Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Glófaxi og Gunnfjöður

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Glófaxi og Gunnfjöður

Það voru einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér einn son er Sigurður hét. Þegar hann var ungur að aldri missti hann móður sína. Aflaði það konungi mikillar sorgar svo hann fór mikið einförum á skemmtigöngu sinni.

Einn dag þegar hann var svoleiðis á gangi sá hann konu forkunnar fagra koma á móti sér. Hún heilsar honum kurteislega og spyr hann að, því hann sé svona einn á gangi og líti svo sorglega út. Hann segir sem var að hann hafi misst drottningu sína og sé sér því sorg í hyggju. Hún segir að það sé þá líkt á komið fyrir þeim því hún hafi misst mann sinn fyrir skömmu. Hún spyr hann hvört honum sýnist ekki að þau létti hörmum sínum með því að þau taki nú saman. Honum lízt vel á konuna og verður það úr að hún fylgir honum heim og tekur til að stjórna með honum. Líða svo fram tímar að kóngur smáléttir hörmum sínum. Einn dag þá hann var venju fremur glaður í sinni kemur hann að tali við Ingibjörgu – svo hét kona þessi – hvört henni ekki sýnist að þau bindi sambúð sína, og tekur hún vel á móti því og er þá stofnað til ágætrar veizlu og Ingibjörg skrýdd drottningarskrúða og sezt við hægri hlið kóngs. Þegar veizlan stendur sem hæst kemur Sigurður kóngsson fyrir föður sinn og heilsar þeim virðuglega. Kóngur segir við drottningu sína að þetta sé sonur sinn og biðji hann hana að ganga honum í móður stað. Segir hún að svo skuli vera ef hann vilji hlýða sér og muni þá allt vel fara. Nú að endaðri veizlunni fer hvör heim til sín og takast nú góðar ástir með þeim. Nú tekur kóngur sína gleði aftur og byrjar á sínum útreiðum; fer hann nú daglega út á skóg.

Nú kemur Ingibjörg einu sinni að máli við Sigurð að á morgun skuli hann fara út á skóg með föður sínum og tekur Sigurður ekkert vel á móti því, því hann var mikið elskur að stjúpu sinni; en hún segir að það hljóti þó svo að verða. Líður nú nóttin; en að morgni dags býður konungur Sigurði að fara með sér á dýraveiðar, en hann kvaðst kyr heima verða. Fer nú kóngur leiðar sinnar, en Sigurður er kjur. Þegar Ingibjörg sér að hann hefur ei farið segir hún við hann að óhlýðni hans komi honum einhvörn tíma að gjaldi og tekur hún hann og felur hann millum sænganna í rúminu sínu og segir honum að hann megi ekki þaðan fara fyrr en að hún taki hann. Nú þegar þetta er nýafstaðið heyrast dunur miklar. Kemur þá tröllkona í dyrnar sem veður jörðina í ökla. Heilsar hún Ingibjörgu á þá leið: „Heil sértu, Ingibjörg systir! Er Sigurður kóngsson heima?“ Hin segir að hann hafi farið með föður sínum út á skóg að veiða dýr og fugla. Hin segir það ósatt vera. Ingibjörg segir að láta tal þetta falla, en setjast heldur að borðum. Ber hún mat á borð; en að lokinni máltíðinni standa þær upp frá borðum. Þakkar tröllkonan Ingibjörgu fyrir matinn á þá leið: „Þökk fyrir bezta matinn, systir, beztu krásina, beztu ölkönnuna, bezta drykkinn! Er Sigurður kóngsson heima?“ Hin kveður nei við. Nú kveðjast þær systur og skessan fer burtu. Þegar hún er farin tekur drottning Sigurð úr fylgsni sínu og biður hann að muna sig um að hlýða sér og fara með föður sínum á morgun, en Sigurður kvað ei saka mundi og vildi hann helzt vera heima. Kemur nú kóngur heim um kvöldið og veit ekkert hvað um daginn gjörzt hefur. Líður svo af nóttin. En um morguninn biður kóngur Sigurð að fara með sér, en Sigurður svarar sem fyrr að hann vill heima vera hjá stjúpu sinni. Fer nú kóngur á stað, en Ingibjörg tekur Sigurð og felur hann í hornskáp í herbergi sínu. Þegar það er nýafstaðið heyrast drunur og jarðskjálfti. Kemur þá önnur tröllkona sem að veður jörðina í kálfa. Hún segir: „Heil sértu, Ingibjörg systir! Er Sigurður kóngsson heima?“ Ingibjörg segir það ei vera og býður henni til borða og að lokinni máltíðinni standa þær upp. Þakkar hún henni fyrir bezta matinn, beztu krásina, beztu ölkönnuna og bezta drykkinn og spyr hvört Sigurður sé heima. Ingibjörg segir það ei vera. Kveðjast nú þær systur, en tröllkonan fer nú á burtu, en drottning tekur Sigurð úr fylgsni sínu og biður hann með lempnum orðum að muna sig um það að fara með föður sínum á morgun. Sigurður kvaðst kyr sitja, en Ingibjörg segir að hann muni þess lengst iðrast. Fara þau svo ekki fleirum [orðum] um þetta. Kemur kóngur heim um kvöldið og veit ekki neitt um þetta. En um morguninn fer kóngur á skóg og biður Sigurð að fara með sér; en hann kveður nei við og kveðst vera svo elskur að stjúpu sinni að hann vilji helzt hjá henni vera. Fer svo kóngur á stað, en Ingibjörg tekur Sigurð og felur hann á millum stafs og veggjar og segir honum þar kjurrum að vera og muni það þó ei duga því hún geti nú ekki hjálpað honum sökum óhlýðni hans. Heyrast nú drunur miklar og jarðskjálftar. Kemur þá ógurleg tröllkona sem veður jörðuna upp að knjám. Heilsar hún Ingibjörgu og segir: „Heil sértu, Ingibjörg systir! Er Sigurður kóngsson heima?“ En Ingibjörg kveður nei við. Setjast þær svo til máltíðar. Að máltíð lokinni þakkar hún systir sinni fyrir bezta matinn, beztu krásina, beztu ölkolluna og bezta drykkinn [og spyr]: „Er Sigurður kóngsson heima?“ Tngibjörg segir það ei vera og þrætast þær systur á um það þangað til tröllkonan segir að – „sé hann svo nálægt að hann megi mál mitt heyra legg ég það á hann að hann verði hálfur brenndur, en hálfur visinn, og skal hann ei úr þeim álögum komast fyrr en hann getur fundið okkur systur.“ Verða nú stuttar kveðjur þeirra systra; fer tröllkonan á stað. Nú tekur Ingibjörg Sigurð úr fylgsni sínu. Er hann þá hálfur brenndur, en hálfur visinn. Segir hún að ei hefði svona farið ef að hann hefði hlýtt orðum sínum; sé honum nú ei til setu boðið. Tekur hún eitt hnoða og fær honum og segir að þennan hnoða skuli hann leggja á jörðina og muni það ei staðar nema fyrr en við ofurhá björg og skuli hann honum eftir fylgja, – „og mun þá koma fram á björgin hin fyrsta tröllkona, og skaltu bera henni kveðju mína og ber þig kallmannlega þó að hún bjóði þér frýjunarorð. Hér eru þrír gullhringar og skaltu fá henni þann minnsta og annað gullið þeirri í miðið og þann stærsta þeirri þriðju. Þær munu bjóða þér til glímu og bjóða þér að drekka af horni og skaltu allt eftir vilja þeirra gjöra því að þær vilja þér ekkert nema gott. Ég á eina hundtík sem að mér mun vera mjög fylgisöm. Mundu mig um það ef að tíkin kemur til þín og flaðrar upp um þig og tárin renna ofan eftir trýninu á henni, bregð þú þá fljótt við og komdu þá heim því þá liggur líf mitt við.“ Min[nist] hún nú við Sigurð. Hann leggur hnoðað á jörðina og fylgir því eftir.

Segir ei af ferðum hans fyrr en hnoðað staðnæmist við ógurleg björg. Verður honum þá litið upp og sér hvar stendur ógurleg tröllkona upp á hömrunum. Hún kallar ofan og segir: „Gott og vel! Hér er kominn kóngsson og skal hann í pottinn í kvöld!“ Réttir hún þá ofan krókstjaka og krækir hann upp til sín. Heilsar hann nú tröllskessunni og ber henni kveðju frá systur hennar og fær henni hringinn. Verður þá kella léttbrýn við og segir honum að standa upp og glíma við sig. Sigurður hélt að systir hennar hefði ekki skilið svo vel við sig að hann væri glímulegur. Tekur hún þá upp horn og gefur honum að drekka. Fara þau svo að glíma, en hann hefur ekkert við henni. Nú gefur hún honum að drekka í annað sinn og kemur hann henni þá á annað hnéð. Nú gefur hún honum að drekka af horninu í þriðja sinn og þá gat hann farið með hana eins og sjóvettling. Hætta þau svo glímunni og tilreiðir skessan Sigurði virðuglega sæng. Sofa þau af um nóttina, en að morgni vekur skessan Sigurð og segir honum að hann megi ekki dvelja hér lengur, Klæðir hann sig nú skjótt og leggur hnoða sinn á jörðina og fylgir honum eftir unz að hann nemur staðar við önnur há björg. Sér hann þá hina aðra tröllkonu koma fram [á] björgin. Kallar hún til hans og segir: „Gott og vel! Hér er kominn Sigurður kóngsson; hann skal í pottinn í kvöld!“ Fara þeirra viðskipti líkt og hinnar fyrri. Ber hann henni kveðju frá systur sinni og fær hann henni hringinn. Það þarf ekki að orðlengja það, það fór allt eins og í fyrra skiptið um glímur [og] drykk. Sefur hann svo af um nóttina og að morgni klæðir hann sig, leggur hnoðað á jörðina og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann nemur staðar við hin þriðju björg. Sér hann þá hina óttalega stærstu tröllkonu koma fram á björgin. Kallar hún ofan og segir: „Hér er kominn Sigurður kóngsson og skal hann í pottinn í kvöld!“ Er nú Sigurður ekki orðinn hræddur við þessar kellingar og segir að hún muni ekki hafa skilið svo vel við sig að hann sé til mikils í pottinn í kvöld. Réttir hún nú ofan krókstjaka og dregur hann upp til sín. Heilsast þau og ber hann henni kveðju Ingibjargar systur hennar og fær henni gullhringinn. Verður þá kelling léttbrýn við. Býður hún nú Sigurði til glímu og hefur hann ekki við litla fingrinum á henni. Gefur hún honum svo að drekka úr horni smátt og smátt þangað til að hann kemur henni á annað knéð, og segir að hann muni ei þurfa á meiri kröftum að halda. Sefur hann af um nóttina. En um morguninn fer hún höndum um hann og segir að hann muni nú ei lengur hraka álög sín. Fær hún honum lítinn gullhring og segir að hann skuli ganga hér skammt frá þangað til hann komi að einu vatni; þar sé lítil stúlka að leika sér að ferja; skuli hann koma sér vel við hana og gefa henni þennan gullhring og muni þau fara að leika sér saman og megi svo kringumstæðurnar kenna honum framhald á viðskiptum þeirra. Fer hann svo leiðar sinnar þangað til að hann finnur stúlkuna við vatnið sem er að leika sér að smábát. Slær nú Sigurður sér í leik með henni og býður henni að róa með hana yfir vatnið. Kemur þeim nú ásamt í leik sínum. Líður svo dagur að kvöldi. Sigurður spyr hana að nafni og hvar hún eigi heima. Hún segir að faðir sinn sé hér í koti skammt frá og heiti [hún] Helga – „og má ég nú til að fara heim því ég er búin að eyða frítíma.“ Biður nú Sigurður hana að lofa sér að fara heim með henni, en hún kvað nei við, því faðir sinn megi ekki sjá neinn aðkomandi þar – „og er mér ómögulegt að koma þér svo heim að enginn viti“. Biður Sigurður hana því betur og gefur henni gullhringinn. Lætur Helga það til leiðast, en þó með mótmælum, því hún segist ekki vita hvörnin það muni fara. Nú halda þau heim að húsunum og sér Sigurður þar reisuglegan bæ. Þegar Helga kemur inn í bæinn bregður hún Sigurði undir hendi sína og verður hann þá að ullarvindil. Gekk hún inn og kastaði honum ofan til í rúmið sitt. Nú kemur kall faðir hennar ofan á eftir henni og nasar um allar áttir og segir: „Fussum fei, mannaþefur í húsum vorum! Hvörju kastaðir þú upp fyrir þig, Helga dóttir?“ „Það var ullarhönk, faðir minn.“ Fara nú kall og kelling til rekkju, en Helga segir við Sigurð að foreldrar sínir ætli til kirkju á morgun og verði hann að vera kyr þangað til hún segi honum.

Líður nú af nóttin, en um morguninn fara kall og kelling á stað. Að þeim burtförnum tekur Helga Sigurð úr ullarhankar-myndinni. Skemmta þau sér nú með því að Helga sýnir honum húsakynni foreldra sinna, en Sigurður tekur eftir því að hún skilur eftir lykil sem að hún lýkur ekki neinu upp með. Tekur hann þá í lykilinn og spyr hana að, að hvörju þessi lykill gangi, og segir hún það vera aukalykil sem að ekki heyri neinu til og segir Sigurður það ei satt vera því hún hafi gengið fram hjá einni járnhurð sem að hún hafi ekki sýnt sér inn fyrir. Biður hann nú Helgu mikið vel að sýna sér inn í þetta hús. Helga segist ekki þora það; en fyrir langa nauð segist hún skula ljúka því í hálfa gátt. Sér nú Sigurður þar inni hest á stalli og sverð sem að hékk þar yfir og staf og tösku og belg og hríslu, og verður Sigurður nú vinalegur við Helgu og biður hana að lofa sér að skoða þetta betur og hrindir hurðinni upp. Með það sama segir Helga honum að þessi hestur heiti Glófaxi, en sverðið sem að yfir honum hangi heiti Gunnfjöður, og hvör sem að sitji á hestsins baki geti ekki annað en fengið sig. Hún segir að þegar maður sé kominn á hestbak – „og ef einhvör eltir mann þá þarf ekki annað en kasta hríslunni; verður þá svo þykkur skógur að varla er hægt að komast gegnum hann. Þegar maður kemur úr skóginum og sér að óvinurinn eltir mann þarf ekki annað en hrista úr belginum; kemur þá svo mikil þoka að óratandi er nema þeim sem á hestinum situr. Þegar maður kemur úr þokunni og sér að óvinurinn eltir mann þarf ekki annað en taka stafinn og pjakka í hvíta endann á steininum; kemur þá svo mikið hagl að engri skepnu er fært nema þeim sem á hestinum situr. Þegar haglið birtir og maður sér að óvinurinn eltir sig þarf ekki annað en pjakka í þann rauða enda á steininum; koma þá svo miklar eldglæringar að engri skepnu er líft nema þeim sem á hestinum er.“

Nú biður Sigurður kóngsson Helgu að lofa sér að ríða hestinum þrisvar kringum bæinn. Helga er treg til þess. Þó verður það um síðir að hún lofar honum því ef hann ríði honum ekki meira. Nú tekur Sigurður hestinn og sezt á bak og ríður tvo hringi kringum bæinn. En þegar hann er að ríða þriðja hringinn hleypir hann burt og í þá átt er hann hélt að ríki föður síns mundi vera. Helga sér þetta, en getur ekki að gjört. Nú ríður Sigurður um stund þangað til honum verður litið til baka. Sér hann þá að kallinn er kominn rétt að honum. Verður honum þá bilt við og hristir í sama vetfangi úr belgnum. Kemur þá svo mikil þoka að hann veit ekkert hvört hann fer og að liðnum tíma léttir upp þokunni. Sér hann þá að kallinn er aftur kominn rétt að hestinum. Kastar hann svo hríslunni. Verður þá svo þykkur skógur að hann getur ekkert út úr honum séð. Ríður hann svo nú um stund þar til hann tekur enda; lítur hann þá aftur í þriðja sinn. Sér hann þá að kallinn er kominn fast að hesttaglinu. Tekur Sigurður þá stafinn og pjakkar í hvíta endann á steininum. Verður þá svo mikið haglél að hann hefur aldrei slíkt séð. Gengur það um stund; þó léttir það samt upp. Horfir hann þá á bak sér. Sér hann þá að kallinn er að seilast eftir hesttaglinu. Pjakkar hann þá í rauða endann á steininum; koma þá svo miklar eldglæringar að menn hafa hvörki fyrr né síðar slíkt séð. Ríður hann nú um stund í þessum eldgangi unz um síðir léttir frá. Sér hann þá að tíkin kemur hlaupandi og flaðrar upp á hann og renna tárin ofan eftir trýninu. Veit þá Sigurður hvað vera muni og keyrir hestinn sporunum og veit að stjúpa sín muni þurfa sinnar hjálpar. Ríður hann nú um stund þar til að hann kemur nálægt ríki föður síns. Kemur hann þar í eitt rjóður og sér að þar eru tólf þrælar að kynda bál, en yfir bálinu hangir stóll á ás, og stjúpu sína þar bundna á. Verður honum það fyrst fyrir að hann hrindir þrælunum út á bálið, bregður síðan sverðinu á bandið og tekur stjúpu sína í fang sér og flytur hana til byggða og fær til láns handa henni herbergi og segist ætla að fara að finna föður sinn. Segir hún honum nú viðræður þeirra hjónanna og segist ekki hafa mátt segja til – „og vildi ég heldur líða óverðskuldaðan dauða“. Nú segir hann henni að bíða sín rólega. Fer hann nú og finnur föður sinn og verða þar miklir fagnaðarfundir. Slær nú kóngur upp gleðiveizlu og spyr hvað burtför sonar síns hafi valdið. Segir þá Sigurður upp alla sögu hvörnin farið hafi og spyr að stjúpu sinni og segist hafa henni mikið gott að þakka því hún hafi leyst sig úr þessari ánauð. Biður kóngur hann nú að minnast ekki á það og verður nú fullur harms og trega og segist hann hafa látið tólf þræla fara út á skóg með hana og brenna hana – „því ég hélt hún mundi hafa valdið því að ég fengi aldrei að sjá þig aftur.“ Snýst nú þessi gleðiveizla upp í sorg og fer nú kóngur að trega yfirsjón sína og iðrast nú eftir að hann skuli hafa látið flýta fyrir dauða drottningar sinnar og telur nú upp allar hennar dyggðir. Spyr Sigurður nú kóng hvað hann vilji gefa þeim manni sem færi honum hana heila heilsu, og segir kóngur að það muni vera ómögulegt – „því ég skipaði þeim það svo harðlega. En ef að nokkur er sá sem að getur það þá skal ég gefa honum hálft ríki mitt, en allt eftir minn dag.“

Fer nú Sigurður og sækir stjúpu sína og leiðir fyrir kóng. Verður þar mikill fagnaðarfundur. Biður nú kóngur drottningu sína fyrirgefningar á bráðræði sínu; og biður hún kóng að minnast ei á það framar. Segist nú Sigurður eiga stutta ferð fyrir höndum, en þegar hann komi heim aftur vilji hann veita móttöku hálfu ríkinu. Býr nú Sigurður sig til ferðar og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur heim og hefur hann þá Helgu karlsdóttir með sér, og er þá stofnað til dýrðlegrar veizlu. Og að þeirri veizlu giftist hann Helgu og tekur Sigurður við ríkisstjórn á hálfu ríkinu, en öllu eftir föður sinn látinn. Stýrði hann því með heiðri og sóma til ellidaga.

Og ljúkum vér svo þessari sögu.