Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Flakkarastrákurinn og dýrgripirnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Flakkarastrákurinn og dýrgripirnir

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu; þau áttu ekkert barn og kenndu það hvort öðru. Kóngurinn í ríkinu átti þrjá dýrgripi sem hönum þókti bezt um og var það gullvagga og gulltafl og gullharpa. Einu sinni hvurfu þeir allir og kóngur lofar að hvur sem finni þá skuli fá dóttur sína [og] hálft ríkið við sig, og eru margir að reyna það og getur enginn. Þar er flakkarastrákur; hann heyrir hvað í boði er eins og aðrir. Hann hugsar með sér að hann skuli fara til karls og kerlingar. Hann fer so að eldhúsdyrum í kotinu og heyrir að þau eru á tali þar inni. Hann fer úr öllum fötum fyrir utan dyrnar, skríður so upp undir kellinguna og bítur lærið á henni. Hún skrækir hátt. Kall verður þá kátur og segir hvort hún ætli að fara að eiga barn. Hún segir að það muni vera. Strákur bítur aftur fastara. Þá orgar hún ennþá meira. So bítur [hann] hana í þriðja sinn og hún orgar þá hæst. Þá segja þau að barnið sé fætt og bera það í baðstofuna. Þau geta ekki huggað það. Barnið segir að það muni þagna ef það verði látið í gullvögguna. Þá segja þau að í flestu atli það að verða efnilegt, það sé strax farið að skrafa. Sækja þau so vögguna og leggja hann í hana. Hann þagnar þá dálitla stund og fer so aftur að hljóða. Þá segir það að það muni þagna ef það fái gulltaflið. Þá segja þau að í flestu sé það eins, að það sé strax farið að kunna tafl. Þau sækja taflið og fá því. Þá þagnar það um stund, fer so aftur að orga. Það segir að það muni huggast ef það fái gullhörpuna. Þá segja þau að í flestu verði það eins, að kunna orðið strax á hörpu. Þau sækja hana so og þá þagnar það.

So deyr eldur hjá kerlingu, en af því það var langt til bæja treysti hún sér ekki ein og verði karl að fara með henni. Þau segja að barnið muni una sér við þetta. Fara þau svo bæði eftir eldinum. Drengurinn fer þá að klæða sig, tekur so alla gripina og fer með þá til kóngsins og segir að hann megi nú standa við loforð sitt. Kóngur lætur kenna hönum kónglegar listir og fær hann síðan dóttur hans. Lætur kóngur hann fá hálft ríkið; og líða so nokkur ár þangað til gamli kóngurinn deyr og fær hann þá allt ríkið eftir hann og var so kóngur til ellidaga. Endar so þessi saga.