Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Grautardalls saga

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni karl og kerling í koti sínu. Þau voru bláfátæk og höfðu ekkert sér til lífsbjargar nema þau áttu dall einn sem aldrei þraut grautur í. Son áttu þau einn, en sagan getur ekki um nafn hans. Þrír menn voru þess vegna í kotinu og engin kvik skepna önnur. Þó að kotbúum þætti leiðinlegur grauturinn þá sá karlinn samt að dallurinn var öldungis ómissandi því hann var það eina sem hélt lífinu í hyskinu.

Einhverju sinni bar svo til að prestur kom í kotið í húsvitjun. Að afloknu því andlega starfi fer prestur að ræða um hitt og þetta við karlinn. Meðal annars spyr prestur karlinn að hvernig hann geti lifað í þessu koti. Karl biður prest að minnast ekki á það, það sé aumt líf sem þau eigi. Af því karlinn elskaði prestinn sinn hafði hann ekki getað fengið annað af sér en bjóða presti graut úr dalli sínum, og segir því við prestinn að það sé einungis þessi dallur sem haldi þeim við lífið; dallurinn hafi þá náttúru að það þverraði aldrei grautur í honum þó etið væri úr honum. Þegar prestur heyrir þetta falar hann dallinn af karlinum og segir hann skuli ekki hafa skaða á skiptunum. Karl segir að þó sér vilji leiðast sá sífelldi grautur þá þori hann samt ekki að gjöra nein kaup í þessu tilliti, en prestur gengur samt svo fast að að karl lofar að senda dreng sinn með dallinn. Nú fer prestur, en karl og kerling eru mjög þungbúin út af þessu loforði, samt senda þau að fáum dögum liðnum drenginn með dallinn.

Í milli kotsins og prestagarðsins var konungsborg; fer nú drengur fram hjá henni og kemur ekki í bústað konungsins, heldur fer beina leið til prestsetursins. Drengur afhendir nú presti dallinn, en prestur fær honum aftur dúk, segir að ekki þurfi annað en breiða hann á borð og segja: „Hans dúk, Hans dúk, fullt með bezta mat,“ þá komi réttir á borðið hvað á fætur öðru. Prestur segir sendisveininum að hann verði að halda beina leið heim, en megi ómögulega koma í konungsborg. Piltur lofar þessu, kveður prest og heldur sína leið. En er hann er kominn nálægt borginni (eða kóngsríkinu) þá tekur hann að brenna af löngun til að koma í hana, heldur að það muni lítið saka þó hann skoði sig þar dálítið um og fer inn í borgina. Þar verður á vegi fyrir honum kóngsdóttir; spyr hún hvað hann sé að fara. Drengur verður ekki of þagmælskur og segir henni alla sögu. En þegar hann getur um dúkinn þá biður hún hann fyrir alla muni að selja sér hann, segist hún skuli margborga honum dúkinn. Við þessar fortölur linast drengur, afhendir henni dúkinn, en fær í staðinn skæra skildinga sem honum þykja bæði margir og fallegir, þykist ekki hafa farið illa að ráði sínu og gengur nú sem fætur toga heim í kotið. Karl fagnar ekki svo mjög yfir þessari ferð og heldur að þetta muni eyðast einhvern tíma. Þetta varð líka orð og að sönnu; því áður langir tímar liðu verður hann uppiskroppa og sendir son sinn í annað sinni til prestsins og biður hann fyrir alla muni að hjálpa upp á sig því nú hafi hann ekkert til að lifa við. Drengur fer nú eins og áður til prestsins. Prestur verður hálfbyrstur við strákinn og segir hann hafi prettað sig og farið inn í borgina. Piltur segir hið sanna. Prestur kveðst þá verða að hjálpa þeim dálítið, fer í burt og að lítilli stundu liðinni kemur hann aftur og teymir eftir sér trippi og segir dreng að ekki þurfi annað en segja: „Hriss-trippa, hriss-trippa,“ þá hristi trippið sig og velti peningarnir út úr því. Ennþá tekur presturinn drengnum vara fyrir því að koma ekki í konungsborg og gefur drengur fögur heit í því tilliti. Nú leggur hann á stað, en er hann nálgast borgina brennur hann í skinninu af löngun að fara inn í hana. Telur hann sér trú um að hann muni geta staðið sig þó einhver freisting komi fyrir hann. í þessu trausti beygir hann leið sína að borginni og fer inn í hana með trippið í taumi. En þegar hann var inn kominn kemur kóngsdóttir móti honum, heilsar honum vingjarnlega og spyr hvað hann sé nú að ferðast. Drengur gleymir nú nærri því sjálfum sér og segir henni að það sem hann hafi fengið áður hjá henni hafi orðið endarjótt svo hann hafi þurft að fara að finna prestinn, hafi hann hjálpað föður sínum um þetta trippi sem ekki þurfi annað en segja við: „Hriss-trippa; hriss-trippa,“ og þá velti peningar út úr því á allar hliðar. Nú verður kóngsdóttir öldungis óð og uppvæg, biður drenginn með mörgum blíðum og fögrum orðum að selja sér trippið hvað sem það eigi að kosta og lofar honum miklu meira og betra gjaldi heldur en hið fyrra sinn. Drengur lætur loksins til leiðast, tekur á móti gjaldinu og fer heim í kot til foreldra sinna og lætur ekki neitt á neinu bera. Karl þykist að vísu fá mikið hjá presti, en svo fer sem fyrri að eigurnar taka að þrjóta, því nú hafði karlinn líka keypt þeim nýjan og þokkalegan klæðnað þar hann hugsaði að það sem nú kom mundi lengi duga.

Það er ekki að orðlengja það að karl verður félaus og sendir son sinn í þriðja sinni til prestsins. Þó að drengur þori ekki að láta neitt á neinu bera þá verður hann samt mjög smeykur; óttast hann mjög að klerkur muni verða þungorður við sig og jafnvel gefa sér skammir fyrir alla frammistöðuna. Samt herðir hann upp hugann, fer beinlínis til prests, kveður hann svo kurteislega sem hann getur, biður hann fyrir alla muni að reiðast sér ekki og greiða eitthvað úr vandræðum sínum, segist hafa farið móti boði hans inn í borgina og ekki getað komizt undan kóngsdóttur að hún fengi trippið. Klerkur atyrðir nú ekki drenginn, en fer frá honum, kemur aftur og hefur með sér kylfu eina ekki alllitla sem hann fær drengnum. Hann getur ekkert um til hvers hún eigi að brúkast eða hvað hún vinni, en til þess hún gjöri það sem henni sé ætlað þá eigi að segja: „Upp, upp, kylfa, upp, upp, þegar þú mátt.“ Prestur tekur drengnum engan vara fyrir að koma í konungsborg, en biður dreng vel að lifa og lætur hann fara á stað. Drengur er nú allkátur, heldur leiðar sinnar beint í borgina og hugsar að nú skuli hann finna kóngsdóttur fyrst honum hafi ekki verið tekinn vari fyrir að koma í þá skrautlegu borg. Þegar drengurinn er kominn inn í borgina þarf hann ekki að hafa mikið fyrir að finna kóngsdóttur. Hún hefur augastað á þeim gamla skiptavin sínum og sér hvar hann fer; hugsar hún nú gott til og fer að finna hann. Hún spyr hann ennþá hvað hann sé að fara og segir hann henni eins og var, að hann hafi farið í nauðsyn föður síns til að finna prestinn sinn og hafi hann hjálpað sér um kylfu þessa sem ekki þurfi að segja annað við þegar hún eigi að starfa [en]: „Upp, upp, kylfa, upp, upp, þegar þú mátt.“ Kóngsdóttir ímyndar sér nú að það muni vera einhver furðuverk sem kylfan eigi að gjöra og falar í ósköpum kylfuna. Það fer á sömu leið sem fyrri, að hann selur kóngsdóttir kylfuna, en fer með borgunina heim í kot til karlsins föður síns.

Eftir að kóngsdóttir er búin að eignast alla þessa gripi kemur hún að máli við föður sinn og biður hann að leyfa sér að stofna til voldugrar veizlu. Kveðst hún vilja reyna gripi sína og láta aðra sjá hvílíka dýrgripi hún eigi. Konungur lætur þetta eftir henni og býður til veizlunnar miklu og mörgu stórmenni. Boðsfólkið kemur á tilteknum tíma og þegar það er komið er sú stóra höll konungsins alskipuð. Konungsdóttir kemur á settum og réttum tíma með dúkinn, óskar nú á hann einum réttinum í þetta sinn, öðrum í hitt sinnið og svo koll af kolli, bæði vín og vistir, þangað til enginn þykist geta neytt meiri matar eða drykkjar. En þegar máltíðinni var lokið og fara átti að skemmta boðsmönnum sækir kóngsdóttir trippið og leiðir það inn í höllina og segir: „Hriss-trippa, hriss-trippa,“ og þá hristir trippið sig, en peningarnir velta út úr því á allar hliðar. Þykir mönnum mikils vert um þetta og eru mjög kátir. En nú á samt að auka fögnuðinn og því sækir kóngsdóttir kylfuna, ber hana inn í höllina og segir við hana: „Upp, upp, kylfa, upp, upp, þegar þú mátt.“ Á sömu stundu tekst kylfan á loft og rotar á svipstundu hvert mannsbarn sem í höllinni var nema kóngsdóttur. En þegar karlssonur – sem komið hafði heim í borg til að komast í einhverjar veizluleifarnar og hafði staðið við hallardyrnar – sér þetta hleypur hann inn í höllina, þrífur kylfuna og segir við kóngsdóttur að hún skuli nú velja um tvo kosti, annaðhvert að ganga að að eiga sig eða hann skipi kylfunni að rota hana líka. Kóngsdóttir kveðst mundi kjósa þann fyrri kostinn og þegar tími var til kominn lét hann prestinn sinn gefa sig í hjónabandið, varð konungur, tók karl og kerlingu heim í borg til sín og veitti þeim marga ánægju og gleðidaga; ríkti síðan vel og lengi.

Og svo kann ég ekki þessa sögu lengri.