Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Friðrik Jóhann konungur í Daníbert

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Friðrik Jóhann konungur í Daníbert

Kóngur og drottning voru einu sinni í ríki sínu og kóngurinn hét Friðrik Jóhann, en borgin hét Daníbert; drottningin hét Jóhanna. Þau áttu einn son sem kóngur lét heita í höfuðið á sér; ólst hann upp í ríkinu og var mjög efnilegur. Faðir hans lét kenna hönum allar íþróttir. So leggst kóngurinn einu sinni veikur og hugsar hann muni deyja. Hann á bróðir nálægt borginni og biður að sækja hann. So er hann sóttur og hann kemur til hans og biður hann að taka af sér drenginn ef hann deyi. Hann segir að drottningin eigi allt hálft, en þeir eigi að skipta á milli sín hinu; hann lofar því; so andast kóngurinn. So tekur hann drenginn; hönum líkar mjög vel við drenginn og þeir skilja aldrei og drengurinn kallar hann fóstra sinn.

Einu sinni segir hann við fóstra sinn að sig langi að sigla í önnur lönd. Fóstri hans segir hann sleppi hönum ekki einum; hann fari þá með hönum. So hann býr út skip með fólki og hörðum fiski. So sigla þeir lengi nokkuð og mæta óveðri á sjónum so þeir stranda við eina eyju og drukkna allir mennirnir nema átta, og gengu á land Friðrik, fóstri hans og sex aðrir sem af komust. Þegar þeir eru lengi búnir að ganga á eyjunni þegar komið er kvöld þá finna þeir borg, klappa á hana; karlmenn koma til dyranna. Þeir biðja að lofa sér að vera; þeir fá það, fara so inn með þeim; en þegar þeir eru komnir inn þá sita þar tveir menn við ölgraut; so þeim er boðið upp á grautinn. Þeir eru svangir og kaldir og þiggja að borða hann, en Friðrik hvíslar að hönum fóstra sínum að borða hann ekki. Fóstri hans borðaði hann samt, en Friðrik smakkaði ekki á hönum. Þegar þeir eru búnir að éta verða þeir drukknir so þeir vilja fara að sofa. Þeim er skipað að fara úr ytri fötunum; þeim var vísað upp mjög háan stiga og þegar þeir koma upp á loftið þá sjá þeir þar uppbúin fjögur rúm. Þegar Friðrik er farinn að hátta sér hann þar stóran klæðisströngul. So fara þessir menn með ljósið frá þeim, en Friðrik og fóstri hans voru höfðalagsmenn. Þeir sofna allir nema Friðrik.

Þegar farið er að líða fram á nóttina þá finnst hönum ekki til; heyrist hönum eitthvað þrusk upp og ofan stigann þangað til hann verður var við að hann fóstri hans er tekinn. Hönum verður illt við, drífur sig á fætur og vekur hina og ætlar valla að koma þeim upp. Hann sá að fjórir voru hvorfnir og stekkur so fram að glugganum og sér að þá er farið með fóstra sinn fram fyrir garð og þar er hann lagður niður eins og kind. So þeir taka endann a klæðisströnglinum og rekja sig so ofan á klæðinu og hlaupa so eins og fætur toga. Hann hugsar að víghundar verði sendir á ettir þeim og hafa so einhvur ráð að snúa á sér skónum og hlaupa þangað til þeir koma að þykkum viðarrunna. Þeir eru komnir af sér af hlaupum og fela sig í hönum; þeir heyra so hundagjálfur og þegar þeir eru búnir að vera þar stundarkorn þá heyra þeir ekkert og virðist þeim að þeir hafi snúið attur þar sem förin lágu að borginni. So fóru þeir um morguninn og héldu á stað. Þegar komið er fram á miðjan dag þá setast þeir niður að hvíla sig. Þegar þeir eru búnir að sita þar dálitla stund þá sjá þeir að það er komið með mann í vagni og þá segir Friðrik við fylgjara sína að það sé ekki til neins fyrir þá að hlaupa; ef það séu menn úr borginni þá verði þeir ekki lengi að hafa þá uppi; þeim sé bezt að vera kyrir. Þeir verða kyrir; so koma mennirnir með vagnið og það stendur kjurt. So þeir standa upp og beygja sig og bugta fyrir þeim sem er í vagninu; so hann spyr þá hvaða menn þetta séu sem veiti sér svo mikla lotningu. Friðrik verður fyrir svörunum og segir þeir séu skipbrotsmenn; so hann sendir þeim brauð og vín. Friðrik spyr hann hvurslags maður hann [sé]. Hann segist vera kóngssonur – „og ég og hann faðir minn er[um] að sækja mér stúlku og á ég að fara á undan heim í ríkið til að láta allt vera tilbúið í veizluna þegar þau koma.“ So kóngssonurinn segir að hann muni hitta hann föður sinn og muni hann spurja hann að á hvurn hann trúi. Þá skuli hann segja hönum að hann trúi á þann sem mest og bezt geri sér til góða, og so gefur hann þeim brauð og vín meira og fer so í burtu frá þeim.

Þeir fara so daginn ettir á stað, ganga so vel og lengi og um miðjan dag hvíla þeir sig. Þegar þeir eru búnir að sita þar stundarkorn þá sjá þeir að það er komið með mann og stúlku í vagni. So standa þeir upp og fara að beygja sig og bugta fyrir hönum. Hann spyr hvur veiti sér sona mikla lotningu. Þeir segja þeir séu skipbrotsmenn. Hann gefur þeim brauð og vín; hann spyr þá að á hvurn þeir trúi. Þeir segja á þann sem mest og bezt geri sér til góða. Hann segir það skuli þá enginn gera þeim betur til góða en hann. Hann segir þeir megi gera hvort þeir vilji að þeim yrði sendir hestar eða fara gangandi. Þeir vilja heldur bíða ettir hestum, því þeir rati ekki heim í borgina. Hann gefur þeim meira brauð og vín og fer so. Þeir bíða þangað til er komið [með] mat, klæði og hestana handa þeim. So fara þeir heim í kóngsríki, og so er farið að slá upp veizlunni og atlar kóngssonurinn og stúlkan sem var í vagninu að giftast og fá þeir að vera í veizlunni og var í henni allt sem nöfnum tjáir að nefna. So þegar þeir hugsa að allt sé búið þá kemur kóngurinn inn með rauðan klæðisströngul undir hendinni; hann leggur hann á borðið og flettir hönum öllum í sundur og þar er kolmyglað hnakkafiskstykki. Hann brytjar eins marga bita eins og margt var fólkið, gefur so sinn bita hvurjum manni og segir að þetta séu leifar úr veizlunni sinni þegar hann hafi gifzt; það sé soddan hörg á hér með fiski að það þyki bezti réttur. So Friðrik segir að hann hafi misst mikið af fiski og munu ræningjarnir í eyjunni hafa tekið hann. So hann biður kónginn ljá sér menn að drepa þessa morðingja og vita hvort þeir séu búnir að eyða fiskinum. Hann ljær þeim so skip með nokkrum mönnum á og sigldu so að þessari eyju og drápu morðingjana, tóku so allt góss þeirra og fiskinn, sigldu so með það heim í borgina aftur og Friðrik lætur kónginn fá fiskinn. Hann vísar þeim í eitt hús mjög fallegt og þar sjá þeir ekkert nema innst í húsinu rauða kvígu; so þar er hlaðinn upp annað lagið af fiski, en annað af skít úr kvígunni. Þegar búið er að hlaða þá segir hann: „Lof sé vorri rauðu kvígu.“ Kóngssonurinn biður Friðrik þegar hann heyri að hann faðir sinn sé dáinn þá biðji hann hann að koma að kristna sig og landsfólkið; so fer Friðrik í sitt land aftur. So sendi Friðrik kónginum mikið af fiski, en hinn [launaði] þá í einhvurju öðru. So dó kóngurinn og Friðrik fer til kóngssonarins og kristnar hann og allt landsfólkið og fer so í sitt land og urðu báðir kóngar og sendust á gjöfum. Lifðu so vel og lengi og endar so sagan af Friðrik Jóhann [í] Daníbert.