur svo á að hann mætir brúðför glæsilegri mjög. Fór kóngsdóttir þar í brúðarskarti og var glerhiminn borinn yfir henni er hún gekk til kirkju. Strákur gónir lengi á þetta unz kóngsdóttir og fylgdin sem með henni var er komin þar gegnt er hann stóð; hefst hann þá upp úr eins manns hljóði og segir: „Þetta eru mikil skarnverk.“ Verður kóngur þá svo æfur við strák að hann lætur flengja hann út af borginni og skipar honum að koma þar aldrei meir. Þegar strákur kemur heim til móður sinnar segir hann henni upp alla sögu. Kerling verður þá armæddari af flónsku hans en frá megi segja og sagði að nú væri útséð um það að ekki gæti hann mannazt af því að ganga heim í kóngsgarð þar sem hann mætti ekki koma þar framar.