Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Flókatrippu saga

Úr Wikiheimild

Það var eitt sinn kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni; þau áttu þrjá sonu og hétu þeir þannig: Sigurður, Hálfdán og Þórsteinn. Kóngur átti þrjár dætur er svo hétu: Signý, Þóra og Helga. Þeir synir kalls Sigurður og Hálfdán vóru ungir og efnilegir og höfðu ástríki mikið af föður sínum, en Þórsteinn var lítt af honum elskaður og lá hann jafnan [í] eldaskála.

Þeir Sigurður [og] Hálfdán fýstust að fara á konungsfund til að biðja hann hirðvistar; karli þótti það vel beðið og lofar þeim að fara. Þegar þeir komu til konungs þá biðjast þeir hirðvistar og konungur lofar þeim hirðvist, þó með þeim skilmála að þeir geymi dætra sinna fyrir óvættum þeim sem að þeim fara. Þeir segja það muni ekki vera svo mikið að gjöra að þeim sé ekki óhætt að lofa því. Konungur segir að ef þeir leysi það ekki vel af hendi þá skuli þeir verða drepnir á sumardaginn fyrsta. Taka þeir nú Sigurður og Hálfdán að geyma konungsdætra og fór þeim það vel allt að jólum fram. En um jólin þá hverfur Þóra dóttir konungs, en Signý var horfin þá þeir tóku að geyma þeirra. Þegar konungur veit að Þóra er horfin úr geymslu þeirra bræðra þá lætur hann taka þá og drepa þá. Fréttir nú karl dauða sona sinna og verður hann þá reiður mjög og illur viðureignar og þó verstur við Þorstein son sinn; sagðist hann ekki geta séð hann heima þegar bræður hans væru dauðir og rak hann því á burt úr húsum sínum. Fer nú Þórsteinn á burtu og hafði hann lítil fararefni og vissi ógjörla hvað fara skyldi. Gekk hann nú veg langan og vissi ekki neitt hvað hann fór. Hittir hann nú flókatrippi eitt og kveður það hann vinsamlega. Þykir Þórsteini það skrýtið að það talar sem maður. Spyr nú flókatrippið Þórstein hvurt hann vilji fara. Þórsteinn kvað að hann vilji komast á kóngsgarð. Flókatrippið segir það óráð að hugsa það að svo komnu; – „eru þangað vatnsföll mikil og ófær gangandi manni“. Býður flókatrippið Þórsteini að koma með sér; Þorsteinn þiggur það. Fara þau langa leið þar til þau koma að kofa einum og fara þau þar inn. Býr nú Flókatrippa mat til máltíðar og matast þau að því búnu. Fór nú svo fram sumarlangt að þau vóru á skógi á daginn, en í kofa þessum að nóttinni.

Einu sinni þegar þau koma heim þá biður Flókatrippa Þórstein að gjöra eina bón sína. Þórsteinn segir það skylt að hann gjöri bón hennar. „Hvur er hún?“ segir Þórsteinn. „Hún er það,“ segir Flókatrippa, „að þá slátrir mér [í] kvöld; og ber þú það allt út úr kofanum og skildu ekki neitt eftir.“ Þórsteini þykir þetta ekki gott að gjöra, en gjörði það þó. Slátrar hann nú Flókatrippu og ber alla þjósina út og lætur aftur eftir [sér]. Um nóttina heyrir hann umgang mikinn og skipti hann sér ekkert af því. Um morguninn þegar hann lýkur upp kofanum – og var þá Flókatrippa við dyrnar og býður honum góðan dag. Líður nú sá dagur, og þá kvöld kemur þá biður Flókatrippa hann að slátra sér og hann gjörir það; og fór nú so fram þrjár nætur að hann sker hana að kvöldi, en hún er jafnan heil að morgni. Þriðja morguninn þegar þau hittast þá þakkar hún honum fyrir það sem [hann] hefur slátrað henni, en segir þó við hann um leið að sitt hafi honum orðið í hvurt sinn þá hann slátraði sér: „Var það fyrst að þú barst ekki út vömbina, annað það að þú skildir eftir lakann og þriðja að þú skildir eftir gallið og verður því hvurki vömb, gall eða laki í hesti héðan í frá.“

Ekki langt eftir þetta þá kemur trippa að máli við Þórstein og spyr hvurt ekki muni mál að komast á kóngsfund. Þórsteinn segist jafnan hugsa um það, en hann sjái þar engin ráð til, fyrst vatnsföll þau séu á leiðinni. Flókatrippa segir það ekkert vera – „og skulum við fara þegar á stað“. Morgun einn snemma þá fara þau á stað og fara þann dag allan áfram og koma að kvöldi að vatnsfalli einu mjög stóru. Þykir þá Þórsteini örvænt að [hann] komist yfir á þessa. Flókatrippa segir að hann skuli fara á bak sér og hann gjörir það og fer þá Flókatrippa á stað út í ána og syndir yfir hana með Þórstein á bakinu. Þegar þau koma yfir ána þá hvílast þau þar um nóttina. Um morguninn eftir fara þau á stað og halda áfram þann dag allan og koma að kvöldi að annari á, og fara þau yfir hana á sama hátt og hina fyrri og hvílast þar um nóttina; og fara svo á stað hinn þriðja dag og fer að öllu sem fyrri að þau koma að þriðja vatnsfalli og fara þau yfir hana og eru þau þá komin í ríki kóngs og fara þau þá að garði kóngs. Biður þá Flókatrippa Þórstein að búa handa sér hús og hann fari að því búnu á kóngsfund. Þórsteinn gjörir kofann handa trippu og fer á fund kóngs eftir það og biður hann hirðvistar. Konungur kvað honum það velkomið, – „en einn er sá hlutur er allir verða að gangast undir sem biðja mig hirðvistar“. „Hvað er það?“ segir Þórsteinn. Konungur segir að það sé það að geyma dætra sinna fyrir óvættum þeim er að þeim fara, – „en enginn sá er kominn hér enn sem hefur leyst þetta vel af hendi og eru þeir því allir drepnir sem það mistekst, sem þú getur séð, því höfuð þeirra standa á stöngum hér fyrir utan garðinn“. Þykir nú Þórsteini ófýsilegt að því að ganga. Fer hann nú til Flókatrippu og fagnar hún honum vel. Segir Þórsteinn henni þá orð konungs og spyr að hvurt hann eigi að ganga að þessu. Flókatrippa segir að hann skuli ganga að því er konungur hefur upp sett; – „mun það,“ segir hún, „verða þér að hamingju og láni“. Fer nú Þórsteinn aftur til kóngs og segir að hann ætli að ganga að því er kóngur hefur upp sett. Fer hann nú að gæta Helgu kóngsdóttir; var hún þá ein eftir. Fer nú Þórsteinn og segir Flókatrippu að hann hafi gengið að hirðvistinni. Flókatrippa segir að hann hafi tekizt á höndur vanda mikinn, – „en þó skal ég reyna að hjálpa þér ef þú gjörir eina bón mína“. Þórsteinn spyr hvur bón sú væri. Flókatrippa segir að hún óski að [hann] eigi sig fyrir konu. Þórsteini þykir nú vandast málið, þykist hann vita að hún muni synja allri liðveizlu nema hann gjöri þessa bón hennar; ræður það þó af að hann biður hana að gefa sér missiris frest til umþenkingar. Lofar hún honum fresti þessum. Líða nú svo stundir fram að ekkert ber til tíðinda.

Það var einn dag að Þórsteinn gengur að kofa Flókatrippu og vill finna hana heima, en hún var þá öll á burtu og leitar hann hennar víða og finnur hana hvurgi. Gengur hann nú heim að kvöldi. Um kvöldið þegar menn eru komnir í sæti þá koma í höllina jötnar þrír; þóttust þeir önga slíka fyrri séð hafa. Ganga þeir fyrir kóng og kveðja hann. Konungur tekur kveðju þeirra og spyr þá að nafni. Sá fyrsti kvaðst heita Velvakandi, en hinir hétu Velhöggvandi og Velklifrandi. „Við viljum biðja þig hirðvistar, konungur,“ segja þeir. Konungur lét það falt, en sagði þeim þó hvað við lægi; segir að dætur sínar tvær séu hvorfnar og því ekki nema ein eftir, – „og vil ég því ekki missa hana“. Ganga þeir að þessu óðfúsir og spyrja ef konungur vilji að það sé reynt að ná dætrum hans. Kóngur segist gjarnan vilja, – „en ég hygg að það muni erfitt þeim að ná; þykist vita að muni ekki örðugt veita að geyma þeirrar sem eftir er ef þið haldið að þið munið geta náð þeim sem farnar eru“. Gengu þeir nú til vistar með Þórsteini og passa nú allir upp á Helgu.

Það var aðfangadag jóla að Þórsteinn gekk á fund Flókatrippu. Hann yrti á hana og var hún stygg við. Hún biður hann nú að svara upp á það er hún beiddi hann. Þórsteinn kvað frestinn ekki liðinn vera. „Enda þó það sé ekki,“ sagði Flókatrippa, „þá gjör nú annaðhvurt að segja mér annaðhvurt já eða nei. Er nú sú nótt í nótt að mest ríður [á] að þér sé hjálpað. Veit ég að þú ætlar þér Helgu kóngsdóttir ef þú getur varið hana í nótt og mun þér það ekki hlýða, því Velvakandi mun vilja fá hana ef hann verður að verki með þér.“ Þorsteinn sá nú að ekki mátti svo vera og lofar því að eiga hana. „Mikill gæfumaður ertu, Þórsteinn ,“ segir Flókatrippa, „ef þú getur varðveitt Helgu kóngsdóttir; mun hann þá gefa þér ríki mikið og sæmdargáfur. Nú í kvöld þá fer ég með þér [í] kóngsgarð og vil sjálf ráða hvurnin með er farið.“ Þórsteinn lofar því og fara þau nú heim um kvöldið.

Á meðan Þórsteinn var í burtu höfðu þeir bræður, Velvakandi, Velhöggvandi og Velklifrandi, gengið fyrir konung og tók Velvakandi svo til orða: „Það áskil ég, konungur, að ef við getum frelsað dóttir þína Helgu að [ég] fái hana þá fyrir eiginkonu;“ og játti konungur því. Þá mælti Velhöggvandi: „Ef við getum náð dætrum þínum sem enn eru [í] tröllahöndum þá viljum við bræður, Velhöggvandi og Velklifrandi, eiga sína hvur.“ Konungur játar þessu öllu og gengu þeir þá burtu bræður og til Helgu. Var þá kominn þar Þorsteinn og Flókatrippa og var hún þar í einu horninu. Flókatrippa segir Þórsteini að biðja Velhöggvanda að ljá sér öxi sína. Þorsteinn gjörir það og ljær Velhöggvandi Þorsteini verkfærið. Sofna þeir nú Velhöggvandi og Velklifrandi, en þeir vaka, Þórsteinn og Velvakandi. Þegar á leið nóttina mátti Þorsteinn ekki vaka. Velvakandi vakti hann og bað hann vaka sem bezt mætti. Settist hann þá í hné Velvakandi og sofnaði fljótt. En þá hann hefur stutta stund sofið þá heyra þeir brak úti fyrir herberginu. Ætla þeir út að fara, en Flókatrippa bannar þeim það og bað þá að sitja sem fastast. Þeir gjörðu svo. En er þá minnst varði opnaðist gluggi er næst var hvílu kóngsdóttir og fór hann þegar í smámola. Kom þá inn hönd grá að lit og loðin og svo stór er uxakrof væri. Hún gekk inn um glugginn allt að olboga. Hönd þessi vildi þrífa til kóngsdóttur og er Velvakandi sá hvað verða vildi þá brá hann saxi er hann hafði í hendi. Hann hjó til handleggsins og beit hvurgi. Hann bað Þorstein til höggva og gjörði hann það. Kom höggið á úlfliðinn og tók af höndina. Heyrðist þá skrækur mikill og var stúfnum kippt út úr glugginum. Vöktu þeir það sem eftir var næturinnar og urðu einkis varir.

Jóladagsmorguninn þegar lýsti sendi kóngur svein sinn til herbergis dóttur sinnar til að vita ef hún væri horfin. Og er sveinninn kom til konungs aftur sagði hann að dóttir hans var kyrr. Konungur undraðist stórum og lét kalla fyrir sig Þórstein og svo jötnana og spurði hvað til hafði borið. Þeir sögðu honum slíkt og farið hafði. Réði kóngur sér þá ekki fyrir gleði. Hann spurði þá hvar þeir hygði dætur sínar niður komnar, og Velvakandi svaraði máli kóngs: „Fyrir hömrum nokkrum ræður þussi sá er Kolgrímur heitir. Er hann illur viðurskiptis svo fáir þora við hann að eiga. Hann á þrjá sonu og [eru] þeir nú allir fulltíða menn. Kolgrímur hefur sótt dætur þínar tvær og ætlaði að sækja hina þriðju. Nú ætlum vér er honum tókst ekki betur að ná Helgu; þá mun hann hyggja til hefnda hingað sem við erum. Nú viljum við bræður og Þórsteinn leita til byggða Kolgríms því ekki má vita nema hann lífláti dætur kóngs þar hann fékk ekki þá þriðju.“ Kóngur bað þá gjöra sem þeim líkaði, – „og munuð þið laun fyrir taka ef vel tekst“. Þeir báðu kóng fá sér byrðing einn. Hann kvað það til reiðu. Bjuggu þeir nú ferð sína. Flókatrippa réðst til ferðar með þeim. Kvöddu þeir kóng og létu í haf. Fóru þeir leiðar sinnar tíu daga í samt. Sló þá yfir þá þoku mikilli og vissu þeir eigi hvurt halda skyldi; fóru enn nokkur dægur. Létti þá af þokunni og rak á fyrir þeim storm mikinn. Æstist vindurinn svo mjög að öngvu gátu þeir við ráðið. Rak þá svo um hríð þar til þeir sáu land fyrir stafni; sáu þeir þá hamra stóra á land upp. Rak þar skipið upp að hömrunum og brotnaði í spón; varð þó mönnum borgið, en týndist góss þeirra allt. Þóttust þeir nú illa við komnir. Þeir vildu freista ef þeir mættu komast upp á hamarinn. Velklifrandi neytti nú listar sinnar og rann upp hamarinn; mátti það enginn eftir honum leika. Velhöggvandi tók þá öxi sína; hjó hann spor í hamarinn því öxin beit hvervetna. Ganga þeir nú eftir sporunum þar til er þeir komast upp á hamarinn; og er þeir vóru þar komnir lituðust þeir um. Sáu þeir hvar hellir mikill stóð skammt frá hamrinum; sá þeir þar eld loganda. Þeir gengu til hellirsins og er þeir komu þar sá þeir [hvar] jötnar þrír miklir vexti sátu við eldinn. Ketill var yfir eldinum og veltu jötnar þjósum í ketilinn og kyntu ákaflega. Þá mælti Velvakandi til Þórsteins: „Þú skalt ganga í hellisdyrin og sjá hvað títt er á meðal jötnanna, en seg oss þá þeir hefja ketilinn úr glóðinni.“ Þórsteinn gjörir þetta. Taka nú tröllin ketilinn af glóðinni og slær þá yfir gufu mikilli. Gjörir Þorsteinn þá vara við bræður og koma þeir strax. Hlaupa þeir þá inn og taka höndum jötnana. Verða þá sviptingar miklar og lýkur svo að þeir drepa tvo þeirra, en Velhöggvandi gat handtekið þann er hann glímdi við og höfðu þeir hann til að segja sér það hann vissi. Tekur hann þannig til orða: „Við vorum þrír bræður, þeir tveir er nú eru dauðir og ég hinn þriðji er enn lifi, og faðir okkar er nú liggur veikur. Hefur hann tekið dætur konungs tvær er horfið hafa og ætlaði að ná hinni þriðju eg gat ekki; var þá höggvin af honum hendin og liggur því síðan. Hefði hann náð Helgu þá átti að halda brúðkaup okkar bræðra nú um jólin.“ Drápu þeir nú karlinn og brenndu þá alla og leituðu þeir þá um hellirinn og fundu karl þar sem hann lá í bæli sínu. Drápu þeir hann þar og brenndu síðan. Leita þeir þá betur og finna þær systur og voru þær daprar mjög og heldur illa til fara. Þótti þeim nú bræðrum vel hafa gengið þar sem búið var. Vantaði þá nú ekkert utan skip til að komast heim á. Vísa þær þá systur þeim að skipi því sem þeir voru vanir að hafa jötnarnir.

Fóru þeir nú heim til konungs og minntu hann þá á loforð sitt og kannast kóngur við það og var það þá eftir gefið af honum þó honum þætti biðlarnir ónettir. Koma þeir nú bræður að máli við Þórstein og báðu hann hvíla í sama herbergi og þeir vóru. Þorsteinn lofar því og ganga þeir nú til hvíldar. Þeir báðu Þórstein vaka um nóttina og ef hann sæi nokkra breytingu á verða þá skyldi hann koma í veg fyrir að þeim yrði hið sama og nú væri. Eftir það lögðust þeir til hvíldar, en Þorsteinn Vakti. Þegar leið að miðri nóttu sá hann að duttu tröllshamir af þeim bræðrum og svo Flókatrippu. Þórsteinn tók þegar hamina og brenndi þá til ösku. Og er hann kom til þeirra bræðra sá hann að þeir vóru ungir menn og fríðir sýnum. Þeir þökkuðu honum þann velgjörning er hann hafði gjört þeim. Hann spurði þá að nafni; nefndist þá Velvakandi Hringur, Velhöggvandi Sigurður og Velklifrandi Hálfdán, en Flókatrippa kvaðst Flórídá heita og væru þau öll börn kóngs nokkurs. Hafði hann tveim sinnum giftur verið, en stjúpa þeirra var norn ein ung að aldri, en konungur gjörðist gamall þá hann giftist henni. Þótti henni hann ekki vera hæfur til hvílubragða við sig. Vildi hún því hvíla hjá þeim bræðrum, en þeir vildu ekki gjöra vilja hennar. Lagði hún á þá að þeir skyldi verða að jötnum og systir þeirra að flókatrippi; ekki skyldi þeir úr þeim nauðum komast fyrr en nokkur kóngur gæfi þeim sjálfviljugur dætur sínar og einhvur mennskur maður héti henni fyrirfram eiginorði. Og er Þórsteinn hafði hlýtt á sögu þeirra undraðist hann og kvað þetta mikils um vert. Leið nú af nóttin, og er dagaði gekk Þórsteinn og þau systkin fyrir kóng. Sýndist kóngi þau ólík því er þau voru kvöldið áður og spurði hvað til hafði borið. Sögðu þau honum allt er farið hafði. Varð þá konungur glaður og var nú búizt við brúðkaupi. Gekk nú Hringur að eiga Helgu, en Sigurður Þóru og Hálfdán Signýju. Þá giftist og Þórsteinn Flórídá sem áður var Flókatrippa. Veizla þessi stóð með mikilli prýði og að endaðri veizlunni vóru allir út leiddir með miklum gjöfum. Eftir veizluna bjuggust þeir bræður heim að sigla. Skyldi Þórsteinn vera eftir með kóngi og skyldi fá ríkið að erfðum eftir hann dauðan.

Héldu bræður nú heim til landa sinna. Var faðir þeirra þá dauður. Settust þeir þá að ríkjum þeim er faðir þeirra hafði átt og stýrðu þeim til ellidaga og eru þeir þá úr sögunni. Þórsteinn dvaldi með kóngi meðan hann lifði, en þá hann var dauður tók Þórsteinn við nafni hans og ríki. Unntust þau Flórídá vel og áttu þau margt barna. Stýrði Þórsteinn þar til elli, en þegar hann var dauður tóku synir hans ríkið eftir hann. – Og lýkur hér þessari sögu.