Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Frostan og Hnyðja

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Frostan og Hnyðja

Konungur er nefndur Felix. Hann átti drottningu og fjögur börn. Hétu synir hans Rögnvaldur, Sigmundur og Eiríkur. Þeir voru allir hraustir og efnilegir, en þó einkum Rögnvaldur. Kóngsdóttirin hét Ingibjörg og var hún fríðari en frá megi segja. Hún kunni allar kvenlegar íþróttir sem þá voru tíðkanlegar og var auk þess mjög gáfuð og vel viti borin eins og síðar kom fram. Faðir hennar hafði látið gjöra henni dýrðlega skemmu og sat hún þar jafnan með þjónustumeyjum sínum.

Þegar konungssynir voru orðnir fullvaxta báðu þeir föður sinn um skip og menn og kváðust vilja fara í hernað að afla sér fjár og frægðar. Konungur gjörði svo. Fóru þeir nú og komu heim aftur að hausti með mikið gull og gimsteina og alls konar herfang; en svo fóru þeir aftur næsta vor og spurðist þá eigi til þeirra í þrjú ár og var konungur hættur að vonast eftir að sjá þá lifandi.

Einu sinni þegar konungur var á dýraveiðum sá hann einn fagran hjört og elti hann þangað til hann var kominn langt inn í skóg og fram fyrir menn sína. Kom hann þá í eitt rjóður og sá þar stóran fiðurbing og lágu í honum þrír menn allir þaktir með fiðri og voru þeir mjög torkennilegir og grannleitir og illa til reika. Konungur ímyndaði sér að þetta mundu vera illræðismenn og þjófar er lægju þarna út í skógi og kallar því á menn sína sem voru skammt í burtu og skipaði þeim að handtaka menn þessa. Komu þeir engum fetum fyrir sig, heldur voru þeir settir í fjötra, fluttir heim til borgarinnar og kastað þar í jarðhús eða fangelsi. Þegar konungur kom heim og var kominn inn í höllina kemur dóttir hans Ingibjörg til hans. Segir konungur henni þessi tíðindi. Hún svarar: „Óviturlega hefur þú gjört, faðir, að láta handtaka menn þessa og kasta í fangelsi áður en þú hafðir nokkurt tal af þeim eða prófaðir mál þeirra. Má vel vera að þetta séu skipbrotsmenn og hafi orðið að drepa fugla og dýr á skóginum sér til lífsbjargar, en séu engan veginn ræningjar.“ Konungur kvaðst eigi ætla sér að láta fá sig af því er hann hefði tekið fyrir og sagðist mundi láta hengja þá alla þrjá næsta dag. Konungsdóttir gekk burt og til skemmu sinnar; en er dimmt var orðið sendi hún þernu sína að jarðhússmunnanum til að spyrja þá hvort þeir einskis þyrftu. Einn fanganna var fyrir svörum og sagði hann að sér þætti verst að standa á dauðum og rotnuðum mannabúkum, og vildi hann því fá einhverja dulu að leggja undir fætur sér og líka kvaðst hann vera mjög þyrstur. Konungsdóttir sendi þeim aftur með sömu þernunni klæði að kasta undir fætur sér og drykk í keri; en þegar þernan kom með kerið aftur til konungsdóttur var á botninum hringur og þekkti Ingibjörg hann, að það var hringur er hún hafði gefið Rögnvaldi bróður sínum þegar þau skildu síðast og beðið hann að lóga honum eigi nema hann væri í háska staddur. Lét nú Ingibjörg þegar draga bræður sína úr dýflissunni og varð þar mikill fagnaðarfundur. Hún lét þá nú taka laug og hressa sig; síðan sneið hún þeim góð klæði og leiddi þá svo morguninn eftir inn fyrir konung er hann sat yfir borðum. Kenndi hann þar syni sína og þakkaði Ingibjörgu mikillega tiltækið.

Fjall eitt afar mikið og bratt var þar fyrir ofan borgina; hafði enginn komizt upp á það og margir þó reynt. Þegar Rögnvaldur hafði dvalið heima nokkra stund vildi hann fara og reyna að kanna fjallið; var honum ráðið frá því; en er það dugði eigi var hann búinn út sem bezt mátti verða og fór Sigmundur bróðir hans með honum. Eftir miklar þrautir komust þeir loksins upp á fjallsbrúnina og var fjallið slétt að ofan. Ganga þeir nú lengi unz þeir koma að mikilli móðu og sáu þeir engan veg til að komast yfir um hana. Hinumegin móðunnar sáu þeir eitthvað blika líkt og í eld sæi. Hélt Sigmundur að það væri hús að brenna, en Rögnvaldur sagði sér þætti líklegra að það væri glerhöll eða glerkastali og mundi ljóma svona af því sólin skini á hann. Nú ganga þeir lengi upp með móðunni þangað til þeir sjá steinboga yfrum hana og fóru þeir þar yfrum og gengu svo ofan með henni aftur þangað til þeir sáu aftur birtu þá sem þeir höfðu séð áður og stefndu þeir þangað. Komu þeir að borg einni mikilli og voru háir múrar umhverfis. Þeir gengu inn í borgina og inn í höllina fyrir konung; heilsa þeir honum og beiðast veturvistar. Konungur spurði um nafn þeirra og ætterni og sögðu þeir honum það. Hann kvað þeim heimila veturvistina, en eigi kvaðst hann geta útvegað þeim þjónustustúlku þá er þeim sæmdi og kváðust þeir sjálfir skyldu annast það. Þeim var vísað til svefnhúss um kvöldið og er þeir voru háttaðir kemur kvikindi nokkurt inn til þeirra; var það grátt og loðið. Hristi það sig og rauk úr því dustið og skreiðist því næst inn undir rúm þeirra. Vildi Sigmundur reka það í burt, en Rögnvaldur vildi láta það vera. Þá heyrist ámátleg rödd undan rúminu og býður þetta kvikindi þeim sína þjónustu. Rögnvaldur kvaðst það gjarna vilja. Segist kvikindi þetta heita Hnyðja. Tók hún nú að þjóna þeim bræðrum og gjörði það um veturinn og féll þeim vel við hana.

Nú er að segja frá birtu þeirri er þeir bræður höfðu séð á leiðinni; var það skemma Áslaugar dóttur konungsins þar í borginni og var það glerhöll eins og Rögnvaldur hafði ætlað. Áslaug var mjög fríð og fögur. Utan um skemmu hennar var hár garður með tveimur hliðum á. Voru tvö dýr sett til að gæta þeirra; var annað lyngormur, en annað uxi; voru þau bæði tryllt og hin verstu viðureignar og létu engan mann komast inn nema þá er færðu konungsdóttur matinn.

Einhverju sinni hafði Rögnvaldur séð konungsdóttur og varð hann svo gagntekinn af ást til hennar að hann gáði einkis nema ná hennar. Varð honum það svo þungt að hann lagðist veikur af. Kom þá Hnyðja til hans og mælti: „Lítið leggst nú fyrir kappann er þú, Rögnvaldur, skulir leggjast sjúkur þó þú elskir Áslaugu konungsdóttir. Væri þér nær að sæta lagi á páskadagsmorgun þegar dýrin sofa, og reyna að ná fundi hennar; en þess skaltu gæta ef þú ferð þangað inn að hafa skóna öfuga á fótum þér.“ Hressir Rögnvaldur sig nú og rís úr rekkju og bíður hann nú til þess á páskadagsmorgun að bæði dýrin sofa. Fer hann þá inn á öfugum skónum og finnur konungsdóttur. Taka þau nú tal saman og fellst vel á með þeim. En á meðan vakna dýrin og sjá þau kallmannsspor liggja út úr skemmunni og þykjast þau þá vita að þar hafi maður verið inni og kennir hvort öðru um. Fljúgast þau á út úr því og áttust svo harðan aðgang við að allir borgarmenn urðu lafhræddir og lauk svo að dýrin lágu bæði dauð eftir. Meðan á þessu stóð hafði Rögnvaldur farið úr kastalanum og vissi því enginn maður hvernig á dauða dýranna stóð. Fór því fram um hríð að Rögnvaldur fór inn í kastalann á kvöldin þegar hann kom úr höllinni og vissi það enginn nema þernur konungsdóttur og Hnyðja.

Um vorið fór konungur að heimta skatt af löndum sínum og setti hann Rögnvald á meðan til ríkisgæzlu með drottningu sinni. Drottning var fjölkunnug og ill viðureignar og var hún fyrst blíð við Rögnvald, en er hann eigi vildi taka því fékk hún honum horn og disk og bauð honum að fá á það vín og brauð sem ekki væri til í kóngsríki. Rögnvaldur spurði hvar hann ætti að leita þess og sagði hún honum að segja sér það sjálfum. Fer hann nú heim til sín og kemur þá Hnyðja til hans og segir: „Ferð hefur drottning ætlað þér og hana eigi sem bezta, því marga hefur hún áður sent þessa erindis og hefur enginn aftur komið. Nú skaltu ganga út fyrir borgina og muntu finna þar söðlaðan hest silkibleikan; honum skaltu ríða unz þú kemur að móðu þeirri er þið bræður fóruð yfrum á steinboganum. Skaltu synda hestinum yfrum móðuna, en varast skaltu að drekka úr henni hversu þyrstur sem þú verður því það verður þinn bani. Síðan skaltu ríða til útsuðurs þangað til þú kemur að svörtum steini afar stórum. Skaltu stíga þar af baki og klappa þrjú högg á steininn. Mun þá koma út kall nokkur ófrýnilegur; skaltu bera honum kveðju mína og fá honum knýtilskauta þennan er ég nú fæ þér og vita svo hvernig fer. Far nú heill og vel og kom þú fljótt aftur.“

Nú fer Rögnvaldur að tilvísun Hnyðju og fór allt sem hún hafði sagt; en þegar hann kom að móðunni var hann svo þyrstur að hann gleymdi boði hennar og ætlaði að fara að drekka úr henni, en þá fannst honum vera kippt í fætur sína og hætti hann þá við og mundi eftir því er Hnyðja hafði sagt. Nú ríður hann dökkva dali og djúpa til þess er hann finnur steininn; klappar hann þrjú högg og kemur þá út kall einn furðu ljótur. Hékk horinn niður á bringu og allt annað eftir því. Hann spyr Rögnvald heldur þurrlega hvað hann sé að fara, en Rögnvaldur ber honum kveðju Hnyðju og fær honum knýtilskautann. Leysti karl hann upp og hýrnar hann þá í bragði og segir: „Annt er Hnyðju systur minni um þig fyrst hún lætur mig fá hring þenna þín vegna. Hefur mér lengi leikið hugur á honum, en hún hefur aldrei viljað láta hann af hendi við mig fyrri en nú. Kom þú nú inn í steininn og seg erindi þitt.“ Segir kall þá Rögnvaldi að hann heiti Frostan og sé bróðir Hnyðju og tekur hann Rögnvaldi nú með mestu blíðu og gefur honum vín á hornið og brauð á diskinn og segir að það skuli hann færa drottningu.

Nú kemur Rögnvaldur heim aftur og fær hann drottningu þetta. Brá henni mjög við er hún sá Rögnvald, en hann flýtti sér burt aftur því Hnyðja sagði honum að bíða eigi lengi þegar hann væri búinn að fá henni hornið og diskinn. Nú kemur konungur heim og var þá slegið upp hinni dýrðlegustu veizlu og var Rögnvaldi boðið. Hnyðja sagði honum þá að nú mundi tröllskessa nokkur koma inn í höllina meðan á veizlunni stæði. Mundi hún bera á handlegg sér gullhús eða gullkassa og væri í honum Sigurður konungssonur er hún hefði fóstrað upp. Mundi hann heilsa öllum kurteislega nema Rögnvaldi, að honum mundi hann hreyta illyrðum og bregða honum Áslaugu systur hans, en þá skyldi Rögnvaldur svara honum aftur með Ingibjörgu systur sinni, því Sigurður hefði flogið til hennar í arnarham á hverri nóttu allan veturinn og sofið hjá henni. Skyldi Rögnvaldur síðan ganga burt úr höllinni og heim til sín. Fór nú allt sem hún hafði sagt að þegar veizlan stóð sem hæst kemur ógurlig tröllskessa inn á hallargólfið og ber á handlegg sér gullhús er hún setur á gólfið. Steig út úr því Sigurður konungsson; var hann hinn fríðasti og prúðasti maður. Hann heilsar vel föður sínum og öllum nema Rögnvaldi. Leit hann til hans með reiðisvip og mælti: „Mikil skömm er það að þú skulir sitja þarna til hægri handar konunginum þar sem þú hefur legið hjá systur minni Áslaugu á hverri nóttu síðan um páska og skaltu héðan fara hið bráðasta, þú illi fantur.“ Rögnvaldur svarar: „Skammast máttu þín, Sigurður, að tala svona við mig þar sem þú sjálfur hefur tælt Ingibjörgu systur mína og flogið til hennar í arnarham. Er það eigi nema kaup kaups þó ég komi í kastalann til Áslaugar og skyldir þú sízt tala um það sem veizt skömmina upp á þig sjálfur.“ Gekk Rögnvaldur síðan snúðugt út úr höllinni og heim. Þá mælti Hnyðja: „Vel gekk þetta, en eigi eru úti allar þrautir þínar enn. Muntu verða sendur til að færa skessunni fósturgjöldin og býr hún hér út í skóginum. Mun þér verða heitt framan af degi, en þá skaltu varast að fara úr fötunum, því seinna mun veðrið kólna og muntu þá þurfa þeirra með; en þegar þú kemur til skessunnar skaltu kasta í hana gjaldinu, en forðast að koma inn til hennar ef þú getur.“

Allt fór þetta eins og Hnyðja hafði gjört ráð fyrir að Rögnvaldur var sendur með gjaldið; en þegar hann kom út á skóginn gjörði slíkan hita og blíðu að hann þoldi valla, en mundi þó eftir aðvörun Hnyðju og var í öllum fötunum. En þegar á leið daginn fór veðrið að versna. Gjörði þá galdrahríð svo mikla að Rögnvaldur hafði aldrei komið út í annað eins, en þó komst hann loks með illan leik að hellirnum og sat skessan þar við eldstó og var að sjóða mannakjöt og hrossa í stórum potti. Rögnvaldur kastaði gjaldinu í kjöltu hennar og vildi fara burt, en hún kallaði eftir honum og bað hann bíða dálítið. Sagði hún honum ófært að halda út í slíkt illveður undir nóttina og skyldi hann heldur vera kyr í hellinum hjá sér. Seildist hún þá til og tók í Rögnvald og dró hann að sér, en hann tók á móti og hljóp undir kerlingu og glímdu þau nú lengi í hellisdyrunum áður en hún dró hann inn í hellirinn og varð honum aflfátt fyrir kerlingu, en eigi kom hún honum af fótunum. Loks var hann öldungis máttvana orðinn og hét hann á Hnyðju að duga sér nú og var þá sem kippt væri fótum undan skessunni og féll hún aftur á bak. Hjó Rögnvaldur af henni höfuðið og sáði á það dufti er Hnyðja hafði fengið honum, og gekk hann síðan inn í höllina og kastaði því fram á hallarborðið og gekk burt. En nú fór duftið að verka. Fór hausinn nú að þrútna og bólgna og hreyfast á borðinu og loks hoppaði hann á háls Sigurði konungssyni og greip fyrir kverkar honum og herti svo fast að að Sigurður sá sér bana búinn þó hraustur væri. Gripu nú hirðmenn til sverða sinna og vildu höggva í hausinn, en eigi beit heldur en í stein kæmi og voru þá send boð eftir Rögnvaldi; og sagði þá Hnyðja honum að nú skyldi hann eigi fyr frelsa Sigurð en konungur hefði gefið honum gilt heitorð fyrir Áslaugu, en þegar það væri fengið skyldi hann sá dufti úr poka er hún fékk honum á hausinn og mundi þá sverðið bíta; en það lagði hún undir við hann ef hann fengi Áslaugu að hann skyldi lofa sér að sofa á fótum þeim fyrstu nóttina og eins hafði Frostan gjört áður. Lofaði Rögnvaldur því. Síðan kemur hann inn í höllina og fær fyrst fast loforð konungs fyrir Áslaugu, því Sigurður var þá að dauða kominn, og sáir Rögnvaldur síðan duftinu á hausinn, en hann datt þegar niður á gólf og lét Rögnvaldur brenna hann í eldi.

Þegar Sigurður var orðinn hress aftur fór hann og bað Ingibjargar og fékk hennar. Slógu þeir saman veizlunum Rögnvaldur og hann og stóð í hálfan mánuð. En fyrstu nóttina sem þau Áslaug sváfu saman komu þau Frostan og Hnyðja upp í rúmið og vildi Áslaug eigi hafa þau fyrst, en þó varð svo að vera; en þegar þau hjón vöknuðu um morguninn lágu í rúminu kóngssonur og kóngsdóttir, en hamirnir lágu fyrir framan stokkinn. Voru þeir þegar brenndir upp; en Hnyðja sagði að þau systkin hefðu verið í álögum og eigi getað sloppið nema þau fengi að sofa hjá brúðhjónum. Var nú aukin veizlan enn á ný því Sigmundur átti Hnyðju og urðu þessi öll mestu hamingjumenn, áttu fjölda barna og lifðu bæði vel og lengi í góðu gengi. Og þá er sagan úti.