Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Grástrákur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Grástrákur

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni. Karlinn fór eitt sinn til kirkju. Þegar hann kom heim aftur sagði hann kerlingu sinni að presturinn hefði lagt út af því að það sem menn gæfu fengju menn tífalt borgað. Nú þótti þeim þetta góð kenning og bezta gróðavon, en áttu ekkert nema eina kú. Karlinn fór nú þegar af stað með hana í taumi og heim til prestsins því honum mundi vera kunnugast um hvernig endurgjalda skyldi. En þegar til prestsins kom þóttist hann ekki hafa talað um endurgjald hjá mönnum og hefði hann skilið sig heldur til bókstaflega; mundi honum því bezt að halda heim með baulu sína. Hinn gjörði svo, en lenti í myrkri og hrakviðri á heimleiðinni. Þá mætti honum maður með poka á baki. Sá býður honum skipti, þykist lúinn að bera pokann, en segir karlinn muni verða úti með kúna; sagði hann vera nóg af kjöti og beinum í poka sínum. Þetta verður – þeir skipta á kúnni og pokanum. Karl fer heim með pokann og leysir ofan af; þá sprettur upp úr pokanum grár strákur. Þá verða karl og kerling mjög sorgbitin og halda að ekki muni hagur þeir[ra] batna við þetta; kýrin farin, beinamuslið ekkert í pokanum og þeim bættur ómagi í búið. En strákur huggar þau og kveður ekki víst að þyngi í búinu þótt hann væri þar kominn. Fer hann nú þegar og stelur sauð úr hjörð konungs og ber heim á baki sér. Þau matreiddu hann handa sér í kotinu; og þegar hann var á þrotum stal hann öðrum og lifðu þau þannig lengi af því sem strákur dró að og stal af hjörðum konungs.

Nú tóku fjárhirðar eftir hvarfi sauðanna og kvisaðist það að strákur væri kominn í garðshorn og mundi hann valdur að þessu. Kóngur lét kalla hann fyrir sig og spyr hvort hann sé valdur að stuldi þessum. Strákur ber ekkert á móti því. Verður konungur við það afar reiður og vill láta drepa hann þegar í stað. Strákur biður sér lífs og kveðst heldur vilja vinna þraut nokkra. Konungur lætur til leiðast og leggur fyrir hann að stela stærsta uxanum sínum daginn eftir; skyldu tveir menn gæta hans úti í skógi. Mennirnir teyma uxann út í skóg morguninn eftir. Sjá þeir hvar Grástrákur hangir í einni eik. Hugsa þeir að ekki þurfi að óttast hann framar, því nú sé hann hengdur, og halda leiðar sinnar. Þá fer Grástrákur ofan úr eikinni, því svo hafði hann um búið að ekki hafði runnið að hálsinum, hleypur fram fyrir mennina með uxann og hengir sig þar upp í aðra eik. Þeir ganga rétt fram hjá eikinni og sjá Grástrák enn hanga þar og þykir það kynlegt; halda þó áfram lengra og koma loksins þar er þeir sjá Grástrák hanga í þriðju eikinni. Þeir vilja nú grennslast eftir hverju þetta sæti og snúa nú aftur að hinum fyrri eikunum til að vita hvort hann hangi þar enn, en binda uxann við eik þar sem þeir voru komnir. Þá hleypur Grástrákur ofan úr eikinni, leysir uxann og teymir heim til sín. Hann slátrar uxanum, flær af honum belg og treður hann upp; mörinn bræðir hann og steypir kerti úr.

Síðan kallar konungur hann aftur fyrir sig og spyr hvernig hann hafi unnið þessa þraut; og segir Grástrákur frá öllu eins og var. Þá leggur konungur fyrir hann aðra þraut; hann skyldi stela rekkjuvoðum úr rúmi konungs og drottningar næstu nótt. Strákur fer nú heim í kot til kerlingar og biður hana gefa sér volgan graut í fötu. Hann fer með grautarfötuna inn í konungsríki og kemst inn í svefnherbergi konungs og drottningar og faldi sig undir rúminu. Þegar hjónin voru sofnuð skreið hann undan rúminu, lyfti upp fötunum ofan á konungi og drottningu og hellti úr fötunum milli þeirra í rúmið, breiddi fötin yfir aftur og skreið í felur sínar. Hjónin vöknuðu og þótti þeim hafa dignað um í rúminu. Varð drottning að hafa rekkjuvoðaskipti og kastaði hinum grautugu út í horn; síðan fóru þau að sofa. Þá tekur Grástrákur rekkjuvoðirnar hinar velktu og fer á burt; er sú þraut nú unnin.

Nú kallar konungur hann fyrir sig í þriðja sinn og leggur fyrir hann þá þraut að stela sjálfum sér, konunginum; ella skyldi hann dræpur. Grástrákur fer heim í garðshorn og lætur kerlingu búa til skrúða handa sér úr rekkjuvoðunum stolnu, fer síðan inn í konungsríki um kveldið með skrúðann, belginn og kertin sem áður er á minnzt, gengur til kirkju, klæðir sig í skrúðann, engilbjartan og skósíðan, kveikir á öllum kertunum og uppljómar alla kirkjuna svo að hvergi ber skugga á. Síðan tekur hann í klukku og hringir svo að menn hrökkva upp af svefni, fara til og sjá hversu á horfist í kirkjunni, vekja konung og segja honum. Konungur gengur í kirkjuna og ætlar hann hinn skrúðbúna mann vera engil drottins; enda segir hann konungi að svo sé og það með að hann sé sendur til að sækja hann og flytja hann til sælli bústaðar. Konungur tekur því með lotningu og gefur sig fús á vald engilsins. Verður hann nú að stíga ofan í uxabelginn; í honum átti hann að flytjast til himnaríkis. Grástrákur bindur nú fyrir ofan, leggur síðan af stað og dregur konung í belgnum yfir holt og hæðir, gil og grófir; er konungur fyrst þolinmóður, en þreytist um síðir og fer að mögla. En hvert skipti sem hann kvartar segir Grástrákur: „Langur og strangur er himnaríkis gangur.“ Þessu gengur þangað til Grástrákur hefir dregið konung í pokanum að sjávarhömrum fram. Þá segir Grástrákur upp alla sögu, segir til nafns síns og að nú hafi hann þegar unnið allar þrautirnar; sé honum nú annaðhvort að gefa sér dóttur sína – því konungur átti dóttur eina dáfríða – eða hann kveðst mundu kasta honum ofan fyrir hamrana. Konungur tekur hinn fyrra kostinn sem von var, að gefa honum dóttur sína. Grástrákur hleypir nú konungi upp úr pokanum og fara [þeir] heim í kóngsríki. Er nú haldin hin ágætasta veizla og gefur konungur Grástráki hálft ríkið með sér, en allt eftir sinn dag. Nú tekur Grástrákur karl og kerlingu úr koti sínu heim í kóngsríki og sér fyrir þeim alla ævi þeirra. Og rættist þannig á þeim kenning prestsins sem þau lögðu trúnað á í blindni og einfeldni hjarta síns í byrjun þessarar sögu.